Útvarpserindi flutt á bændaviku 1962, breytt lítils háttar

 

I

Síðast liðið sumar lauk ég námi við landbúnaðarháskólann á Ási í Noregi. Sem lokaverkefni var mér falið að skrifa ritgerð um opinber afskipti af íslenskum landbúnaði frá lokum síðasta stríðs. Þeir, sem sjá um bændaviku útvarpsins, báðu mig að segja hlustendum frá athugunum mínum. Það er rétt að taka það strax fram, að það, sem hér verður sagt, eru engin vísindi, heldur lauslegt rabb um tvo þætti þessa máls, nefnilega fjárfestingarstefnuna og verðlagsmálin, en þó mun ég ekki ræða verðlagsgrundvöllinn, eins og venjulega er gert, heldur aðrar hliðar á verðlagsmálunum.

Það þarf ekki að lýsa því fyrir sveitafólkinu, sem borið hefur hita og þunga dagsins, hvaða breytingar hafa á orðið í landbúnaðinum þetta tímabil, en í stórum dráttum er mest af því, sem við búum nú við, til orðið eftir stríð. Meiri hluti túnanna og fjósanna, svo til allar vélar og drjúgur hluti af bæjarhúsum og fjárhúsum á uppruna sinn á tímabilinu. Samtímis hafa margar jarðir farið í eyði, þó ekki samfellt nema einn heill hreppur, en í staðinn hefur verið reist svo mikið af nýbýlum, að nú mun meira en tíundi hver sveitamaður eiga heima á nýbýli.

Fjárfestingin hefur verið geysilega mikil, meiri en nokkurt tímabil fyrr hér á landi, og meira að segja meiri en í nokkru vestrænu ríki. Hagfræðingar Efnahagssamvinnustofnunarinnar í París hafa bent á þetta og talið ofrausn. Mér vitanlega hafa þeir ekki gert tilraun til að rökstyðja þetta öðru vísi en með því að benda á meðaltöl frá Evrópu, sem sýna, að fjárfesting í landbúnaði er minni á meginlandinu en hér. Ef hugmyndin með starfi þessara erlendu sérfræðinga er, að þeir reikni út og segi fyrir, þangað til meðaltal allra meðaltala er eins í öllum löndum, þá má eflaust víða taka til hendi hér á landi, áður en því marki er náð.

Þó að ástæða sé til að gera lítið úr meðaltalsútreikningum Parísarbúa, þegar rætt er um íslenskan landbúnað, og ekki víst, að sérfræðingarnir eflist að visku, þó að þeir flytji til Brussel, er ekki þar með sagt, að við höfum hitt á mundangshófið, og hvorki gert of né van. Um það verður líklega ekki sagt. Við skulum samt líta á, hvaðan það fjármagn hefur komið, sem landbúnaðurinn hefur notað. Samkvæmt uppgjöri á framkvæmdaáætlun Stéttarsambands bænda síðast liðinn áratug, var tæpur fimmti hluti fjárfestingarinnar gerður fyrir lánsfé úr Ræktunarsjóði og Byggingarsjóði, 12% fyrir ríkisfé, eins og þar er reiknað, en hvorki meira né minna en rúmlega 2/3 af öllum framkvæmdunum er gert fyrir eigið fé og vinnu bændanna sjálfra, ásamt því, sem fyrningar á eldri framkvæmdum og aukning á öðrum skuldum en stofnlánaskuldum gaf. Þetta er athyglisvert og sýnir um leið, að Búnaðarbankalánin hafa fyrst og fremst orðið til þess, að bændum var kleift að koma verkunum í framkvæmd, en sjálfir hafa þeir lagt fram drýgsta hlutann af þeirri vinnu og því fjármagni, sem til þurfti. Sú vinna hefði sennilega að mestu verið glötuð þjóðfélaginu að öðrum kosti og eigið fé bændanna að miklu leyti orðið eyðslueyrir.

