Halldór Laxness hefur mótað umræðu um málefni þjóðarinnar meira en nokkur núlifandi maður. Tvennt var það, sem mest bar á í skrifum hans fyrir hálfri öld. Hann leit til Sovétríkjanna sem fyrirmyndarríkis, en síðar snerist honum hugur og gerði þá rækilega grein fyrir því, og er oft vísað til þess. Hitt var, hvernig hann lýsti íslenskri alþýðumenningu af mikilli vandlætingu, en hæddist að þeim, sem lofuðu sveitalífið. Frægust er sagan af Sjálfstæðu fólki, en hún kom ver við marga en Salka Valka og Heimsljós, þótt þar sé margt ófagurt líka.

Halldór dæmdi skipulag landbúnaðarins hart á þessum árum og lengur. Það, sem vakti fyrir honum og félögum hans, var að tryggja fólki í kaupstöðunum góða mjólk og mjólkurafurðir. Það tókst líka, en með öðrum ráðum en Halldór vildi. Erindi mitt var ekki að fjalla um skipulagsmál landbúnaðarins, heldur vekja athygli á því, að Halldór fór síðar meir að lýsa sveitalífi með allt öðrum hugblæ en menn vildu búast við af fyrri skrifum hans.

Þegar Halldór Laxness var langt kominn að lesa bernskuminningar sínar Í túninu heima í útvarp á útmánuðum veturinn 1987, sagði gömul kona, sem á hlýddi, ættuð úr þeim sóknum, um fólkið í Mosfellsdal: „Það er nú meira dýrðarfólkið allt saman.“ Henni þótti lýsingin á fólkinu önnur en búast mátti við af Halldóri eftir lýsingu hans á sveitafólki í Sjálfstæðu fólki.

Halldór hefur raunar samið fleiri sveitasælusögur. Þær falla að vísu ekki undir fagurbókmenntir, heldur eru í flokki eftirmæla. Ég nefni tvö dæmi:

1. Frá Hraðastöðum. Endurminning um Bjarna Magnússon (Yfirskyggðir staðir, 1971):

„Það sem við höfðum ekki hér á Gljúfrasteini, það höfðu þeir á Hraðastöðum. Hjá Sigríði og Guðnýju dætrum okkar ungum endurtók sig sama sagan og hjá sjálfum mér í bernsku: þessar telpur urðu svo samrýmdar fólki og háttum á Hraðastöðum að þeim fannst að þar væri þeirra vettvángur með réttindum og skyldum. Fyrir kom að þær báðu mig með tárum að lofa sér að fara þángað og moka fjósið. Heil sumurin sáust þær varla hér heima hjá sér, heldur voru á Hraðastöðum sér til skemmtunar að stunda heyskap, smala fé í fjallinu, leita að hestum, hugsa um kýrnar.“

2. Kona úr sveitinni minni (Seiseijú, mikil ósköp, 1977): „Uppsveitirnar með því grasi sem ég áðan nefndi ólu sannkallað gullfólk; að slíta þar barnskónum hefur líklega ekki verið ósvipað því að alast upp á góðum sveitabæ í himnum.“

Í þessum tilvitnunum er sá hugblær, sem þjóðinni hefur fallið vel og oft er reynt að ná fram í þeim urmul íslendingasagna, sem birtist í eftirmælum í dagblöðum, tímaritum og minningabókum. Þar eru margir kallaðir til frásagnar, en fáir í hópi útvalinna með Halldóri.

Ég efast samt um, að í samanlögðum eftirmælum og minningarbókum um íslenskt sveitafólk finnist fegurri sveitasælusaga en minning Jónasar í Stardal um Guðjón í Laxnesi (Hjónin í Laxnesi, Lesbók Morgunblaðsins 12. og 13. tbl. 1967). Vart verður bent á mann, sem betur lifði í samræmi við þær hugsjónir, sem forystumenn bænda hafa boðað um hlutskipti sveitafólks, og ég vil ætla, að almenningur hafi viljað vona, að mætti verða hlutskipti þjóðarinnar að breyttu breytanda í þéttbýlinu.

Þjóðinni hefur alla þessa öld fundist sem hún væri á tímamótum, og svo mun mörgum enn finnast. Hún hefur horft fram á veg með von um, að menning hennar megi dafna, hvað sem umróti líðandi stundar líður, og hefur hresst sig með minningum og eftirmælum á borð við framangreindar tilvitnanir og viljað mega treysta því, að þjóð með slíkan uppruna, standist umrótið. Gildi þessara sagna skilgreinir Halldór þannig í upphafi eigin eftirmæla um Jónas í Stardal (Yfirskyggðir staðir, 1971):

„Um ævi Jónasar Magnússonar frá Stardal, sem nú er látinn nýlega áttræður, þyrfti að gera greinargott yfirlit þegar um hægist, og meta fyrir sér með tilvísun til verka hans og annarra staðreynda þann þátt sem slíkir menn eiga í mótun kynslóðar. Þeir menn, sem vinna verk sín vel, hver í sínum verkahring, það er þeim sem þjóðin á orðstír sinn og heiður að þakka, og einn þeirra mann var Jónas í Stardal.“

Með þessum ábendingum er ekki verið að dæma um ritverk Halldórs Laxness sem heimildir um hlutskipti þjóðarinnar, hvorki þar sem fagurt var kveðið né þar sem skar í eyrum, heldur aðeins vakin athygli á því, hvernig tónninn breyttist í lýsingum á hlutskipti sveitafólks.

Frey 83 (1987) 526-7