BJÖRN STEFÁNSSON er ungur stúdent er stundar nám í landbúnaðarfræðum við búnaðarháskólann að Ási í Noregi með landbúnaðarhagfræði sem sérgrein. Hann hefur skrifað nokkrar greinar um landbúnaðarmál sem birtast munu hér í blaðinu. Svarar hann m.a. nokkrum atriðum úr greinum Gunnars Bjarnasonar búfræðikennara á Hvanneyri, sem einnig hafa birst hér í blaðinu.
Hingað að Ási hafa nú borist fimm greinar í greinaflokk Gunnars Bjarnasonar á Hvanneyri, sem hann kallar Landbúnaður í deiglu. Mér þykir ástæða til að kasta hugmyndum hans um landbúnað í deigluna.
Í greinaflokknum var sýndur samanburður á fóðureyðslu við framleiðslu kjöts af ýmsum búfjártegundum. Til upprifjunar birtist hann hér. Ég hef bætt inn í sauðfé, en Gunnar taldi fóðureyðslu á kg dilkakjöts vera 10-12 fe.
2–2 1/2 árs holdanaut | 10–12 fe |
Baconsvín | 5–6 fe |
Kjúklingar | 3– 4 fe |
Dilkakjöt | um 20 fe |
Út frá þessari töflu dró Gunnar þá ályktun, að hagkvæmast væri að framleiða svína- og kjúklingakjöt. Það er ekki í fyrsta sinn, að slík röksemdafærsla hefur verið notuð, en það ætti að vera óþarfi að benda á, að hér skiptir öllu máli, hvað fóðureiningin kostar. Sauðfé tekur um ¾ af fóðri sínu á beit, og holdanaut á Íslandi taka einnig drjúgan hluta fóðursins á beit, en vetrarfóður fjárins er að mestu heyfóður, sem er mun ódýrara á fe. en kjarnfóður. Ekki má heldur gleyma því, að um 37% af heildarverðmæti sauðfjárræktarinnar eru aukaafurðir (ull, gærur, slátur). Á það drjúgan þátt í að lækka framleiðslukostnað dilkakjöts.
Hins vegar er mér ekki kunnugt um neitt land utan eitt (Júgóslavía), þar sem óniðurgreitt verð á kjarnfóðri er eins hátt og hér. Orsökin er miklar fjarlægðir frá framleiðslustað og lítið magn og þar af leiðandi dýr verslun. Til þess að sýna sérstöðu Íslands á þessu sviði hef ég gert töflu úr skýrslum frá Landbrukets Sentralforbund og hagfræðideild háskólans hér um hlutfall milli maísverðs til kaupenda og verðs á nautakjöti til framleiðenda, hvort tveggja á kg. Á íslenska verðiríkissjóðs. Heimildir um íslenskt og bandarískt verð eru aðrar og sérstaklega er bandaríska kjötverðið ónákvæmt, því að þar í landi er framleiðendaverð gefið upp fyrir kg lifandi þunga. Einnig er sýnt hlutfall milli maísverðs og kjötverðs (á Íslandi dilkakjöt). Allar tölur eru umreiknaðar í íslenskar krónur eftir skráðu gengi og eru frá 1958, nema íslensku tölurnar, sem eru nýjar. Aukastöfum er gjarna sleppt
Korn | Kjöt | Kjöt/korn | |
Ísland | 4,5 | 20 | 4,4 |
Bandaríkin | 1,9 | 34 | 18 |
Noregur | 4,2 | 34 | 8 |
Danmörk | 2,50 | 27 | 11 |
England | 2,40 | 32 | 13 |
Holland | 2,80 | 37 | 13 |
V. Þýskaland | 4,30 | 34 | 8 |
Samanburðurinn talar skýru máli. Þær búfjártegundir, sem fóðra þarf á kjarnfóðri standa mjög höllum fæti hér á landi við framleiðslu kjöts, en kjötverð sýnir hversu góð skilyrði Ísland hefur til framleiðslu dilkakjöts, þó að ekki megi af ýmsum ástæðum leggja mikla áherslu á hverja einstaka tölu í töflunni.
