Eins og kunnugt er er venjan í iðnaði að mæla stærð fyrirtækja í vinnumagni, í fjölda starfsfólks eða fjölda vinnudaga. Þar er þetta eðlilegt, af því að starfsmannafjöldi er svo breytilegur milli fyrirtækja, þannig að hann einkennir fyrirtækið, en önnur einkenni eru oft óstöðug eða gera samanburð örðugan. Í þessari grein verður vinnumagn notað sem mælikvarði á stærð fyrirtækja í landbúnaði, á stærð búanna. Slíkur mælikvarði er óvenjulegur í landbúnaði. Þar er algengara að nota landstærð eða gripafjölda til að bera stærð búa saman, en þó kemur fyrir og ef til vill tíðar á síðari árum, að vinnumagn bús er notað sem einkenni á búinu og bóndanum. Þannig hafa menn í Noregi skipt bændum í þá, sem hafa landbúnað að aukastarfi, aðalstarfi eða eina starfi. Sams konar hugsun liggur á bak við, þegar talað er um fjölskyldubú.

Í Svíþjóð eru talsvert fleiri bú en í Noregi, sem veita meira en einum manni eða einni fjölskyldu atvinnu. Þar í landi hefur aukist áhugi á því, sem kalla má einmennings, tvímennings- og þrímenningsbú. Slík bú hafa stundum verið skilgreind nákvæmar sem bú með 3000, 5000 og 7000 klukkustunda vinnunotkun. Í Svíþjóð hafa málsmetandi menn talið, að 5000 stunda bú væru hagkvæmari en 3000 tíma bú og mundu verða ríkjandi bústærð þegar fram liðu stundir. Ráðamenn í Brüssel hafa gert sér líkar hugmyndir.

Í Noregi hafa yfirvöld landbúnaðarmála unnið að því að efla fjölskyldubúin svo, að þeirra gætti meira í sveitunum. Með því er ekki átt við, að menn hafi viljað minnka þau bú, sem tvær fjölskyldur reka eða bú með fastri aðstoð, heldur hefur hugmyndin verið sú, að nokkur þeirra mörgu smábýla, sem veita einni fjölskyldu ekki fulla atvinnu, mætti stækka svo mikið, að þau gætu veitt einni fjölskyldu fulla atvinnu með viðunanlegum kjörum. Það, sem fyrir mönnum hefur vakað, er það, að menn hafa um langt skeið veitt því athygli, til að mynda í búreikningaskýrslum, að bú sem veita atvinnu sem svarar aðeins einu ársverki eða minna hafa haft minni greiðslugetu en bú sem veita fjölskyldu fulla atvinnu.

 

Meðalbúið verður minna

Þróunin í norskum landbúnaði hefur verið önnur en yfirvöld landbúnaðarmála hafa stefnt að. Atvinna á meðalbúinu hefur um langa hríð minnkað ár frá ári. Þetta má sjá auðveldlega á því, að samanlögð atvinna við landbúnað hefur minnkað hlutfallslega hraðar en búafjöldi, þannig að hvert bú hlýtur að veita minni atvinnu. Þessi ábending sýnir samt ekki fyllilega, hvernig atvinna hefur minnkað á þeim búum, sem enn eru rekin. Því lýsa búnaðarskýrslur aðeins óbeint.

Við vitum þó, að flest þau bú, sem hafa verið lögð niður, eru bú, þar sem búreksturinn var aukastarf. Ég vil lýsa því með tilbúnu dæmi, hvernig þetta sýnir okkur hægari þróun en rétt er. Til þess að gera dæmið meðfærilegra, hugsum við okkur venjulega sveit í Noregi í stað alls landsins. Árið 1959 voru í þessari sveit 100 bú. Vinna við landbúnað á þeim var 100 ársverk. Á 20 minnstu búunum var landbúnaðarvinna einungis 12 ársverk samtals. Nú, árið 1969, eru 80 bú eftir og atvinna á þeim 64 ársverk samtals. Minnstu 20 búin eru úr sögunni. Meðalbústærð var árið 1959, 1,0 ársverk, en er nú 0,8 ársverk. Það er 20% minna. Á þeim 80 búum, sem enn eru við lýði, var skilað 88 ársverkum árið 1959, en það er 1,1 ársverk að meðaltali. Samdráttur atvinnu á búum, sem eftir eru, er 0,3 ársverk eða 27,3%, en það er allmiklu meira en virðist við fyrstu sýn.

