Ágrip

Innlend garðyrkja á forgang að markaðnum samkvæmt lögum um framleiðsluráð landbúnaðarins. Tollur á grænmeti og blómum hefur því ekki bein áhrif á verð innlendra afurða þann tíma sem þær fullnægja eftirspurn.

Ætla má að heildsöluverð á innfluttu grænmeti mundi lækka um 25-29%, ef tollur á grænmeti lækkaði úr 70%, eins og hann er nú, í 120%. Búast má við að það þrýsti niður verði á fyrstu innlendu uppskerunni. Áætlað tap framleiðenda við það er 3-4% af heildarverðmæti afurðanna. Verðþrýstingurinn mundi bitna meira á afurðum, sem aldrei fullnægja eftirspurn og eru stöðugt í samkeppni við innfluttar afurðir.

Þótt tapið yrði ekki meira en þetta, mundi það snúa stöðu garðyrkjunnar úr sókn í vörn, og breytir það miklu fyrir atvinnugrein sem hefur skilyrði til aukinna afkasta. Þrýstingurinn yrði einmitt þar sem sóknin hefur verið, við að garðyrkjubændur hafa farið að nota ljós í mesta skammdeginu til að ala upp tómata og gúrkur, og með ræktun nýrra afurða.

Smásöluverð að vetrinum mundi lækka um 25-29% og leiða til aukinnar neyslu að vetrinum. Neysla er nú allmiklu meiri að sumarlagi. Ef aukin neysla að vetrinum stuðlaði engu að síður að aukinni neyslu að sumrinu, mundi aukin eftirspurn bæta garðyrkjubændum að einhverju leyti verðlækkun að vori með hærra verði að sumri en ella hefði orðið.

Lægra raforkuverð til gróðurhúsa gæti að einhverju leyti bætt þeim verðlækkunina sem ala tómata og gúrkur við ljós. Stjórnvöld gætu lækkað framleiðslukostnað með því að lækka toll á ýmsum tækjum í gróðurhús og einnig á plöntulyfjum og græðlingum. Þó er þar ekki um verulegar fjárhæðir að ræða í hlutfalli við heildarkostnað.

Á aðaluppskerutímanum er nú þegar svo mikið framboð, að ekki er líklegt að það bætti hag garðyrkjubænda í heild að ýta undir aukna framleiðslu með ódýrara fjármagni.

Með lægra innflutningsverði mundi reyna enn meira en verið hefur á það, að innflytjendur þrengdu ekki að fyrstu innlendu uppskerunni með óþörfum innflutningi á vorin. Ráð sýnast vera til þess að veita þeim aðhald í þeim efnum.

Ákvæðis laga um framleiðsluráð landbúnaðarins um forgang innlendrar framleiðslu hefur verið gætt varðandi blóm hálft árið, frá desember til maí, en ekki hinn helming ársins. Lækkun tolls á pottaplöntum gæti þrýst niður verði á innlendum pottaplöntum á sumrin.

Inngangur

Í sáttmála ríkisstjórnarinnar 26. maí 1983 er því lýst, að „skipan tolla og aðflutningsgjalda verði einfölduð, uppsöfnunaráhrifum eytt og stefnt að lækkun þeirra.“ Í fjármálaráðuneytinu hafa verið undirbúnar tillögur í samræmi við þessa yfirlýsingu. Hefur þar verið gert ráð fyrir, að tollur á forgengilegri neysluvöru verði 20%, en þar teljast blóm og grænmeti. Tollur er nú 70% á grænmeti, 80% á afskornum blómum, en 40% á smáplöntum, pottaplöntum og græðlingum.

Ennfremur er í stjórnarsáttmálanum kveðið á um endurskoðun laga um framleiðsluráð landbúnaðarins. Þar mun þó ekki hafa komið til greina að hrófla við eftirfarandi grundvallarákvæði laganna um starfsskilyrði landbúnaðarins (3. málsgrein 3. greinar laga 95/1981): ,,Áður en ákvarðanir eru teknar um inn- og útflutning landbúnaðarafurða, svo sem kjöts, mjólkur, mjólkurvara, garðávaxta og gróðurhúsaframleiðslu, skulu aðilar, sem með þau mál fara, leita álits og tillagna Framleiðsluráðs. Skal þess jafnan gætt, að innflutningur á landbúnaðarvörum fari því aðeins fram, að innlend framleiðsla fullnægi ekki neysluþörfinni, og útflutningur því aðeins, að nægilegt sé eftir í landinu til nota fyrir almenning af þeirri vöru, sem út er flutt.“

Ofangreinds ákvæðis um forgang innlendrar framleiðslu að markaðnum hefur að því er grænmeti varðar verið gætt af landbúnaðarráðuneytinu og lengst af í umboði þess af Grænmetisverslun landbúnaðarins. Varðandi afskorin blóm og lifandi jurtir hefur þessa ákvæðis undanfarið verið gætt hálft árið (desember-maí) af nefnd á vegum viðskiptaráðuneytisins sem skipuð hefur verið fulltrúum blómaverslana og blómabænda og formanni sem framleiðsluráð landbúnaðarins hefur tilnefnt. Af þeirri ástæðu og fleirum er heppilegt að fjalla í tvennu lagi um þessar tvær greinar garðyrkjunnar, ræktun grænmetis og blómarækt.

Í samkomulagi stjórnarflokkanna 6. september síðastliðinn um aðgerðir í efnahags- og atvinnumálum og um breytingar á stjórnkerfi segir í grein 8.8: ,,Settar verði reglur um frjálsan innflutning garðávaxta, þegar innanlandsframleiðsla fullnægir ekki þörfum íslenska markaðarins.“ Þar er því staðfestur stuðningur við ofangreint lagaákvæði um, að innflutningur garðávaxta fari því aðeins fram, að innlend framleiðsla fullnægi ekki þörfum markaðsins, þótt breyta skuli reglum um innflutning.

Lækkun tolla á garðávöxtum breytir því annars vegar, að varan ætti að verða ódýrari í smásölu, og hins vegar ætti lægra innflutt verð að þrýsta niður verði á innlendum garðávöxtum að svo miklu leyti sem erlendir garðávextir eru samtímis á markaðnum. Ofangreindar ráðagerðir um lækkun tolla munu hins vegar ekki hafa áhrif á aðrar atvinnugreinar. Hugmyndin er að lækka tolla niður í 30% á varanlegri neysluvöru. Iðnaðarvara frá löndum Fríverslunarbandalagsins og Efnahagsbandalagsins er ekki tolluð, en á þá iðnaðarvöru frá öðrum löndum sem er í samkeppni við innlendan iðnað er tollur nú þegar lægri en 30%. Slík tolla­lækkun mundi ekki heldur breyta neinu fyrir ræktun þeirra tveggja matjurta sem lengsta sögu eiga hér á landi, jarðepla og gulrófna. Á kartöflum er tollur aðeins 4%. Á gulrófum er reyndar 70% tollur, eins og á öðru grænmeti, en erlendar gulrófur þykja svo miklu lakari til matar, að fólk kaupir þær því aðeins að íslensk­ar gulrófur séu ófáanlegar.

I. GRÆNMETI

Innflutt grænmeti á móti innlendu

Í innflutningsskýrslum Hagstofu Íslands eru tómatar taldir sér, en annað græn­meti í einu lagi. Í töflu 1 um innflutta og innlenda tómata eru kaup Sölufélags garðyrkjumanna á innlendum tómötum, en ekki annarra. Áætlað er að aðrir en Sölufélagið versli með tómata af 30% af flatarmáli þeirrar ræktunar.

Tafla 1. Innflutt og innlent tómatar, 1000 kg
  Innflutt Innlent Alls
  1982 1983 1982 1983 1982 1983
Janúar 6 14 - 0 6 14
Febrúar 7 18 - - 17 18
Mars 19 22 - - 19 22
Apríl 27 26 4 1 31 27
Maí 16 14 49 58 65 72
Júní 0 - 110 118 110 118
Júlí - - 112 94 112 94
Ágúst - 62 75 80 75 80
September - - 55 51 55 51
Október - - 38 37 38 37
Nóvember - 4 14 19 14 23
Desember 24 22 2 2 26 24
Allt árið 109 120 459 460 568 580

 

Þarna kemur fram að ársinnflutningur á tómötum er ekki meiri en mánaðar­framleiðsla á innlendum tómötum, þegar hún er mest.

Árstíðaskipti eru ekki eins skörp í rækt­un annars grænmetis en tómata (tafla 2). Tölur um innlent grænmeti eru sam­kvæmt skýrslum Sölufélagsins og Grænmetisverslunar landbúnaðarins, en innflutningstölur samkvæmt innflutn­ingsskýrslum Hagstofunnar: gulrófur hafa þó verið dregnar frá innflutningstöl­um samkvæmt skýrslum Grænmet­isverslunarinnar.

Tafla 2. Innflutt og innlent grænmeti, 1000 kg
  Innflutt Innlent Alls
  1982 1983 1982 1983 1982 1983
Janúar 158 185 0 0 158 185
Febrúar 143 162 0 0 143 162
Mars 217 186 11 16 228 202
Apríl 151 167 41 58 192 225
Maí 239 172 60 93 299 265
Júní 152 160 78 83 230 263
Júlí 99 129 112 84 211 213
Ágúst 15 62 191 128 206 190
September 1 72 132 118 133 190
Október 9 71 109 67 118 138
Nóvember 102 146 71 15 173 161
Desember 199 262 9 1 208 263
Allt árið 1.485 1.774 813 662 2.298 2.436

 

Sýnilega fer innlend ræktun langt með að fullnægja eftirspurn síðsumars og á haustin.

Verðmæti eftir tegundum

Varðandi verðmæti grænmetis til fram­leiðenda eftir tegundum (tafla 3) er stuðst við skýrslur Sölufélagsins og Grænmetisverslunarinnar, en verslunin tekur við gulrótum og hvítkáli - raunar einnig rauðkáli, en því er sleppt, þar sem það var svo lítið. Eins og tekið hefur ver­ið fram, fer allnokkur hluti tómatafram­leiðslunnar ekki til Sölufélagsins (líklega af 30% af flatarmáli tómatahúsa), en tal­ið er að hlutur Sölufélagsins í gúrkusölu sé meiri.

