Kúabændur gerast þurrabúðarmenn

Sveitafólki þykir flestu kýr harður húsbóndi. Menn eru því farnir að leita einhverra úrræða til þess að geta um frjálst höfuð strokið. Í Vatnsdal er mér sagt frá því, að einir átta bændur, sem áður áttu margar kýr í fjósi, séu nú orðnir þurrabúðarmenn og fái mjólk senda heim með mjólkurbílnum, þegar hann kemur frá Blönduósi. Þessir menn hafa haft aðstöðu til að koma sér upp fjárbúum af viðunandi stærð. Að sjálfsögðu getur þetta ekki leyst vandann, því að mjólkina verður að framleiða og mjólkurframleiðslan hlýtur að verða mikilvægasta atvinnan í sveitunum. Ég ætla hér að reifa nokkrar leiðir, sem tiltækar virðast til að gera kúabændum kleift að lifa eins og frjálsir menn.

 

Fylgir ófrelsi samvinnufjósum?

Samvinnufjós hafa talsvert verið rædd. Í þeim má koma við vaktavinnu og veita mönnum tækifæri til að víkja sér frá um lengri eða skemmri tíma. Bændur, sem reka samvinnufjós, mundu hafa líka vinnuaðstöðu og fjósamenn hafa nú á stórum kúabúum. Þeir hafa nú margir reglubundið frí. Sveitafólk þekkir aðstöðu þeirra og getur sjálft dæmt um það, hvort hlutskipti þeirra sé gott. Mér skilst, að svo þyki ekki. Að minnsta kosti eiga þeir stórbændur, sem halda fjósamenn, í miklum erfiðleikum með mannahald. Ef samvinnufjós ættu að leysa þennan vanda, mundi það kosta geysimikið fjármagn. Mjólkin úr samvinnufjósunum mundi síðan rýma burt annarri mjólk og þvælast fyrir öðrum mjólkurframleiðendum og þjóðarbúinu með afleiðingum, sem við þekkjum nú í sumar. Við getum því sagt, að samvinnufjósin geti á engan hátt fullnægt þeim óskum, sem við þau eru tengd. Það þykir greinilega ekki eftirsóknarvert að vinna sem fjósamaður eða launþegi við búskap, Því fylgir nefnilega annað ófrelsi, sem er ágætlega túlkað af kúabónda í blaðaviðtali nýlega, þar sem hann segir: „Einn höfuðkosturinn við að vera í sveit, er einmitt sá, að maður getur sér að skaðlausu eytt dagstund eða jafnvel degi með fólki, sem mann langar til að tala við. Þetta höfum við fram yfir kaupstaðafólkið, sem alltaf er að fara í eða úr mat eða ná í vinnuna í tæka tíð og er alveg bundið af klukkunni, þó að það langi til að ræða við mann.“ Það sem ég hef sagt hér um samvinnufjós á einnig við um annan stórbúskap, þó að hann sé rekinn í öðru félagsformi.

 

Á þriðja hundrað félagsbú á landinu

Önnur lausn, sem margir binda nokkrar vonir við, er félagsbúskapur. Slík bú, þar sem tveir eða fleiri giftir bændur stóðu að búi, voru fyrir tveimur árum á þriðja hundrað með um fimm hundruð bændum, og ef tekin eru þau bú, þar sem ógiftur bóndi stendur að búi með öðrum, verða þeir enn fleiri. Samvinna þessara félagsbænda er misjafnlega náin. Algengast mun vera, að heyskapurinn sé í samvinnu, en hitt er einnig víða til, að gripahirðing sé sameiginleg. Eiginleg sameign mun vera sjaldgæf, en er þó til. Þó að aðeins heyskapurinn sé unninn í fullri samvinnu, eiga bændurnir óhjákvæmilega hægara en einyrkjar með að rétta hver öðrum hjálparhönd, þegar út af ber með gegningar. Ég hygg, að almennt sé litið svo á, að fólk lifi betra lífi á félagsbúunum en á einyrkjabúunum. Hvers vegna eru slík vinnubrögð þá ekki almennari? Félagsbúin eru tiltölulega algengust í Vestur-Ísafjarðarsýslu, í Strandasýslu, í Suður-Þingeyjarsýslu og í Árnessýslu, og þó er þar mikill munur milli sveita og jafnvel sveitarhluta. Menn hafa ýmsar skýringar á þessum mun. Sumir tala um mismunandi upplag, aðrir um mismunandi félagshyggju. Um þá hluti vil ég ekki dæma. Ég hygg, að önnur skýring sé eðlilegri og líklegri til árangurs.

 

Hverjir standa að félagsbúum?