Ef við notum búnaðarskýrslur með gagnrýni á þennan hátt, styrkist það hugboð, sem við fáum, þegar við komum á bæi og tölum við fólk um búskapinn fyrr og nú. Langflest bú veita nú minni atvinnu en áður. Minni háttar rannsókn á búum í Noregi, sem skiluðu búreikningum, leiðir til sömu niðurstöðu. Í flokki búa, sem skiluðu búreikningum árlega frá 1954 til 1960, hafði atvinna minnkað úr 4626 stundum árið 1954 í 4039 stundir árið 1960 eða um 12,7%.[1]

Þessi þróun er ekki sérstök fyrir Noreg. Sama sagan hefur gerst á árunum eftir stríð í Danmörku, Svíþjóð, Bandaríkjunum, Frakklandi, Vestur-Þýskalandi og á Bretlandi. Þó að byrjunarstaðan og lokastaðan kunni að hafa verið ólíkar hefur alls staðar stefnt í sömu áttina.

 

Starf búnaðarhagfræðinga við búskap

Hér að framan gat ég þess, að einmenningsbú og minni bú hafa haft lakari greiðslugetu en fjölskyldubú, en það eru bú, sem bjóða upp á meiri vinnu en 2-3000 tíma á ári. Rétt er að bæta því við, að greiðslugeta heldur áfram að vaxa með stækkandi bústærð. Stærri bú með 2, 3 og 4 í vinnu hafa enn meiri greiðslugetu en fjölskyldubú með einungis vinnu bóndans, konu hans og hálfstálpaðra barna. Það sama er uppi á teningnum í Svíþjóð.

Hvernig getur það gerst, að sú bústærð, sem hefur meiri greiðslugetu en einmenningsbú og minni bú, verður stöðugt sjaldséðari, en minnstu vinnustaðirnir, sem hafa lakasta greiðslugetu, verða ríkjandi í landbúnaðinum? Er því um að kenna, að bændur móti bú sín á óhagkvæman hátt og lagi ekki reksturinn að nýjum kringumstæðum á réttan hátt?

Við skulum líta á það, sem gerst hefur á norskum reynslubúum. Reynslubú er bú, þar sem bóndi hefur gert samning við búnaðarhagfræðistofnunina í Osló um að reka búið eftir áætlun, venjulega í 6 ár. Áætlunin er gerð af sérfræðingum í búfjárfræði, jarðrækt, jurtarækt, byggingum og vélanotkun. Þegar áætlunin hefur verið gerð og er gengin í gildi, heldur reynslubóndinn stöðugu sambandi við sérfræðingana til að geta lært af reynslunni og til að breyta áætluninni eftir því sem kringumstæður breytast. Þetta fyrirkomulag ætti að tryggja, eftir því sem unnt er, að búið gefi eins mikið af sér og bóndinn getur best fengið.

Hvernig hefur þá gengið á reynslubúunum? Hafa menn talið það borga sig að stækka búin sem vinnustað? Hafa búin getað veitt arðbæra vinnu fyrir fleiri en áður? Á 72 reynslubúum í sunnanverðum Noregi, sem búnaðarhagfræðistofnunin hefur birt niðurstöður frá, voru vinnustundir við búið 4035 á ári að meðaltali í upphafi reynsluskeiðsins, en í lok þess voru þær 3638.[2] Þeim hefur því fækkað um 397 eða 9,8%. Þetta er heldur minna en á búreikningabúunum, sem vitnað var til hér að framan. Í búreikningaskýrslum má raunar sjá sömu tilhneigingu og í þessu dæmi, nefnilega, að á þeim búum, sem í upphafi hafa mest vinnuafl, minnkar vinna hraðar en á öðrum búum. Þessi rannsókn bendir því ekki til þess, að þeir, sem njóta leiðbeiningar færustu sérfræðinga, sjái sér frekar hag í því en aðrir að auka atvinnuna á búum sínum með því að auka við sig landi og fjölga gripum. Reynslubúin hafa að vísu aukið við sig ræktuðu landi eins og mörg önnur bú, en ekki nóg til þess að halda upp jafnmikilli atvinnu og áður, – því síður að hún hafi aukist. – Atvinna hefur hér verið mæld í vinnustundum án þess að taka tillit til þess, að eitt ársverk getur verið misjafnlega margar stundir. Að lítt athuguðu máli virðist mér, að það breyti myndinni ekki.