Tafla 3. Verðmæti grænmetis til framleiðenda
  1981 1982 1983
  1.000 kr % 1.000 kr % 1.000 kr %
Tómatar 7.782 46 11.320 38 19.105 41
Bufftómatar - - - - 570 1
Gúrkur 3.954 23 7.065 24 11.564 25
Paprika, græn 755 4 1.699 6 3.005 6
Paprika, rauð - - 336 1 284 1
Sallat 775 5 1.296 4 2.288 5
Steinselja 196 1 352 1 708 2
Hvítkál 1.371 8 3.467 12 3.022 6
Blómkál 1.027 6 1.900 6 2.007 4
Gulrætur 1.099 6 2.166 7 3.369 7
Kínakál - - - - 703 2
Alls 16.959 99 29.601 99 46.625 100

 

Hér kemur fram að verðmæti tómata- og gúrkuræktar er langmest. Paprika er ný­leg afurð, en er farin að skila verðmæti á borð við salat, gulrætur og blómkál. Kál­ið er ræktað úti og mest í hlýjum jarð­vegi.

Verðlækkun á innlendum afurðum við lækkun tolla

Athugum hvernig almenningur hefur brugðist við, þegar íslenskir garðávextir koma á markaðinn og eru dýrari en inn­fluttir. Heildsöluverð á kartöflum sem fluttar voru inn í júlí 1983 var 14,03 kr. Innlendar sumarkartöflur kostuðu þá 25,70 kr. í heildsölu eða 83% meira. Heildsöluverð á kartöflum sem fluttar voru inn í júlí 1984 var 22,03 kr. Innlend­ar sumarkartöflur kostuðu þá í heildsölu 41,50 kr. eða 88% meira. Neytendur eru löngu vanir slíkri hækkun. Viðbrögð almennings eru trúlega þau að fagna því að fá ferskar innlendar afurðir, en verðið veit fólk að á eftir að lækka verulega með haustinu. Þó telja kunnugir að stórir kaupendur eins og mötuneyti hirði ekki um að útvega sér nýjar íslenskar kart­öflur meðan til eru erlendar kartöflur, ef þær eru ódýrari, og birgi sig upp af þeim.

Sölufélagið hefur verðlagt fyrstu grænmetisuppskeruna þannig, að hún kostaði álíka mikið og innfluttu afurðirnar sem þá eru á boðstólum. Þeir sem best til þekkja gera ráð fyrir að lækkað inn­flutningsverð sem leiddi af lækkuðum tolli, mundi þrýsta verðinu á fyrstu inn­lendu uppskerunni niður í sama hlutfalli þrátt fyrir þá reynslu að verð á íslenskum kartöflum hækkar langt upp yfir verð á erlendum kartöflum sem eru á boðstól­um samtímis. Má það vera rétt skilið, enda fólk trúlega næmara fyrir verði á grænmeti en á kartöflum. Þó þykir ekki útilokað, að byrja mætti með innlendu af­urðirnar í heldur hærra verði en innfluttar afurðir, eftir að þær hefðu lækkað í verði vegna lægri tolla, þar eð innlendar afurð­ir þykja betri. Sennilegt er, að stórir kaupendur eins og mötuneyti muni öðr­um fremur sæta lagi og birgja sig af inn­fluttum afurðum, ef búast mætti við því að verð á innlendum afurðum yrði fljót­lega hærra, og mundi það halda niðri verðinu á innlendu grænmeti. Þegar frá líður og innflutta varan er þrotin, má ætla að verðmyndun innanlands verði óháð því verði sem var á innfluttu vörunni. Á sumum tegundum hefur verð lækkað, en á öðrum haldist óbreytt til hausts. Hér verður reynt að ætlast á um hversu mikið verð gæti lækkað við lækkun tolla úr 70 í 20% og hversu mikið það gæti skert tekjur framleiðenda.

a. Tómatar

Þegar innlendir tómatar koma á markað, eru þeir fyrst á líku verði og innfluttu tómatarnir. Þeir lækka síðan í verði með auknu framboði. Lækkun á tolli úr 70 í 20% mundi lækka verð á innfluttum tómötum hjá Sölufélaginu um 25-26%. Er þá gert ráð fyrir að heildsöluálagning haldist óbreytt (9%), enda er hér aðeins um stuttan tíma að ræða og ekki við því að búast að álagningarprósentu sé breytt þess vegna. Hér verður reiknað með að sama hlutfall haldist á verði inn­fluttra tómata og fyrsta verðs á innlend­um tómötum. Sá þrýstingur á verð inn­lendra tómata sem verður með lægra verði á innfluttum tómötum, ætti ekki að haldast lengur en þar til innlent framboð hefði lækkað verðið jafnmikið. 25-26% lækkun á heildsöluverði svarar til 30­-31 % lækkunar á verði til framleiðenda. Verð á innlendum tómötum var fyrst skráð í aprílbyrjun árin 1982, 1983 og 1984 og hélst óbreytt til maíloka, en lækkaði þá um 25% fyrsta árið, en hin árin um 30%. Þá var nokkuð um liðið frá því að innfluttir tómatar seldust upp. Verðlækkun í raungildi er að vísu meiri vegna verðbólgu, einkum fyrstu tvö árin. Það er því verðmæti framleiðslunnar í mars, apríl og maí sem gæti skerst við slíkan þrýsting utan frá. Það er nokkuð breytilegt frá ári til árs, hvernig verðmæti til framleiðenda skiptist á einstaka mán­uði (tafla 4).

Tafla 4. Verðmæti tómata eftir mánuðum (%)
  1981 1982 1983
Janúar 0 - 0
Febrúar   - -
Mars   - -
Apríl 0 2 1
Maí 14 17 19
Júní 25 19 18
Júlí 20 18 14
Ágúst 15 18 19
September 12 12 14
Október 9 9 9
Nóvember 4 4 5
Desember 0 0 0
Í 1.000 kr: 7.782 11.320 19.105

 

Í apríl og maí hafa bændur fengið um fimmta hluta verðmætis ársuppskerunn­ar. Það er sá hluti framleiðslunnar, sem kemur á markað, áður en aukið framboð innanlands hefur lækkað verðið jafnmik­ið og tollalækkunin mundi lækka verð á innfluttum tómötum, sem gæti lækkað í verði vegna lægra verðs á innfluttum tómötum. Ef 20% ársuppskerunnar lækka í verði um 30%, skerðist verð­mæti hennar um 6% (30x0,2). Sumir halda, að setja mætti heldur hærra verð á íslenska tómata en á innflutta, eftir að verð innfluttra tómata hefði lækkað vegna lægri tolla, þar eð íslenskir tómat­ar þykja betri, aðrir halda að fyrsta verðið gæti haldist lengur, þegar lægra væri byrjað. Ekki þykir ósennilegt, að verð­skerðingin yrði helmingur af því, sem hér hefur verið reiknað, þótt erfitt sé um að spá. Þá mundu tapast 3% af verðmæti uppskerunnar. - Sölufélagsmenn gera ekki ráð fyrir að verðþrýstings utan frá mundi gæta að neinu ráði á haustin, þegar farið er að flytja inn tómata aftur. Verðbólgan gerir tvö strik í ofangreindan reikning, en þau draga hvort í sína átt­ina: Verðlækkun um 25% á vorin vegna framboðs innanlands er í raunvirði meiri vegna rýrnunar gjaldmiðilsins. Það tekur því skemmri tíma en hér er reiknað með að ná þeirri lækkun sem áætlað er að verðlækkun á innfluttum tómötum valdi. Hins vegar er hlutdeild fyrstu mánað­anna í verðmæti uppskerunnar vanmet­ið.

Athuga ber að 3% skerðing á verðmæti er miklu hærra hlutfall af ráðstöf­unartekjum heimila framleiðenda. Hvernig mundu tómatabændur bregðast við verðlækkun á fyrstu uppskerunni? Sumir þeirra leggja í talsverðan kostnað við að flýta fyrir vextinum með því að sá snemma, jafnvel í byrjun desember, og ala upp við rafljós. Er það einmitt gert til þess að koma sem mestu á markaðinn snemma, áður en verð lækkar vegna aukins framboðs. Þannig var fyrsta skráð verð í ár (3. apríl) 135 kr., en var komið í 95 kr. 28. maí. Einn þessara bænda fékk 31 % tekna sinna í apríl og maí 1983, en þá var meðaltal Sölufé­lagsmanna 20% (tafla 4). Hann hefði fengið 9% minni tekjur, ef hann hefði haft sömu hlutfallslega dreifingu á magni frá mánuði til mánaðar og var að meðal­tali hjá þeim sem seldu í Sölufélaginu. Ætla mætti, að þeir sem þannig búa vildu spara sér aukakostnað og aukafyrirhöfn, ef fyrirsjáanlegt væri að verðlag lækkaði hlutfallslega í apríl og maí og hættu að ala upp við rafljós. Það mundi þrengja enn frekar markaðinn á miðju sumri og þrýsta verði þar niður. Gæti þá svo farið, að fyrstu viðbrögð markaðsins lækkuðu verðmæti framleiðslunnar um talsvert meira en 3%. Lakari afkoma mundi svo draga enn frekar úr framleiðslunni með því að þeir sem væru að því komnir að hætta tómatarækt gerðu það fyrr en ella og eins mundi draga úr mönnum að hefja tómatarækt eða auka við sig. Þannig mundi draga úr framboði og það létta á markaðnum á sumrin, eftir að inn­fluttu tómatarnir eru búnir, og verðið lyftast. Til lengdar má því ætla að verð­mæti til framleiðenda gæti haldist full 97% af því sem verið hefur.

b. Gúrkur

Verðmæti framleiðslunnar dreifist meira á árið en á tómötum (tafla 5).

Tafla 5. Verðmæti gúrkna eftir mánuðum (%
  1981 1982 1983
Mars 6 5 7
Apríl 17 14 10
Maí 12 12 15
Júní 15 18 14
Júlí 17 18 17
Ágúst 13 14 17
September 11 12 12
Október 7 7 6
Nóvember 1 1 1
Desember 0 - -
  3.954 7.065 11.564

 

Heildsöluverð á innfluttum gúrkum mundi lækka um 26% með sömu for­sendum og reiknað var með hér að framan. Samsvarandi verðlækkun á inn­lendum gúrkum leiddi af sér um 30% verðlækkun til framleiðenda. Fyrstu gúrkurnar komu á markaðinn 8.-10. mars undanfarin 3 ár. Árið 1982 leið fram til um 26. apríl, að gúrkuverð lækkaði og þá um 29%, árið 1983 var fyrsta lækkun 7. apríl (29%), en í vor sem leið varð fyrsta verðlækkun 25. maí (32%). Inn­flutningur stöðvaðist þessi ár um það bil viku eftir að innlendar gúrkur komu á markaðinn. Verð á innfluttum gúrkum ætti því tæplega að vera verðmyndandi fram í maí. Ætla má að aukinn þrýstingur af innflutningi lækkaði verðið í mars og apríl, þegar fimmti hluti verðmætanna hefur fengist. 30% lækkun á 20% verð­mætanna svarar til 6% skerðingar á verðmæti ársuppskerunnar. Sömu rök eiga við gúrkurnar og tómatana um að skerðingin yrði minni en hér er reiknað. Þykir ekki ósennilegt að hún yrði 3%.

c. Paprika

Paprikuuppskeran dreifist líkt á árið og tómatar (tafla 6).