Kjarnfóðurblanda handa svínum og hænsnum verður heldur dýrari en korn, af því að sumar fóðurtegundirnar í blöndunni eru venjulega dýrari en korn, og blöndunin kostar eitthvað dálítið. Ef gert er ráð fyrir, að fóðureiningin í kjarnfóðurblöndu kosti 5 kr. komið í hlað og að til framleiðslu á einu kg af svínakjöti þurfi 5,5 fe., verður fóðurkostnaður 27,50 kr. Ef gert er ráð fyrir þeim ágætu vinnuafköstum, sem Gunnar nefnir, verður vinnukostnaður um 4 kr. kg. Þannig er framleiðslukostnaðurinn kominn upp í 31,50 kr., og þá er eftir að greiða kostnað við byggingar, vexti, lyf, flutning og ýmislegt fleira. Það ætti því ekki að þurfa að ræða það nánar, að svínakjöt á Íslandi getur á engan hátt orðið ódýrara í framleiðslu en dilkakjöt. Þá má líka nefna, að í löndum, þar sem kjötneysla er aðallega nauta- og svínakjöt, er svínakjöt oft í minni metum meðal neytenda (lægra neytendaverð), en dilkakjöt hins vegar í meiri metum.
Þá var það „litla gula hænan“ hans Gunnars. Ef fóðureyðsla er 3,5 fe. á kg, verður á sömu forsendum og við svínakjötið fóðurkostnaður 17,50 kr. kg, og með eggi ekki undir 19 kr. Vinnukostnaður virðist mundu vera 1 kr., samtals 20 kr. Þá er eftir útungun, hús, lyf, flutningur o.fl.
Framleiðendaverð í Bandaríkjunum virðist vera meira en tvöfaldur fóðurkostnaður. Það ættu því ekki heldur að vera vonir um, að framleiða megi ódýrara kjúklingakjöt á Íslandi en dilkakjöt, Ekki er óhugsandi að óniðurgreidd kjarnfóðurblanda geti orðið ódýrari en gert er ráð fyrir að framan, en þó ekki svo, að niðurstaðan haggist. Þegar ég hafði gert áætlun um framleiðslukostnað á kjúklingakjöti, sá ég, að hann yrði talsvert lægri hér í Noregi en á öðru kjöti. Ég spurði því Höie, prófessor í hænsnafræðum, af hverju Norðmenn hæfu ekki framleiðslu á stórum kjúklingum að bandarískum sið. Hann svaraði, að þessir stóru kjúklingar væru ekki seljanlegir hér. Þegar fólk í Noregi fær sér kjúkling, vill það léttan kjúkling sem vegur lifandi 0,7–1,0 kg. Stóru kjúklingarnir í Bandaríkjunum vega 1,5 kg lifandi.
Til þess að geta selt kjúklingana sína hafa bandarískir framleiðendur kostað offjár í auglýsingaherferð. Þeir hafa kennt neyslu á spendýrafeiti um ýmsa sjúkdóma og „einhvers konar sjúkrafæði er orðið regluleg þjóðartaugaveiklun,“ eins og höfundur nokkur komst að orði. Það er athugandi, hvernig neytendur hafa tekið þessu. Árin 1952–1956 var mikil þensla í kjúklingaframleiðslu, að því er sagt er. Á þessum árum jókst neysla á mann sem hér segir: Hænsnakjöt 10,5 kg (37%), en neysla svínakjöts minnkaði um 2,2 kg (3%).
Og hvernig meta svo neytendur hnossgætið? Prófessor Breirem nefnir, að haustið 1958 var verð til neytenda 25-29 kr. kg af kjúklingakjöti, en af öðru 59–105 kr., þ.e.a.s. um þrefalt meira. Hvers konar matur er það, sem neytendur vilja ekki borga meira en þriðjung fyrir miðað við nautakjöt og svínakjöt? Það er óhætt að fullyrða, að neytandi, sem stendur fyrir framan búðarborðið, eyðir ekki hugsun í það, hver framleiðslukostnaðurinn er, en hann neytir um það bil sex sinnum meira af kjöti, sem er þrefalt dýrara.
Hitt er rétt, að verðlagið sýnir, að í Bandaríkjunum er framleiðslukostnaður á kjúklingakjöti lægri en á öðru kjöti. Ef einhver fótur reynist fyrir því, að spendýrafeiti sé hættuleg heilsu manna, er miklu einfaldara á Íslandi að vísa fólki á fisk. Fiskur er talinn í sama flokki og fuglakjöt með tilliti til feiti, en svínakjöt er fitu- og orkuríkast allra kjöttegunda.
Það virðist því ástæðulaust með öllu að ýta undir framleiðslu á kjúklingakjöti á Íslandi. Annað mál er, að sjálfsagt er, að fólk eigi þess kost að fá sér kjúklingakjöt, ef það langar til, og þá jafnframt, að fólk borgi kjötið því verði, sem það kostar, án þess að opinberar ráðstafanir komi til.