Framkvæmdirnar hafa sem sagt verið geysilega miklar, en ekki síður mismiklar eftir héruðum. Bústofnsaukningin, sem orðið hefur á tímabilinu frá 1945 til 1960, ætti að vera nokkuð góður mælikvarði á framkvæmdamagnið. Að meðaltali hefur bústofninn aukist um 50%. Þar sem áður voru 10 hausar í fjósi, eru nú 15, og, þar sem voru 200 ær, eru nú 300. Mest hefur bústofninn aukist í Húnavatnssýslu og Suður-Þingeyjarsýslu, en einnig mikið í Skagafirði, Eyjafirði, Borgarfirði og á Suðurlandsundirlendinu. Hins vegar hefur bústofninn dregist saman í tveimur sýslum, Norður-Ísafjarðarsýslu og Gullbringusýslu, og yfirleitt er lítil aukning vestan lands frá Snæfellsnesi að Húnaflóa og einnig á Austurlandi.

Að nokkru leyti stafar þetta af því, að landkostir eru ólíkir, en þó ekki nema að nokkru leyti. Til dæmis er mest aukning í Suður-Þingeyjarsýslu, og er hún þó harðbýlt hérað. Hér hefur einnig nokkuð að segja, hvað sauðfjárpestirnar höfðu grassérað mikið í hverri sýslu árið 1945, sem miðað er við, en fyrst og fremst virðist munurinn stafa af samgönguleysi og af því, að mjólkurbú hefur vantað, enda hefur verðhlutfallið milli mjólkur og kjöts verið sauðbændum óhagstætt að minnsta síðari hluta tímabilsins. Þegar svo ójöfnuðurinn er kominn á, helst hann við og bilið breikkar milli búanna, af því að getan til að stækka búin eykst að sama skapi, sem búið er stærra, þar sem drjúgur hluti stækkunarinnar er gerður fyrir eigið fé bóndans, eins og áður er að vikið.

Nú er eðlilegt, að menn spyrji, hvort það geri nokkuð til, þó að þróunin hafi orðið svo ólík frá einum landshluta til annars og frá einni sýslu til annarrar. Ég geri ráð fyrir, að menn séu sammála um, að það sé óréttlátt, að menn gjaldi lakari aðstöðu, ef þeir eiga ekki sök á því sjálfir, hvernig komið er, eins og hér virðist í höfuðdráttum. Auk þess nýtist vinnuafl bændastéttarinnar lakar, ef margir sitja með lítil bú og fáir með stór bú. Það fæst yfirleitt ódýrari framleiðsluaukning, þegar lítið bú er stækkað en þegar stórt bú er stækkað. Breytingin, sem gerð var á landnámslögunum árið 1957, þar sem veitt var aukaframlag til nýræktar á jörðum, sem höfðu minna en 10 hektara, virðist því bæði hafa verið réttlát og leiða til hagkvæmari framleiðslu.

Ekki má gleyma eyðijörðunum. Það er vanaviðkvæði hjá þeim, sem telja eftir það fjármagn, sem farið hefur til landbúnaðarins, að minna á eyðijarðirnar og það tjón, sem þjóðin hefur bakað sér með því að leggja fé í þessar jarðir. Í þessu er dálítill sannleikur fólginn, en þó ekki nema brot úr sannleik. Ef koma á í veg fyrir slík mistök, verður að vita fyrirfram, hvaða jarðir muni fara í eyði og helst hvenær þær muni leggjast í eyði, og það verður að vera kleift af pólitískum ástæðum að mismuna bændum á þennan hátt. Loks má ekki gleyma því, að það geta liðið tíu, tuttugu, þrjátíu ár þangað til umrædd jörð fer í eyði, eftir því hvernig stendur á fyrir ábúanda, og þangað til yrði vinnuafl hans illa nýtt, ef engar framkvæmdir yrðu gerðar á jörðinni. Það er því ekki til önnur leið til að koma í veg fyrir mistökin en taka bóndann upp af jörðinni með valdi, og hver vill það? Annars er þetta ekkert stórmál. Bændur bera ábyrgð á þeim lánum, sem þeir fá, og eiga því mest undir því sjálfir, að vel takist, enda sýna verkin merkin. Framkvæmdir eru undantekningarlítið hverfandi litlar á jörðum, sem farið hafa í eyði, eða jörðum, sem lítil framtíð er í.