Tafla 6. Verðmæti grænnar papriku eftir mánuðum (%)
  1981 1982 1983
Janúar 0 - -
Febrúar - - -
Mars - 0 -
Apríl 1 4 3
Maí 6 20 16
Júní 20 15 20
Júlí 28 19 17
Ágúst 21 11 22
September 12 18 12
Október 8 9 7
Nóvember 4 4 3
Desember 0 0 0
1.000 krónum: 755 1.699 3.005

 

Heildsöluverð á innfluttri papriku mundi lækka um 27% við lækkun tolls úr 70 í 20%. Sama hlutfallsleg lækkun á fyrsta heildsöluverði Sölufélagsins á innlendri papriku mundi lækka verð til framleið­enda um 32%. Árið 1982 varð fyrst lækkun á innlendri papriku um miðjan júní, en árin 1983 og 1984 hélst verð óbreytt allt sumarið. Ætla verður að verðmyndun innanlands verði óháð inn­flutningsverði fljótt eftir að innflutta paprikan er búin. Sennileg lækkun á tekjum framleiðenda er 2-3%.

d. Hvítkál

Hvítkál er mikilvægasta afurðin sem ræktuð er úti. Meiri áraskipti hafa verið í verðmætishlutdeild hvítkáls en á öðrum afurðum (tafla 3). Uppskerutíminn er skemmri en í gróðurhúsunum (tafla 7).

Tafla 7. Verðmæti hvítkáls eftir mánuðum (%)
  1981 1982 1983
Júlí 14 15 3
Ágúst 31 21 38
September 19 16 34
Október 30 23 24
Nóvember 5 25 0
1 000 krónum: 1.976 3.467 3.022

 

Uppskera varð rýr kalda sumarið 1983, svo að verðmæti í krónum varð minna en árið áður, þrátt fyrir það að verð hélst óbreytt allt sumarið (40 kr. í heildsölu), en árið 1982 byrjaði verðið í 21 kr. og fór lægst í 12 kr. Heildsöluverð mundi lækka 28% við tollalækkun, en það mundi skila 33% lakara verði til framleið­enda. Verð á innlendu káli var fyrst skráð 6. júlí 1982 og lækkaði svo í 15 kr. (29%) 9. ágúst. Árið 1983 var verð fyrst skráð 15. júlí og hélst óbreytt til hausts, eins og tekið hefur verið fram. Árið 1984 var verð fyrst skráð 10. júlí og lækkaði svo 17 dögum síðar um 28%. Árið 1982 kom fjórðungur verðmætisins fyrir fyrstu verðlækkun. 33% verðlækkun á þeim hluta framleiðslunnar svarar til 8% skerðingar á verðmæti ársuppskerunn­ar. Verra er að spá í viðbrögðin árið 1983. Varla hefði verðþrýstingurinn í upphafi leitt til þess, að verð til framleið­enda hefði lækkað á allri uppskerunni um 33%. Hugsanlegt er, að verðið hækk­aði, þegar erlenda kálið þryti. Hins vegar jókst framboð á káli svo snöggt árið 1984, að verðþrýstingur frá erlenda kál­inu hefði horfið á hálfum mánuði.

e. Blómkál

Aðaluppskerutíminn er enn skemmri en á hvítkáli (tafla 8).

Tafla 8. Verðmæti blómkáls eftir mánuðum (%)
  1981 1982 1983
Júní - 0 0
Júlí 12 16 7
Ágúst 47 42 44
September 34 26 34
Október 6 16 14
Í 1 000 krónum: 1.027 1.900 2.007

 

Þarna gætir kalda sumarsins 1983, en þó ekki eins mikið og á verðmæti hvít­kálsins. Lækkun tolls úr 70 í 20% mundi lækka heildsöluverð um 26% og það lækka verð til framleiðenda um 31%. Sumarið 1982 leið rúmur mánuður frá fyrsta verði (6. júlí) til fyrstu lækkunar (9. ágúst, 34%). Sumarið 1983 var verð fyrst skráð 1. júlí og lækkaði svo 22. ágúst (26%). Sumarið 1984 var verð fyrst skráð í júnílok (29. júní) og lækkaði fyrst 21. júlí (36%). Árið 1982 hefði fjórð­ungur framleiðslunnar getað orðið fyrir verðþrýstingi frá innflutta kálinu. 31% lækkun svarar til 8% (25x0,31) skerðing­ar á verðmæti til framleiðenda. Áríð 1983 hefði verðþrýstingurinn getað lagst á allt að 40% framleiðslunnar. 31% lækkun svarar til 12% skerðingar á verðmæti til framleiðenda. Árið 1984 hefði aukið framboð innanlands fljótt eytt áhrifum af verðlækkun á innfluttu káli. Ætla má, að verðþrýstingurinn yrði minni en hér er reiknað, með sömu rökum og um tóm­ata.

f. Höfuðsalat

Höfuðsalat er svo til einvörðungu ræktað innanhúss. Ræktunin hefur verið nokkuð stöðug undanfarin ár og dreifst yfir mik­inn hluta ársins (tafla 9).

Tafla 9. Verðmæti höfuðsalats eftir mánuðum (%)
  1981 1982 1983
Febrúar - - 0
Mars 3 5 4
Apríl 10 10 12
Maí 15 16 15
Júní 14 19 11
Júlí 16 14 16
Ágúst 12 13 13
September 7 11 11
Október 9 7 10
Nóvember 12 5 7
Desember   1 1
Í 1.000 krónum: 775 1.296 2.288

 

Heildsöluverð á innfluttu salati mundi lækka um 25-26% við tollalækkun. Sam­svarandi verðlækkun á innlendu salati mundi lækka verð til framleiðenda um 30-31%. Heildsöluverð á innlendu salati hefur haldist óbreytt allan uppskerutím­ann undanfarin þrjú ár (1982-4). Ekki er sennilegt að innflutningsverðið mótaði innlenda verðið allan tímann. Fyrir getur komið að vanti salat á miðju sumri um stundar sakir vegna óhappa og mistaka við ræktunina, og hefur þá orðið að flytja inn til að fylla í skarðið (nú síðast seint í júní í sumar).

g. Gulrætur

Gulrætur sem ræktaðar eru úti koma til sölu upp úr miðju sumri. Áður fyrr voru gulrætur ræktaðar nokkuð í gróðurhús­um, og komu þær til sölu í maí, júní og júlí, en nú er orðið lítið um slíka ræktun (tafla 10).

Tafla 10. Verðmæti gulróta eftir mánuðum (%)
  1981 1982 1983
Maí 0 1 0
Júní 9 5 2
Júlí 11 5 3
Ágúst 38 38 16
September 10 13 31
Október 24 15 32
Nóvember 9 11 15
Desember   13 0
Í 1.000 krónum: 1.119 2.166 3.369

 

Heildsöluverð á innfluttum gulrótum mundi lækka um 29% við tollalækkun. Samsvarandi lækkun á Sölufélagsgul­rótum mundi lækka verð til framleiðenda um 34%. Verð var fyrst skráð í maí árin 1982 og 1984 og lækkaði svo ekki fyrr en í seinni hluta ágústmánaðar. Árið 1983 hélst verðið óbreytt frá vori til hausts. Ef 20% framleiðslunnar (eins og í júní og júlí 1981) lækkuðu um 34%, lækkaði heildarverðmætið um 6,8%. Sennilega yrði lækkun vegna þrýstings erlendis frá minni en það.

h. Annað grænmeti

Íslenskur blaðlaukur (púrra), selja, kínakál, steinselja og hreðkur hafa haldist í sama verði allt sumarið undanfarið. Heildsöluverð á innfluttum afurðum ætti að lækka um rúm 25% við tollalækkun úr 70 í 20%. Það ætti að þrýsta verðinu á fyrstu innlendu uppskerunni niður um rúm 30%. Hversu lengi þeirra áhrifa kynni að gæta er erfitt að segja. Íslenskt íssalat hefur haldist í sama verði allt sumarið, en aldrei fullnægt eftirspurn og því verið stöðugt í samkeppni við innflutt íssalat. Lægra innflutningsverð gæti lækkað verð til framleiðenda um allt að 30%. Eins er um sveppi, sem hafa verið fluttir inn allt sumarið.

Niðurstaða

Þegar allt er talið sýnast framleiðendur mundu geta tapað um 3-4% af verðmæti grænmetis við þá verðlækkun til fram­leiðenda sem leiddi af lægri tolli. Þetta kann ýmsum að sýnast ekki verulegt, og víst er það minna en búast mátti við í fljótu bragði. Meira varðar, að með þessu breyttist staða garðyrkjunnar frá því að vera í sókn til þess að vera í vörn. Skiptir það auðvitað sköpum á tímum eins og nú, þegar ör þróun er í fram­leiðni. Einkum mundi verðlækkunin bitna á afurðum sem svo lítið er framleitt af, að þær fullnægja aldrei eftirspurn, þannig að ekki er tilefni til að stöðva innflutning. Einnig mundi draga stórlega úr ávinningi tómata- og gúrkubænda af að leggja í kostnað við að sá snemma og ala upp við rafljós. Má því búast við því að þeir hyrfu frá því búskaparlagi, en þeir sem hafa ráðgert að taka það upp, hættu við.

Jöfn framleiðsla árið um kring við rafljós[*]

Í sambandi við ráðagerðir um sjóefna­vinnslu á Reykjanesi hefur verið athug­að, hvort nota mætti umframorku til ræktunar í gróðurhúsum. Fyrirtækið Control Data í Minnesota í Norður-Am­eríku hefur hafið ræktun á grænmeti og blómplöntum innanhúss við rafljós óháð jarðvegi. Ræktunarkerfið kallast Genip­onics og er höfð leynd yfir því. Skoðanir eru skiptar um ágæti aðferðarinnar. Ræktunin er jöfn árið um kring. Ef slík ræktun reyndist hagkvæm hér á landi, mundi hún koma í stað innflutnings að vetrinum, en að sumrinu mundi hún keppa við framleiðslu í gróðurhúsum sem njóta ljóss í gegnum gler. Afkoma slíkrar ræktunar mundi vera allmjög háð verðlagi hér að vetrinum. Lækkun tolla mundi því spilla þar mjög fyrir.

