Tillögur þær og greinargerð, sem hér fylgja, voru efnislega lagðar fyrir fund í Félagi íslenskra búfræðikandídata í desember 1969. Síðar ákvað félagsfundur að vísa þessu máli lítið breyttu til nokkurra landbúnaðarstofnana, sem voru beðnar álits í málinu. Þar sem málið hefur farið svo víða, þykir upphafsmanni þess rétt að koma því einnig á framfæri við lesendur Freys.



1. 

Fundur í Félagi íslenskra búfræðikandídata fer þess á leit við stjórn Búnaðarfélags Íslands, landbúnaðarráðherra og stjórn Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, að þessir aðiljar athugi, hvort það sé heppilegt og þá á hvern hátt því yrði fyrir komið, að Búnaðarþing ráði fjárveitingum til landbúnaðarrannsókna á líkan hátt og þingið ákveður nú fjárveitingar til leiðbeiningarstarfsemi í landbúnaði. Athugunin þyrfti að taka bæði til nauðsynlegra breytinga á landslögum og lögum Búnaðarfélagsins og til þess, hvernig málum yrði að öðru leyti fyrir komið, þó að ekki sé um löggjafaratriði að ræða.

 

2.

Fundur í Félagi íslenskra búfræðikandídata mælir með því við landbúnaðarráðherra og stjórn Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, að efldar verði sérstaklega hagnýtar rannsóknir á fóðuröflun og fóðrun. Telur fundurinn, að slíkar rannsóknir verði best settar á Hvanneyri vegna afnota af túnum, búfé og véltækni og verði það látið ganga fyrir öðru að bæta við fjórum til fimm nýjum starfsmönnum þar á vegum Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. Fundurinn telur heppilegt, að dreifðar tilraunir verði efldar með því að ráða að tilraunastöðvunum aðstoðarmenn, sem væru að hálfu ráðunautar búnaðar­sambanda.

 

3.

Fundur í Félagi íslenskra búfræðikandídata skorar á stjórn Stéttarsambands bænda að vinna að því, að lagt verði gjald á innflutt fóður og að sjá til þess, að gjaldinu verði svo fyrir komið, að það dragi ekki úr tekjum bænda í heild né breyti tekjuskiptingu meðal bænda einstökum byggðarlögum og búgreinum í óhag, heldur verði almenn hvöt til aukinnar innlendrar fóðuröflunar.

 

4.

Fundur í Félagi íslenskra búfræðikandídata fer þess á leit við landbúnaðarráðherra og stjórn Búnaðarfélags Íslands, að þessi aðiljar leiti leiða til þess að einstök byggðarlög fái meiri rétt til að ráðstafa því fé, sem veitt er úr ríkissjóði til landbúnaðarmála og lánað er úr Stofnlánadeild landbúnaðarins.

 

Greinargerð:

  1. Um skipulag rannsókna

Óþurrkarnir 1969 og grasbrestur undanfarin ár hljóta að verða þjóðinni mikilvæg hvatning um það að ná betra valdi á öflun fóðurs. Sú þekking, sem aflað hefur verið undanfarna áratugi, hefur ekki komið bændum að nægilega góðu haldi síðustu árin, hvort sem því veldur breytt veðurfar, langvarandi áhrif tækja og tilbúins áburðar á sprettu, öðru vísi nýting á túnum eða eitthvað annað. Til þess að afla bændum og leiðbeinendum hagnýtrar þekkingar á þessum málum þarf að sjálfsögðu að halda áfram og auka stórlega rannsóknir á sviði fóðuröflunar.