 

II

Í nýbýlamálum hefur orðið athyglisverð þróun. Í stríðinu og fyrst eftir stríð var rætt um að koma upp stórum landnámshverfum, þar sem bændur hefðu nána samvinnu við bústörfin. Í hverfunum áttu að vera ekki færri en 10 býli. Um leið voru háværar raddir, sem vildu, að heil byggðarlög yrðu lögð í auðn. Þessar raddir hafa nú hljóðnað, þó að þeir, sem mótuðust á þessum árum, séu sumir enn veikir fyrir slíkum skoðunum. Aldrei hefur þó komið fram, hvernig þessa landeyðingu átti að framkvæma.

Þegar svo lög um landnám voru samþykkt árið 1946, var býlatalan, sem landnámshverfin áttu að hafa, komin niður í fimm og í landnámslögunum frá 1957 var hún enn lækkuð niður í þrjú býli. Í framkvæmd hafa landnámshverfin ekki valdið neinum tímamótum. Hverfisbændur hafa síst meiri samvinnu sín á milli en gerist á bæjum, og hverfisbýlin eru fá, minni en tíundi hluti af öllum nýbýlum á tímabilinu.

Þetta er eðlilegt. Það er mun erfiðara að reisa nýbýli í hverfi en við venjulega jarðaskiptingu, eins og flest nýbýlin hafa orðið til við. Framkvæmdirnar verður að gera í snöggu átaki, bóndinn hefur slæma aðstöðu til að vinna út á við, meðan búið er lítið og íbúðarhúsið verður oftast að sitja fyrir þeim verkefnum, sem eiga að gefa arðinn. Maður, sem hins vegar reisir nýbýli við venjulega jarðarskiptingu, er oftast venslaður fólkinu á gamla bænum, getur búið þar fyrstu árin og haft þar vinnu eða unnið utan bús og fengið aðstoð við skepnuhirðingu og haft afnot af vélum, meðan búið er lítið.

Nýbýlastjórn hefur fengið á áttunda hundrað umsókna um nýbýli á árunum 1947 til 1960. Miðað við bændatölu eru flest nýbýlin í Þingeyjarsýslu og Norður-Múlasýslu, í Árnessýslu og Borgarfjarðarsýslu og í Skagafirði. Umsóknirnar voru flestar miðhluta tímabilsins, en hefur fækkað síðustu árin, enda hefur viðreisnin þyngt nýbýlamönnum fyrir fæti.

Upprunalega var hlutverk nýbýlastjórnar að vinna að nýbýlafjölgun eingöngu. Með landnámslögunum frá 1952 kom ákvæði um, að uppbygging eyðijarða heyrði undir nýbýlastjórn og í lögunum fékk landnámið einnig það verkefni að vinna gegn því, að jarðir færu í eyði bæði með sérstakri aðstoð og með því að ganga eftir því, að ábúðarlögunum væri framfylgt, svo að jarðir legðust ekki í eyði fyrir tiktúrur í eigendunum, þó að ábúendur bjóðist. Hreppsnefndir eiga að sjá um þetta, en láta það oft undir höfuð leggjast af persónulegum ástæðum.

Landnámið hefur enn ekki tekið þetta mál föstum tökum, en þessar breytingar á starfsemi landnámsins eru eðlilegar, því að það eru tvær hliðar á sama máli, bygging eyðijarða, nýbýlin og framkvæmd ábúðarlaganna. Þessi þróun á starfsemi landnámsins er í fullu samræmi við tilgang laganna. Nú þarf að stíga eitt skref enn. Landnámið þarf að taka upp jarðamiðlun, þar sem allir, sem láta jarðir falar, og þeir, sem vantar jarðnæði, geta náð saman og fengið hlutlægar upplýsingar.