Ef betur er gáð að, hverjir standa að félagsbúunum, kemur upp, að með einni undantekningu er hér um fjölskyldubúskap að ræða. Í tveimur af þremur tilvikum standa að búinu tveir ættliðir, oftast feðgar, og í einu tilviki af þremur standa að búi bræður eða mágar. Á sautján búum voru þrír giftir bændur og á fjórum voru þeir fjórir. Hér er því ekki um annað að ræða en að svo lífvænlegt hefur þótt í þessum sveitum eða sveitarhlutum, að sonur eða dóttir hefur viljað taka við af föður, áður en hann var að þrotum kominn, og að bróðir vill deila jörð með bróður eða systur. Samvinnan er síðan eðlileg afleiðing af því, að bændurnir búa á sömu jörð, eru aldir upp á sama heimili og hafa vanist því, frá því að báðir gátu valdið vettlingi, að ganga saman að verkinu. Hitt er svo annað mál, að sumir eru þannig gerðir, að þeir verða að búa fyrir sig. Enn aðrir hafa svo ólíka aðstöðu með tilliti til vinnuafls, að skiptin verða mjög erfið, ef saman er staðið, en almenna reglan er samt sú, að sveitafólki vex svo í augum örðugleikar einyrkjabúskaparins, að það vill vinna saman innan fjölskyldunnar, ef nokkur búskapargrundvöllur er fyrir fleiri en einn á jörðinni.

Eins og ég nefndi áðan, er aðeins eitt dæmi um það, að tveir óvandabundnir giftir menn búi saman. Ég er ekki tilbúinn á þessu stigi að dæma um það, hvort óhugsandi sé, að slík vinnubrögð geti orðið almennari. Það er alltaf hægt að hugsa sér ráðstafanir, sem gætu ýtt undir samrekstur almennt, þannig að einnig óvandabundnir bændur tækju upp samvinnu. Spurningin er aðeins, hvort þær ráðstafanir stönguðust á við önnur markmið í landbúnaðarmálum. Áður en lengra er haldið, hef ég því þurft að gera mér grein fyrir því, hvernig frelsisbaráttu kúabænda er háttað um þessar mundir, ef ég má komast svo að orði.

 

Frelsisbarátta kúabænda

Í sveitunum er alltaf nýtt fólk að komast á legg og gamalt fólk að draga sig í hlé. Búskapurinn krefst þess, að alltaf sé tiltækt fólk til að hlaupa upp á, ef út af ber. Það verður því að vera í sveitunum dálítið af fólki, sem ekki er bráðnauðsynlegt, að væri við búskap, ef vinnuþörfin væri jöfn og veikindahætta eða önnur forföll þekktust ekki. Eins og ég hef nefnt, er þetta varalið of lítið í flestum sveitum, en þó er það mjög misjafnt. Best er ástandið, þar sem búskapurinn þykir svo lífvænlegur, að fólk hefur efni á því, að börnin staðnæmist heima einhvern tíma, eftir að þau eru orðin vinnufær og eldri kynslóðin þarf ekki að rýma til fyrir börnunum jafnskjótt og þau vilja taka við búi. Einnig er til stórbóta, að góð atvinna sé í sveitinni utan búskaparins, þannig að menn geti búið heima og unnið utan bús. Hér má nefna vegavinnu, byggingarvinnu, skólastörf bæði kennslu og annað, trúnaðarstörf fyrir sveitarfélög og önnur félög sveitafólks, móttöku ferðamanna, sláturstörf, akstur og viðgerðir og ýmiss konar iðnað, þótt í smáu sé. Allt á þetta sinn þátt í að halda í sveitunum þessu bráðnauðsynlega varaliði við búskapinn. Hér skiptir einnig máli, að skólakerfið sé svo þjált og í því samræmi við lifnaðarhætti í sveitunum, að unglingarnir geti rétt hjálparhönd, ef út af ber. Allt þetta er til að minna á, að búskaparaðstaðan er samtvinnuð öðrum atvinnulegum og félagslegum aðstæðum í sveitunum.

 

Búin stækka til að halda í unglingana

Við skulum gera okkur grein fyrir því, hvernig bændur reyna hver fyrir sig að leysa þessi mál. Hér áður fyrr létu margir bændur sig dreyma um að hafa svo stór bú, að þeir gætu haldið mann. Á þeim árum var búskapurinn miklu fjölþættari en nú er, þannig að nauðsynlegustu gegningar voru minni hluti af verkunum en nú. Þau verk, sem varð af náttúrulegum ástæðum að vinna á stundinni, voru því tiltölulega minni en nú er og varaliðið meira. Ég veit ekki nema suma bændur dreymi enn um að halda mann, og er það þó sjaldan látið uppi. Um þessar mundir hygg ég, að það sé algengast, að menn láti sig dreyma um það, að börnin skríði ekki úr hreiðrinu, áður en þau eru orðin fleyg. Menn hafa því í frammi viðleitni til þess að gera búið svo stórt, að það geti haft unglingana á framfæri og veitt þeim atvinnu, þegar þeir eru ekki í skóla. Aðrir leitast við að stækka búið svo, að það geti staðið undir tveimur fjölskyldum á því tímabili, þegar báðir ættliðirnir eru í fullu fjöri.