Gunnar Bjarnason hafði að uppistöðu í fjórar fyrstu greinar sínar ritið Matforsyningen og jordbruksproduksjonen eftir prófessor Knut Breirem. Breirem hefur næringareðlisfræði búfjár og fóðurfræði sem viðfangsefni. Stór hluti ritsins fjallar um sjúkdóma í blóðæðakerfinu og orsakir þeirra. Heimildir, sem vitnað er í, eru á annað hundrað, og handritið er lesið yfir m.a. af prófessor Langfeldt í Osló, sem nýlega var skipaður formaður nefndar, sem rannsaka á, hvort telja megi, að við fæði manna séu tengdir eiginleikar, sem valdi fyrrnefndum sjúkdómum. Við lestur ritsins verður ljóst, að hér er margt enn á huldu. Það er því hart til þess að vita, að Gunnar skuli afgreiða málið á svo einfaldan hátt, eins og kemur fram af eftirfarandi tilvitnun: „Af þessu geta menn dregið þann lærdóm, að ekki muni vera útlit fyrir mikinn vöxt í verslun með eggjahvítumatvæli og feitmeti í bestu markaðslöndum á komandi árum. Þessa ályktun styður einnig sú skoðun lækna og heilbrigðisyfirvalda á Vesturlöndum, að ofneysla þessara fæðutegunda, sérstaklega dýrafeitinnar, sé orsök alvarlegra hrörnunarsjúkdóma …“.
Mig langar að nefna nokkur atriði úr riti Breirems: Menn hafa ekki getað fylgst með þróun sjúkdómsins (atherosklerose) í lifandi mönnum, en líkur benda til þess, að mikið kólesteról í blóði sé undanfari hans. Af rannsóknum í ýmsum löndum kom fram, að samband var milli neyslu á feiti og kólesteróls í blóði. Niðurstaðan hefur verið gagnrýnd, af því að sambandið hefði orðið óljósara, ef fleiri lönd hefðu verið tekin með. Nýrri rannsóknir benda til þess, að mestu skipti, hversu föst feitin er. Mettaðar feitisýrur hækka kólesterólmagnið. Föst feiti er kókosfeiti, smjörlíki framleitt við herslu á fljótandi olíum, mjólkurfeiti og sláturfeiti af jórturdýrum ásamt svínafeiti. Fljótandi feiti er fyrst og fremst fljótandi plöntuolíur, t.d. maísolía, sojaolía og baðmullarfræolía. Fiskifeiti og feiti af fuglakjöti eru í sama flokki.
Bent er á, að hjartasjúkdómar eru óvenju tíðir í Finnlandi samtímis mikilli neyslu á mjólkurfeiti, en skýringin verður ekki eins augljós, þegar vitað er, að í austurhluta landsins eru hjartasjúkdómar mun algengari en vestan til, án þess að munur sé á neyslu mjólkurfeiti. Í Svíþjóð urðu dauðsföll af völdum hjartasjúkdóma færri í stríðinu, en samtímis jókst neysla mjólkur mikið. Bent er á, að neyslumjólk hefur hlutfallslega færri hitaeiningar í fitu en flestar aðrar búfjárafurðir.
Í Bretlandi, Bandaríkjunum og Noregi er smjörlíki aðalorsök aukinnar feitineyslu, en feitineysla úr mjólk eða kjöti er óbreytt eða hefur minnkað.
Önnur efni fæðunnar eru nú í rannsókn. Gefið er í skyn, að kolvetnistegundin skipti máli (sykur eða mjölvi). Of mikið D-fjörefni ber að forðast. Ýmis önnur fjörefni eru talin hindra sjúkdóminn. Varhugavert getur einnig verið að neyta of mikils af ómettuðum feitisýrum. Steinefnin kalsíum og magnesíum þyrfti að athuga nánar. Loks má nefna, að ekki á að vera sama, hvernig maturinn er framreiddur. Kólesteról í blóði jókst, ef kanínum voru gefin soðin eða steikt egg fyrir hrá.
Síðan segir Breirem orðrétt: „Af þessu yfirliti sést, að engin furða er, að forystumenn í vísindum á þessu sviði halda því enn fram (1957-1959), að rannsóknirnar séu ekki komnar svo langt, að unnt sé að ráða frísku fólki á Vesturlöndum að breyta mataræði sínu.“ Þó leggja flestir áherslu á hófsemi á öllum sviðum.