Nú er tímabært að spyrja: Var þá nokkurt vit í öllu þessu nýbýlabrölti? Tilgangur landnámslaganna var og að efla byggð í sveitum landsins, eins og þar stendur, og það verður tæplega borið á móti því, að margar sveitir hafa eflst við starfsemi landnámsins. Og tæplega verður sagt, að tilgangur laganna, að efla og auka byggð í sveitum landsins, sé vitlaus, nema þá að fullyrðing standi móti fullyrðingu. Þjóðfélagsvísindin eru því miður enn svo skammt á veg komin, að þau eiga ekki svar við þessu. Ég segi því miður, af því að mér sýnist böndin berist stöðugt að því, að þjóðfélagsvísindin standi með okkur, sem viljum vinna að dreifingu byggðar og á móti samdrætti byggðarinnar. Allt í hófi þó. En hvað sem því líður, þá verða sveitirnar ekki efldar, nema sá atvinnurekstur, sem þar rís, beri sig.

Ég drap á það, að minna hefði orðið úr samvinnubúskapnum en draumóramenn hugðu fyrir tveimur áratugum. Enn eigum við draumóramenn, sem hugsa eins, og ég verð sjálfur að játa, að stundum dreymir mig slíka drauma. En í vöku horfir málið þannig við mér: Ef við lítum á þróun iðnaðarins í löndunum við norðanvert Atlantshaf og í Rússlandi, skilst mér, að okkar rekstrarhættir hafi ekki yfirburði til að framleiða sem mest af iðnaðarvöru. Þetta veldur nokkrum kvíða á Vesturlöndum, sem vonlegt er. Það kemur ekki því máli við, sem hér er til umræðu, hvor heimurinn er betri mannabústaður, sá vestræni eða sá austræni.

Ef við hins vegar lítum á þróun landbúnaðarins í þessum tveimur heimum, horfir málið öðru vísi við. Í okkar heimi eru hin góðu afköst sveitafólks óleysanlegt vandamál. Við reynum að bæta það upp með því að hlakka yfir óförum Sovétmanna, þar sem afköstin eru heldur klén og myndastytturnar falla. Og sannast sagna megum við íslendingar sem matvælaútflytjendur vera fegnir, meðan ekki gengur betur. Því miður.

En ef við athugum, hvað það er, sem skilur í stórum dráttum, þá hafa rússar tekið upp stórrekstur í landbúnaði eins og í iðnaði. Á Vesturlöndum hafa að vísu orðið miklar breytingar á búrekstri, en hér hafa menn á hverjum tíma byggt á því sem er, byggt á bóndanum og býlinu hans, og þau vinnubrögð hafa valdið geysilegum framförum í framleiðsluháttum. Rannsóknir allra síðustu ára hafa sýnt það bæði í Bandaríkjunum og Danmörku, að stórreksturinn, þar sem margir vinna á búinu, stenst fjölskyldubúunum æ lakar snúning. Það breytir að sjálfsögðu ekki því, að búin stækka að löndum og lausum aurum.

Hvað sem öllu þessu líður, er óþarft að telja upp kosti samvinnu í búskap, eins og þeir líta út á pappírnum, og á ýmsum sviðum höfum við íslendingar góða reynslu í samvinnu við búskap, þó að hún nái skammt. Hjalti Gestsson frá Hæli, ráðunautur Sunnlendinga, sagði við mig í haust: „Almennt séð get ég sagt þér, að þau standa alveg upp úr hér í héraðinu þau bú, þar sem fleiri hendur vinna að búinu, þar sem er systkinabúskapur eða fjölskyldubúskapur. Maður tekur eftir því, hvað fólk á félagsbúum hefur það frjálsara, getur tekið þátt í félagslífi og yfirleitt sinnt erindum. En að hvetja fólk til félagsreksturs, sem ekki er venslabundið, það treysti ég mér ekki til. Fólk, sem ætlar að búa saman, verður að nauðþekkja hvert annað,“ sagði Hjalti.