Þess er þó tæplega að vænta, að óskir fáeinna einstaklinga um aukið fé til rannsókna á þessu sviði leiði til mikils, ef látið er sitja við þær. Íhuga verður hvaða skipulag rannsóknarmála í landbúnaði sé líklegast til að sjá fyrir sem mestu fé til þeirra og sem bestri nýtingu þess. Er þá tvenns að gæta. Annars vegar að vinna rannsóknastarfsmanna sé samræmd, þannig að menn bæti hver annan upp. Hitt er að sem flestir þeirra, sem eiga að njóta árangurs af rannsóknunum, geti haft þar áhrif á þau verkefni sem unnið er að og sjái því ástæðu til að vinna að því að ríflegt fé sé lagt fram til rannsóknanna. Af þessum sökum virðist rétt að íhuga, hvort Búnaðarþing beri ekki að afgreiða fjárveitingar til landbúnaðarrannsókna á sama hátt og þingið afgreiðir nú fjárveitingar til leiðbeiningarstarfsemi í landbúnaði. Yrði þá gangur málsins sá, að stjórn Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins legði fyrir Búnaðarþing tillögur sínar um skiptingu þess fjár, sem veitt hefur verið á fjárlögum til landbúnaðarrannsókna. Tillögunum fylgdi greinargerð stjórnarinnar og einstakra sérfræðinga um rannsóknarverkefni. Yrði þá að gera ráð fyrir, að stjórn Rannsóknastofnunar landbúnaðarins legði fyrir Búnaðarþing tillögur sínar um skiptingu þess fjár, sem veitt hefur verið á fjárlögum til landbúnaðarrannsóknar. Tillögunum fylgdi greinargerð stjórnarinnar og einstakra sérfræðinga um rannsóknarverkefnið. Yrði þá að gera ráð fyrir, að stjórn Rannsóknastofnunarinnar og starfsmenn fái sömu réttindi á Búnaðarþingi og starfsmenn og stjórn Búnaðarfélags Íslands hafa nú.

Með þessu fyrirkomulagi ætti að vinnast það, að árlega yrðu skipulegar umræður um rannsóknir í landbúnaði, þar sem greinargerð stjórnar Rannsóknastofnunarinnar yrði nokkurs konar fjárlagaræða. Samning greinargerðarinnar yrði mikilvægt aðhald um samræmingu á einstökum verkefnum hverju að öðru og samhæfingu þeirra að ástandi landbúnaðarmála. Umræður á Búnaðarþingi mundu veita einstökum sérfræðingum tækifæri til að flytja mál sitt almenningi, og ætti það í senn að tryggja sérfræðingum málefnalega afgreiðslu á óskum þeirra og vekja athygli almennings á rannsóknamálum, en afgreiðsla mála á Búnaðarþingi ætti að tryggja bændum með breytilegar þarfir fyrir rannsóknir áhrif og draga þá til ábyrgðar á því að fjár sé aflað til rannsóknanna. Treysta verður því að stjórn Rannsóknastofnunarinnar flytji mál sitt svo sannfærandi, að ekki verði hallað á seinunnar undirstöðurannsóknir í fjárframlögum.

 

  1. Um sérstakt átak í rannsóknum á túnrækt, heyskap og skyldri fóðuröflun

Þó að túnrækt og heyskapur hafi undanfarin ár orðið fyrir miklum áföllum án þess að segja megi, að búvísindin hafi fengið rönd við reist, verður ekki á móti því borið, að starfskilyrði rannsóknamanna í landbúnaði hafa batnað verulega síðasta áratuginn og starfslið vaxið að menntun og höfðatölu. Þau verkefni, sem Rannsóknastofnun landbúnaðarins vinnur nú að á Keldnaholti, eru að mestum hluta grundvallarrannsóknir, skipulagning og uppgjör eldri tilraunaverkefna fyrir tilraunastöðvarnar og þjónustu­rannsóknir á jarðvegi og fóðri. Á tilraunastöðvum Rannsóknastofnunarinnar í jarðrækt hefur megináhersla verið lögð á fjölþættar áburðartilraunir, og fáeinar jarðvinnslutilraunir hafa verið gerðar á tilraunastöðvunum. Auk ofannefndrar aðstöðu hefur Rannsóknastofnun landbúnaðarins tilraunabú að Hesti, þar sem gerðar hafa verið umfangsmeiri beitartilraunir á sauðfé en á öðrum stöðum á landinu.

Loks er rekin umfangsmikil rannsóknastarfsemi á Hvanneyri, bæði á vegum bændaskólans þar og á vegum Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. Þar fer starfsemi Bútæknideildar Rannsóknastofnunar fram. Tilraunaverkefni á sviði túnræktar og fóðuröflunar á Hvanneyri hafa í ríkum mæli verið tengd almennum búskaparvandamálum. Má þar nefna rannsóknir á jarðvinnslu, meðferð túna, bæði beit, slætti og vélaumferð, áburðarnotkun, heyskap og heyverkun.