Að síðustu má geta þess, að ýmsar aðrar orsakir eru nú tilnefndar. Meðal þeirra eru nefndar erfðir, hversu mikið menn hreyfa sig, reykingar og stöðugur spenningur. Hið síðastnefnda er enn óljóst. Bent er á, að ofreynsla, mikil ábyrgð, metnaður, samkeppni „sosioökonomisk press“ og spenntar taugar sé óheppilegt. Við rannsókn á 100 sjúklingum, sem höfðu orðið hjartveikir fyrir fertugt, höfðu flestir tvær stöður eða a.m.k. 60 tíma vinnuviku. Þess er getið, að kólesteról í blóði hækki við próflestur, en hækkunin var mjög breytileg frá nemanda til nemanda.
Af þessu má sjá, að margt er dregið fram, og virðist hér vera eitthvað fyrir alla að verða móðursjúkur af, ef upplagið er fyrir hendi.
Morgunblaðinu 26. janúar 1961
Áður en lengra er haldið, vil ég vekja athygli á því, að í greinaflokknum Landbúnaður í deiglu er víða farið skakkt með heimildir. Svo að nokkuð sé nefnt, er þetta tekið með: Á bls. 56 nefnir Breirem, að kjúklingakjöt í Bandaríkjunum sé ódýrara en annað kjöt og kosti enskt pund haustið 1958 30–35 sent. Á bls. 58 nefnir hann, að verð til framleiðenda vorið 1959 hafi ekki verið svo lágt síðan í stríðsbyrjun eða 16,3 sent á enskt pund. Gunnar slær saman verði framleiðenda og neytenda, og við fáum þessar andríku setningar: ,,þensluævintýri þessa kapítalíska bandalags kornsins og hænunnar stöðvaðist sl. ár (1959) með illþyrmislegum árekstri á vegg offramleiðslu og verðhruns. Verðið á kg kjúklingakjöts féll skyndilega úr 60 sentum niður í 33 sent…“! Auðvitað verða þarna eins og annars staðar tvö ensk pund eitt kg!
Tafla um útflutning eggja og hænsnakjöts frá Hollandi verður tafla um framleiðslu eggja og kjúklinga í Hollandi. Sirkulasjonssykdommer er þýtt næringarsjúkdómar. Tafla um verslun með kjarnfóðurblöndur verður hjá Gunnari tafla um notkun kjarnfóðurs, þó að vitað sé, að ekki nema nokkur hluti kjarnfóðurs í kornræktarlöndum er í verslun og að aðeins hluti kjarnfóðurs í verslun er seldur í blöndum. 2% fólksfjölgun á ári í 10 ár verður auðvitað 20%.
Sagt er í 5. grein, að samkvæmt skýrslu ríkisstjórnarinnar til OEEC hafi vinnumönnum í sveit á Íslandi fækkað á árunum 1940 til 1950 úr 9894 í 7197 og síðar er sagt, að ef til vill séu vinnumenn jafnmargir og bændur. Ég veit, ekki, hvort þetta er sagt til að skemmta fólki eða hæðast að ríkisstjórninni fyrir skýrslugerð. Ríkisstjórnin hefur væntanlega látið í té tölur um fjölda þeirra, sem þiggja laun fyrir landbúnaðarstörf, og er því alsaklaus af vitleysunni. Síðan er þessi ,,vinnumanna“- fjöldi lagður við tölu bænda og sýnt fram á, að heldur litlu sé afkastað í sveitum landsins!
Fleira mætti til tína, en þó er verst, að víða eru dregnar ályktanir, án þess að séð verði, að nokkur fótur sé fyrir þeim. Er þar kominn hrossaræktarráðunauturinn með sinn andlega áburðarhest, klyfjaðan öðrum megin andríki og hugmyndaflugi, en hinum megin rökvísri hugsun, og hallast heldur á, enda snarast fljótt á klárnum. Síðar verður gerð tilraun til að hjálpa ráðunautnum að búa betur upp á klárinn og vikið að nokkrum fullyrðingum hans.
Í greinaflokk Gunnars Bjarnasonar er nokkrum sinnum vikið að erfiðleikum bandarískra bænda vegna verðfalls á afurðum þeirra. Síðan er gjarna bætt við, að þetta sé ,,sæluríki neytenda“, kjör neytenda batni og verðfall á vörunum komi neytendum til góða. Okkur, sem aldir eru upp í trú á ágæti frjálsrar verðmyndunar, sýnist þetta ósköp sjálfsagt. En í reyndinni stígur verð til neytenda þar vestra, þó að verðfall verði til framleiðenda. Samkvæmt rannsókn í Bandaríkjunum (U.S. News and World Report, June 8, 1959) hafði smásöluverð á matvöru hækkað um 20% frá 1949 til 1958, en verð til framleiðenda féll um 8%. Frá Kanada er sömu sögu að segja, og í Frakklandi er vanalegt, að verð til bænda falli, án þess að það hafi áhrif á smásöluverð. Eina leiðin, sem reynst hefur fær til að tryggja hagstæðari verðlagsþróun, er, að samvinnufélög bænda taki að sér verslunina. Bandarískir bændur hafa nú hinn mesta áhuga á að efla með sér samvinnu og hafa m.a. sent menn hingað til Noregs til að kynna sér málið. Í Bandaríkjunum styrkir það aðstöðu bænda í baráttu þeirra, að þeir geta bent neytendum á, að verðfallið komi þeim ekki til góða.