Það væri kostur, að meira hefði verið gert til að reyna hin ólíku stig í félagsbúskap, án þess að ég hafi nokkrar tillögur fram að færa. Það þarf heila kynslóð til að geta dæmt árangurinn og þess vegna ekki ráð nema í tíma sé tekið. Nóg um það.

 

III

Ég s agði hér að framan, að líklega yrði ekki um það sagt, hvort þjóðin hafi eytt of miklu fé í landbúnaðinn eða of litlu. Engu að síður hef ég gert tilraun til að meta, hvaða áhrif þær breytingar, sem orðið hafa á búrekstrinum, hafa haft á það, hversu hagkvæmt bændur reka bú sín. Aðferðin er nýstárleg, en þó hefur enginn, sem ég hef sagt frá henni, talið hana rangt hugsaða, og hún er ekki sem nákvæmust, það játa ég, en í stuttu máli hugsaði ég málið svona:

Árið 1959 gat maður, sem hafði meðaltekjur, fengið 8% meira fyrir þær en árið 1947, en þá gat hann keypt 23% meira af mjólk og kjöti, ef miðað er við framleiðandaverð, þegar leiðrétt hefur verið fyrir óeðlilegar verðbreytingar á kostnaðarliðum. Það er að segja, ef kaupmáttur meðaltekjumannsins hefði staðið í stað almennt, hefði hann samt aukist um 14% gagnvart mjólk og kjöti. Þetta má líka orða öðru vísi: Þjóðarbúið er rekið 8% hagkvæmar árið 1959 en árið 1947, en meðalbúið í landbúnaðinum er rekið 14% hagkvæmar. Eftir þessu ætti landbúnaðinum að hafa skilað helmingi hraðar í áttina til betri framleiðsluhátta en öðrum atvinnuvegum þjóðarinnar. Ég hef gert betur grein fyrir þessum útreikningum í desember- og marsheftum Búnaðarblaðsins, en eins og ég tók fram, er nákvæmnin vafalaust ekki sem best. Meðal annars er gert ráð fyrir, að verðgrundvöllur búvöru hafi verið hlutfallslega jafnvitlaus bæði árin 1947 og 1959.

Ég læt þá útrædd fjárfestingarmálin.

 

IV

Í erindi mínu í gær ræddi ég um það, hvernig íslenskri kornrækt hefur verið haldið niðri með því að halda óeðlilega lágu verði á innfluttu kjarnfóðri. En þetta lága kjarnfóðurverð hefur komið víðar við. Íslenskt hey er sérstök úrvals vara. Úr einum hesti af heyi fáum við 50 fóðureiningar. Danir verða að láta sér nægja 40 fóðureiningar. Við getum fengið 60 fóðureiningar, ef við vöndum heyverkunina og sparað þannig kjarnfóður, en það borgar sig ekki, ef kjarnfóðrið er ódýrt, því að vöruvöndunin kostar dálítið. Sum ár tímabilsins var hey jafnvel lítið ódýrara en kjarnfóðrið, einkum fyrir gengisfellinguna 1950.

Meðan uppbótakerfið ríkti, var ullar- og gæruverð óeðlilega lágt, af því að þær útflutningsuppbætur, sem fengust út á ull og gærur, voru notaðar til að bæta verð á útfluttu kjöti. Bóndi, sem lagði inn 200 kíló af ull, fékk á sinn reikning aðeins 2.000 krónur, þó að verðmæti ullarinnar hafi í rauninni verið 4.000 krónur. Þessi bóndi hagaði sér síðan í samræmi við það, að hann fengi 2.000 krónur fyrir ullina. Það var bæði heilbrigt og eðlilegt, en afleiðingin varð sú, að bændur hirtu ullina illa við rúning, pökkun og geymslu, og það gekk jafnvel svo langt, að því var haldið fram opinberlega, að bændur ættu ekki að smala til rúnings, heldur láta féð ganga í ullu til hausts. Þetta var farið að tíðkast í sumum sveitum, og kannske var það rétt eins og verðlagningin var.

