Fundur Stéttarsambands bænda í vetur samþykkti tillögu um, „að leitað verði heimildar til að tekin verði upp skömmtun og skattlagning innflutts kjarnfóðurs á komandi sumri eftir ákvörðun framleiðsluráðs.“ Þessi fundarsamþykkt er, eftir því sem ég hef tekið eftir, alveg einstæð. Samþykktir bændafunda um framleiðslu- og verðlagsmál hafa án undantekningar verið í þá átt, að lækka beri fóðurkostnað með ódýrara kjarnfóðri, með lægra áburðarverði, með aukinni þátttöku ríkisins í ræktunarkostnaði; að veita beri hagstæðari lán út á byggingar og vélar, og að vinna beri að því með fjárhagslegum stuðningi ríkisins, að mörg þau hjálpartæki, sem bændur nota við búskapinn (áburður, vélar, fóður, byggingar), batni að notagildi, það er verði ódýrari miðað við notagildi. Í þeim aragrúa af tillögum um landbúnaðarmál, sem birtast, verður samþykktin um, að lagt skuli gjald á innflutt kjarnfóður, eins sjaldséð og hvítir hrafnar.
EÐLILEGT ÁSTAND?
Það, sem helst einkennir ástandið í landbúnaði þeirra þjóða, sem eru á líku efnahagsstigi og íslendingar, er, að tekjur bænda eru minni en tekjur annarra fjölmennra stétta og að almenn lífskjör bænda þykja svo léleg miðað við það, sem aðrir atvinnuvegir bjóða fólki, að bændum og öðru fólki við búskap fækkar bæði hlutfallslega og tölulega. Flestir þeir hagfræðingar, sem eru hafðir með í ráðum af ríkisstjórnum, líta svo á, að þetta ástand í landbúnaðinum sé eð1ilegt og ekki ástæða til sérstakra ráðstafana þess vegna. Þeir skýra erfið1eika bænda nokkurn veginn á eftirfarandi hátt:
Í þeim löndum þar, sem efnahagur manna er sæmilegur eða góður, eykst neysla á landbúnaðarafurðum tiltölulega lítið. Matvæli er það, sem menn veita sér fyrst og láta sig síst vanta, en enn betri efnahag notar fólk til að útvega sér fleiri bíla, fínni föt, lengra orlof, betri húsbúnað, lengri skólagöngu, rýmra húsnæði og stytta vinnutímann. Aukin eftirspurn beinist sem sagt mest að öðru en matvælum.
Á sama tíma eru tekin upp ný vinnubrögð í búskap. Ég þarf ekki að orð1engja það í Búnaðarblaðinu í hverju þau eru fólgin. Eins og kunnugt er, leiða þau til þess, að afköst á mann aukast. Til þess að framleiðsluaukningin verði í samræmi við hina takmörkuðu aukningu í eftirspurn, verður fólki, sem vinnur við búskap, að fækka hlutfallslega og jafnvel tölulega, og því meira þarf því að fækka því hraðar sem afköst á mann aukast og því hægar sem eftirspurnin vex. Eðlilegast er, telja sömu hagfræðingar, að umrædd fólksfækkun gerist á þann hátt, að fólk fái svo slæma reynslu af búskap, að það fæli fólk til annarra atvinnuvega á líkan hátt og börn óbreyttra verkamanna fælast verkamannsstarfið og leita betur launaðra starfa en feður þeirra hafa.
VOND AFKOMA SEM HAGSTJÓRNARTÆKI
Þessir hagfræðingar líta því svo á, að óhagstæð kjör bænda séu hagstjórnartæki sem hjálpi til þess, að meira jafnvægi verði milli framboðs á landbúnaðarafurðum og eftirspurnar eftir þeim. Þeir líta einnig svo á, að þetta jafnvægi náist ekki á meðan efnahagslegar framfarir eru í landinu. Þess vegna sé eðlilegt, að kjör bænda séu stöðugt lakari en kjör flestra annarra stétta. (Þetta þýðir þó ekki, að kjör bænda þurfi að standa í stað, heldur að þau séu alltaf hlutfallslega lakari en kjör þjóðarinnar í heild). — Þar sem það er verð landbúnaðarafurðanna, sem takmarkar framleiðslumagnið og ákveður lífskjör bændanna, er ályktun þessara hagfræðinga sú, að verðinu verði að halda niðri, svo að framleiðslumagnið fari ekki fram úr hófi og lífskjör bænda þyki svo lítið eftirsóknarverð, að hæfilega mikið fækki í stéttinni. Tilraunir til þess að fara í kringum þetta lögmál hljóti að misheppnast til lengdar og í aðalatriðum.
