1. Bágstödd börn
  2. Venjuleg börn
  3. Stofnanir eða heimili handa illa stöddum börnum
  4. Landbúnaður í þágu barna

 

 

Björn S. Stefánsson hefur kannað hvernig börnum og unglingum er komið í fóstur hér á landi og samið um það skýrslu til þeirra þriggja aðila sem styrktu könnunina fjárhagslega, en þeir voru samstarfsráð á Norðurlöndum um afbrotafræði, Stéttarsamband bænda og Félagsmálastofnun Kópavogs. Hann hefur einnig samið nokkrar stuttar greinar um efnið til birtingar í Frey.

 

 

1. Bágstödd börn

Misjafn sauður er í mörgu fé. Reykjavíkurborg hefur um langan aldur komið bágstöddum börnum fyrir á heimilum vandalausra um lengri eða skemmri tíma. Fyrir rúmum áratug reyndi borgin að koma skipulagi á slíkar vistanir barna á einkaheimilum í borginni. Það tókst ekki. Fólk kærði sig ekki um þær skuldbindingar sem því fylgdu; húsmæður vildu komast í sumarleyfi, en þá losnaði sambandið milli barnsins og heimilisins, og barnið beið tjón af. Félagsmálastofnun borgarinnar varð þá að snúa sér til heimila úti á landi til að taka börn. Erfiðum börnum er nú séð fyrir sérkennslu í borginni betur en áður var, og hefur það dregið nokkuð úr þörfinni fyrir að koma börnum fyrir á heimilum vandalausra.

Þegar kenna þarf barni sérstaklega, en því er ekki vært heima, telja sérkennslufulltrúar og sálfræðingar skólanna í Reykjavík heppilegt að vista barnið á sveitabæ eða í heimavistarskóla úti á landi. Barnið þarf ró og fær hana helst úti á landi. Menn vilja að sjálfsögðu, að fólkið, sem tekur barnið til sín sé prýtt ýmsum kostum, en þannig er ástatt fyrir barninu þegar svo langt er gengið, að menn telja nánast allt skárra en að það sé áfram heima hjá sér. Verst er að börnunum er oft komið fyrir of seint. Best væri, að barninu væri forðað að heiman sem fyrst (fyrir skólaaldur), en það er ekki fyrr en barnið kemur í skóla, að tjónið verður augljóst og opinbert. Menn hika líka við að beita valdi fyrr en barninu er sýnilega hætt komið. Fá verður samþykki barna, sem vistuð eru hjá vandalausum að ósk sálfræðinga skólanna og með milligöngu félagsmálastofnunar, þau eru það þroskuð, að annað gengi ekki.

Árið 1979 kom Reykjavíkurborg fyrir 140 börnum að sumarlagi á einkaheimilum. Aðrir kaupstaðir grípa einnig til sömu ráða. Hér er um að ræða sveitaheimili ú ýmsum landshlutum. Dvölin varir venjulega þá þrjá mánuði sem frí er í skólanum og skólinn er ekki til að létta á foreldrunum. Þessi sumarvist er mikils metin, til að mynda á Kleifarvegsheimilinu, meðferðarheimili Reykjavíkurborgar fyrir taugaveikluð börn, sem er lokað á sumrin. Börnin þar hverfa út á land, áður en skóla lýkur, til þess að ná í sauðburðinn, og þau koma helst ekki aftur úr sveitinni, fyrr en eftir að skóli byrjar og geta þannig verið með, þegar fé kemur af fjalli. Sumarvist á sveitabæ er talin heppilegt framhald á meðferðinni á Kleifarvegsheimilinu og heppilegri en að barnið fari beint heim til sinna.

Áður fyrri og raunar enn þann dag í dag getur sumarvistin verið reynslutími með það í huga, að barnið verði áfram á bænum veturinn, ef ástæður eru erfiðar heima fyrir. Þetta getur gerst án opinberrar milligöngu og er líka oft hugmyndin á bak við sumarvistun félagsmálastofnana. Fólkið á bænum er þá ekki endilega að hugsa um, að barnið komi í hendur þess til frambúðar. Að þessu leyti er mikill munur á fólki til sveita og í kaupstöðum, þar sem kaupstaðarfólk kærir sig helst ekki um að taka að sér illa stödd börn, nema það sé til frambúðar með fóstursamningi eða ættleiðingu.

Reykjavíkurborg kom 108 börnum fyrir á einkaheimilum á árinu 1979 til viðbótar við sumarvistanir. Í öðrum kaupstöðum er einnig gripið til þessa ráðs að koma illa stöddum börnum fyrir á einkaheimilum um nokkurt skeið. Oftast er um sveitaheimili (bændabýli) að ræða. Önnur heimili sinna þessu ekki, þegar auglýst er eftir heimilum í þessu skyni. Hugmyndin er, að barnið komi aftur til síns fólks, þegar kringumstæður hafa skánað. Ýmis dæmi eru um það, að barnið hafi snúið of fljótt aftur, þegar í ljós kemur, að heimilisaðstæður hafa ekki skánað og barnið hlýtur illt af og verður að forða því aftur upp í sveit.