Það má spyrja að því, hvort þessi samdráttur á bústærð á reynslubúum í Noregi sé að kenna sérstökum norskum þjóðfélagsaðstæðum eða því, að ráðunautar reynslubændanna hafi ekki verið nóg snjallir. Ég held ekki að svo sé. Í Finnlandi hafa verið rekin námsbú, sem um flest líkjast reynslubúum í Noregi. Þau hafa ekki heldur stækkað sem vinnustaðir. Atvinnan á þeim hefur minnkað með sem svarar 200 tímum á ári.[3] Námsbúin finnsku eru af venjulegri fjölskyldubústærð. – Í Svíþjóð hefur ekki verið um að ræða neina umfangsmikla reynslubúastarfsemi af sama tagi og í Noregi. Þar hafa menn við vinnurannsóknadeild vinnuveitendasambands landbúnaðarins greint og skipulagt reksturinn á stórum búum, sem að vísu eru miklu stærri en tvímennings- og þrímenningsbúin. Við vinnurannsóknadeildina hef ég verið fræddur á því, að ráðleggingar þaðan hafi bæði að meðaltali og í svo til öllum tilvikum átt að leiða til samdráttar í atvinnu á búunum.

 

Greinargerðir búnaðarhagfræðinga

Þetta yfirlit ætti að sýna, að sú þróun í átt til minni búa, sem ráðið hefur almennt, hefur ekki verið stöðvuð, og því síður hefur henni verið snúið við af hagfræðiráðunautum í starfi á ákveðnum búum. Samt sem áður hafa þekktir búnaðarhagfræðingar haldið því fram í ræðu og riti, að gagnstæð þróun væri æskileg. Við hvað hafa þessir menn haft að styðjast, sem hefur verið sterkari röksemdir en verk hundruð þúsunda bænda og reynsla þeirra rekstrarhagfæðinga, sem hafa vikið frá skrifborðinu?

Jú, eins og áður segir, sýna búreikningaskýrslur ár eftir ár, að bú með 2 eða 3 ársverkum greiða betur fyrir vinnuna en minni bú. Að því er varðar Svíþjóð hef ég meira að segja fundið, að stærri bú fá meira og meira forskot fyrir minni bú með tekjur á vinnustund, en stóru búanna gætir samt stöðugt minna. Auk þess hafa menn í Svíþjóð með umfangsmikilli áætlanagerð í tölvum getað sýnt, að 5000 og 7000 tíma bú skipulögð eftir fræðilegri forskrift eru arðsamari en 3000 tíma bú. Eru þetta ekki fullnægjandi rök?

Fyrst vildi ég segja nokkur orð um hina fræðilegu forskrift. Í henni er gert ráð fyrir, að allir þættir framleiðslunnar væru hreyfanlegir eins og verið væri að byggja frá grunni. Engin forsenda er fjarstæðukenndari í fullræktuðu, köldu búfjárræktarlandi með traustbyggðum útihúsum, svo að ekki sé minnst á annað. Hvers vegna gerðu menn þetta? Jú, þetta átti að vera áætlunargerð langt fram í tímann, þegar öll núverandi útihús væru úr sögunni. Skyssan, sem í þessu felst, var einföld og gróf. Áætlunin fól ekki í sér neina lausn fyrir millibilstímabilið, og það sem er enn mikilvægara: Millibilsástandið tekur aldrei enda. Á leiðinn munu menn nefnilega eðlilega sjá sér hag í að gera ráðstafanir af einhverju tagi, sem eru svo varanlegar að þær mynda nýtt millibilsástand. Við þetta má bæta, að enn hefur ekki verið tekið tillit til áhrifa hinna nýju búskaparhátta á markaðinn.