 

Allsherjarkapphlaupið og markaðsmálin

Það, sem er sameiginlegt þessum þremur markmiðum bændanna, draumnum um að halda mann, viðleitninni til að veita unglingunum aðstöðu til að staðnæmast heima einhvern tíma milli skólaskyldu og hjúskaparstofnunar og félagsbúamálinu er, að menn hyggjast vinna að sínu markmiði með sömu ráðum. Ráðið er alls staðar að rækta meira, byggja útihús og auka bústofn. Þetta leiðir af sér allsherjar kapphlaup í sveitum. Þeir, sem tekst að auka við sig hraðar en meðaltalið, ná sínu markmiði að einhverju leyti, en hinir sitja eftir með sárt ennið og brjótast um í sömu sporum alla ævi. Í heild leiðir bústækkunin til þess að veikja aðstöðu bænda á markaðnum. Stundum kemur það fram í mynd innvigtunargjalds, stundum í beinu verðfalli, en oftast á þann hátt, að bændum tekst ekki að fá viðurkennda kostnaðarliði sína að öllu leyti, af því að viðsemjendur þeirra finna enga hvöt í markaðnum til að koma lengra til móts við bændurna. Út frá mjög þröngu hagfræðilegu sjónarmiði væri ekkert við þessari bústækkun að segja, ef hún stæði undir sér, en eins og kunnugt er, er raunin önnur. Bústækkunin er borin uppi af jarðræktarstyrkjum, þannig að nokkur hluti af kostnaðinum við bústækkunina er ekki með í dæminu, þegar einstaklingarnir leggja það niður fyrir sér, hvað borgi sig að stækka búið mikið og stækka þá búið meira en þeir mundu gera, ef þeir bæri sjálfir allan kostnað af bústækkuninni.

Aukið fjármagn í landbúnaðinum þýðir, þegar upp er staðið, aukin afköst á mann. Aukin afköst á mann þýða að óbreyttum markaðsaðstæðum að atvinna í sveitunum minnkar, það er að segja það verður enn óhægara en nú er að hafa til taks það varalið, sem verður að vera til taks við kúabúskapinn og nauðsynlegt er, ef menn eiga að geta um frjálst höfuð strokið, tekið þátt í því menningarlífi, sem kostur er á og dregið af sér, þegar heilsufar krefst þess. Allt þetta vil ég biðja þá að hafa í huga, sem af góðum vilja hafa viljað bæta aðstöðu sveitafólksins. Ef til vill er mönnum ætlaður of mikill skilningur með þessu. Það er svo undarlega erfitt að skilja, að það geti verið árekstur milli hagsmuna bænda sem einstaklinga og hagsmuna sveitafólks í heild. Okkur finnst svo skemmtilegt að trúa því, að við hjálpum bóndanum best með því að leggja honum í hendur sem mest af fjármagni og gáum ekki að, ef við gerum þetta fyrir alla bændur, að afköstin aukast meira en markaðurinn, og þar með þrengist einnig hagur þessara einstaklinga, sem við höfðum upphaflega í huga.

 

Stækkun búanna leysir ekki vandann

Má ég reyna að skýra það nánar, hvað það er, sem veldur því, að málið verður ekki leyst með því að stækka búin með það í huga, að menn geti haldið mann eða með því að koma á félagsbúskap með því að tvöfalda bústofn og ræktun á jörðinni. Það liggur í augum uppi, að þessi lausn er ágæt að því leyti, að þeir, sem hafa búið þannig í haginn fyrir sér eru á ýmsan hátt frjálsari en aðrir. Hins vegar er jafnljóst, að út í algera ófæru yrði farið í markaðsmálum bændanna, ef allir reyndu að leysa vanda sinn á sama hátt. Þetta eru því lausnir, sem eru því aðeins góðar, að einungis fáir noti sér þær, og það geta ekki talist góðar lausnir. Ef menn reyndu almennt að nota sér þær, er hætt við, að markaðsmálin yrðu bændunum og þjóðarbúinu svo þungbær, að þeir sem ætluðu sér að halda mann, hefðu ekki efni á því og sætu uppi mannlausir, en með tvöfalt bú, og þeir, sem ætluðu að búa í félagi, fyndu að búið framfleytti aðeins einum, og einyrkjarnir ættu ekki annars úrkosti en skila tvöföldum afköstum til að standa undir því mikla fjármagni, sem í búið væri komið. Þetta er ekki hugarburður minn. Þessa má þegar sjá dæmi, ef menn eru nógu kunnugir. Það er grunur minn, að sumir þeir bændur, sem nú eru að fækka kúm og koma upp einhliða fjárbúi, hafi í upphafi ætlað sér að halda mann til að hirða kýrnar eða féð, en það orðið þeim ókleift.