Í sveitum nærri höfuðborginni hefur fólk verið ófúst að taka slík börn. Fólk virðist fúsast til þess, þar sem er alhliða búfjárhald (mjólkurkýr og sauðfé), aðrir kostir til framfæris fáir og bú ekki stór né arðsöm. Þó er þetta ekki einhlítt. Sum staðar virðist liggja í landi að taka ekki félagsmálabörn, og þegar fólk er spurt, hvort slík börn séu þar í sveit, hrósar það happi yfir því, að svo sé ekki.

Starfsfólk félagsmálastofnana og fólk til sveita er á einu máli um það, að dvöl á sveitabæ geri barni, sem á bágt, mest gagn, ef barnið fer sem yngst í sveitina, á fyrstu skólaárum eða fyrr. Erfið börn, sem komin eru undir fermingaraldur, hafi harðnað svo og séu svo illa farin, að þau lagist lítið og verði áfram erfið. Þau valdi einnig vandræðum í skólanum. Það er svo til eingöngu drengir, sem þannig eru vistaðir. Sveitafólk leggur mikla áherslu á það, að börnin komi oft of seint, þegar þau eru svo illa farin, að örðugt er úr að bæta. Tvennt ræður því, hvað þau koma seint. Það verður ekki augljóst og opinbert, hversu illa er komið fyrir barninu, fyrr en það kemur í skóla, og yfirvöld draga að grípa til sinna ráða, þangað til öllum hlutaðeigandi er ljóst, hversu illa er komið.

Félagsmálafólk telur, að erfið börn eigi helst ekki að vera á heimili með jafnöldrum eða lítið yngri börnum, sem eðlilegt er að heimti athygli fullorðna fólksins á bænum, svo að aðkomubarnið, sem þarfnast sérstakrar athygli vegna fyrri vanrækslu, þykist sniðgengið. Taugaveikluð börn þurfa það næði, sem er á sveitabæ, fasta dagskrá fullorðna fólksins heima fyrir að störfum, sem barnið skilur tilganginn í og einhver verkefni handa því, sem fylla hugann. Heppilegt þykir að koma erfiðu barni úr vondum félagsskap og óhollum venjum með því að skipta þannig um umhverfi. Sveitafólk heldur því fram, að samband barnsins við foreldrana (í bænum) með símtölum og heimsóknum spilli oft barninu. Foreldrarnir geta skotið upp kollinum hvenær sem er, jafnvel í fjarlægum landshlutum. Ef börnin heimsækja foreldra sína um jól eða páska, koma þau oft rugluð til baka og valda ókyrrð í skólanum. Slík börn ættu ekki að vera í heimavistarskóla, þar trufla þau mest, enda henta fámennir skólar þeim best. Stundum er talið heppilegt, að þau sleppi skólagöngu í eitt ár eða tvö, meðan þau eru að jafna sig, þó að þau megi illa við að missa úr námi.

Sveitafólk kann að líta slík börn hornauga fyrst í stað, en það lagast gjarna með kynnum. Komið hefur þó fyrir, að fólk hafi kynnst slíkum pörupiltum, að það vilji ekki slík börn sín á meðal í sveitinni og í skólanum. Það er að sjálfsögðu barninu til heilla, að sveitafólk sé almennt velviljað slíkum ráðstöfunum. Í sveitum með eigin skóla, en fá börn, á fólk á hættu, ef börnum fækkar, að hlutdeild ríkisins í kennslukostnaði lækki og hefur því sérstaka ástæðu til að umbera slík börn einnig að vetrinum. Þar verður það í þágu allrar sveitarinnar, að barnafjöldinn haldist. Slík aðkomubörn mega þó ekki verða mörg hlutfallslega, ef þau eru erfið – helst ekki nema 5 – 10%, telja þeir sem reynslu hafa.

Sveitarstjórnir krefjast fullra bóta frá bæ og ríki vegna aukaútgjalda, sem fylgja aðkomubörnum, til að mynda þar sem skólaakstur lengist eða til sérkennslu. Slíkar bætur skila sér iðulega seint.

