Hér skal segja frá veiðifélagi, sem leigir veiði með óvenjulegum hætti. Flókadalsá í Borgarfirði er ekki þekktasta laxáin í því héraði. Hún rennur um Flókadal og Bæjarsveit og út í Hvítá skammt þar frá, sem Reykjadalsá rennur í Hvítá. Í Flókadalsá var stunduð ádráttarveiði áður fyrr, með þeim afleiðingum að áin var um allmörg ár laxlaus, enda áin lítil og auðvelt að ná þar öllum laxi. Síðan var stofnað veiðifélag jarða við ána, og leigði það ána um nokkurt skeið gegn því einu, að seiði voru látin í hana. Leiddi það til þess, að nú fást hvað flestir laxar á stangveiðidag í þessari á af öllum laxám í landinu. Síðustu 15 árin eða svo hefur áin ekki verið leigð út á einu bretti, heldur eins og hér segir.

Á hverju ári draga veiðiréttareigendur um þá daga sem veiða má. Dagafjöldi eiganda er í réttu hlutfalli við einingafjölda sem fylgir jörðinni. Dregið er í tvennu lagi, fyrir fyrri hluta veiðitímans og síðari hlutann. Með því móti er komið í veg fyrir, að nokkur fái einungis daga á öðrum hluta sumarsins. Síðan ráðstafar hver sínum dögum. Menn geta auðvitað haft skipti á dögum, ef þeir vilja. Sumir selja sína stangardaga, aðrir veiða sjálfir, og enn aðrir bjóða kunningjum að veiða. Getur þannig hver hagnýtt rétt sinn á þann hátt, sem hann hefur mestan hag af. Stangveiðidaga má t. d. selja félögum veiðimanna eða ferðaskrifstofum.

Þó að menn ætli sér að nota veiðidaga sína sjálfir, getur verið svo góður þurrkur, þegar stundin kemur, að menn verða að vera í heyvinnu, en þá má með litlum fyrirvara kalla í veiðimenn, ef menn hafa komið sér í samband við þá áður. Menn telja, að eftirlit með ánni verði mjög gott með þessu móti, þar sem veiðimenn eru annaðhvort bændurnir við ána eða kunningjar þeirra og vinir. Um leið gefst kostur á að rækja kunningsskap við gamla sveitunga og aðra með þeim hlunnindum sem því vill fylgja.

Fyrirkomulag þetta virðist í alla staði vera hin besta hagfræði.

Guðbrandur í Bæ (Nýjabæ) sagði við mig, þegar ég var að forvitnast um málið og kvaðst vilja segja frá þessu fyrirkomulagi í Frey: ,,Já, skrifaðu um þetta í Frey, og kallaðu greinina Fyrirmyndarveiðifélag.“

Ég þekki ekki að vísu mörg veiðifélög, en trúi því þó, að það sé réttnefni.

Frey 66 (1970) 435