Hvað er þá að segja um búreikningaskýrslurnar? Þær eru væntanleg nógu raunverulegar og byggja ekki á neinum tilbúnum forsendum. Það er rétt. Áður en ég túlka þær, vil ég benda á algenga skyssu, sem menn gera, þegar þeir nota búreikningaskýrslur. Ef menn vilja t.a.m. bera saman árangur af stórum og litlum búum, verða menn, ef þeir eru aðeins að meta árangur af bústærð, að tryggja sér, að báðir flokkar búi við lík skilyrði að því er varðar verðlag og landkosti. Verðlag í Noregi er á sumum sviðum hagstæðara fyrir minni bú, en oft vill það vera svo, að stærri búin búi við betri landkosti. Fyrra atriðið leiðir til þess, að menn vanmeta áhrif bústærðar, en seinna atriðið fær menn til að ofmeta þau, þar sem slík ójöfn dreifing á stórum og litlum búum leiðir til þess, að menn bera stór bú við hagstæð skilyrði saman við lítil bú við erfiðari búskaparskilyrði. Þó að allt þetta sé ástæða til að nota tölur úr búreikningaskýrslum með gagnrýni, hygg ég þó, að það breyti því ekki, að arðsemi er meiri á stórum búum en á litlum, og að munurinn hafi trúlega aukist. Umframgreiðslugeta stóru búanna er samt með fáum undantekningum of lítil til að borga tímakaup eftir taxta verkalýðsfélaga fyrir almennt verkafólk. Um þetta er samdóma reynsla á reynslubúum og venjulegum búum. Þetta er í sjálfu sér nógu góð ástæða til þess, að menn sjá sér svo til aldrei hag í því að auka atvinnuna á búum sínum.

 

Hvers vegna er góður arður á tvímennings- og þrímenningsbúum og lélegur á einmenningsbúum?

Það sem þó ræður meiru er þetta: Tiltölulega góð greiðslugeta á stærri búum er samkvæmt því, sem ráða má af almennri þekkingu í landbúnaðarhagfræði, að miklu leyti árangur af því, að á þessum búum hafa menn getað fengið samræmi milli landsstærðar, bygginga, vinnu og véla, en á minni búum hafa menn haft bundnari hendur í þessum efnum. Á stóru búi geta menn tekið í notkun afkastamiklar vélar í fjósi og úti við og minnkað vinnuafl, sem því svarar. Menn geta þar jafnvel fækkað á fóðrum, en haldið meiri vinnu en einu til tveimur ársverkum heimilisfólksins.

Á minni búum er þetta erfiðara viðfangs. Fyrst búið veitir aðeins einum manni atvinnu, verða menn að finna sér annað að gera, ef nýr vinnusparandi útbúnaður á ekki að leiða til beinnar útgjaldaaukningar, án þess að nokkuð sparist. Oft er ekki um slíka aukavinnu að gera, sem fellur inn í búreksturinn. Þá geta menn reynt að bæta við sig landi. Vandinn í þessum löndum er sá, að nágranninn er oft í sömu stöðu. Eins og kunnugt er, fara samt margir þá leið fyrr eða síðar, en það gerist svo hægt, að stækkun túns og akra verður minni en aukning vinnuafkasta. Búið verður þá minni vinnustaður.