Yngri prestur einn, búandi í sveit og með mikla reynslu við að útvega bágstöddum höfuðborgarbörnum sveitavist, telur nauðsynlegt, að nefnd bænda og bændakvenna gæti hagsmuna sveitaheimila, sem taka börn til sín. Eins og nú er, stendur félagsmálastofnunin miklu sterkar að vígi en sveitarheimilið, þegar samið er um vist fyrir hvert einstakt barn. Nefndin ætti að gera tillögu um meðlag með tilliti til þess, að álagið á heimilið af börnunum er misjafnt – ekki endilega mikið af sumarbörnum, en öðru máli gegnir um börn, sem þurfa að vera lengur og kunna að þarfnast miklu meiri ummönnunar en venjuleg börn. Sveitaheimilið þyrfti að tryggja fyrir tjóni, sem barnið kann að valda, ef það til að mynda hnuplar einhverju eða skemmir dráttarvélina og önnur tæki. Eins og er ræður félagsmálastofnun slíkum bótum. Nefndin ætti að líta eftir því, að læknir rannsaki barnið, áður en það fer í sveitina. Einnig ætti nefndin að sjá til þess, að ekki verði of mörg börn á einstöku heimili eða í sömu sveit eða skóla. Í samningum við sveitaheimilið ætti að hafa reglur um samskipti foreldranna og barnsins; oft valda þau mestum vandræðum. Koma þyrfti því á, að foreldrarnir hafi ekki samband við barnið án milligöngu félagsmálastofnunar, hvorki með gjöfum, símtölum né heimsóknum. Nefndin ætti einnig að gæta hagsmuna sveitahreppanna varðandi framlag ríkisins til sérkennslu og vegna annarra aukaútgjalda.

Þegar kemur að lokum sveitadvalar unglings, sem ekki á trausta aðstandendur, er vandinn sá að koma í veg fyrir, að hann villist á leið til þroska og ábyrgðar. Almennt álit sveitafólks er, að börnin séu tekin aftur of snemma og fyrr en þau vilja sjálf. Þær hættur, sem bíða unglings í borginni, sem hverfur þangað undan verndarvæng sveitaheimilis, eru hinar sömu og bíða unglings, sem hverfur undan forsjá unglingaheimila ríkisins, og kalla á sömu ráðstafanir, en ekki verður fjallað um þær hér.

Frey 78 (1982) 658-60

 

2. Venjuleg börn

Allöng hefð er á því, eins og kunnugt er, að börn úr þéttbýli séu í sveit á sumrin. Hefðin mótaðist á árunum eftir fyrra stríð. Foreldrar í kaupstöðum leituðu eftir vist fyrir börn sín, oft hjá ættingjum eða sveitungum eða kunningjum. Börnin léttu undir við bústörfin, bæði við búféð og heyskap. Kaupstaðabörnin voru matvinnungar og fengu ef til vill sem þóknun, þegar þau fóru heim til sín að hausti, ásetningslamb, ef til stóð að koma aftur að vori. eða nokkrar krónur, ef þau voru komin á fermingaraldur.

Foreldrar þeirra spöruðu sér útgjöld í mat og mæðurnar höfðu það hægara. Sumarvistin var talin holl og þroskandi. Á þessum árum tengdust landshlutarnir með áætlunarbílum, sem bættust við strandferðirnar, þannig að börn gátu komist frá Reykjavík um allt land á eigin spýtur. Venjulega voru ekki önnur samskipti en bréfaskriftir milli barnsins og foreldranna í bænum.

Fjöldi býla með kýr og kindur var lengi nokkuð stöðugur og var upp úr 1960 liðlega 6000. Síðan hefur þeim fækkað stórlega, og nú er svo komið, að um það bil 4000 býli hafa kindur og um 2400 mjólkurkýr. Það eru þessi sveitaheimili, sem mest er varið í fyrir börn og unglinga að vera á. Nú koma hins vegar 10 börn á aldrinum 5-14 ára á hvern bæ með kindur og meira og 15 börn á hvern bæ með kýr, þegar jafnað er niður fyrir allt landið, en fyrir stríð komu 3-4 börn á hvern sveitabæ.

Aðstæður á sveitaheimilum hafa einnig breyst verulega. Eins og nú er munar helst um börn við sauðburðinn. Skóla lýkur þó ekki í bæjunum fyrr en sauðburður er hafinn og dregur það úr tækifærum barna til að leggja fram krafta sína. Börn geta verið til aðstoðar við kýrnar, sótt þær og fóðrað kálfa, en heyskapur er víða vélvæddur, svo að þau eru lítill liðsauki og geta verið fyrir og í hættu. Hins vegar getur munað um unglinga við heyskapinn. Þannig hefur dregið úr þeim notum, sem hafa mátti af börnum á sveitabæjum. Stúlkubörn eru eftirsótt til að gæta smábarna, og á bæjum, þar sem einungis eitt barn er, vill fólk gjarna útvega barninu félaga með því að taka sumargest úr kaupstað. Sumargestir geta íþyngt við heimilisstörfin. Eins og húshjálp er nú víðast takmörkuð, kunna húsmæður að taka tillit til þessa, þegar sumardvalarbörn koma til álita. Þeim kann að leiðast að eltast við dynti kaupstaðarbarnanna við matborðið. Það er ekki notalegt að mæta óánægju matargests við hvert mál. Á móti kemur fyrir konurnar, að meðlag, þegar það fylgir, gengur oft beint til húsmóðurinnar á bænum; tekjur af búskapnum ganga hins vegar inn á reikning heimilisins hjá viðskiptafyrirtæki þess, og um þá hlið sér bóndinn.