Bændur voru því að vonum skeytingarlitlir um ullina, en það hefndi sín. Það er skammt síðan bandarískir notendur ullar gerðu skaðabótakröfu á hendur evrópskum milliliðum vegna íslenskrar gæruullar, sem þeir höfðu keypt. Ullin var stórskemmd af máli og tjöru. Krafan kom á milliliðina, en áður en lýkur gjöldum við slíks beint eða óbeint, því að varan hrapar í áliti meðal kaupenda.

Það eru ekki aðeins bændur, sem eðlilega hafa vanmetið ullina og gærurnar, heldur einnig þeir, sem fyrir mál þeirra eru settir. Vísindalegar rannsóknir hafa til skamms tíma verið litlar á þessu sviði, en þær byrjunarrannsóknir, sem unnar hafa verið, lofa góðu, svo góðu, að það er ekki hægt að taka fyrir það, að íslenskt sauðfé virðist búa yfir þeim sérstöku eiginleikum, að svo gæti farið, að gærur og ull verði Íslands gull.

Ullar- og gæruverð komst í eðlilegt horf í verðlagsgrundvellinum, sem gilti haustið 1959. Nú er verðmæti þessarar vöru nær 30% af verðmætum sauðfjárafurða.

Hin óeðlilega gengisskráning, sem var mikinn hluta tímabilsins, kom víðar við en á kjarnfóðri, ull og gærum. Æðardúnninn, selskinnin og laxinn urðu einnig fyrir því barðinu.

Stökkin í verðlaginu og síbreytileg verðhlutföll eru eitt aðaleinkenni tímabilsins. Eitt árið fær bóndinn tvöfalt meira fyrir kjötkílóið en fyrir ullarkílóið, tveimur árum síðar fær hann meira fyrir ullina en kjötkílóið, eitt árið er fóðureiningin í heyi næstum jafndýr og í kjarnfóðri, árið eftir er kjarnfóðrið helmingi dýrara, eitt haustið er verð dráttarvélar ekki hærra en það, að árleg fyrning kostar jafn mikið og dýr vinnumaður í einn mánuð, að vori getur þetta breyst þannig, að fyrning á vélinni svarar til vinnumannskaups í hálfan annan til tvo mánuði, og svo fram eftir götunum.

Ég hef lagt dálitla áherslu á að rekja, hvernig verðhlutfallið milli ýmissa kostnaðar- og tekjuliða hefur sveiflast. Ef vel á að vera, verða bændur að geta gert sér grein fyrir verðþróuninni næstu árin, svo að þeir geti gert áætlanir um búreksturinn. Þá skiptir hlutfallið milli hinna einstöku kostnaðar- og tekjuliða öllu máli, en sjálfar tölurnar minna máli. Heilbrigð og næm verðskynjun er einn af nauðsynlegustu eiginleikum viðskiptabóndans, en hún nær ekki að þroskast með því verðhringli, sem hér hefur ríkt. Ef eðlileg verðhlutföll hefðu verið frá stríðslokum, leyfi ég mér að fullyrða, að kornræktin væri nú þegar öflug búgrein, ull og gærur væru í meira áliti en nú er og einnig í meira verði, hlunnindabændur væru betur settir og vélvæðing heyskaparins væri á heilbrigðari grundvelli, einkum væri nýting tækjanna betri og öryggið við heyskapinn meira, af því að leiðin til að nýta tækin betur er að taka upp votheysverkun í stórum stíl.