Vandinn er sem sagt sá, að nágrannarnir eru í nokkurn veginn sömu stöðu. Bæði sænskir og norskir fræðimenn hafa rannsakað stöðuna á slíkum búum. Gulbrandsen sýndi fram á það í Svíþjóð á 6. tug aldarinnar, hvernig búskapur lagðist niður í áföngum á minni jörðum.[4] Fyrst var búfé fargað og jörðin nytjuð án þess, áður en hún lagðist í eyði. Þetta er dæmi um það, hvernig aukagetubú leysa einmenningsbúa af hólmi. Svíarnir Myrehed, Renborg og Säfvestad[5] hafa allir rannsakað efnahaginn á búum, sem stendur til að leggja niður. Þeir hafa sýnt fram á, hvað venjulegar bókhaldsniðurstöður, eins og þær birtast í búreikningaskýrslum, segja lítið um stöðuna á búum, sem bóndinn íhugar að leggja niður og flytja frá. Bókhaldslegar fyrningar og vextir af byggingum, bæði útihúsum og íbúðarhúsi, stundum einnig af vélum og landi, verða ekki lengur raunverulegur kostnaður, þar sem þessi verðmæti eru þá miklu minna virði en þau eru reiknuð í bókhaldinu. Samanlagt getur þetta þýtt, þegar mestu munar, að bóndi getur haft jafngóða afkomu á búi sínu og hann hefði, ef hann legði búið niður og fengi lítið sem ekkert fyrir eigur sínar, en fengi 4-5 sænskum krónum meira á tímann en hann hefur samkvæmt búreikningi. (Eins og kunnugt er yrði neysla hans í báðum tilvikum frekar hófleg). – Í Noregi hefur Brox bent á líkar kringumstæður í sjávarbyggðum í nyrstu fylkjum landsins.[6]

Ég dreg þá saman og endurtek: Léleg bókhaldsleg niðurstaða á litlum búum getur vel orðið hjá bónda, sem rekur bú sitt af skynsemi og heldur áfram búskap til þess að neysla hans geti orðið meiri en ella. Ástandið er þá árangur ráðstafana frá fyrri tíð, sem hafa áhrif á það sem gera ber í nútíðinni. Nokkur líkt stendur á á stærri búum. Þar er tiltölulega mikil greiðslugeta árangur af fyrri ráðstöfunum, sem gera mönnum kleift að fá hæfileg hlutföll milli einstakra framleiðsluþátta með því að draga úr vinnuafli og taka í notkun afkastamikla tækni. Í báðum tilvikum eru búin orðin minni vinnustaðir.

 

Nýsköpun borgar sig ekki

Ég á eftir að skýra nánar, hvers vegna hvorki bændur né útvaldir bændur í samvinnu við sérfræðinga hafa séð sér hag í að auka umsvifin svo mikið, að atvinna á búum þeirra mætti aukast. Í báðum löndunum, sem ég hef rætt mest um, Noregi og Svíþjóð, er búfjárrækt sú búgrein, sem mesta atvinnu veitir. Skýringar er líka að leita í þróun búfjárræktarinnar.

Hér að framan var getið um umfangsmikla áætlanagerð, sem átti að sýna hvers konar búrekstur hefði mesta greiðslugetu, ef byggt væri frá grunni. Þessu verki var stjórnað af Hjelm, og því var lokið og niðurstöður birtar árið 1963. Að því er varðar mjólkurframleiðslu varð útkoma merkilega. Tölvurnar skiluðu nefnilega engri mjólk í öllum bestu héruðum Svíþjóðar. Það var aðeins nyrst í landinu og í skógahéruðum um miðbik landsins, að mjólkurframleiðslan var hagkvæm búgrein. Það kom með öðrum orðum í ljós, að það borgaði sig yfirleitt ekki að byrja mjólkurframleiðslu frá grunni, hvort heldur reiknað var með einmennings-, tvímennings- eða þrímenningsbúum, við það verðlag sem þá var, en alls staðar var gert ráð fyrir mjög miklum afköstum.

Á þessum áratug, sem nú er að líða, hafa verið samdar nokkrar greinargerðir um stór samvinnufjós í Svíþjóð, en aldrei hefur orðið úr framkvæmdum. Í þekktustu rannsókninni, sem kennd er við Hogstad og stjórnað var af Oscarsson og Renborg, var niðurstaðan sú, að þátttaka í slíku samvinnufjósi (með 400 kýr) kom síst til álita fyrir þá bændur, sem áttu nothæf fjós, unnu sjálfir fjósverkin og gátu ekki komist í vinnu annars staðar nema flytja.[7] Það kom miklu frekar til greina að eiga hlut í slíku fjósi fyrir bændur, sem ekki áttu neitt nothæft fjós, en þurftu að hafa gras í sáðskiptunum. Það var ekki víst, að það borgaði sig fyrir þá heldur að vera með í samvinnufjósi, en það var þó nær því en fyrir hina. Það, sem þó skipti mestu máli, var, að í flestum sveitum eru á hverjum tíma of fáir bændur í slíkri aðstöðu, þannig að þátttaka í slíku fjósi verður ónóg, og því verður ekki af neinu. Þegar nýbygging á fjósi er tímabær, er það tilviljun, ef nágrannarnir eru í sömu stöðu. Bóndinn getur þá annaðhvort hætt mjólkurframleiðslu eða byggt á eigin spýtur. – Í Noregi hefur Búnaðarhagfræðistofnunin í Osló fengist við sams konar áætlanir um samvinnufjós. Elstrand hefur gert áætlun á Nesi á Heiðmörk og Knapskog í Austurdal, en árangurinn er eins og í sænsku athugununum.[8]