Allmörg kaupstaðabörn eiga þó enn kost á sveitavist eitt eða fleiri sumur, en hin eru fleiri, sem komast ekki í sveit. Könnun meðal barna og unglinga í Melaskóla og Hagaskóla í Reykjavík vorið 1989 sýndi, að um það bil fjórða hvert barn dvaldist sumarið áður á sveitabæ nokkrar vikur eða lengur. Sveitavistin á ekki hug barnsins allan eins og áður var. Hún truflast iðulega af orlofsferðum með foreldrum barnsins, og foreldrar koma í heimsókn. Á sumum sveitaheimilum kýs fólk heldur börn frá fjarlægari stöðum einmitt vegna þess að heimsóknir foreldra trufla barnið og það aðlagast þá síður heimilinu. Sumir hafa forðast að taka barn foreldra, sem voru kunnugir eða venslaðir, ef fólk var ekki visst um, að barnið mundi kunna við sig. Fólk gat óttast, að leiði í barninu gæti truflað samskiptin við foreldra þess.

Hrynjandi hversdagsins hefur raskast. Mjaltir kvölds og morgna hafa verið þau skaut, sem annir hvers dags snúast um og fylgir ró og festa. Til eru heilar sveitir, þar sem varla nokkur kýr er lengur. Heyannir eru í skorpum. Bóndinn og kona hans fara gjarna í sumarleyfi, að sjálfsögðu ekki um heyannir, og í styttri tíma en kaupstaðafólk. Þó að aðrir fullorðnir kunni að vera heima á meðan, rýfur það hina stöðugu hrynjandi hversdagsins, sem er barninu holl.

Auk þess sem kaupstaðabörnum gefst nú kostur á að fara í orlofsferðir með foreldrum sínum, býðst þeim ýmislegt í þéttbýlinu á sumrin, sem skipulagt er af samtökum fullorðna fólksins. Þar er fyrst að geta knattspyrnu fyrir drengina, og þá þarf liðið á hverjum manni að halda allt sumrið. Önnur tómstundaiðkun er einnig á vegur bæjarfélaga og íþróttafélaga. Stúlkubörn eru fengin til að gæta barna í bæjunum á sumrin. Það er einnig nýtt og varðar sumarvistir barna, að börn og foreldrar ná lítið saman að vetrinum. Á daginn eru foreldrarnir fjarverandi við störf sín, og á kvöldin truflar sjónvarpið öll samskipti á heimilum og á milli heimila. Til þess að bæta úr því vill fólk njóta samvista við börn sín að sumrinu, til að mynda með orlofsferð til Miðjarðarhafs, þar sem öll samskipti fjölskyldna eru liðlegri en þegar fólk er heima og ótrufluð af íslensku sjónvarpi, útvarpi og blöðum.

Hvað sem þessu líður óskar kaupstaðafólk eftir vist í sveit fyrir fleiri börn en kostur er á. Efnafólk býður meðlag með börnum sínum allt sumarið eða orlofstímann. Börnunum er komið fyrir út á kunningsskap, t.a.m. þar sem annað foreldrið hafði sjálft dvalist sem barn, eða móðir barnsins er á sama vinnustað og einhver frá bænum. Til er að kaupstaðfólk bjóði á móti vist að vetrinum fyrir skólaunglinga frá bænum. Sveitafólk gerist óháðara persónulegum samböndum í kaupstöðum, t.a.m. í Reykjavíkurferðum. Úr nærliggjandi héruðum kemst fólk nú orðið heim að kvöldi með bættum samgöngum og þarf ekki gistingu, en aðrir gista í Bændahöllinni á niðursettu verði. Sveitaheimili koma sér undan óskum ættingja og kunningja um sumarvist fyrir börn með því að taka við barni frá félagsmálastofnunum bæjanna; það er afsökun, sem gengur jafnt yfir alla kunnuga. Samkeppni frá einstaklingum sem bjóða meðlag með sumarbörnum hefur neytt félagsmálastofnanir til að hækka meðlagið, en einnig samkeppni félagsmálastofnana um sveitaheimili. Sveitakonur hallast til þess að líta á umönnun sína með sumarbörnum á sama hátt og þegar kaupstaðarbörnum er komið fyrir á heimilum í bæjunum í dagfóstur og umreikna hlutverk sitt á sama hátt, með þeim mun, að barn, sem er í sveit, er dag og nótt alla daga vikunnar á ábyrgð húsmóður, en dagfóstra elur ekki önn fyrir fósturbörnum sínum nema fjórða hlutann af þeim tíma. Á það er þó rétt að benda hér til mótvægis, að börn í dagfóstri í bæjunum eru oftast yngri en sumarbörn í sveit.