Það er eðlilegt, að menn spyrji, af hverju hin frjálsa verðmyndun nái ekki til milliliðanna. Til að skýra það mætti nefna eftirfarandi: Hin frjálsa verðmyndun er takmörkuð af hvers konar samtökum. Launþegar hafa sín verkalýðssamtök, sem banna mönnum að taka lægri laun en samið er um, þótt þeir séu atvinnulausir, iðnaðarmenn hafa sín bréf, háskólafólk sín sérréttindi, bæði iðnaðarmenn og háskólafólk reyna að takmarka aðsókn í stéttir sínar, iðnrekendur mynda hringa, sem enginn lagabókstafur fær náð til, og að lokum hafa kaupmenn þegjandi samkomulag sín á milli um að halda ákveðnu verði. Komið hefur í ljós hér í Noregi, að flestar verslanir fylgja leiðbeiningum frá verksmiðjum um verð. Þar með er ekki sagt, að öll verðsamkeppni sé horfin, og er auðvelt að nefna dæmi þess, en minnt á þær hömlur, sem lagðar eru á samkeppnina, af því að þeim er oft haldið leyndum.
Hvar er þá samkeppni? Samkeppnin hefur að miklu leyti færst yfir frá samkeppni um verðlag og er nú orðin samkeppni um þjónustu, um legu verslunar o.s. frv., og ekki má gleyma garminum honum Katli, auglýsingatækninni. Bandarísk auglýsingastarfsemi er samkvæmt mörgum samfélagsfræðingum þar vestra öfl, sem ógna óháðri skoðanamyndum og ala á stöðugri óánægju meðal almennings til að koma út vörunum (Aldous Huxley í Brave New World Revisited o.fl.)
Hvar standa svo bandarískir bændur í þessum heimi samtaka og ófrjálsrar verðmyndunar? Þeir hafa engin samtök um sölu á afurðum sínum, en sláturhús og verslanir láta þá rífast um að fá að losna við þær.
Hér má bæta við, að bandarískir hagræðingar játa, að bændur hafi rétt fyrir sér þegar þeir benda á, hvernig kreppt er að frjálsri verðmyndum í öðrum greinum atvinnulífsins en þeir svara bændum og segja, að þeir eigi heldur að reyna að höggva á fjötrana í staðinn fyrir að reyna að færa atvinnulífið í fastari fjötra. Annað er, hvort það er kleift.
Það er nokkuð algengt, að menn geri samanburð milli landa á afköstum í landbúnaði. Þetta gerir Gunnar einnig í 5. grein sinni. Dæmið er gjarnan sett upp þannig: Í Bandaríkjunum geta 5% af þjóðinni við ríkjandi aðstæður fullnægt búvöruþörf þjóðarinnar. Á Íslandi er þessi tala um 15%. Þó er framleiðslan vestra svo margfalt fjölbreyttari. Ályktunin verður þá einföld: Íslenskir bændur eru búskussar, bornir saman við stéttarbræður í Bandaríkjunum. Hér verða gerðar nokkrar athugasemdir við slíkar ályktanir.
- Í rauninni starfa 12% af bandarísku þjóðinni við landbúnað. Talan 5% er þannig fengin: 44% af bændum framleiða yfir 90% af búvöruframleiðslunni. (Hér ætti að standa af seldri framleiðslu. Bæði Gunnar og Breirem gera sömu villuna. Þetta skiptir nokkru máli). Auk þess er nokkur offramleiðsla. Á sama hátt mundi talan 15% lækka, ef aðeins væru teknir með þeir, sem miklu afkasta og þeir dregnir frá, sem svarar til vinnu við framleiðslu á sauðfjárafurðum til útflutnings (10-15% af verðmæti heildarframleiðslunnar).
- Þær búgreinar, sem Bandaríkjamenn stunda umfram íslenskar búgreinar, þarfnast í eðli sínu mjög lítils vinnuafls (akuryrkja).