Áhrif tollalækkunar á smásöluverð

Smásöluverð á innfluttu grænmeti mundi lækka 25-29%, ef gert er ráð fyrir óbreyttri smásöluálagningu (%). Búast má við, að svo mikil verðlækkun að vetrinum stuðli að aukinni neyslu grænmetis að vetrinum. Ekki er trúlegt að því fylgi jafn­mikil aukning grænmetisneyslu að sumr­inu, en þá er hún meiri en að vetrinum (ath. sérstöðu jólamánaðarins, sjá töflu 1 og 2), en trúlega mundi það ýta eitthvað undir sumarneysluna og auka eftirspurn­ina eftir íslensku grænmeti og þar með draga eitthvað úr þeirri verðlækkun sem fylgdi tollalækkuninni.

II. BLÓMARÆKT

Land gróðurhúsa skiptist nokkurn veginn til helminga á grænmeti og blóm. Blóma­bændur selja mestan hluta framleiðslu sinnar í Blómamiðstöðinni í Reykjavík. Blómamiðstöðin er hlutafélag 24 blóm­abænda. Aðalafurðirnar eru pottaplöntur og afskorin blóm. Blómamiðstöðin flytur inn nokkuð af blómum ásamt öðrum verslunum. Í innflutningsskýrslum er greint á milli lifandi jurta (pottaplantna og græðlinga), blómlauka og afskorinna blóma. Í töflu 11 er áætluð sala innlendra blóma á heildsöluverði, en innflutningur á innflutningsverði (cif).

Tafla 11. Verðmæti blóma eftir mánuðum 1983-4 (%)
    Innflutningur  
  Innlend Lifandi Afskorin Blóm
  Blóm jurtir blóm laukar
Júlí 6 15 6 0
Ágúst 6 8 - 11
September 7 6 6 40
Október 7 9 3 14
Nóvember 7 11 9 8
Desember 8 1 20 2
Janúar 5 6 12 6
Febrúar 8 6 9 5
Mars 7 10 10 8
Apríl 14 10 16 3
Maí 13 11 4 1
Júní 11 7 5 0
Í 1.000 kr.: 60.738 5.103 2.223 5.895

 

Verðmætistölurnar eru ekki alveg sam­bærilegar. Innlendu blómin eru á heild­söluverði. Til að fá heildsöluverð á inn­flutninginn þarf fyrst að leggja á toll og vörugjald. Tollur er 80% á afskornum blómum, en 40% á pottaplöntum, græðlingum, smáplöntum og blómlauk­um. Á pottaplöntum, græðlingum og smáplöntum er 24% vörugjald, sem leggst á verðmæti vörunnar með tolli. Vörugjald hefur raunar ekki verið inn­heimt af innlendum afurðum af þessu tagi. Síðan kemur 10-15% álagning. — Vegna verðbólgu er verðmætið síðustu mánuði tímabilsins ofmetið í hlutfalli við fyrstu mánuðina. Verðbólga var þó ekki svo mikil á þessu tímabili; að hún brengli samanburðinn á tölunum.

Eins og tekið hefur verið fram, hefur ákvæðis laga um framleiðsluráð um, að innflutningur á landbúnaðavörum fari því aðeins fram, að innlend framleiðsla full­nægi ekki neysluþörfinni, ekki verið gætt nema að nokkru leyti varðandi blóm. Inn­flutningur hefur verið frjáls helming árs­ins (júní-nóvember). Hins vegar hefur nefnd á vegum viðskiptaráðuneytisins takmarkað innflutning hinn helming árs­ins (desember-maí), en ekki með tilvís­un til ákvæðis laga um framleiðsluráð, heldur samkvæmt reglugerð um innflutn­ings- og gjaldeyrisleyfi. Nefndin hefur tekið við umsóknum blómainnflytjenda um innflutningsleyfi, lagt leyfisveitingar sínar fyrir framleiðsluráð, sem hefur til­kynnt viðskiptaráðuneytinu afstöðu sína, en ráðuneytið hefur fylgt áliti framleiðslu­ráðs. Í nefndinni sitja 2 fulltrúar blóma­bænda á vegum sambands garðyrkjubænda, 2 fulltrúar félags blómaverslana og einn tilnefndur af framleiðsluráði landbúnaðarins og er hann formaður.

Blómabændur hafa talið framkvæmd þessara mála viðhlítandi að því undan­skildu, að borið hefur á nokkrum potta­plöntuinnflutningi á sumrin í samkeppni við innlend pottablóm. Athygli vekur í töflu 11, að mikill innflutningur er á lifandi jurtum í nóvember, áður en innflutningur fer undir eftirlit nefndarinnar. Lækkun tolls á pottaplöntum úr 40 í 20% mundi lækka heildsöluverð um 10%. Miðað við, að slík verðlækkun á innfluttum potta­plöntum þrýsti verði á innlendum potta­blómum niður jafnmikið og að heildsölu­álagning á þeim sé 15%, mundi verð til framleiðenda lækka um ein 12%.

Pottaplöntur eru „forgengileg neyslu­vara“, en græðlingar eru rekstrarvara blómabænda og smáplöntur að nokkru. Mætti því hugsa sér, að tollur á græðling­um og smáplöntum yrði felldur niður. Það mundi lækka verð þeirra í heildsölu um 35%; tilsvarandi lækkun á verði til framleiðenda væri 39%. Sumir búast við því, að innflutningur á smáplöntum til sölu í blómaverslunum í samkeppni við innlenda ræktun ykist, ef tollur yrði felld­ur niður á þeim.

Margs konar pottaplöntur eru á boð­stólum erlendis, og yrði seint unnt að full­nægja öllum óskum með innlendri ræktun. Bent er á það, að blómakaup­menn geti mótað smekk fólks, hvort hann beinist frekar að því sem er á boð­stólum af innlendri ræktun eða því sem flytja verður inn. Gætir nokkurrar tor­tryggni meðal blómabænda, að blóma­kaupmenn hafi sumir ástæðu til að halda frekar innfluttum blómum að fólki. Rétt er að vekja athygli á því, hvernig norðmenn veita innflytjendum aðhald í þessu efni (sjá kafla 11). Heimild til innflutnings á pottaplöntum er þar aðeins veitt þeim, sem hafa selt innlend pottablóm að ákveðnu marki miðað við innflutning. Því er um að gera að selja sem mest af inn­lendum pottaplöntum til að fá heimild til innflutnings og halda henni.

Verð á afskornum blómum mundi lækka um 30% við það að tollur lækkaði úr 80 í 20%. Lítið er um slíkan innflutning í samkeppni við innlenda ræktun. Inn­flutningur á afskornum blómum gæti þótt álitlegur sumarmánuðina, ef tollur lækk­aði, þótt hann hafi tæplega komið til greina til þessa.

Núverandi fyrirkomulag á stjórn blómainnflutnings verndar innlenda blómarækt sæmilega vel; brestir kynnu þó að koma í vörnina við lækkun tolla. Hvað sem því líður er skipan mála óeðli­leg samkvæmt gildandi lögum, eins og hér skal gerð grein fyrir. Blómabændur fóru árið 1972 að beita sér fyrir takmörk­un á innflutningi blóma, þegar innlend framleiðsla er á boðstólum, og sneru sér til viðskiptaráðuneytisins í því tilefni. Bar það þann árangur, að viðskiptaráðuneyt­ið setti í reglugerð 370/1974 ákvæði um að innflutnings- og gjaldeyrisleyfis væri krafist við innflutning á blómum mánuð­ina desember til apríl. Í reglugerð 606/ 1982 bættust græðlingar við og maí­mánuður fyrir hvorttveggja, blóm og græðlinga. Áðurgreind nefnd hefur með framkvæmdina að gera. Eins og áður segir hefur verið farið að vilja fram­leiðsluráðs landbúnaðarins við úthlutun innflutnings- og gjaldeyrisleyfa. Í nefnd­inni hafa fulltrúar bænda viljað gera blómainnflytjendum til hæfis. Að öðrum kosti hafa þeir ekki þóst mega treysta því, að nefndin fengi að halda áfram eftir­liti sínu. Með starfi nefndarinnar gefst tækifæri til að koma á framfæri við blómákaupmenn, sem óska heimildar til innflutnings, vitneskju um framleiðslu sem til er, og við blómabændur vitneskju um eftirspurn, sem þeir hafa ekki fullnægt og gætu því aukið ræktun sína. —- Starf nefndarinnar stendur aðeins hálft árið, en enginn hefur framfylgt ákvæði fram­leiðsluráðslaga um skilyrði fyrir innflutn­ingi á blómum sumar- og haustmánuð­ina.

Lögmaður bændasamtakanna rökstuddi með álitsgerð 18. desember 1981, að ákvæði framleiðsluráðslaganna um skil­yrði fyrir innflutningi ætti við blóm sem hverja aðra landbúnaðarvöru. Þegar framleiðsluráð landbúnaðarins og sam­band garðyrkjubænda tóku það upp að fá blómainnflutning takmarkaðan, var það gert með því að snúa sér til viðskiptaráðuneytisins til að fá blóm tekin af svokölluðum frílista. Það var óþarfi að draga viðskiptaráðuneytið inn í málið. Tekið er fram í lögum 63/1979, sem reglugerð um innflutnings- og gjaldeyris­leyfi byggir á, að lögin ógildi ekki önnur lög, sem takmarki innflutning. Þannig hef­ur nýtt kál og annað grænmeti verið á frílista síðan 1957, en vitaskuld hefur innflutningur á káli, gúrkum, rófum og gulrótum ekki verið frjáls. Ekki hefur þurft að leita til viðskiptaráðuneytisins um að taka kál af frílista til að takmarka innflutn­ing, þegar innlent kál er til. Til þess hafa verið önnur ráð. Sá er þó munurinn, að ákveðnir aðilar í nánum tengslum við stjórnvöld hafa þar til í ár einir haft á hendi innflutning á grænmeti, en inn­flutningur á blómum hefur verið í hönd­um verslana sem ekki hafa verið í sér­stökum tengslum við stjórnvöld. Nú síð­ast fól landbúnaðarráðuneytið Græn­metisverslun landbúnaðarins með reglu­gerð 473/1982 að framfylgja ákvæðinu um takmörkun á innflutningi garðávaxta, en ráðuneytið hefur ekki falið neinum að framfylgja þessu ákvæði um afskorin blóm og lifandi jurtir. Lögin um framleiðsluráð eru í sjálfu sér fullnægjandi, en í reglugerð mætti skýra framkvæmd­ina.