Þetta er sú skýring, sem nýtur mestrar vinsælda meðal þeirra valdhafa, sem bændur eiga að sækja mál sín til í þeim löndum, sem eru á líku stigi efnahagslega og Ísland. Í umræðum um verðlag í íslenskum landbúnaði og kjör bænda hér heyrast slíkar skýringar sjaldan. Þær skýringar, sem mest ber á, eru þrenns konar:
- Það vantar góð gögn til þess að ákveða rétt verð.
- Þeir, sem samið er við, neita að taka réttmætt tillit til þeirra gagna, sem til eru.
- Sexmannanefndarfyrirkomulagið er ótækt.
Ég bendi á, að heimildir til að ákveða verðlag í öðrum atvinnuvegum en landbúnaði eru varla betri en gögn sexmannanefndar, án þess að útkoman sé eins, og að eins konar sexmannanefndarfyrirkomulag hefur nú verið tekið upp við verðlagningu sjávarafurða, án þess að sjáist sami árangur. Það verður því ekki séð, að þessar skýringar nái langt. Ég ætla ekki hér að ræða nánar þessar skýringar eða skýringar hagfræðinganna, sem segja, að ekki takist að ná verðinu upp, af því að eftirspurnin aukist svo takmarkað, en framboðið aukist svo hratt, vegna þess að afköstin í landbúnaði vaxa svo hratt. Ég ætla hins vegar að gera grein fyrir því, hvernig, tengja má kjarnfóðurmálin túlkun hagfræðinganna á sígildum þrengingum bænda. Ég segi kjarnfóðurmálin, af því að nú eru bæði til umræðu tillagan á vetrarfundi Stéttarsambands bænda um gjald á innflutt kjarnfóður og leiðir til að lækka verð á kjarnfóðri með nýjum vinnubrögðum í verslun, flutningi og blöndun kjarnfóðurs. Í síðara málinu hefur stjórn Stéttarsambands bænda starfað með Búnaðarfélagi Íslands.
ÓDÝRARA KJARNFÓÐUR - VERRI AFKOMA
Við skulum nú athuga, hvaða áhrif þeir hagfræðingar, sem ég hef vísað til, mundu telja, að þessi tvö mál mundu hafa á kjör bænda. Þeir mundu líta svo á, að ódýrara innflutt kjarnfóður mundi að sjálfsögðu lækka framleiðslukostnað landbúnaðarafurða, en fyrir samverkan framboðs og eftirspurnar mundi verð afurðanna lækka enn meira en framleiðslukostnaðurinn. Þetta mundi gerast á þann hátt, að þeim bændum fjölgaði, sem settu búfé á lítil hey og betur borgaði sig að drífa upp afurðir á hvern grip. Sú viðleitni, sem til er, til að framleiða innanlands kjarnmeira fóður (grasmjölsverksmiðjur, kornrækt, en fyrst og fremst vönduð heyverkun), mundi missa þá uppörvun, sem hátt kjarnfóðurverð er; og sú framleiðsla mundi dragast saman, og á sama hátt mundu tún í harðbýlli héruðum verða afrækt og þeir, sem stunda heysölu í önnur héruð mundu fá nýjan keppinaut. Samanlagt mundu áhrifin verða þau, að við óbreyttan mannafla í landbúnaðinum yrði framleiðslan svo mikil, að markaðsþrengingar sköpuðust og verðlag lækkaði svo mikið, að fleiri en ella sæju þann kost vænstan að bregða búi eða láta vera að taka við búi, en kjör bænda almennt þrengdust vegna óhagstæðs verðlags, þó að fæstir sæju sér henta að bregða búi strax af þeim sökum. Af ýmsum sökum mundu áhrifin af ódýrara . kjarnfóðri ekki koma á stundinni, þannig að sumir mundu ekki eygja samhengið. Meðal hagfræðinga í æðstu valdastöðum yrði breytingunum fagnað og minna um það hirt, að tekjur bænda skerðist, þar sem litið er á tekjumismuninn sem eðlilegt og heppilegt hagstjórnartæki til að flytja fólk milli atvinnugreina og héraða. Vinnureglan er þessi: Því meira sem afköst á mann aukast í landbúnaðinum, því fleira fólk þarf að hverfa úr landbúnaðinum og því meiri þarf tekjumismunurinn að vera bændum í óhag, en verðlagið ákveður heildartekjurnar.