- Ef við höldum okkur við töluna 5%, ber að draga frá þá bændur á Íslandi, sem hafa önnur störf með búskapnum. Sverrir Gíslason í Hvammi upplýsti á aðalfundi Stéttarsambands bænda í haust, að 217 bændur hefðu yfir 50 þús. kr. í tekjur utan bús (kennarar, prestar, vegaverkastjórar o.fl.). Í verðlagsgrundvelli eru launatekjur áætlaðar um 8% af tekjum bóndans.
- Íslenskir bændur hafa með höndum ýmis störf, sem eru nánast borgaraleg skylda og eru ólaunuð. Vegna lítilla sveitarfélaga og fámenns þjóðfélags verður þátttaka í opinberum störfum almennari en vestan hafs (og um leið stendur lýðræðið fastari fótum). Vestra eru slík störf í stærri stíl en á Íslandi unnin af launuðu fólki.
- Hér í Noregi heyrist oft slagorðið: Varan er ekki framleidd, fyrr en hún er seld. Á Íslandi stjórna bændur sjálfir milliliðastarfseminni. Í Bandaríkjunum láta bændur aðra um þá hluti. Þessi munur verður ekki metinn í ársverkum eða til fjár.
- Íslenskur búskapur er ekki eins hreinn viðskiptabúskapur og bandarískur, þ.e.a.s. á Íslandi vinnur bændafólk ýmis störf að meira eða minna leyti, sem bændur vestra láta aðra gera fyrir sig í stærri stíl. Þetta er margt smávegis, sem engin leið er að mæla, en skiptir máli, þegar saman er dregið. Til skýringar má nefna matvælageymslu og matseld (tilbúinn matur vestra), slátrun til heimilis, strokkun og skyrgerð, barnakennsla o.fl. í sambandi við heimilisstörf, og við búskapinn má nefna byggingar og viðgerðir (langt á verkstæði).
- Á Íslandi neyta menn meira af þeim landbúnaðarafurðum, sem í eðli sínu eru vinnufrekari í framleiðslu en þær afurðir, sem menn neyta vestan hafs. Þessu til skýringar birtist tafla, sem sýnir brúttótekjur í dollurum fyrir 100 vinnustundir:
Mjólkurkýr 180 Eggjaframleiðsla 444 Sláturgrísir 784 Kjúklingar 726 Holdanaut 2805 Það er rétt að leggja áherslu á, að hér er um brúttótekjur að ræða. Tölurnar segja því ekkert um arðsemi einstakra búgreina. Gera verður ráð fyrir, að arðsemi búgreina sé lík, þar sem flestir bændur geta valið á milli framleiðslugreina. Einnig er rétt að minna á, að tölurnar eru bandarískar, svo að menn dragi ekki of ákveðnar ályktanir um vinnuþörf við holdanaut á Íslandi. Taflan sýnir, að mjólkurframleiðsla er í eðli sínu vinnufrek. Samkvæmt íslenskum athugunum er sauðfjárrækt nokkurn veginn eins vinnufrek og mjólkurframleiðsla miðað við brúttótekjur, en, eins og sýnt er fram á í kaflanum Kjarnfóðurbúskapur, er fyllilega samkeppnisfær við framleiðslu á öðrum kjöttegundum. Íslendingar neyta af kjöti fyrst og fremst dilkakjöts, en Bandaríkjamenn nautakjöts, svínakjöts og hænsnakjöts. Þetta veldur því, að miklu fleiri hendur vinna tiltölulega fá verkefni við kjötframleiðslu á Íslandi.
Af mjólk neyta Bandaríkjamenn 300-350 kg á mann, þegar smjör og ostur er umreiknaður í mjólk, en Íslendingar 500-550 kg. (Orsakir: Margt barna og unglinga, vörugæði, bjórleysi o.fl.) Ef við hugsum okkur, að 3/5 af starfi bænda sé við mjólkurframleiðslu eða um 9% af þjóðinni, mundi sú tala lækka niður fyrir 6%, ef mjólkurneyslan minnkaði niður í það, sem er vestan hafs.
Sennilega vegur þetta atriði þyngst af öllum og er auðvitað ómetanlegt fyrir landbúnaðinn.