Menn hafa haldið, að takmörkun á blóma­innflutningi rækist á þá grundvallar­reglu viðskiptaráðuneytisins síðan 1960, að viðskipti milli landa megi fara fram án gjaldeyris- og innflutningsleyfis, en svo er ekki. Viðskiptaráðuneytið getur ráðið reglugerð um innflutnings- og gjaldeyris­leyfi varðandi blóm og grænmeti, t.a.m. gert innflutninginn óháðan slíkum leyf­um, án þess að trufla ákvæði laga um framleiðsluráð landbúnaðarins um tak­mörkun innflutnings þann tíma, sem nægilegt býðst af innlendum afurðum. Þannig hefur það lengi verið um græn­meti og ætti að mega verða um blóm. Segja má, að blómabændur og þeir sem fluttu mál þeirra árið 1972 hafi villst inn um skakkar dyr í stjórnarráðinu og beðið um það sem óviðkomandi aðila var dýr­mætast; fengu raunar það sem þá skipti mestu. Takmarkanir á innflutningi með tilliti til þess, að nægilegt er boðið fram af innlendum afurðum, eru þó alfarið á ábyrgð landbúnaðarráðuneytisins og framleiðsluráðs landbúnaðarins og eru óviðkomandi valdsviði viðskiptaráðun­eytisins varðandi gjaldeyrisverslun.

III. LÆKKUN KOSTNAÐAR

Garðyrkjubændur hafa rekið sig á það í viðleitni sinni til að bæta reksturinn, að ýmislegt sem þeir kaupa til hagsbóta og til aukinna afkasta er miklu dýrara en í Danmörku og Hollandi. Þeir hafa óttast, að lækkun tolla á garðyrkjuafurðum gæti þrengt kosti innlendrar garðyrkju, og tal­ið réttmætt, að stjórnvöld kæmu til móts við þá að einhverju leyti með því að lækka aðflutningsgjöld á tækjum og rek­strarvöru og fleiri kostnaðarliði, að svo miklu leyti sem það væri á valdi þeirra. Athugun leiddi í ljós, að tollur er nú lítill á ýmsum kostnaðarliðum, sem voru hátt tollaðir til skamms tíma. Ýmis tæki sem notuð eru í vönduð gróðurhús til að hafa stjórn á lofti og raka eru þó enn tolluð nokkuð. Má þar nefna stýriloka í hitalögn ásamt raftöflu með tengingum vegna loftunar, hitastýringar, vinnuljósa og gróðurlýsingar (35% tollur og 24% vöru­gjald á hvorttveggja), áburðarblandara við sjálfvirka blöndun (25% tollur. og 24% vörugjald) og úðara (7% tollur). Samanlögð gjöld (tollur og vörugjald) reynast þó ekki nema meira en í mesta lagi 3% af heildarfjármagnskostnaði við vandað gróðurhús.

Aðeins nokkur hluti af þeim verðmun á tækjum, sem menn hafa rekið sig á hér á landi og í Danmörku og Hollandi, reynist vera til kominn vegna aðflutningsgjalda, heldur vegna kostnaðarsams flutnings og dýrrar verslunar, þar sem oft er um að ræða kaup á aðeins einu tæki til landsins í einu. Bent hefur verið á, að framleiðslu­kostnaður mundi geta lækkað hlutfalls­lega meira með betri tækjum en reiknað verður beint í lækkuðu tækjaverði. Það má rétt vera. Samt sýnist varla geta orð­ið um stórfelldan ávinning að ræða, þar sem slík gjöld hafa numið aðeins litlum hluta af heildarfjármagnskostnaði. Verð­ið ætti því ekki að hafa útilokað hagsýna menn frá því að útvega sér góð tæki.

Líkt er að segja um rekstrarliði. Á græðlingum er 40% tollur, á plöntulyfjum 15% tollur og 30% vörugjald, á blóma­pottum 20% tollur, á ýmsum mælum 35% tollur og 24% vörugjald, en 7% toll­ur á dropaspíss. Ef reiknað er með að hvort tveggja félli niður, tollur og vöru­gjald, mundi það breyta afkomu eins­takra gróðrarstöðva sem hér segir:

 • Pottaplönturæktandi, sem kaupir græðlinga, sparaði 2,5% af tekjum með lægri rekstrarútgjöldum.
 • Stöð með fjölbreytta ræktun (gúrkur, papriku, steinselju, kínakál, íssalat): Rekstarkostnaður minnkaði um 0,1% af tekjum, en um 0,25% af reiknuðum launum.
 • Tveir tómatabændur spöruðu í rekstr­arútgjöld 0,25% af tekjum, en 0,5% af reiknuðum launum.
 • Stöð með tómata og útirækt, mest hvítkál, sparaði í rekstrarútgjöld 0,5% af tekjum.
 • Útirækt á upphituðu landi, mest kál, auk eins gróðurhúss, sparaði í rekstr­arútgjöld 0,8% af tekjum. Stöð með pottablóm og gúrkur sparaði 0,2% af tekjum.
 • Stöð með gúrku, salat og kínakál sparaði 0,5% af tekjum. Rósabóndi sparaði 2,3% af tekjum.

Raforkuverð til gróðurhúsa þykir hátt. Á garðyrkjuskólanum hefur verið athugað með raflýsingu við uppeldi á tómötum. Arðsemin er mjög háð rafmagnsverði. Einnig er að byrja notkun rafljósa á dýrari blóm. Verðlagning á raforku í heildsölu er mikið mál sem varla verður gert nokk­uð með með  tilliti til garðyrkjunnar einn­ar. Í smásölu sýnist mega fylgja því eftir skipulega, að rafveitur bjóði gróðrar­stöðvum næturrafmagn og annað um­framrafmagn á niðursettu verði. Ætti það að vera beggja hagur.

Verð á innfluttu grænmeti og blómum borið saman við verð á innlendum afurð­um vekur spurningar um kostnað útflutn­ingslandanna. Menn hafa talið, að stjórn­völd í Hollandi greiddu niður kostnað garðyrkjunnar og hollenskir garðyrkju­bændur styrktu þannig stöðu sína við útflutning. Hollensk stjórnvöld greiddu niður kostnað við olíu til gróðurhúsa á sínum tíma og einnig kostnað við gas, þegar gas kom í stað olíu. Samningar samtaka garðyrkjubænda og stjórnvalda um verð á gasi á þessu ári snerust um fjármuni sem nema aðeins 1,3% af gasútgjöldum garðyrkjunnar í heild. Á tómata er verðuppbót svarandi til kr. 1,30 á kg. Ekkert hefur komið fram um, að garðyrkja í Hollandi njóti betri láns­kjara en aðrar atvinnugreinar þar í landi. Hér sýnist því ekki vera um slíka fyrir­greiðslu að ræða sem skýri að marki þann mun sem er á verði innlendra afurða og verði í Hollandi.

IV. INNFLUTNINGSVERND NORSKRAR GARÐYRKJU

Þótt innlend garðyrkja njóti hlunninda af hveravatni, býr hún um margt við hlið­stæð skilyrði frá náttúrunnar hendi og hin norðlægari héruð Noregs, Svíþjóðar og Finnlands. Syðst í Svíþjóð eru hins vegar prýðileg skilyrði til garðyrkju og til jafns við frjó og veðursæl héruð Dan­merkur, enda eru ekki hafðar uppi miklar ráðstafanir í Svíþjóð til verndar innlendri garðyrkju. Í Finnlandi er allströng inn­flutningsvernd. Meginreglan er sú, að ekki séu samtímis á markaði innlendar og innfluttar afurðir. Ekki hefur fengist vitneskja um það, á hvaða tíma ársins innlend framleiðsla hefur forgang að markaðnum né hvernig þau tímabil eru ákveðin. Ákvæði eru um, að bindandi vörupöntun eða kaup erlendis frá séu óheimil, fyrr en innflutningsleyfi hafi verið veitt.

Saga innflutningsverndar norskrar garð­yrkju er lærdómsrík í þeirri stöðu sem ís­lensk garðyrkja er nú í. Fyrir heimsstyrj­öldina síðari var tollur mikilvægasta að­gerðin til verndar norskri garðyrkju. Eftir stríð voru ströng gjaldeyrishöft sem tak­mörkuðu mjög innflutning, en síðan var slakað á þeim og þau loks afnumin. Samtímis urðu um það alþjóðleg samtök að gera milliríkjaviðskipti frjálsari. Leiddi það meðal annars til þess, að tollar voru takmarkaðir með alþjóðasamningum, þannig að miklu minna svigrúm varð til að halda uppi innflutningsvernd með tollum. Stöðug verðrýrnun krónunnar leiddi auk þess til þess, að tollurinn, sem yfirleitt er þungatollur, veitti minni vernd.

Þetta var tilefni til þess, að komið var nýju skipulagi á innflutning á kartöflum, grænmeti, ávöxtum, berjum og lifandi plöntum með landbúnaðarsamningi stjórnvalda og bændasamtakanna 1958. Þar notfærði landbúnaðarráðuneytið sér heimild í lögum frá 1934 um tímabundið innflutningsbann o.fl. til að takmarka innflutning grænmetis.

Innflutningur er nú takmarkaður á ferskum afurðum flestra tegunda græn­metis, ávaxta og berja, sem ræktaðar eru í Noregi allt árið eða hluta úr ári, sem hér segir (fellt er úr það sem ekki er ræktað hér á landi svo heitið geti):

 • blaðlaukur
 • blómkál 1/6-14/10
 • grænkál
 • gulrætur
 • gúrkur 10/3-31/10
 • hreðkur
 • hvítkál, rauðkál og toppkál 1/10-31/7
 • jarðarber 9/6-31/3
 • næpur
 • rauðrófur
 • rósakál 21 /9-30/5
 • salat 1/3-30/11
 • silja
 • spínat 1/5-30/9
 • steinselja
 • sveppir, þó ekki ferskir og kældir tómatar 10/5-14/10

Að því er gulrætur varðar hefur Noregur gert viðskiptasamning við Efnahags­bandalagið, þar sem gert er ráð fyrir að flutt séu inn 500 tonn í apríl og maí.