Frey 78 (1982) 690-91

 

3. Stofnanir eða heimili handa illa stöddum börnum

Ríkið rekur stofnun (heimili) í Kópavogi handa unglingum 12-15 ára (stundum eldri), sem yfirvöld taka að sér, þegar þau eru til vandræða heima fyrir. Stofnunin starfar í tveimur deildum, önnur er lokuð og til skemmri vistar og er notuð af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en hin er opin og til lengri dvalar (að meðaltali 6 mánuðir undanfarið).

Þar má vista unglinga af þeim, sem yfir þeim ráða. Barnaverndarnefnd heimasveitar unglingsins verður að samþykkja vistunina og ábyrgist greiðslu fyrir vistina, sem er daggjöld eftir föstum taxta. Þær greiðslur standa undir tæplega hálfum kostnaði við stofnunina. Stofnunin á að vera uppalandi. Flestir, sem þar hafna, hafa komist í tæri við lögregluna. Heimilið er undir menntamálaráðuneytinu, en er skipulagt eins og geðlækningaheimili unglinga í Noregi. Unglingarnir stunda nám á heimilinu í stað skólagöngu. Uppeldisaðferðin er fólgin í því að kenna unglingunum að bera ábyrgð á gerðum sínum, til að mynda með því að láta þá bæta spjöll, sem þeir kunna að valda á eignum annarra. Þeir geta farið að heiman án eftirlits, en þeim eru settar reglur um hegðun, húsverk, máltíðir og háttatíma. Starfsfólk vinnur á vöktum. Heimilið tekur 10-11 unglinga, en starfsmenn eru nokkru fleiri. Á sumrin starfa unglingarnir utanhúss við viðhald á byggingum á svæðinu og annað. Auk þess hefur heimilið samið við bátseigendur, sem tekið hafa nokkra unglinga sem háseta á sumrin. Þeir stunda sjóinn án nærveru starfsfólks.

Fram til ársins 1979 rak ríkið annað unglingaheimili vestur á landi (í Breiðavík í Rauðasandshreppi). Það var í senn heimili, skóli og bú, sem unglingarnir unnu við. Ákveðið var á Kópavogsheimilinu, hvaða börn færu þangað. Unglingurinn varð fyrst að dveljast í Kópavogsheimilinu, til þess að starfsfólkið þar kynntist honum. Eins og Breiðavíkurheimilið var rekið síðustu árin, hentaði það helst unglingum, sem þurftu að skipta um umhverfi og jafna sig í ró og næði á löngum tím (1-2 ár); þannig litu sérfræðingar í stjórn heimilisins á. Breiðavík er einangraður bær í einangraðri sveit. Einangrunin var í þágu barnsins að vissu marki; dvölin þar mátti því ekki vera lengri en þetta. Stofnunin var lögð niður árið 1979, en þá var stofnað í stað hennar unglingaheimili á bæ á Suðurlandi (í Smáratúni í Fljótshlíð). Að því stóð ungt fólk (fernt), sem starfaði á Kópavogsheimilinu. Buðu þau ríkinu að halda heimili með sama hlutverki og Breiðavíkurheimilið hafði. Breytingin var gerð með velþóknun forstöðumanns Kópavogsheimilisins. Fyrri kynni starfsmanna auðvelda samstarf heimilanna og samráð varðandi skjólstæðinga þeirra. Smáratúnsfólkið samdi við ríkið um að taka að sér um þriggja ára skeið 5-6 börn í senn sem Kópavogsheimilið veldi. Þau kenna börnunum í stað venjulegs skólagangs og reka bú, þar sem unglingarnir ganga að verkum – í fullu starfi á sumrin, með skólanámi að vetrinum. Fyrst var búið við kýr og fé, en illu heilli var mjólkurkúnum fargað í vetur. Allt heimilisfólk skiptist á um húsverk. Heimilið er einkafyrirtæki með fastan (vísitölubundinn) ríkisstyrk. Greiðslur með börnunum frá heimasveit þeirra renna hins vegar til ríkisins. Börnin fá laun fyrir vinnu sína við búið, eins og aðrir unglingar úr bæjunum, sem vinna í sveit á sumrin (launin ákveðin að hausti). Að vetrinum fá þau vasapeninga.