Líta verður svo á, að á Hvanneyri hafi nú þegar verið lagður grundvöllur að þeim rannsóknum, sem brýnast er að vinna að á sviði túnræktar og fóðuröflunar. Til þess að afla sem fyrst hagnýtra niðurstaðna af því sem þegar hefur verið byrjað á og færa rannsóknirnar út til skyldra, aðkallandi verkefna, eins og að tengja fóðurrannsóknir heyverkunarrannsóknum, víkka heyskaparrannsóknir út og rannsaka farsæla heyskaparbændur í starfi, en leggja þó mest kapp á heyverkunarrannsóknir, þarf að auka talsvert starfslið á Hvanneyri um leið og skipulegum tengslum við Keldnaholt er haldið uppi. Verður að telja allvel fyrir þessu séð, ef bætt yrði við fjórum til fimm nýjum starfsmönnum á Hvanneyri við rannsóknir á þessu sviði í heyverkum, í heyskapartækni, í fóðrun, í vinnuhagræðingu og hagfræði og í jarðrækt með áherslu á jurtalífeðlisfræði. Til þess að veita þessum nýju sérfræðingum góð starfsskilyrði og nýta krafta þeirra sem best, ætti að gefa þeim kost á kennslu við framhaldsdeildina og jafnvel bændaskólann. Mætti kennslan vel svara til allt að einum fjórða eða einum þriðja af eðlilegu starfsári.

Varðandi dreifðar tilraunir ber að íhuga, hvort þær verði ekki efldar á hagkvæmastan hátt og með bestum árangri með því að tilraunastjórarnir fengju aðstoðarmenn, sem væru að hálfu ráðunautar búnaðarsambanda, en að hálfu við tilraunir, og byggju þá á tilraunastöðvunum. Ætti þá að nota hvert tækifæri, þegar mannaskipti verða hjá viðkomandi búnaðarsamböndum, til að koma þessu í kring.

 

  1. Um verndun innlendrar fóðuröflunar

Af þeim búskapargreinum, sem eðlilegt hefur verið að stunda hér á landi, er heyskapur og önnur fóðuröflun eina mikilvæga greinin, sem ekki hefur haldið hlut sínum í samkeppni við erlenda framleiðslu, enda nýtur innlent fóður engrar innflutningsverndar, en innflutningsvernd búfjárræktarinnar er nær alger. Án þess að telja það í sjálfu sér rök í nokkru máli að vísa til þess, hvernig farið er að annars staðar á Norðurlöndum, þykir rétt að vekja athygli á því, að í Noregi, Svíþjóð og Danmörku nýtur innlent fóður talsverðrar verndar í samkeppni við innflutt fóður. Nemur það í Noregi sem svarar þremur íslenskum krónum á kíló af kjarnfóðri. Telja verður, að sú trygging, sem innlend búfjárrækt á að veita landsmönnum, skerðist verulega, ef vaxandi hlutur fóðursins verður fluttur inn. Rannsóknir sem auka samkeppnishæfni innlends fóðurs hafa nokkra sérstöðu, þar sem þær auka svigrúm landbúnaðarins og færa sveitunum verkefni.

Þó að auknar rannsóknir á sviði fóðuröflunar séu brýn nauðsyn og séu líklegar til að styrkja samkeppnishæfni innlends fóðurs, er harla ólíklegt, að þær geti fyrst um sinn snúið við þeirri þróun, sem verið hefur undanfarin ár, að vaxandi hluti þess fóðurs, sem notað er hér, er innfluttur. Vegna harðæris og nýrra verslunarhátta er nokkur ástæða til að óttast varanlega og hlutfallslega aukningu innflutts fóðurs í landinu. Harma verður, að ekki hefur náðst samstaða um að leggja innflutningsgjald á fóður. Ekki er þó rétt að mæla með slíku innflutningsgjaldi nema það sé þannig lagt á, að mönnum sé ekki refsað fyrir að hafa mótað búskaparlag sitt og gjafalag út frá gildandi verðlagi, heldur séu menn með því hvattir til að auka eigin fóðuröflun. Sömuleiðis verður að tryggja, að gjaldið bitni ekki á þeim, sem búa við harðæri. Ef unnt er að koma gjaldinu þannig fyrir, að þessum skilyrðum sé fullnægt, verður að telja málið eitt brýnasta nauðsynjamál landbúnaðarins.