Sannleikurinn er sá, að eftirspurn eftir mjólk hefur verið fullnægt í báðum þessum löndum, án þess verðlags, sem nægir til að standa undir kostnaði við nýbyggingu. Nýbygging á fjósum hefur líka verið í lágmarki og langt frá því svarað til þess sem hefur úrelst. Á sama tíma hefur kúm stórfækkað. Mjólkurframleiðslu hefur samt verið haldið uppi með mikilli nythækkun. Nokkuð lík þessu hefur þróunin verið í jarðræktarmálum, þar sem ræktað land hefur dregist saman, en uppskera hefur haldist með aukinni áburðanotkun og nýjum afbrigðum.

Við erum þá komin þangað, að nythækkun í kúnum, það er að segja kynbætur og bætt fóðrun, hefur gert fjölda fjósa og fjósamanna, þar á meðal marga bændur, óþarfa. Það er verðlagið á mjólk, sem ráðið hefur því, hversu mörg fjós og fjósamenn eða bændur verða óþarfir árlega. Þetta verðlag hefur verið of lágt til þess að nýsköpun í stærri stíl hafi getað orðið, en nógu hátt til þess, að margir gamalgrónir framleiðendur hafa haldið áfram rekstri. Þeir sem halda áfram hafa séð sér hag í því að fækka starfsliði, fyrst vinnufólki, síðan skylduliði og að lokum draga þeir úr eigin vinnu og fá sér starf samhliða búskapnum.

 

Aðalatriði og lokaorð

  1. Reksturshagfræðingar og bændur hafa verið sammála um það í verki, að það væri hagkvæmt fyrir flesta bændur að gera búin minni sem vinnustaði.
  2. Léleg útkoma í bókhaldi eða búreikningum á einmenningsbúum og minni búum sem heild er að kenna ráðstöfunum í fortíðinni. (Þessar ráðstafanir kunna að hafa verið skynsamlegar við kringumstæður síns tíma). Léleg afkoma er þá því að kenna, að menn hafa ekki getað dregið úr vinnuafli í samræmi við nýja tækni. Menn hefur fyrsta kastið vantað sæmilega launað aukastarf og annað kastið svo vel launað fullt starf, að það vægi upp á móti tapi á íbúðarhúsi og öðrum fasteignum.
  3. Tiltölulega góð afkoma á tvímennings- og þrímenningsbúum í heild er því að þakka, að á þessum búum hafa menn haft hag af því að minnka búin úr þrímennings- og fjórmennings- eða stærri búum. Þetta hefur getað orðið af því að starfsfólkið hefur átt annarra kosta völ. Menn hafa getað fengið jafnvægi milli nýrrar tækni, bygginga og vinnu.
  4. Niðurstöður búreikninga verða því ekki túlkaðar þannig, að tvímennings- og þrímenningsbúin ættu að leysa einmenningsbú og minni bú af hólmi. Þvert á móti sýna þær árangurinn af því, að sumir hafa getað dregið úr bústærðinni mældri í vinnuafli. Þetta hefur verið hin eiginlega stærðarhagræðing í verki.
  5. Að byggja bú frá grunni hefur ekki verið hagkvæmt, hvorki af venjulegri stærð né mjög stór bú. Bæði áætlanir og reynsla hefur sýnt það.
  6. Þessa aðstæður eru að miklu leyti árangur af því, að verðlag á landbúnaðarafurðum helst lágt, vegna þess að neyslan eykst lítið, en afurðaaukningin er hröð.