Sumarið 1981 var stofnað heimili í Reykjavík í framhaldi af Kópavogsheimilinu handa allt að 5 unglingum, sem ekki geta verið heima hjá sér og koma frá Kópavogsheimilinu, Smáratúni eða eru vegalaus á annan hátt. Þar eiga þau að læra að koma undir sig fótum. Þau eru í skóla í borginni eða vinnu. Sveitarfélögin greiða daggjöld, sem eru þriðjungur af daggjöldum Kópavogsheimilisins. Unglingar, sem eru í vinnu, greiða 1000 kr. á mánuði (í desember 1981) fyrir húsnæði og fæði. Gert er ráð fyrir, að hver unglingur dveljist þar um eins árs skeið til jafnaðar. Ríkið heimilar tvær starfsstöður á heimilinu til að sinna unglingunum og hjálpa þeim á rétta braut.

Miklu munar, hvað kostar að vista barn á stofnun eða á venjulegu heimili. Bæjarfélögin taka tillit til þessa, þegar velja skal á milli þess að koma barni á Kópavogsheimilið eða á einkaheimili. (Um það verður þó ekki fullyrt að því er Reykjavíkurborg varðar). Kostnaðarsamanburður er örðugur eins og verðbólga hefur verið mikil undanfarin ár. Hér er um að ræða útgjöld hins opinbera til uppeldis barna, sem flest eru á skólaaldri. Verður því fundinn samanburður með því að umreikna kostnaðinn í það, sem barnakennari kostar með launatengdum gjöldum. Unglingur á Kópavogsheimilinu kostar hlutaðeigandi sveitarfélag eins og 1,54 kennarastöður, í Smáratúni kostar unglingurinn sveitarfélagið 0,77 kennara, nýja heimilið í Reykjavík fyrir unglinga, sem eru að koma undir sig fótum, kostar sveitarfélag unglingsins 0,51 kennara á ungling, en venjuleg útgjöld sveitarfélags vegna barna á einkaheimili vandalausra (oftast sveitaheimili) eru eins og vegna 0,27 kennara (í desember 1981, við bætast fatakaup o.a.). Meðlag sveitarfélaganna hefur staðið undir um það bil 40% af heildarkostnaði við Kópavogsheimilið. Heildarkostnaður fyrir ríki og sveitarfélög svaraði til útgjalda vegna fjögurra kennara á ungling í Breiðavík (1977-79), nokkurn veginn eins á Kópavogsheimilinu, til útgjalda vegna 1,6 kennara á ungling í Smáratúni árið 1989, 2,2 kennara á barn á Kleifarvegsheimilinu (1979 og 1980) og um það bil 0,3 kennara á barn á dagheimili.

Almenningur og rannsóknarlögreglumenn vilja gjarna ræða það, hvort óbreytt heimili gæti komið illa stöddu barni til hjálpar, ef heimilið fengi fyrir eins mikið og vistin og kennslan kostar á stofnun. Slíkt meðlag mundi gjörbreyta heimilinu, hvort sem það væri sveitaheimili eða búlaust heimili. Félagsmálafólk heldur því fram, að slíkt fyrirkomulag mundi kall á öflugra faglegt eftirlit með heimilinu.

Rannsóknarlögreglumenn halda því fram, að afbrotaunglingur, sem settur er á stofnun með jafningjum sínum, forherðist við það, en aðrir halda því fram, að unglingarnir geti bætt hver annan, eins og raunar sé tilgangurinn með þeirri aðferð, sem beitt er við uppeldi á Kópavogsheimilinu. Því er einnig haldið fram, að það niðurlægi ungling til frambúðar að hafa verið á Kópavogsheimilinu, en dvöl á einkaheimili (í sveit) telur sumt félagsmálafólk, að þyki ekki til eins mikillar minnkunar og auðvelt sé að sannfæra barn um, að það sé heppilegt. Forstöðumaður Kópavogsheimilisins telur þó annað, enda hafi skjólstæðingar hans margir reynt sveitavist á löngum hrakningsferli.

Ekki síst fræðsluhlutverkið mundi breyta eðli heimilisins, sem tæki einn eða tvo unglinga, sem ella færu á Kópavogsheimilið. Með heimilinu í Smáratúni er reynt að líkja eftir sveitaheimili. Heimilishættir minna þó að því leyti á stofnun, að fólkið, sem stendur fyrir heimilinu, leitar iðulega til höfuðborgarinnar, þaðan sem það fluttist, og meira en í brýnum erindum vegna heimilisins, og gistir. Heimilisbragur verður órólegur samanborið við óbreytt sveitaheimili með kýr, það eftirlit, sem kemur sjálfkrafa af því einu, að maður er heima, veikist, og dvölin minnir á gæsluvist með vöktum.

Hvað sem því líður nálgast Smáratúnsheimilið óbreytta lifnaðarhætti (til sveita) borið saman við Kópavogsheimilið. Bent er á það af hendi Smáratúnsheimilisins, að unglingarnir njóti þar jafnræðis, en að sömu unglingar hafi iðulega reyn það að vera hafðir út undan, þegar þeir hafi verið í sveit áður. Hvernig yrði það á heimili, þar sem væru 1-2 slíkir piltar, ef heimilið fengi opinbera styrki eins og Smáratúnsheimilið?

