Málið hér á síðunni fyrir neðan Velvakanda hélt því fram um daginn, að hlaupið milli Landmannalauga og Þórsmerkur væri ranglega kallað Laugavegshlaup. Orðið vegur í merkingunni leið væri nefnilega í eignarfalli vegar. Í annarri merkingu væri reyndar eignarfallið vegs. Reykvískt mál um Laugaveg er Laugavegs, svo sem heitin Laugavegs Apótek og Laugavegssamtök minna á. Því er sagt á mótum Frakkastígs og Laugavegs. Aðrar götur í Reykjavík, sem heita vegur, sýnist mér alltaf heita í eignarfalli vegar. Laugavegur er langelstur þeirra. Hann var leið bæjarbúa með þvott í laugar og til baka, og mestur hluti þeirrar leiðar var óbyggður. Aðrar götur, sem heita vegur, hafa flestar fengið nafn, þegar leiðin var lítt byggð, en ekki skipulögð sem samfelld byggð við götu. Ég nefni sem dæmi Sundlaugaveg, Laugarnesveg, Kleppsveg, Framnesveg og Kaplaskjólsveg. Vonandi fara menn ekki að tala um Laugavegarsamtökin eða Laugavegargöngu.

Morgunblaðinu 2. september 2014: 29 (Velvakandi)