Ef við lítum á það, hvaða áhrif hin óeðlilegu verðhlutföll hafa haft, þá hafa þau í stórum dráttum auðveldað framleiðsluaukningu á mjólk, einmitt á þeirri afurð, þar sem landbúnaðurinn hefur minnst svigrúm, en dregið úr framleiðslu á þeim afurðum, þar sem landbúnaðurinn hefur mest undanfæri, nefnilega korni, ull og hlunnindaafurðum. Þau eiga því sinn þátt í þeim erfiðleikum, sem landbúnaðurinn á nú við að stríða, sem stafa fyrst og fremst af því, að nauðsynleg framleiðsluaukning hefur hingað til komið sjálfkrafa, án þess að betur hafi þótt þurfa að hlynna að því fólki, sem framleiðslan hvílir á, hvað sem síðar verður.

Þegar öllu er á botninn hvolft, verða kjör bænda hvorki tryggð með mælskulist né barlómi. Þau rök, sem fólk utan landbúnaðarins skilur best allra raka, er það, hvort íslenskir bændur hafi upp á eitthvað að bjóða, sem fólk telur sig hafa þörf fyrir og að þeir vinni verkið betur og ódýrar en aðrir bændur. Mestan hluta umrædds tímabils var gengisskráningu þannig háttað, að svo leit út sem kjöt og mjólk væri dýrara hér en í nágrannalöndunum, ef miðað var við skráð gengi. Leiðrétting á gengisskráningu hefur gert mönnum ljóst, að hér á landi er kjöt og mjólk ódýr vara. Hitt atriðið, hvort þjóðin telur sig hafa þörf fyrir meira af kjöti og mjólk en hún fær með þeim kjörum, sem landbúnaðinum eru búin, er erfiðara viðfangs. Fyrri hluta tímabilsins var ýmist skortur á mjólk eða kjöti. Þegar frá leið fylltist markaðurinn, og við fluttum út talsvert af kjöti. Með réttri gengisskráningu vantar dálítið á, að útflutningurinn gefi grundvallarverð. Eins og er, gefur kindin um 30% minna af sér við útflutning en við sölu innanlands. Og þá er spurningin: Borgar sá útflutningur sig? Svarið fáum við ef til vill hjá sementsverksmiðjunni á Akranesi.

 

V

Í fyrra flutti sementsverksmiðjan út þó nokkurt magn af sementi. Þá upplýstist, að útflutningsverðið væri talsvert lægra en innanlandsverð, jafnvel ekki nema hálft verð eða vel það. Út af þessu varð dálítill hávaði. Íslenskir neytendur vildu fá sama verð og erlendir kaupendur. Verksmiðjustjórnin varði gerðir sínar eitthvað með þessum rökum: Innanlandsneyslan er með núverandi verði um 60 búsund lestir. Við getum framleitt 100 þúsund lestir, ef verksmiðjan er fullnýtt. Innanlandsneyslan eykst hverfandi lítið, þó að við lækkum verðið, því að sement er ekki nema brot af byggingarkostnaði. Verksmiðjan getur ekki borið sig, ef öll framleiðslan er seld á útflutningsverði. Hins vegar er verðið innan lands lægra en innflutt sement mundi kosta. Það borgar sig betur að framleiða 40 þúsund lestir til útflutnings en láta vélarnar standa. Við höfum verksmiðjuhúsin, vélarnar og mannskapinn hvort sem er. og við getum jafnvel grætt svo á umframframleiðslu til útflutnings, að við þolum lægra innanlandsverð.