Félagsmálastarfsmaður einn, sem öðrum fremur hefur talið sveitaheimili heppileg bágstöddum börnum, af því að þar fái barnið þá athygli, sem það hefur mest vantar, telur, ef meðlag með slíkum börnum væri veruleg tekjulind, mundi það spilla fyrir. Með því að þóknunin til heimilanna hefur verið heldur naum, hafi valist fólk, sem vill hjálpa börnum og getur það. Hann heldur því fram, að sveitaheimili ætti að hafa aukatekjur vegna slíkra barna og ekki meira, þar sem búskapurinn sé hið eiginlega framfæri, en sálfræðingur sem rekur bú með öðrum í Smáratúni, svo að dæmi sé tekið, sé þar fyrst og fremst sem sálfræðingur og ætti hið opinbera að tryggja honum greiðslu fyrir allan kostnað og fyrirhöf. Tekjur hans af búskap ættu að vera aukatekjur. Hér er um að ræða mikilvæga afstöðu til markalína varðandi hlutverk einstakra starfsstétta. Spyrja má í því sambandi, hvort góð kjör starfsfólks félagsmála mundu draga í stéttina fólk, sem ekki ætlaði sér fyrst og fremst að starfa í þágu barnanna.

Frey 78 (1982) 730-31

 

4. Landbúnaður í þágu barna

Börn sem félagsmálastofnanir hafa vanda af, líða af því, sem yfirleitt mótar skilyrði barna. Börn njóta lítillar þroskandi athygli og samvista við fullorðna. Reynslan sýnir, að börn, sem þannig líða, fylla þann hóp unglinga, sem veldur vandræðum með hegðun sinni og fyrirgangi, en þeir síðan flokk innbrotsþjófa meðal afbrotamanna.

Ef hér ætti úr að bæta, svo að um munaði, yrði fólk (þjóðfélagið) að koma því lagi á hagi sína, að börn og fullorðnir gætu átt stöðug og persónuleg samskipti. Það er svo margt smátt, sem breyst hefur í daglegum háttum og lagst á þá sveifina að fjarlægja börn og fullorðna, að erfitt er að benda á nokkuð sérstakt, sem taka mætti tillit til. Stærsta skrefið í þá átt er, þegar fólk hverfur frá búskap með kýr og kindur til launavinnu og miklu örlagaríkara fyrir börn en annað sem gerist á heimilunum og tekur verkefni frá þeim.

Fólk viðurkennir fúslega, að börnum sé hollt að fylgja þeim, sem annast búfé og aðstoða. Engu að síður má heyra fólk í þéttbýli tala með vorkunnsemi eða lítilsvirðingu um þá, sem þar eiga kindur. Æ færri hafa skepnur, í sjávarstöðum og öðru þéttbýli, af því að enginn tekur við af þeim, sem hætta af eðlilegum ástæðum, og til sveita verður búskapur einhliða, þar sem æ fleiri heimili búa aðeins við sauðfé, en tækifæri barna til að umgangast kindur eru fá á sumrin. Frá öðrum löndum fréttist, að fagfólk (sálfræðingar) fari nú að skilja, að fólki, til að mynda afbrotamönnum sé hollt að annast dýr.

Örðugt mundi verða að setja á dagskrá það verkefni að snúa við þróuninni að því er varðar útbreiðslu búfjár. Byrja mætti á því að bæta því við yfirlýsta stefnu í landbúnaðarmálum, að landbúnaðurinn skuli framleiða til að fullnægja innlendum þörfum og eftirspurn, að búskaparhættir skuli sniðnir að þörfum barna. Þeirri stefnu verður ekki náð nema fleiri fullorðnir sjái sér hag í því að halda búfé. Öll slík hugsun rekst á fyrsta boðorð þjóðfélagsins varðandi landbúnaðinn, að hann skuli þróast í stærri bú og sérhæfð. Sumar ráðstafanir í landbúnaðarmálum eru af því tagi, að þær hvetja til þess, að menn fargi kúnum, án þess að þær styðjist við hagkvæmnisrök. Þar mætti gera breytingar, sem eitthvað kynni að muna um. Þannig hefur ríkið útvegað niðurgreitt fjármagn til byggingar útihúsa. Þetta hefur ýtt undir, að bændur hættu að búa við bæði kýr og fé, og búa nú margir við sauðfé einvörðungu. Bændur fengu með niðurgreiddu lánsfé efni til að byggja stór fjárhús og gátu bjargast án kúnna, en aðrir gátu byggt stór fjós. Sem stendur eru slík ódýr lán ekki veitt, en bændur knýja enn á um hagstæðari lánakjör hver fyrir sig og sameiginlega í eigin þágu og heimilis síns og til að svara almennri kröfu kaupstaðarfólks um stærri bú.

