Á fyrri hluta 19du aldar, þegar tæknin breytti vefnaði úr handverki í iðnað og annarri framleiðslu á líkan hátt, bjuggust ýmsir við því, að eins færi í landbúnaði. Í stað heimilisrekstrar eins og víða var, kæmist á vélvæddur stórrekstur. Þróunin varð samt ekki sú í löndum norðvestur-Evrópu, heldur hélst heimilisrekstur í landbúnaði, en hann tók í þjónustu sína hvers konar verksmiðjuframleidd tæki. Enn frekar gerðist slíkt í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Sums staðar hefur samt búskapur tekið á sig slíkt snið, að menn líkja því við verksmiðjurekstur. Miðað við mannfjölda í einstökum iðnfyrirtækjum er þó alltaf um smárekstur að ræða, en búin eru svo mikið vélvædd miðað við það, sem menn hafa átt að venjast, að mönnum finnst það líkjast verksmiðju.

Þessi þróun hefur gengið hömlulaust fyrir sig í sumum löndum og jafnvel verið ýtt á eftir af stjórnvöldum, til að mynda hér á landi. Af hálfu Búnaðarfélags Íslands var alllengi ákaft mælt með verksmiðjubúskap af ráðunaut félagsins í þeim búgreinum, sem helst hafa fengið á sig slíkt snið (alifugla- og svínarækt). Stofnlánadeild landbúnaðarins lánaði fé með kostakjörum til að byggja upp slík bú. Skuldunautar deildarinnar hafa endurgreitt lánin með miklu rýrari krónum en þeir fengu útborgaðar og vextirnir engan veginn jafnað metið. Stofnlánadeildin hefur jafnað metin á ýmsan hátt: með því að draga af afurðaverði almennt, með gjaldi á útselda vöru og með sérstöku framlagi úr ríkissjóði. Lán úr ríkisbönkunum hafa slík bú fengið með venjulegum vaxtakjörum. Þeir vextir hafa, eins og kunnugt er, hvergi nærri svarað til þess, hvað endurgreiddar krónur voru rýrari að gildi en þær sem tekið var við. Þar sem verksmiðjubúin nota hlutfallslega meira fjármagn en önnur bú, hefur slíkur rekstur umfram annan rekstur haft hag af þeirri meðgjöf sem verðbólgan hefur verið skuldunautum.

Í sumum löndum hafa verið settar nokkrar hömlur á rekstur verksmiðjubúa eða sterkar óskir komið fram um það. Má þar nefna Noreg, Svíþjóð og Finnland, þrátt fyrir það að að minnsta kosti Noregur og Svíþjóð eru ríki sem virða almennt miklu betur reglur um óhefta samkeppni vöruframleiðenda en tíðkast hefur hér á landi. Þau rök sem færð hafa verið fyrir slíkum hömlum hafa verið af ýmsu tagi. Norðmenn hafa vísað til þess, að verksmiðjubúskapur spillti fyrir því markmiði að halda við byggð í sveitum landsins, með hverju slíku búi hyrfi grundvöllur fleiri heimilisbúa af hóflegri stærð. Þar hafa því verið settar reglur um að menn fengju ekki að stofna til búreksturs yfir visst mark án sérstaks leyfis. Hins vegar hefur ekki verið tekið fyrir þann búrekstur sem kominn var á fót, þótt hann sé yfir þeim mörkum sem tóku þá gildi (1975). Mörkin (500 sláturgrísir eða 20.000 sláturkjúklingar á ári eða 2.000 varphænur) ætla menn, að séu svo rúm, að arðsemi ætti ekki að aukast verulega með enn stærri rekstri. Í Svíþjóð hefur það frekar ráðið viðhorfi manna að stórrekstri fylgir mengum. Því hafa verið settar reglur um, að búið sé innan þeirra marka, að öllum skít verði komið í jörð sem áburði. Í Finnlandi hafa markaðsþrengingar leitt til þess, að takmarkanir eru á stærð nýrra kúabúa á svipaðan hátt og gilda í Noregi um svína- og alifuglabú.