Hér hefur verið lýst áhrifunum af, að tekin ,yrðu upp kostnaðarminni vinnubrögð við flutning, blöndun og verslun með innflutt kjarnfóður. Áhrifin af innflutningsgjaldi yrðu þveröfug. Fyrstu áhrifin yrðu auðvitað þau, að framleiðslukostnaður ykist, en þar sem eftirspurnin er óteygin, mundi neyslan minnka litið. Næstu áhrifin yrðu þau, að minna yrði sett á kjarnfóður, en meira á hey, að hey yrðu betur verkuð, að grasmjölsframleiðsla og kornrækt fengi meiri byr undir vængi og að minna kapp yrði lagt á að ná miklum afurðum eftir grip, af því að það borgaði sig ver en áður.
Heildaráhrifin yrðu þau, að framboð yrði minna en ella, og samkvæmt þeirri reynslu, sem fengist hefur í landbúnaðarmálum þeirra landa, þar sem kjör manna eru á líku stigi og á Íslandi, mundi verð1ag hækka meira en framleiðslukostnaðurinn og kjör bænda batna meira en annars yrði. Og sem fyrr mundu áhrifin á framleiðslukostnaðinn (þegar gjaldið er lagt á) og áhrifin á söluverðið (þegar framboðið dregst saman) ekki koma samtímis, þannig að ýmsum yrði dulið það samhengi, sem hér er lýst. Þeir, sem mest nota af kjarnfóðri, mundu hins vegar verða fyrir fjárhagslegu tjóni, einkum ef þeir eiga erfitt með að breyta til með fóðrun og fóðra meira á innlendu fóðri. Sömuleiðis mundu þeir verða fyrir tjóni, sem fengju óvænt harðæri á sig, þannig að ekki væri í önnur hús að venda með fóðuröflun en kaupa innflutt kjarnfóður.
Ég hef nú rakið, hvernig litið er á landbúnaðarmálin af mörgum hagfræðingum. Ég lít svo á, að orsakirnar fyrir efnahagslegum erfið1eikum bænda séu eins og rakið er. - Annað mál er, hvort mönnum finnst þessar orsakir réttlæta, að kjör bænda séu lakari en kjör annarra fjölmennra stétta, og ef menn líta svo á, að eðlilegt sé, að kjör bænda séu tiltölulega slæm, þurfa menn engu að síður að taka afstöðu til þess, hversu slæm þau eigi að vera. Meða1 þeirra, sem hafa áhrif á það, hversu slæm kjör bændanna eru, eru samtök bændanna sjálfra.