 

  1. Um framlög til jarðabóta og lán frá Stofnlánadeild landbúnaðarins

Þó að mikils megi vænta af réttilega álögðu innflutningsgjaldi á fóður og rannsóknum á sviði fóðuröflunar, hlýtur þróun heyskapar og annarrar fóðuröflunar og búskapar yfirleitt að hvíla mest á herðum bænda. Hver sú þróun verður mun reynslan skera úr um, en til þess að þróunin falli í farsælan farveg þarf að afla fjölbreyttrar reynslu við ólíkar aðstæður. Ýmsar hugmyndir eru uppi um það, hvernig gera megi fóðuröflunina auðveldari og öruggari, en lítil reynsla er oft á tíðum til að styðjast við, enda skilyrðin til búskapar hin breytilegustu á landinu. Það liggur því fyrir að stuðla að því, að bændur hafi slík tök á samtökum sínum, að þeir geti komið í verk á eigin ábyrgð þeim ráðagerðum, sem þeim og starfsmönnum þeirra þykir líklegt að horfi til framfara fyrir sveitirnar.

Um langt skeið hefur sá háttur verið á um fyrirgreiðslu ríkisins við jarðabætur og aðra fjárfestingu í sveitum, að veitt eru framlög til jarðabóta og stofnlán til bænda, án þess að samtök bænda hafi rétt til að beina fénu í ólíka farvegi eftir byggðarlögum. Ástæða er til að velta því fyrir sér, hvort það fé, sem hér er um að ræða, nýttist ekki betur, ef einstök búnaðarsambönd og búnaðarfélög fengju heimild til þess að ráðstafa fénu á sveigjanlegri hátt en nú er, þar sem sama fjárhæð er nú veitt á einingu án íhlutunar þessara samtaka. Slíkt sveigjanlegt fyrirkomulag má hugsa sér með ýmsu móti. Eftirfarandi dæmi um fyrirkomulag er sett fram til skýringar á því sem við er átt.

Í stað framlag ríkisins til tilgreindra jarðabóta einstaklinga yrði veitt úr ríkissjóði framlag til búnaðarsambanda, og mætti framlagið vera í hlutfalli við tölu þeirra, sem hafa framfæri af landbúnaði á svæðinu. Búnaðarsamböndin settu sér reglugerð um nýtingu fjárins, og sæju ráðunautar þeirra um að eftir reglugerðinni væri farið. Reglugerðin hlyti staðfestingu á aðalfundi búnaðarsambands. Ef búnaðarfélag óskar þess, hefði það heimild til að setja sér eigin reglugerð, en fulltrúar þess búnaðarfélags ættu þá ekki hlut að afgreiðslu aðalfundar á reglugerð búnaðarsambandsins. Héraðsráðunautarnir hefðu einnig eftirlit og eftir atvikum einnig umsjón með framkvæmd reglugerða búnaðarfélaganna. Með þessu móti fengi frumkvæði héraðsráðunauta, staðþekking heimamanna og sérstaða byggðarlaganna að njóta sín, og menn gætu fitjað upp á ýmsum lausnum á vanda sínum á eigin ábyrgð.

Í stað þess að búnaðarsambönd og búnaðarfélög ráðstöfuðu umræddu fé, mætti hugleiða, hvort það kæmi ekki að betri notum, ef ráðstöfun þess væri í höndum hreppsnefnda og sýslunefnda í þeim hreppum og sýslum, þar sem meiri hluti íbúanna lifir á landbúnaði, en framkvæmd og eftirlit reglugerðar væri eftir sem áður í höndum starfsmanna búnaðarsambandanna. Er þá haft í huga, að hreppsnefndir og sýslunefndir eru ef til vill líklegri en búnaðarsamböndin til að ráðstafa fénu í samræmi við alhliða þarfir sveitanna, en ekki aðeins þarfir landbúnaðarins í þröngum skilningi. Er þetta þó aðeins getgáta til áminningar.

Hugsa mætti sér, að þetta dreifða ákvörðunarvald í meðferð framlaga úr ríkissjóði yrði einnig látið ná til lánveitinga úr Stofnlánadeild landbúnaðarins. Yrði þá verkefni Stofnlánadeildar útborgun lána og innheimta, og einnig setti hún sér almennar reglur um það, hvaða tryggingar er krafist vegna stofnlána, en búnaðarsambönd, búnaðarfélög, hreppsnefndir og sýslunefndir eftir atvikum réðu lánsfjárhæð til einstakra framkvæmda að fullnægðri almennri veðkröfu Stofnlánadeildarinnar. Hámarksfjárhæð á hvert svæði mætti, eins og varðandi framlögin, miða við ákveðna fjárhæð á hvern íbúa sem hefur framfæri af landbúnaði. Ef til vill er auðveldara að ná samkomulagi um að dreifa ákvörðunarvaldi varðandi stofnlán en vegna ríkisframlaga, en þó skal ekkert fullyrt um það að óreyndu

Frey 66 (1970) 507-10