Ofangreind tímabil eru bundin í samn­ingum Noregs við Efnahagsbandalagið og GATT-ríkin, og verða því ekki lengd. (Ísland hefur hins vegar ekki bundið hendur sínar á þennan hátt).

Á vegum landbúnaðarráðuneytisins er sérstakt innflutningsráð fyrir kartöflur, grænmeti, ávexti, ber og lifandi plöntur og plöntuhluta. Ráðið er þannig skipað:

 • landbúnaðarráðuneytið (1 fulltrúi)
 • neytenda- og stjórnsýsluráðuneytið (2)
 • viðskiptaráðuneytið (1)
 • bændafélagið (1)
 • bænda- og smábændafélagið (1)
 • garðyrkjuráðið (1)
 • bændafélagið og bænda- og smábænda­félagið (1)
 • sölufélag garðyrkjumanna (1)
 • neytendaráðið (1)
 • samband kaupfélaganna (1)
 • samband ávaxtaheildsala (1)*
 • samband grænmetis-og kartöfluheilds. (1)'
 • félag blómainnflytjenda (1)*
 • félag niðursuðuverksmiðja (1)*

* Þessir sitja fund til skiptis eftir því sem sérmál þeirra eru til afgreiðslu i ráðinu.

Landbúnaðarsamningur stjórnvalda og bændasamtakanna er endurnýjaður á nokkurra ára fresti. Hann byggir á sam­þykktum þjóðþingsins um, að stefnt skuli að því, að norsk garðyrkja fullnægi þjóð­inni árið um kring með ýmsar geymslu­þolnar afurðir, en sem lengstan hluta ársins að því er varðar afurðir sem þola síður geymslu.

Forsenda innflutningstakmarkanna er, að norsk framleiðsla fullnægi eftir­spurn innan fastákveðinna verðmarka. Verðmörkin eru ákveðin í landbúnaðarsamningnum. Í upphafi (1958) var miðað við meðalverð þriggja undanfarandi ára. Var það reiknað vikulega sem þriggja vikna keðjumeðaltal. Síðan hefur verðið verið ákveðið í samningum bændasam­takanna og ríkisins með tilliti til reynsl­unnar.

Ríkið og bændasamtökin fara þannig að í verðsamningum sínum, að ákveðið er hversu miklar auknar tekjur garðyrkju­bændur skuli fá í heild með hækkuðu afurðaverði. Landbúnaðarráðuneytið ákveður, hvernig ná skal umsaminni heildarfjárhæð með því að breyta verði einstakra afurða, að fengnum tillögum frá áðurnefndu innflutningsráði.

Ýmislegt hefur ráðið því, hvaða heildar­fjárhæð hefur verið sett í landbúnaðar­samninginn til að breyta umsömdu verði á grænmeti og ávöxtum. Hin síðari ár hefur í vaxandi mæli verið miðað við ákveðið markmið um tekjur framleið­enda. Nefna má eftirtalin atriði sem tekið er tillit til:

- Áætlaður meðalframleiðslukostnaður

- Innflutningsverndin

Með því að hækka sérstaklega um­samið verð á afurðum sem þarfnast öflugrar innflutningsverndar, styrkist samanlögð innflutningsvernd.

- Framleiðslu- og markaðsstjórn

Verðlagninguna má nota til að laga framleiðsluna að markaðnum með því að hækka verð frekar á afurðum sem er rúm fyrir en á afurðum þar sem framleiðslan er fullnægjandi.

- Neytendaverð

Venjulega þykir æskilegt að smásölu­verð sé sem stöðugast árið um kring og frá ári til árs.

Umsamið verð er það verð sem sölufé­lag garðyrkjumanna skal stefna að því að ná, hvorki meira né minna. Til þess að tryggja, að ekki verði gengið á hlut neytenda, er ákveðið efra mark vikuverðs fyrir hverja tegund og er það 12% yfir umsömdu vikuverði. Ef markaðs­verð, sem verðlagsmiðstöð landbúnað­arins skráir vikulega, er tvær vikur í röð yfir efra verðmarki, er innflutningur sjálf­krafa heimill á þeirri afurð. Innflutningur stöðvast 9 dögum eftir að skráð markað­sverð er komið niður á efra verðmark eða niður fyrir það.

Samið er um verð á eftirtöldum afurðum:

Tómötum, gúrkum, hvítkáli, blómkáli, matarlauk, gulrótum, silju, blaðlauk, rauð­rófum, rósakáli, hreðkum, steinselju, salati, sykurertum, baunum, sultugúrkum, eplum, perum og plómum.

Þegar uppskera er verulega meiri eða minni en í meðalári getur landbúnaðar­ráðuneytið breytt umsömdu verði sam­kvæmt tillögu innflutningsráðs.

Ef vöru skortir á markaði, má heimila inn­flutning, þótt efra verðmarki hafi ekki verið náð. Þarf þá að sækja um leyfi til land­búnaðarráðuneytisins. Umsækjendur eru oftast innflutningsfyrirtæki, eins og sölufélag garðyrkjumanna og einkafyrir­tæki með innflutningsumboð, heildsölur eða niðursuðuverksmiðjur. Landbúnað­arráðuneytið leggur málið fyrir innflutn­ingsráðið, sem tekur afstöðu til málsins, en ráðuneytið ræður afgreiðslu.

Innflutningsheimild af þessu tagi er venjulega veitt, þegar innlend framleiðslu er ófullnægjandi um stundar sakir eða allt árið. Þegar slík innflutningsheimild er veitt fyrir ferskar afurðir til neyslu, er innflutn­ingnum skipt milli innflytjenda í hlutfalli við innflutningshlutdeild fyrirtækjanna í hinum ýmsu afurðum undanfarin ár.

Í viðskiptasamningi Noregs og Efna­hagsbandalagsins eru ákvæði sem varða garðyrkju. Þar eru ákveðin tímabil fyrir frjálsan innflutning til Noregs á lif­andi plöntum og plöntuhlutum, græn­meti, ávöxtum, berjum, fræi o.fl., með ákvæðum um visst innflutt magn, um að lækka eða afnema toll, og með fleiri ákvæðum sem varða innflutning á þess­um vörutegundum. Taka verður tillit til þessara ákvæða í því innflutnings- og verðlagskerfi sem ákveðið er í landbún­aðarsamningnum.

Eins og tekið hefur verið fram, er um­samið verð ekki tryggt verð. Markaðs­verð ræðst í reynd af framboði og eftir­spurn. Eru býsna miklar sveiflur á verði frá ári til árs, þótt umsamið verð breytist lítið. Garðyrkjubændur telja því mikils um vert, að því sé stjórnað, að afurðir ber­ist á markað á þann hátt, að umsamið verð náist sem best. Sölufélag garð­yrkjubænda sér um slíka markaðsstjórn. Til þess að standa undir kostnaði við markaðsstjórn er lagt fram fé í landbúnaðarsamningnum. Þar er helst um að ræða verðuppbætur á afurðum til niðursuðuverksmiðja, útsölu á ákveðnu magni við sérstök tækifæri, vissa verð­tryggingu við birgðasöfnun og útflutn­ingsuppbætur. Fé, sem lagt er fram til þessara þarfa, telst að mestu fengið með kjarnfóðurgjaldi.

Varðandi blóm eru engar ráðstafanir í landbúnaðarsamningnum til að stjórna markaðnum.

Til að nýta markaðinn er mikilvægt að geta geymt afurðir eftir því sem þær þola. Bændur geyma sjálfir langmest af grænmetinu og nokkuð af kartöflum. Ávextir eru að miklu leyti geymdir í sam­eiginlegum geymslum ávaxtabænda. Þar eru ávextirnir flokkaðir og búið um þá. Nokkuð af kartöflum er geymt á sama hátt.

Viðskiptaleiðir

Landbúnaðarráðuneytið hafði árið 1983 á skrá 131 innflytjanda á grænmeti, ávöxtum og berjum. Þrjú fyrirtæki sjá um helminginn af innflutningnum. Það eru innflutningsfyrirtæki sölufélags garð­yrkjumanna (Gartnerhallen Import), BAMA og samband kaupfélaganna.

Garðyrkjubændur í Noregi eru um 10.000. Heildsala innanlands er í hönd­um sölufélags garðyrkjumanna, sem er samvinnufélag, og í höndum heildsala í einkaeign og sambands kaupfélaganna. Sölufélag garðyrkjumanna er í 150 deild­um og hefur 48 stöðvar um land allt til að selja afurðir, búa um þær, geyma og frysta. Reglan er sú, að framleiðendur séu félagar í deild á svæði sínu og selji fast hjá sölufélaginu. Samband kaupfé­laganna hefur heildsölu á grænmeti, ávöxtum og berjum með 9 geymslur við stærstu bæina. Aðrir heildsalar eru um 100 talsins, og er BAMA þar langstærst og starfar líkt og sölufélag garðyrkju­manna.

Styrkir

Verulegir styrkir eru veittir til tómata- og gúrkuræktar. Drýgst er svokölluð fram­leiðsluuppbót, sem er verðuppbót á hvert kíló framleitt fyrir 10. júlí. Uppbótin var í vor kr. 2,40 (norskar) á kíló af tómötum, allt að 35 tonnum á framleiðanda, og kr. 0,60 á kíló af gúrkum, allt að 60 tonnum á framleiðanda. Þar sem styrkurinn er bundinn við vor og fyrri hluta sumars, örvar hann til framleiðslu á þeim tíma, sem innflutningur fer fram, en það er varðandi tómata fram undir maílok. Þessar ráðstafanir lækka einnig verð til neytenda á vorin. Einnig er veittur flutningsstyrkur á tómata, en tiltölulega mikið af norskum tómötum er ræktað í Rygja­fylki og því dýrt að senda þá til þéttbýlis­ins austanfjalls eða norður eftir.

Einnig eru veittir styrkir til að lækka kostnað við rekstrarvörukaup. Allmikil fjárhæð er greidd til að lækka í verði um­búðir um tómata, hvítkál, blómkál, jarð­arber, gúrkur, blaðlauk, salat og kína­kál, ávexti og ber. Umbúðastyrkurinn hefur jafnvel orðið meiri en umbúðaverð. Talið er að slíkar niðurgreiðslur skili sér að miklu leyti í ríkissjóð með réttara framtali á tekjum af afurðasölu og betri skilum á opinberum gjöldum.

Loks er að geta styrkja sem notaðir eru til að efla garðyrkju í Norður-Noregi. Eru þeir miðaðir við stærð ræktaðs lands og hafa verið 3.500-4.500 kr. á hektara fyrir kartöflur og gulrófur, 5.000-6.500 kr. fyrir grænmeti og 6.000-7.000 kr. fyrir jarðarber.