Hér á landi ber það til tíðinda, að Stéttarsamband bænda hefur með nýlegri ályktun (á aðalfundi á Kirkjubæjarklaustri) snúist gegn þeim framleiðsluháttum sem unnið hefur verið að með atbeina Búnaðarfélags Íslands og með tilstyrk Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Slík viðbrögð nú stafa auðvitað af þeim þrengingum, sem mæta bændum almennt í sölu afurða. Hins vegar er ekki líklegt, að núverandi verksmiðjubú verði dæmd úr leik, en hægara að koma í veg fyrir að ný rísi. Þó að verksmiðjubú hætti að njóta atbeina Búnaðarfélags Íslands og fengju ekki frekar en orðið er niðurgreitt lánsfé, njóta þau því ýmissa ráðstafana af hendi hins opinbera. Þegar svona bú er komið á fót verður illa aftur snúið. Þó að reksturinn gangi illa og menn fleyti sér á lausaskuldum, kemur að því, eins og reynslan sýnir, að sett eru lög um að breyta almennt lausaskuldum bænda í föst lán. Slík ráðstöfun kann að vera hugsuð í þágu óbreyttra bænda, sem lent hafa í kröggum og eru að þrotum komnir, en þeirra njóta ef til vill öðrum fremur verksmiðjubú, sem eru stórskuldug við viðskiptafyrirtæki sín og banka. Fyrirtækin eiga í húfi að tapa skuldunum, ef lausaskuldunum yrði ekki breytt í föst lán. Það er því hagur þeirra, að verksmiðjubúum sé bjargað. Ef svo færi hins vegar, að þau lentu á nauðungaruppboði og eigendur gæfust upp á búskapnum, er eins víst að aðrir sæju sér hag í því að hefja þar búrekstur að nýju. Þá er nefnilega búið að afskrifa tapið, en mannvirkin henta eftir sem áður ekki öðru betur en slíkum rekstri.–Aðrar hliðar þessa máls hafa lítið komið til opinberrar umræðu hér á landi. Dýralæknar hafa rætt um, að settar yrðu sérstakar reglur um aðbúnað, til að mynda alifugla. Ekki hefur orðið af því, en fyrirmyndir eru aðfengnar frá öðrum löndum.

Stefnuyfirlýsing bændasamtakanna um verksmiðjubú hefur vakið athygli. Greinarhöfundur nokkur kvað fólk hlæja að samþykkt aðalfundarins um að setja hömlur á verksmiðjubú og lýsti um leið sérstakri umhyggju fyrir smábændum. Bæjarbúar hafa margir lausbeislaðar hugmyndir um hvað er hagkvæm bústærð. Alltaf kunna að vera meðal bankamanna þeir sem auðvelt er að telja á það að veita fé í slíkan búskap. Lánskjör undanfarna áratugi og árangur af búrekstri, sem er byggður á þeim, hefur mjög brenglað hugmyndir manna um það, hvað sé hagkvæmur búrekstur, sem skilar vöxtum, en nýtur ekki þess, sem verið hefur, að innistæðueigendur í bönkum greiði með rekstrinum með milligöngu verðbólgunnar, framleiðendur almennt eða neytendur almennt (stofnlánadeildargjöld) og ríkissjóður (framlag ríkisins til stofnlánadeildar) eða þess að lausaskuldum sé breytt í föst lán með sérstökum lögum. Við þessar kringumstæður er ekki nema von, að upp rísi efnamenn í bæjunum, sem langar að skemmta sér við búskap upp í sveit – jafnvel gætu hugsað sér að ganga sjálfir að verki–og vilja stofna til verksmiðjubúa langt umfram þá stærð sem best gefur arð þegar á allt er litið.

Þeir, sem unnið hafa að viðgangi landbúnaðarins undanfarna áratugi, hafa hver um sig séð málið af sjónarhóli þess býlis, þeirrar sveitar eða þess héraðs sem þeim stóð næst. Menn hafa þá séð fyrir sér, hvað það gæti styrkt mikið viðkomandi heimili, sveit eða hérað, ef búskapur ykist þar með framkvæmdum og vélvæðingu. Þessu hafa menn síðan unnið að með því að lækka kostnað við framkvæmdir og vélvæðingu með ríkisframlagi, með ýmiss konar tekjum til Stofnlánadeildar landbúnaðarins til að halda niðri fjármagnskostnaði, og svo hefur verðbólgan óbeðin gengið í lið með þeim. Sjónarhóllinn hefur ekki verið þar sem heildaráhrifin af þessum ráðstöfunum koma fram, nefnilega í aðþrengdum markaði. Það hefur verið óskylt mál, sem lengi vel leystist með ákvæði um tryggðar útflutningsuppbætur. Nú duga þær ekki, en hver einstakur bóndi fær á borð hjá sér reikning, sem segir honum, hvað hann þurfi að taka á sig mikið vegna markaðsþrenginga. Sjóndeildarhringurinn hefur breyst. Hver bóndi sér að tapið, sem hann á að bera, yrði minna, ef aðrir bændur sýndu minna kapp í framkvæmdum. Bændur hafa lengi beitt samtökum sínum til að auka framkvæmdir, nú leita menn sameiginlega ráða til að halda niðri þeim framkvæmdum sem auka framleiðsluna mest.

Frey 76 (1980) 824-6