Málið horfir dálítið líkt við landbúnaðinum. Við höfum nokkur síðustu árin fengið um 3.000 tonn af kjöti umfram innanlandsneyslu. Það er upplagt, að þær 200 þúsund kindur, sem leggja þetta kjöt til, eru ódýrari í rekstri en fyrstu 600 þúsund kindurnar. Það kostar bóndann tiltölulega litla aukalega vinnu að hirða þær 30-40 viðbótarkindur, sem þetta svarar til, og vélakosturinn þarf ekki að aukast að sama skapi. Það hefur ekki verið rannsakað, en það er engu að síður sennilegt, að sá útflutningur, sem verið hefur á dilkakjöti síðan 1955, hafi þannig borgað sig fyrir þjóðina, þó að útflutningsverðið hafi verið lægra en meðalverð til bænda. Árin 1955 til 1957 nægðu gengisyfirfærslur nokkurn veginn til að bæta upp kjötverðið með því að láta kjötið hafa það, sem fékkst út á ull og gærur. Árið 1958 sá Framleiðsluráð fram á, að vegna aukins útflutnings á kjöti mundi þetta ekki nægja og lagði þá gjald á innanlandskjötið til að bæta verðið. Fulltrúar neytenda kærðu verðlagninguna, en töpuðu málinu fyrir hæstarétti, því að gjaldið var nauðsynlegt til að umsamið grundvallarverð til bænda næðist. Þetta var síðan haft að yfirvarpi fyrir átökunum haustið 1959, hvað sem á bak við lá. Upp úr því komu svo nýju Framleiðsluráðslögin, þar sem ákveðið er, að ríkissjóður borgi mismuninn á grundvallarverði og útflutningsverði.

Nú skulum við aftur bera þetta saman við sementsverksmiðjuna. Henni er leyft að mismuna verðinu og jafna út á íslenska neytendur, og það er erfitt að bera á móti því, að þjóðinni er hagur í þessu. Þetta eru raunar viðurkennd vinnubrögð, þegar um útflutningsiðnað er að ræða og aldrei sagt frá verðmismuninum. Landbúnaðurinn stendur að því leyti lakar að vígi, að hann vinnur fyrir opnum tjöldum og ekkert við því að segja, ef allir hefðu þann sið. Auk þess eru þúsundir bænda, sem bjóða vöru sína í samkeppni hver við annan. Sementsverksmiðjan er ein og þarf ekki að spyrja aðra, í öðrum iðngreinum eru að vísu fleiri framleiðendur, en milli þeirra er þegjandi samkomulag um að lækka ekki innanlandsverðið, þó að flutt sé út fyrir lægra verð. Hér er það, sem afurðasölulögin koma bændum til hjálpar. Með þeim er útilokað undirboð undir það verð, sem samkomulag hefur orðið við fulltrúa neytenda um. Það, sem ekki selst á því verði, er flutt út. Hins vegar hefur landbúnaðurinn ekki þann rétt, sem útflutningsiðnaðurinn hefur til að jafna út mismuninn á neytendur, heldur borgar ríkissjóður mismuninn að ósk og kröfu þeirra. Og þá er stóra spurningin, raunar stærsta spurningin í landbúnaðinum: Hvað kostar umframframleiðslan, ef við aukum enn útflutning á sauðfjárafurðum og hvaða verð fæst? Fyrr en þeirri spurningu er svarað, er ekki unnt að gera framkvæmdaáætlun fyrir landbúnaðinn.

Ég hef valið að drepa á ýmislegt úr ritgerðinni, sem mætti verða til að skýra málin eins og þau horfa nú í stað þess að reyna að endursegja ritgerðina.

„Allar bækur eru góðar. Og allar bækur eru vondar. Engar bækur eru allar góðar, og engar heldur allar vondar. Allar bækur eru bæði góðar og vondar eða vondar og góðar,“ segir Þórbergur Þórðarson. Þetta á að sjálfsögðu við um öll mannanna verk, einnig það, sem hér er til umræðu. Mistökin voru eðlileg, eins og breytingarnar voru miklar, og þó að ég hafi drepið á ýmislegt, sem betur hefði mátt fara að mínu viti, er það ekki af löngun til að draga menn til dóms eða til að brjóta myndastyttur, heldur í þeirri von, að hlutlægar umræður og rannsóknir á þessu sviði gætu orðið til þess, að þeim fækkaði ásteytingarsteinunum á götunni, sem sveitafólkið á framundan.

Árbók landbúnaðarins 1962 28-38.