BÆNDUR VANTREYSTA SÍNUM MÖNNUM
Bændasamtökin hafa í vetur haft til meðferðar mörg mál, sem hafa áhrif á það, hvernig afkoma bænda verður. Stéttarsambandið og Búnaðarfélagið hafa unnið ötullega að því að lækka kostnað við verslun, flutning og blöndun á kjarnfóðri. Við skulum hugsa okkur, að þeir leiðir, sem hugsaðar eru, geti raunverulega leitt til lægra kjarnfóðurverðs. Fyrir þá, sem ekki bera ábyrgð á afkomu bændastéttarinnar, mundi vera sjálfsagt að leggja út í slíkar skipulagsbreytingar. Fyrir hina verður spurningin, hvort nú sé rétti tíminn til að gangast fyrir því, að hagur bænda þrengist enn meira en yrði ella, og hvort það lánsfjármagn, sem þyrfti til framkvæmdanna væri betur notað á annan hátt. Eins og kunnu er, er enginn skortur á málum hér á landi sem kalla á fjármagn. Ég vildi bara nefna eitt af þeim málum hér, mál, sem bændasamtökin hafa reynt að leysa, en ekki tekist, en það er aukin afurðalán til landbúnaðarins. Við megum gera ráð fyrir tveim aðalástæðum til þess, að ekki hefur tekist að útvega meiri afurðalán. Í fyrsta lagi hefur sú framleiðsla, sem óskað er eftir, komi án þess að þurft hafi að auka afurðalán vegna þess að svo mikið fé hefur verið lagt í framkvæmdir í landbúnaðinum með stofnlánum, samkvæmt jarðræktarlögum og lögum um landnám. Í öðru lagi hefur verið minna fjármagn til ráðstöfunar í afurðalán þegar landbúnaðurinn hafði fengið svo mikið lánsfjármagn til annarra þarfa. Bændur hafa því sjálfir með því að leggja mikla áherslu á, að fé fengist til framkvæmda, átt sinn þátt í því, að afurðalánin hafa veri takmörkuð með þeim afleiðingum, að þeir hafa fengið seinna og ver borgað út en ella og verslunarfélög þeirra lent í fjárhagsörðugleikum.
Hitt kjarnfóðurmálið, um að leggja gjald innflutt kjarnfóður, hefur hlotið mjög ólíka meðferð. Þar hefur forysta Stéttarsamban bænda tekið afstöðu, sem er í rökréttu samræmi við þá stefnu að vinna að bættum hag bænda. Búnaðarsamböndin hafa tekið afstöðu á móti stjórn Stéttarsambandsins.
Úr því sem komið er, virðist mér réttast stjórn Stéttarsambandsins og einkum formanninum að segja af sér og láta þá, sem hafa beitt sér gegn kjarnfóðurskattinum taka við stjórn, ekki af því að það mun bæta afkomu bænda, - sannleikurinn er sá að ekki hefur komið fram, að þeir muni geta bætt þar úr, þar sem þá vantar skilning á eðli þeirra erfið1eika sem bændastéttin er í og eru því úrræðalausir, - heldur því að nú er stjórn og einkum formaður Stéttarsambandsins látin bera ábyrgð á erfiðleikunum án þess að fá leyfi bændanna sjálfra til að beita þeim úrræðum, sem þeir hafa trú á. Það er ljóst, hversu lamandi áhrif slíkt hefur á bændasamtökin að við hjálpum bóndanum best með því að leggja honum í hendur sem mest af fjármagni og gáum ekki að, ef við gerum þetta fyrir alla bændur, að afköstin aukast meira en markaðurinn, og þar með þrengist einnig hagur þessara einstaklinga, sem við höfðum upphaflega í huga.
Stækkun búanna leysir ekki vandann.
Má ég reyna að skýra það nánar, hvað það er, sem veldur því, að málið verður ekki leyst með því að stækka búin með það í huga, að menn geti haldið mann eða með því að koma á félagsbúskap með því að tvöfalda bústofn og ræktun á jörðinni. Það liggur í augum uppi, að þessi lausn er ágæt að því leyti, að þeir, sem hafa búið þannig í haginn fyrir sér eru á ýmsan hátt frjálsari en aðrir. Hins vegar er jafnljóst, að út í algera ófæru yrði farið í markaðsmálum bændanna, ef allir reyndu að leysa vanda sinn á sama hátt. Þetta eru því lausnir, sem eru því aðeins góðar, að einungis fáir noti sér þær, og það geta ekki talist góðar lausnir. Ef menn reyndu almennt að nota sér þær, er hætt við, að markaðsmálin yrðu bændunum og þjóðarbúinu svo þungbær, að þeir sem ætluðu sér að halda mann, hefðu ekki efni á því og sætu uppi mannlausir, en með tvöfalt bú, og þeir, sem ætluðu að búa í félagi, fyndu að búið framfleytti aðeins einum, og einyrkjarnir ættu ekki annars úrkosti en skila tvöföldum afköstum til að standa undir því mikla fjármagni, sem í búið væri komið. Þetta er ekki hugarburður minn. Þessa má þegar sjá dæmi, ef menn eru nógu kunnugir. Það er grunur minn, að sumir þeir bændur, sem nú eru að fækka kúm og koma upp einhliða fjárbúi, hafi í upphafi ætlað sér að halda mann til að hirða kýrnar eða féð, en það orðið þeim ókleift.