Eftirfarandi reikningur búnaðarhagstofu Noregs fyrir líkan af tómatabúi lýsir vægi ofangreindra styrkja. Búið er 1.800 fer­metrar með 1,357 ársverk.

Tekjur
45.880 kg af tómötum á 11,75 kr.              539.090
Aðrar sölutekjur 2.126
Framleiðsluuppbót á 20.810 kg á kr. 2,40 49.944
Umbúðastyrkur á tómata: 44.960 kg á kr. 0,63 28.325
Flutningsstyrkur á tómata: 28.900 kg á kr. 0,25 7.225
Framleiðsluuppbót í garðyrkju: 18 stig á kr. 85 1.530
Orlofsstyrkur: eitt ársverk 4.500
Afleysingastyrkur 5.160

Af þessum tekjum er áætlað, að í hlut vinnunnar komi 218.531 kr., en af því eru 96.684 kr. uppbætur og styrkir. Framleiðsluuppbótin er reiknuð í stigum á áætlaða eðlilega vinnuþörf í hverri grein garðyrkjunnar.

Blóm

Sérstök stofnun, innflutningsmiðstöð garðyrkjuvarnings (Importsentralen for gartneriartikler), gerir tillögur til landbún­aðarráðuneytisins um hvað talið er nauðsynlegt að flytja inn samkvæmt al­þjóðasamningum og landbúnaðarsamn­ingi stjórnvalda og bændasamtakanna. Miðstöðin hefur stjórn á innflutningnum. Stjórn innflutningsmiðstöðvarinnar er skipuð 7 fulltrúum eftirtalinna samtaka:

 • blómabænda innan sambands garðyrkju­bænda (2 fulltrúar)
 • garðyrkjustöðvafélagsins (2)
 • sambands blómakaupmanna (2)
 • félags garðfrækaupmanna (1)

Innflutningsmiðstöðin styðst við eftirfar­andi reglur:

 1. Innflutningur er frjáls á sírenugreinum, mímósugreinum, genistagrein­um, brönugrösum, anímónum o.fl.
 2. Innflutningur er frjáls á laufi, blöðum, greinum, grasi, mosa, o.s.frv., fersku, þurrkuðu, lituðu, bleiktu og vörðu á ýmsan hátt.
 3. Innflutningur er frjáls á eftirtöldum blómategundum:
  1. Nellikum 1. nóvember-5. maí
  2. Rósum 1. nóvember-31. mars
  3. Fresíum 1. desember-31. mars
  4. Krysantemum 15. desember-15. mars
 4. Frá október til aprílloka má veita leyfi til að flytja inn ýmsar tegundir afskor­inna blóma, þó ekki blóm undir 3. lið né ýmis laukblóm.
 5. Í maí má flytja inn laukblóm með leyfi.

Leyfismagni er skipt á garðyrkju­stöðvarnar og er þar miðað við fyrra leyfismagn og þróun mála í einstök­um héruðum og í landinu-öllu.

Langur listi er um pottaplöntur vegna leyfisinnflutnings á þeim. Eru þar annars vegar blómplöntur og græðlingar, þar sem innflutningur er háður leyfi árið um kring. Á listanum eru flestar mikilvæg­ustu plöntur sem ræktaðar eru hér á landi. Hins vegar geta viðurkenndir innflytjendur flutt inn skrautplöntur án leyfis frá 15. desember til 30. apríl. Frá 1. maí til 14. desember er innflutningur háður leyfi. Undan þessu eru teknar allmargar plöntur, sem norsk ræktun er enn betur tryggð á.

Réttindi til innflutnings á blómum og öðrum plöntum

Innflutningsmiðstöðin tekur við umsókn­um um innflutningsréttindi á plöntum og skýrir ráðuneytinu frá afstöðu sinni til þeirra, en ráðuneytið veitir réttindin. Inn­flytjendur á garðplöntum skulu reka garðyrkjustöð undir stjórn garð­yrkjufræðings. Nánari ákvæði eru um lágmarksstærð stöðvarinnar. Eftirfarandi skilyrði eru til að verða viðurkenndur innflytjandi á pottaplöntum:

 1. Umsækjandi skal sjálfur rækta potta­blóm í gróðurhúsi og standa fyrir öllu sem tengt er framleiðslu og heildsölu á pottaplöntum. Ræktun skal fara fram árið um kring á minnst 1400 fer­metrum.
 2. Viðurkenningu má aðeins veita um­sækjendum sem geta sannað, að þeir rækti sjálfir pottablóm, sem eru að verðmæti í hlutfalli við innflutt magn eins og 2,5/1.
 3. Fyrirtækið skal vera undir stjórn garð­yrkjufræðings.
 4. Umsækjandi skal hafa fullnægjandi gróðurhús til að geyma plöntur. Geymslurými skal vera í eðlilegu hlutfalli við það sem framleitt er og flutt inn, svo að tryggt sé að afurðirnar geti geymst án þess að skemmast.

Innflutningsmiðstöðin skráir innflutt magn af hverri tegund. Hvorki stjórn stöðvarinnar né aðrir í atvinnugreininni hafa aðgang að skýrslum miðstöðvar­innar um einstaka innflytjendur.

Álit forystumanna

Brenna, framkvæmdastjóri sambands garðyrkjubænda, og Tærum, for­stöðumaður innflutningsmiðstöðvarinn­ar, höfðu eftirfarandi að segja um inn­flutningsverndina:

Ræktun afskorinna blóma nýtur full­nægjandi verndar, en á þeim er frjáls innflutningur að vetrinum. Verð hækkar nokkuð, þegar norsk blóm koma á mark­aðinn, einkum á nellikum. Er fundið að því í dagblöðum á hverju vori, en látið þar við sitja.

Sömuleiðis þykir fullnægjandi vernd fyrir pottablóm og græðlinga. Innflutning­ur á grænum plöntum er hins vegar frjáls að vetrinum, og er það samkvæmt samningi við Efnahagsbandalagið.

Tollvernd er veigalítil. Samband garð­yrkjubænda hefur lagt til, að í stað þungatolls, sem verið hefur, verði tekinn upp verðtollur (4%, en 1% gagnvart Efnahagsbandalaginu) til að fylgja verðbólgu og einfalda tollkerfið. Almennt tal­að er innflutningsverndin á grænmeti og blómum fullnægjandi.

Norskir tómatar eru komnir á markað um það bil mánuði áður en innflutningur er stöðvaður. Æskilegt er, að talsvert sé til af norskum tómötum hálfan mánuð, áður en lokað er fyrir innflutning, og nóg, þegar hann er stöðvaður. Þeir sem nota ljós við tómatauppeldi sá milli jóla-og nýárs. Þar dregur úr mönnum, að hitinn er dýr og að innflutningur er frjáls langt fram á vor samkvæmt samningi við Efnahagsbandalagið.

Umsaminn verðferill (umsamið verð frá viku til viku) byggir á reynslu, en hefur verið breytt til að auka framleiðslu á gúrkum á haustin og til að draga úr lauk­ræktun. Engin verðferill er fyrir blóm með verðmörkum sem heimila innflutning, en í innflutningsmiðstöðinni fylgjast menn með því, hvort þörf er fyrir innflutning og heimila hann, ef svo sýnist. Nokkuð er legið á innflutningsmiðstöðinni með að rýmka innflutninginn. Þar vilja menn vera liðlegir; fulltrúar bænda óttast ella að missa þau áhrif, sem þeir hafa til að halda hlut innlendrar blómaræktar.

Fyrir nokkrum árum var olíustyrkur til gróðurhúsa, en hann hefur verið felldur niður. Rafmagnsverð er í heildsölu 2-3 aurar og bætast við 8-9 aurar í smásölu til gróðurhúsa þegar umframorka er í landinu, en það er til jafnaðar 8 ár af hverjum 10. Er það hálft olíuverð. Mælt er með því, að menn hafi útbúnað til að geta fullnægt 60% af hitaþörfinni með raforku.

Hvernig nota má verðlagninguna

Með verðlagskerfi norskrar garðyrkju gefst tækifæri til að stilla af heildarfram­leiðslumagn í meðalári, skipta kostnað­inum milli neytenda og stjórnvalda og beina framleiðslunni í ákveðin héruð, með þessum ráðum:

 1. Ef efri verðmörk eru lág miðað við framleiðslukostnað, má ýta undir ræktun með verðbótum, umbúða­styrk, framleiðsluuppbót og orlofs- og afleysingastyrkjum. Þannig lækkar verð á innlendum tómötum, eplum, perum og jarðarberjum og eftirspurn eftir þeim helst betur í samkeppni við suðræna ávexti.
 2. Efri verðmörk takmarka kostnað neytenda.
 3. Með flutningsstyrk er framleiðslunni beint til héraða, sem eiga langt á markað, og til norðlægra héraða með framlögum á garðland.

V. ÞJÓÐFÉLAGSLEG SKILYRÐI GARÐYRKJUNNAR

Meginforsenda garðyrkju er í ákvæði laga um framleiðsluráð landbúnaðarins um forgangsrétt innlendrar framleiðslu. Rök löggjafans fyrir því ákvæði kunna að vera ólík eftir afurðum. Ætla má, að grænmetisrækt sé talin meira virði en blómarækt. Benda má þó á, að viðbún­aður til ræktunar grænmetis er fólginn í öllum gróðurhúsum, til hvers sem þau kunna að vera notuð á líðandi stund, en einnig í almennri verkkunnáttu garð­yrkjumanna.

Hugmyndin um lækkun tolla á neysluvöru er að þessu sinni ekki komin til með tilliti til atvinnumála, líkt og var með að­ild landsins að Fríverslunarbandalagi Evrópu og viðskiptasamningi þess við Efnahagsbandalagið. Lækkun tolla á grænmeti og blómum sýnist ekki mundu valda stórfelldri röskun á starfsskilyrðum garðyrkjunnar, að því tilskildu, að forgangsrétturinn, sem fólginn er í ákvæði laga um framleiðsluráð landbúnaðarins, bregðist ekki. Uggur er í garðyrkjubænd­um um áhrif tollalækkunar, ekki síst fyrir það, að hugmyndin um tollalækkun kom fram um sama leyti og umrót varð á inn­flutningsverslun með grænmeti. Ríður því á miklu, að komið verði á því verslun­arlagi sem spilli ekki í reynd ákvæðinu um forgangsrétt innlendrar framleiðslu. Hættan er sú, að ákvæðið bregðist, ef innflytjendur hafa hagsmuni af að ryðja innlendri framleiðslu frá. Ef verðmunur er, má skírskota til stundarhagsmuna neytenda, og meiri hætta er á verðmun, ef tollar eru lækkaðir, þótt innlend garð­yrkja njóti áfram verndar vegna langra flutninga og dýrrar verslunar frá útlönd­um.