 

Skipulagðar afleysingar

Það, sem ég hef hér sagt, kann að stangast á við þær skoðanir, sem hæst hefur borið í landbúnaðarmálum undanfarið. Ég geri ekki ráð fyrir, að stutt tímaritsgrein skipti sköpum í þeim efnum. En ég hef ofurlitla von um, að kappið verði minna, að einhver grunur læðist að mönnum, að samhengi hlutanna sé ekki eins einfalt og látið hefur verið. Mér virðast tímarnir hagstæðir til þess. Ég vil því enda mál mitt með því að drepa á úrræði í vandræðum kúabænda, sem menn gætu orðið sammála um, hvort sem menn aðhyllast túlkun mína á málunum hér á undan eða ekki.

Skipulagðar afleysingar í fjósi má framkvæma án nokkurra skipulagsbreytinga í landbúnaðarmálum að öðru leyti og án þess að draga meira fjármagn inn í landbúnaðinn. Það má hugsa sér, að hreppsfélag, sýslufélag, búnaðarsamband eða mjólkursamlag ráði til sín fjósamann, sem leysti bændur af, þegar nauðsyn bæri. Starfið yrði að vera vel borgað, til þess að hæfir menn fengjust í það, enda mætti borga vel, ef maðurinn leysti aðeins af, þegar brýn nauðsyn bæri til. Starfið yrði lærdómsríkt, en ónæðissamt til lengdar. Ég veit því ekki, hvort auðveldara yrði að fá menn til starfans en nú er að fá fjósamenn til venjulegra fjósaverka, en greiðslugetan yrði meiri, þegar margir stæðu á bak við. Einnig kemur til greina, að nokkrir bændur, sem búa í nágrenni hver við annan hefðu fjósamann saman. Hvorttveggja þekkist í Noregi og Svíþjóð, þó í smáum stíl sé, og raunar einnig hér á landi. Við skulum þó ekki mikla fyrir okkur þetta úrræði. Hversu almennt það má nota er undir því komið, að kúabúskapurinn geti staðið undir slíku mannahaldi. Ef hins vegar kúabúskapurinn er svo arðbær, að hann getur staðið undir afleysingamönnum. svo um muni, verður hann einnig svo arðbær, að fólk hafi efni á því að halda það varalið á heimilunum, sem ég ræddi áðan. Ber því allt að sama brunni.

 

Félagsbú á völdum jörðum

Hér að framan varaði ég við því, að menn hugsuðu sér að gera félagsbúskap að almennri reglu í sveitunum. Það er eins og alkunnugt er ekki svigrúm fyrir tvær fjölskyldur á hverri jörð markaðsins vegna og vegna þeirrar aukningar, sem verður á hverju ári. Hins vegar má finna leið til að slíkum félagsbúum fjölgaði nokkuð frá því sem nú er, ef menn vildu sérstaklega þær jarðir, sem hafa þegar svo mikla áhöfn, að búið nálgast það að vera einni fjölskyldu ofraun, og efldu bændur á slíkum jörðum sem þess óskuðu, til þess að halda íbúðarhúsnæði þannig að tvær fjölskyldur gætu séð sér farborða á jörðinni án verulegrar framleiðsluaukningar. Ef félagsbúamálinu er haldið innan þessa ramma, getur það orðið hið mesta þjóðþrifamál, þó að það geti ekki leyst vanda allra í þessum efnum.

 

Aukið fjármagn — minni atvinna

Ég vil því að endingu minna á, að engin almenn lausn finnst á þessu máli, nema tekið sé tillit til þess, að aukið fjármagn í landbúnaðinum þýðir minni atvinna í sveitunum í heild, þó að málið kunni að horfa öðru vísi við af sjónarhóli þess einstaklings sem í framkvæmdum stendur. Vandinn er að finna slíka lausn, og hana hef ég ekki getað fundið nema mjög takmarkaða eins og sjá má.

Búnaðarblaðinu 6 (1966) 262-6, 272