- Prófessor Westermarck í Helsinki hefur útskýrt fræðilega, hvernig hagkvæmd við vélvæðingu er háð verðhlutfalli milli framleiðsluþáttanna, vinnu og fjármagns. Á einfaldan hátt má skýra fyrirbrigðið þannig: Ef við gerum ráð fyrir, að vinnuafl í bandarískum landbúnaði sé helmingi dýrara en á Íslandi, en traktor sé jafndýr í rekstri (sennilegar forsendur), og að á Íslandi borgi sig að kaupa traktor, ef hann sparar sem svarar 2/3 úr ársverki (ágiskun), þá borgar sig að kaupa traktor vestan hafs, ef hann sparar sem svarar 1/3 úr ársverki. Samtímis hækkar kjörstig bústærðar við stígandi verðhlutfall milli vinnu og fjármagns. Þetta skýrir, að á Íslandi borgar sig að nota vinnufrekari vinnubrögð en vestan hafs.
- Að lokum má nefna, að í Bandaríkjunum eru vélar og verkfæri oft notað meira en talið er borga sig, og þess vegna verða eftir verkefni fyrir færri hendur. Þetta á eflaust við um íslenskan landbúnað, en er væntanlega í stærri stíl vestan hafs. Hin óhóflega vélvæðing er mikið rædd af hagfræðingum. Þekktur bandarískur hagfræðingur komst svo að orði: Ef menn íhuga að hagnýta sér sjálfvirkni við búskap, ættu menn að hugsa sig vel um, og þá mun oft fara svo, býst ég við, að menn hverfa frá því að taka upp sjálfvirkni. Prófessor Breirem segir: ,,Það er hins vegar skiljanlegt, að fulltrúar iðnaðarins hafa áhuga á áróðri fyrir vélvæðingu og annars konar tækninýtingu. Iðnaðurinn hefur nefnilega oft jafnmikinn hag af aukinni tækni og landbúnaðurinn.“ Bent er á að ofþensla í bandarískum landbúnaði valdi því, að reynt sé að selja bændum meira af tækjum en þeim er í hag. Til þessa er beitt áhrifamikilli auglýsingatækni. Hér í Noregi eru sölumenn hálfgerð plága í sveitum, og þeir fá fólk oft til að kaupa tæki, sem engin skynsemi er í að kaupa. Á Íslandi ber sennilega lítið á þess háttar, en ástandið í öðrum löndum er áminning um, að þess sé gætt, að ráðunautar bænda og samtaka þeirra séu látnir hafa síðasta orðið, þegar bændur leita ráða.
Áhrif þeirra atriða sem hér eru nefnd, verða ekki metin í ársverkum. Augljóst er, að sá samanburður, sem getið er um í upphafi, er út í hött. Það er hagvísindum til tjóns, að menn dragi ályktanir svo gagnrýnislaust sem raun ber vitni.
Morgunblaðinu 9. febrúar 1961
„ÞAÐ skiptir ef til vill ekki miklu máli fyrir heildarhamingju þjóðarinnar, þótt búskapur okkar dragist aftur úr þróuninni, slíkt hendir meðal annarra þjóða, en misþróunin er háskaleg“. (Gunnar Bjarnason í 2. grein sinni.).
Já, það er háskalegt, en skiptir ekki miklu máli!
Áður en lengra er haldið, er rétt að leggja áherslu á, að við núverandi atvinnuhætti er engin leið að fullyrða, að ein atvinnugrein sé öðrum mikilvægari. Ekki aðeins landbúnaður, fiskveiðar og iðnaður eru þar í sama bát, heldur einnig verslun, þjónusta og andleg störf.
Oft er þess getið, að flestir íslendingar hafi atvinnu af iðnaði. Mestur hluti iðnaðar á Íslandi er beint og óbeint þjónustu- og vinnsluiðnaður fyrir sjávarútveg og landbúnað eða framleiðsla rekstrarvöru fyrir þessa atvinnuvegi og gæti ekki staðist án þeirra. Við framfarir í landbúnaði gerist það tvennt, að sveitafólk tekur upp betri vinnubrögð og að aðrir taka við þeim verkefnum, sem sveitafólk hafði áður. Sú afkastaukning á mann, sem oft er talað um í landbúnaði, er því ekki raunveruleg nema að nokkru leyti. Tölur frá Bandaríkjunum sýna þetta: 8 milljónir manna vinna við landbúnað, 7 milljónir við framleiðslu á vörum og þjónustu, sem landbúnaðurinn kaupir, og 11 milljónir við vinnslu og verslun með landbúnaðarafurðir, samtals 26 milljónir eða 33% starfandi manna.
Oft er sagt, að mikilvægt sé fyrir sveitafólk, að í bæjunum sé góður markaður fyrir afurðirnar. Þetta er auðvitað rétt. Hins er sjaldnar getið, að mikilvægt sé fyrir iðnaðinn, að góður markaður sé fyrir iðnaðarvöru í sveitum. Þá er landbúnaðurinn á þennan hátt kaupandi að iðnaðarvöru og þjónustu, nefnilega að rekstrarvöru, við vinnslu og flutning á afurðum, og loks er sveitafólk neytendur á sama hátt og aðrir.