Benda má á það fyrirkomulag á innflutn­ingsversluninni, sem sýnist geta tryggt forgangsákvæðið. Mestu sýnist varða, að þeir sem versla með garðyrkjuafurðir í heildsölu, hafi ekki hagsmuni af því, að innflutningur verði á kostnað innlendrar framleiðslu. Sýnist mega girða fyrir það með því fyrirkomulagi, sem er í Noregi á pottaplöntuinnflutningi. Þar eru sett skil­yrði til þess að mega flytja inn pottaplönt­ur og þar á meðal það, að viðkomandi versli með innlendar pottaplöntur að vissu marki. Þetta mark mætti breytast eftir heildarhlutfalli innlendrar fram­leiðslu og innflutnings, t.a.m. með keðju­meðaltali nokkurra ára. Sá, sem vildi treysta innflutningsréttindi sín, hefði þá hagsmuni af því að selja sem mest af innlendum afurðum. Mætti innflutningur þá vera frjáls hverjum þeim, sem næði ákveðnu hlutfalli á sölu innlendra afurða og innflutnings.

Varðandi innflutning þann tíma, sem taka þarf tillit til væntanlegrar innlendrar uppskeru, má benda á fyrirkomulag norðmanna, þegar sérstök innflutnings­heimild er veitt á þeim tíma, sem innlend framleiðsla hefur forgang, en fullnægir ekki markaðnum. Þá er innflutnings­magninu skipt milli innflytjenda í hlutfalli við innflutningshlutdeild fyrirtækjanna í hinum ýmsu afurðum undanfarin ár. Eins kæmi til greina að skipta innflutnings­heimildinni á þeim tíma, sem innflutning­ur og innlend framleiðsla skarast, í hlut­falli við hlutdeild fyrirtækjanna undanfar­in ár í sölu innlendra afurða.

Ef menn vilja láta innlenda garðyrkju halda hlut sínum, má gera það með því að lækka kostnað og verð á þeim tíma, sem lægra verðs á innflutningi gæti gætt, þ.e. fyrstu vikur uppskerutímans. Það má gera með því að stjórnvöld lækki rafmagnsverð til gróðurhúsa til að hvetja menn til að rækta snemma, en sú fram­leiðsla lendir einmitt í samkeppni við inn­flutninginn. Einnig má benda á verðupp­bót að vorinu, líkt og norðmenn gera með tómata og gúrkur. Varðandi nýmæli sem eru allt sumarið í samkeppni við innflutning, þar eð innlend framleiðsla fullnægir ekki eftirspurn, má benda á hvernig norðmenn efla garðyrkja í Norð­ur-Noregi í samkeppni við grænmeti að sunnan með styrk á garðland.

Öðru máli gegnir um lækkun kostnað­ar við garðyrkju almennt á þeim tíma sem innlend framleiðsla hefur óskertan forgang. Af sumum afurðum er þegar svo mikið framboð, að aukin framleiðsla vegna lægri framleiðslukostnaðar, m.a. ódýrara fjármagns, mundi þrýsta verði niður og sennilega ekki verða til hags­bóta fyrir framleiðendur í heild, þótt það gæti orðið til ávinnings í bráð og lengd þeim sem hefðu sérstakar ástæður til að hagnýta sér slík hlunnindi.

HEIMILDIR:

Innlent stjórnarfar

Lög um Framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskrán­ingu, verðmiðlun og sölu á landbúnaðarvörum o.fl. Stjórnartíðindi A, 95/1981.

Reglugerð skv. ofangreindum lögum. Stjórnartíðindi B, 465/1983.

Reglugerð um Grænmetisverslun landbúnaðarins og mat og flokkun kartaflna og annarra garðávaxta. Stjórnartíðindi B, 473/1982.

Álitsgerð um 3. mgr. 3. gr. laga nr. 101/1966 um Fram­leiðsluráð landbúnaðarins o.fl. 18. desember 1981. Eftir Guðrúnu Margréti Árnadóttur, lögfræðing bændasamtakanna.

Reglugerð um frjálsan innflutning og gjaldeyrissölu. Stjórnartíðindi B, 1511957.

Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Steingríms Hermanns­sonar 26. maí 1983.

Samkomulag stjórnarflokkanna um aðgerðir í efna­hags- og atvinnumálum og um breytingar á stjórn­kerfi 6. september 1984.

Fjármálaráðuneytið.

Tollstjórinn í Reykjavík.

Viðskiptaráðuneytið.

Almennt um garðyrkju og verslun með afurðir hennar

Ráðunautar Búnaðarfélags Íslands, Axel Magnús­son og Óli Valur Hansson.

Sölufélag garðyrkjumanna. Þorvaldur Þorsteinsson framkvæmdastjóri. Skýrslur félagsins og verðreikn­ingar á afurðum og rekstrarvöru. Grein Þorvalds um markaðsmál garðyrkjuafurða í riti Orkustofnunar OS82027/JHD03: Nýting jarðhita við garðyrkju. Ráðstefna 2. desember 1980.

Blómamiðstöðin. Skýrslur og verðreikningar. Sveinn Indriðason framkvæmdastjóri.

Grænmetisverslun landbúnaðarins. Skýrslur og verð­reikningar. Gunnlaugur Björnsson framkvæmda­stjóri.

Samband garðyrkjubænda. Gerðabók stjórnarinnar. Formaður stjórnarinnar, Bjarni Helgason, aðrir stjórnarmenn, ásamt Kjartani Ólafssyni ráðunaut, ritara stjórnarinnar.

Guðmundur Stefánsson hagfræðingur Stéttarsam­bands bænda.

Grétar Unnsteinsson skólastjóri á Reykjum í Ölfusi. Magnús Óskarsson kennari á Hvanneyri. Árni Kristjánsson ræðismaður Hollands. Efnaver. Verðreikningar. Sverrir Vilhjálmsson. Blómaval. Verðreikningar. Bjarni og Kolbeinn Finns­synir.

Félag blómaverslana. Sigríður Ingólfsdóttir formað­ur.

Rekstur garðyrkjustöðva

Athuganir á 23 garðyrkjustöðvum á Suður- og Vesturlandi og reikningar 14 þeirra.

Sundurliðun Byggingarstofnunar landbúnaðarins á matsverði gróðurhúsa, dags. 18.IX.1984, endurskoðuð af garðyrkjuráðunautum Búnaðarfélags Íslands.

Rafljós við garðyrkju

Marktaxti Rafmagnsveitna ríkisins og skipting raf­orkunotkunar í landbúnaði. Framsöguerindi Guð­mundar Guðmundssonar á ráðstefnu um orkunotk­un og orkusparnað 7. apríl 1983 á vegum orku­sparnaðarnefndar iðnaðarráðuneytisins, landbún­aðarráðuneytisins og Búnaðarfélags Íslands. Raflýsing tómata. Hagkvæmnisathugun. Garðyrkju­fréttir nr. 122. Garðyrkjuskóli ríkisins. 1984. Geniponics. Control Data Corporation 8/1982, Guðmundur Einarsson verkfræðingur.

Harry Langvatn: Konsekvensene av industriell pro­duksjon av grønnsaker. Ås-NLH, júní 1984.

Garðyrkja í Danmörku og Hollandi

En fremtidig gartneripolitik. Betænkning nr. 854 fra Landbrugsministeriets udvalg vedrørende de Euro­pæiske Økonomiske Fællesskabers politik pá frugt­ og gartneriproduktområdet. Kaupmannahöfn 1978. - Bilag til betænkning nr. 854. Kaupmannahöfn 1979.

Uppkast að greinargerð landbúnaðarráðuneytisins i Danmörku um málefni garðyrkju: Kapitel 4. Udvikl­ing, status og fremtidsudsigter. Kapitel 5. Elementer af betydning for gartneri- og frugtavlserhvervets fremtidige udvikling.

Thor Lind Haugstrup fulltrúi í danska landbúnaðar­ráðuneytinu.

Hollandsk naturgas. Gartner Tidende 1285, 40/1984.

Garðyrkja í Noregí

Omsetningssystemet for grønnsaker, frukt og bær. Norges offentlige utredninger 1983: 55. Importvemet for norske hagebruksprodukter. Bréf frá Norges bondelag, dags. 23.VIII.1984.

Per Ofstad og Morten Sollerud, landbruksavdelingen, landbruksdepartementet.

Norsk gartnerforbund. Hans Kr. Brenna framkvæmda­stjóri.

Norges landbruksøkonomiske institutt. Reiknilíkan. Knut Repstad garðyrkjuhagfræðingur.

Per Ove Røkholt og Kjell Aksnes, Institutt for land­bruksøkonomi, Norges landbrukshøgskole.

Handelsavtalens konkrete bestemmelser for hage­bruket. Meldingsblad for tillitsmenn innen      Norges Bondelag nr. 6, desember 1973.

Regier for produksjonstillegg i jordbruket 1984. Land­bruksdepartementet.

Forskrifter for godkjenning av importörer av planter og plantedeler. Fastsatt av landbruksdepartementet 24. januar 1980.

Avtale mellom landbruksdepartementet og import­sentralen for gartneriartikler i forbindelse     med im­portreguleringen av blomsterløk og levende planter og plantedeler. 1973. Viðtal við Ragnar Tærum framkvæmdastjóra.

Jordbruksavtalens normalpriser og øvre prisgrenser for poteter, grønnsaker og frukt gjeldende fra 1. juli 1984: Landbrukets priscentral.

   Innflutningur garðyrkjuafurða til Finnlands

Bréf frá finnska sendiráðinu dags. 26. nóvember 1984 (lofað gögnum um stjórn garðyrkjumála). Licensverket. Kvantitativa begränsningar inom Fin­lands utrikeshandel år 1984.

Finlands författningssamling: Margs konar lög, reglu­gerðir og tilskipanir bárust varðandi eftirlit með inn­flutningi (heilbrigði og meðferð afurðanna).

Rannsóknastofnun landbúnaðarins, skýrsla um störf 1982-1984, fjölrit 110 1985 145-6.

[*] Rannsóknastofnun landbúnaðarins tók að sér að kanna málið fyrir landbúnaðarráðuneytið. Höfundur vann verkið og lauk skýrslunni í desember 1984.