Skipulagðar afleysingar.
Það, sem ég hef hér sagt, kann að stangast á við þær skoðanir, sem hæst hefur borið á í landbúnaðarmálum undanfarið. Ég geri ekki ráð fyrir, að stutt tímaritsgrein skipti sköpum í þeim efnum. En ég hef ofurlitla von um, að kappið verði minna, að einhver grunur læðist að mönnum, að samhengi hlutanna sé ekki eins einfalt og látið hefur verið. Mér virðast tímarnir hagstæðir til þess. Ég vil því enda mál mitt með því að drepa á úrræði í vandræðum kúabænda, sem menn gætu orðið sammála um, hvort sem menn aðhyllast túlkun mína á málunum hér á undan eða ekki.
Skipulagðar afleysingar í fjósi má framkvæma án- nokkurra skipulagsbreytinga á landbúnaðarmálum að öðru leyti og án þess að draga meira fjármagn inn í landbúnaðinn. Það má hugsa sér, að hreppsfélag, sýslufélag, búnaðarsamband eða mjólkursamlag ráði til sín fjósamann, sem leysti bændur af, þegar nauðsyn bæri. Starfið yrði að vera vel borgað til þess að hæfir menn fengjust í það, enda mætti borga vel, ef maðurinn leysti aðeins af, þegar brýn nauðsyn bæri til. Starfið yrði lærdómsríkt, en ónæðissamt til lengdar. Ég veit því ekki hvort auðveldara yrði að fá menn til starfans en nú er að fá fjósamenn til venjulegra fjósaverka, en greiðslugetan yrði meiri, þegar margir stæðu á bak við. Einnig kemur til, greina, að nokkrir bændur, sem búa í nágrenni hver við annan hefðu fjósamann saman. Hvorttveggja þekkist í Noregi og Svíþjóð, þó í smáum stíl sé, og raunar einnig hér á landi. Við skulum þó ekki mikla fyrir okkur þetta úrræði. Hversu almennt þá má nota er undir því komið, að kúabúskapurinn geti staðið undir slíku mannahaldi. Ef hins vegar kúabúskapurinn er svo arðbær, að hann getur staðið undir afleysingamönnum, svo um muni, verður hann einnig svo arðbær, að fólk hafi efni á því að halda það varalið á heimilunum, sem ég ræddi áðan. Ber því allt að sama brunni.
Félagsbú á völdum jörðum.
Hér að framan varaði ég við því, að menn hugsuðu sér að gera félagsbúskap að almennri reglu í sveitunum. Það er eins og alakunnugt er ekki svigrúm fyrir tvær fjölskyldur á hverri jörð markaðsins vegna og vegna þeirrar aukningar, sem verður á hverju ári. Hins vegar má finna leið til að slíkum félagsbúum fjölgaði nokkuð frá því sem nú er, ef menn vildu sérstaklega þær jarðir, sem hafa þegar svo mikla áhöfn, að búið nálgast það að vera einni fjölskyldu ofraun, og efldu bændur á slíkum jörðum, sem þess óskuðu, til þess að halda íbúðar húsnæði þannig að tvær fjölskyldur gætu séð sér farborða á jörðinni án verulegrar framleiðsluaukningar. Ef félagsbúamálinu er haldið innan þessa ramma, getur það orðið hið mesta þjóðþrifamál, þó að það geti ekki leyst vanda allra í þessum efnum.
Aukið fjármagn - minni atvinna.
Ég vil því að endingu minna á, að engin almenn lausn finnst á þessu máli, nema tekið sé tillit til þess, að aukið fjármagn í landbúnaðinum þýðir minni atvinna í sveitunum í heild, þó að málið kunni að horfa öðru vísi við af sjónarhóli þess einstaklings sem í framkvæmdum stendur. Vandinn er að finna slíka lausn, og hana hef ég ekki getað fundið nema mjög takmarkaða eins og sjá má.
Búnaðarblaðinu 8 (1968) 50-52