Nefna má aðrar opinberar ráðstafanir, sem stuðlað hafa að því, að sumir bændur stækkuðu bú sín, en aðrir drógu úr framleiðslu til heimilisþarfa eða lögðu niður búskap. Þessar ráðstafanir mætti meta með tilliti til þarfa barna fyrir alhliða búfjárhald. Niðurgreiðslur á útsöluverði mjólkur og mjólkurafurða og á kjöti draga úr hagkvæmni þess að framleiða til heimilisþarfa. Ef niðurgreiðslur á neytendaverði yrðu felldar niður, mundu útgjöld heimilanna aukast meira en þau gera nú, þegar menn losa sig við síðustu kúna og fara að kaupa mjólkurafurðir. Síðastliðinn vetur námu niðurgreiðslurnar ekki stórvægilegum fjárhæðum, í mesta lagi mánaðartekjum heimilis með heldur litlar tekjur, í sumar eru þær talsvert hærri. Örðugra er að meta í tölum, hvers virði afurðirnar eru til viðurværis heimilisfólki að frádregnum kostnaði. Ef niðurgreiðslum yrði breytt í það horf að greiða búfjáreiganda á grip, mundu menn hægja á sér að farga síðustu gripunum. Enn áhrifameiri í þá átt að halda uppi alhliða búfjárhaldi yrðu niðurgreiðslurnar, ef þær væru til að mynda hæstar á höfuð á 5 fyrstu kýrnar og fyrstu 100 kindurnar og færu síðan stiglækkandi. Ef niðurgreiðslur ríkisins á innlend matvæli yrðu lækkaðar, en meðlag með börnum hækkað í staðinn, mundi styrkjast hagur barnaheimila, sem hafa skepnur til eigin þarfa. Slík breyting mundi hins vegar draga úr innlendri eftirspurn og kippa grundvellinum undan heimilum sem hafa búfé og er í þágu barna, þar sem framleiðslan er þegar meiri en arðsöm (innlend) eftirspurn.

 

Stofnanir grafa ekki fyrir rætur meinsins

Hið opinbera leggur mikið af mörkum til að liðsinna börnum, þegar aðstandendur þeirra bregðast. Kostnaður, sem félagsmálastofnanir hafa vegna barna, stafar ekki af því, að starfsfólk félagsmálastofnana telji opinbera forsjá barnanna fremri sæmilegum heimilum, heldur af því að sæmileg og góð heimili vantar. Mestu ræður, hvernig börnum reiðir af, að til er fólk, sem hagar lífi sínu þannig, að það hefur efni á því að taka að sér börn til viðbótar við eigin börn. Þeim fækkar stöðugt, sem þannig lifa. Þeir, sem eftir eru, er helst sveitafólk með kýr, kindur og hross. Börn verða sínum nánustu stöðugt meira fjötur um fót. Börn hljóta að gjalda þess. Illa statt fólk á höfuðborgarsvæðinu skilur þetta samhengi. ,,Ég veit ekki, hvernig borgarfólkið væri statt, ef það hefði ekki sveitafólkið að hlaupa upp á og leita til með sumardvöl og ef til vill lengri tíma,’’ sagði heilsulítil kona á höfuðborgarsvæðinu í viðtali. Nokkur barna hennar höfðu dvalist í sveit með aðstoð félagsmálastofnunar, meðan fjölskyldan átti sem erfiðast. Þetta fólk ræður ekki ferðinni varðandi gerð þjóðfélagsins og lætur ekki að sér kveða í umræðum.

Hið opinbera og jafnframt almenningsálitið fæst þá fyrst til að fórna verulegum fjármunum í þágu einstakra barna og unglinga, að illa sé komið fyrir þeim. Önnur viðbrögð væru æskilegri, nefnilega, að fólk, sem býr við kringumstæður hollar börnum, hljóti laun og umbun fyrir, án þess að fyrst verði að sýna fram á, að ákveðið barn sé á leið til glötunar. Þróunin hefur verið sú, að fólk hefur æ minni ástæður til að sinna börnum. Daglegir hættir, sem tengja börn og fullorðna, eru orðnir slík undantekning með þjóðinni, að miklu þyrfti að breyta til að endurskapa slík tengsl. Hér að framan hefur verið bent á takmarkaðar ráðstafanir sem mættu stuðla að því að halda við tölu þeirra heimila, sem vilja og geta með sæmilegu móti boðið börnum holl skilyrði. Þær aðgerðir eru auðvitað langt frá að vera viðhlítandi í þágu barna yfirleitt og illa staddra barna sérstakleg.

Frey 78 (1982) 850-51