Af því að landbúnaðarmálin eiga að þjóna ólíkum hagsmunum, verða ráðstafanir í þeim efnum gjarna í ósamræmi hver við aðra og stefnan reikul. Þeir, sem hafa unnið við jarðamál og bústærðarmál í stofnunum landbúnaðarins, hafa sem vonlegt er viljað hafa fyrir sér fleiri bú af þeirri gerð sem gefur góða raun, bú sem hafa sæmilega greiðslugetu og þar sem menn geta leyst hver annan af við gripahirðingu. Til þess að ná þessu marki hafa þeir viljað beina miklu fjármagni til valinna bænda til að gera þeim kleift að byggja upp bú sín eins og æskilegt væri. Þetta er kallað framlög til stærðarhagræðingar. Ég hef þegar bent á, að menn rugla saman orsök og afleiðingum, af því að menn átta sig ekki á því, að góð rekstrarútkoma er árangur af því að dregið hefur verið úr vinnuafli á búunum. Meira máli skiptir þó, af því að því fylgja eftirköst, að fjármagnsstraumurinn til hinna útvöldu bænda leiðir til framleiðsluaukningar, ef hann á að móta landbúnaðinn og vera meira en ánægjuleg sýning. Með því er stofnað til vandræða á öðrum búum, einnig þeim, sem nú eru viðunandi tvímennings- og þrímenningsbú. Viðbrögð þeirra við erfiðleikunum eru þau að draga saman vinnuna á búinu. Það vitum við af reynslunni. Þess vegna er erfitt að segja fyrir, hver verða áhrifin af fjármagnsframlögum til stærðarhagræðingar, en hitt er víst, að rekstrarhagræðing gerir yfirleitt erfiðara fyrir um stærðarhagræðingu í þeim skilningi sem hugtakið er venjulega notað. Sú reksturshagræðing, sem er mest áberandi, er afurðaaukning í búfjárrækt, en hún dregur úr þörfinni fyrir útihús og vinnu við búfjárhirðingu. – Í þessu sambandi skiptir miklu máli, hvernig markaðurinn og verðlagið breytist. Í markaði, sem dregst saman með lækkandi verði, verða tvímennings- og þrímenningsbúin á hraðara undanhaldi en í markaði, sem er í vexti með hækkuðu verði.

Í grein þessari hefur verið bent á misskilning, sem mótað hefur stefnu sumra í jarðamálum. Tilgangurinn með greininni hefur ekki verið sá að ræða, hvaða afleiðingar það orsakasamhengi, sem bent er á í greininni, ætti að hafa á ráðstafanir í landbúnaðarmálum.

Árbók landbúnaðarins 1969 110-17

 

[1] H. ROMARHEIM: Kva har prøvebruka lært oss? LOT småskrift 6/66.

[2] Sama heimild.

[3] N. WESTMARCH: The role of planning and management on family farms. Part II.

Impact of farm planning and advisory services on the economic results. Acta Agriculturæ Scandinavica nr. 2-3 1967, bls. 149-165.

[4] O. GULBRANDSEN: Strukturomvandlingen i jordbruket. Uppsala 1957,

[5] L. MYREHED og U. RENBORG: Företagsformen í Norrbottens framtida lantbruk. Jordbrukets utredningsinsitutur. Medd. nr. 2. Stockholm 1965. – V. SÄFVESTAD: Deltidslantbruket – problem och jöjligheter. Jordbrukets utredningsinstitut. Meddelande nr. 2. Stockholm 1964.

[6] O. BROX: Hva skjer í Nord-Norge? Oslo 1966.

[7] G. OSCARSSON og U. RENBORG: Förutsättningar för centraliserad mjölkproduktion i stordrift (Hogstad-undersökningen.). Jordbrukets utredningsinstitutt. Meddelande nr. 4. Stockholm 1961.

[8] E. ELSTRAND: Den driftsøkonomiske virkning av overgang til fellesfjøs. Utredning i forbindelse med planene om andelsfjøs på Nes, Hedmark. Norges landbruksøkonomiske institutt. Oslo 1966.