Það er því rétt, að menn gæti þess að vanmeta ekki, hvert gildi kaupmáttur landbúnaðarins hefur fyrir atvinnuvegi bæjanna. Frá Bandaríkjunum er kunnugt, að minnkandi kaupmáttur í landbúnaði átti drjúgan þátt í kreppunni miklu. Reiknað hefur verið út, að 60% af atvinnuleysinu 1932 stafaði af minni pöntunum frá landbúnaðinum.
Í 5. grein í greinaflokknum eru gerðar áætlanir fram til aldamóta. Ég ætla, að í fáum löndum sé jafnerfitt að stunda áætlunarbúskap sem á Íslandi. Því veldur ekki aðeins óvissa í alþjóðamálum, heldur einnig sérstaða landsins og smæð þjóðfélagsins ásamt hófleysi þjóðarinnar í kröfum sínum til annarra.
Efnahagsþróunin á Íslandi hefur ekki nema að nokkru leyti verið samhliða efnahagsþróun í nágrannalöndum vorum.
Hér verður því engin tilraun gerð til að gagnrýna þær áætlanir, sem Gunnar gerir, umfram það, sem þegar er gert (vinnumannafjöldi og útreikningur á fólksfjölgun). Hins vegar skal vikið að niðurstöðu þeirrar áætlunar, sem gerir ráð fyrir sama hraða í nýrækt og verið hefur síðustu árin. Kom þá út, að árið 2000 yrði landbúnaðarframleiðsla umfram þarfir sem svaraði 39 þús. tonnum af útfluttu kjöti. Ef gert er ráð fyrir, að um 20 kr. fáist fyrir útflutt kg af kjöti eins og nú, verður þetta í gjaldeyri um 780 milljónir og með ull og gærum meira en einn milljarður.
Ef fyrrnefndri áætlun er fylgt, verður ræktað land um aldamótin ekki meira en rúmlega 10% af öllu ræktanlegu landi. Hins vegar verður fjárfjöldinn þá að vera kominn hátt á 4. milljón fjár. Þó að allt sé enn á huldu, hversu margt fjár landið beri, má verða ljóst að víða verður orðið þröngt í högum fyrir slíkan fjölda.
Til þess að nýta hina miklu framleiðslugetu sveitanna og útvega neytendum fjölbreyttari vöru verður að útvega holdanaut, sem hafa þá kosti að geta nýtt heyfóður og beit, en þarfnast lítils kjarnfóðurs. Fram hjá því verður ekki gengið, að viss áhætta fylgir innflutningi á holdanautum, en það er út í bláinn að bera það saman við hættuna við innflutning sauðfjár. Sauðfé frá fjölda bæja gengur saman og smitunin getur farið víða, áður en menn verða nokkurs varir.
Það er eðlilegt, að menn spyrji, hvar séu markaðir fyrir kjöt. Þeir eru ótakmarkaðir, en vegna alls konar styrkja fá framleiðendur í innflutningslöndum hærra verð fyrir sína framleiðslu komna á markað en innflytjendur (Sjá töflu í kaflanum Kjarnfóðurbúskapur.) Þessa gjalda Íslendingar. Ef við sættum sömu kjörum í þessu efni og enskir bændur, mundi heldur vænkast hagur Strympu.
Hagfræðingar veigra sér við að spá, hvernig fara muni um millilandaverslun með landbúnaðarvöru. Menn benda á, að stefnt er að frjálsri verslun með iðnaðarvöru og reynt að hindra, að einstök lönd mismuni framleiðendum. Menn gera ráð fyrir, að landbúnaðarvörur fylgi á eftir. Ef svo fer, og sama hlutfall helst milli framleiðslukostnaðar í hinum ýmsu löndum, yrði mun arðsamara að framleiða kjöt á Íslandi en nú er.
Í 5. grein sinni fer Gunnar Bjarnason nokkrum orðum um bústærð. Hann segir: ,,Einhver brotalöm í eðli íslendinga hefur valdið því, að raunverulegir stórbændur hafa sjaldan þrifist. Þeir hafa jafnvel verið illa séðir. Hér verður að taka upp nýtt viðhorf, aðeins stórbúin geta hagnýtt sér tækni og vinnuskipulag til fullnustu.“
Sennilega er það sama brotalömin, sem veldur því, að fólk vill helst eiga sína eigin íbúð.
Morgunblaðinu 16. febrúar 1961