Umhverfi og ævistarf. Fjölnir. Rvík. I. bindi 1982, 288 bls. – og myndablöð; II. bindi 1983, 320 bls. – og myndablöð; nafnaskrá.

 

Ingólfur Jónsson var í þriðjung aldar einn atkvæðamesti maður Sjálfstæðisflokksins. Enginn núlifandi flokksfélaga hans hefur verið lengur í áhrifastöðu. Frásögn af ævi hans og umhverfi hlýtur því að verða merk heimild í stjórnmálasögunni. Þannig var að ritverkinu staðið, að Ingólfur segir sjálfur frá, Páll kynnir sögu mála og aðdraganda, en nokkrir samferðamenn Ingólfs lýsa kynnum sínum af honum.

Uppruna Ingólfs og þroska eru gerð rækileg skil og ýmsum málum í Rangárvallasýslu, ekki síst Kaupfélaginu Þór á Hellu, sem Ingólfur stjórnaði frá upphafi, fyrst sem kaupfélagsstjóri, en sem stjórnarmaður, þegar störf á alþingi og í ríkisstjórn voru orðin aðalviðfangsefni hans.

Í fyrra bindi eru rakin stjórnmál frá því um 1920 og fram til 1959. Segir þar frá efnahagsmálum einstakra ríkisstjórna, stjórnarmyndunum og sérstökum málum Ingólfs, þegar hann var ráðherra í fyrsta sinn, í stjórn Ólafs Thors 1953-56, og fór með viðskiptamál og iðnaðarmál. Þar má og kynnast því, hvernig bændur skipuðu sér í stjórnmálaflokka á fjórða áratugnum, hvernig þeir komu skipulagi á afurðasölu sína, en verðlagning landbúnaðarafurða var sett í kjaranefnd.

Allfyrirferðarmikill kafli er um breytingu kjördæmaskipunarinnar 1959, en stuðningsmenn Ingólfs á Suðurlandi féllust nauðugir á hana. Athyglisverð frásögn er af forsetakjöri 1944 og 1952. Loks er í bókinni ættartala Ingólfs í samantekt Jóns Gíslasonar.

Í síðara bindinu er kjördæmabreytingin 1959 aftur rædd í inngangi, en síðan segir almennt frá nýskipan efnahagsmála við stjórnarskiptin 1959 og landbúnaðarmálum sérstaklega. Einstakir málaflokkar Ingólfs sem ráðherra landbúnaðarmála og samgöngumála 1959-71 hljóta sína bókarkafla. Í bókarlok segir nokkuð frá, hvernig forysta Sjálfstæðisflokksins hefur verið endurnýjuð síðan 1970 og hvað þar kom til greina, m.a. forysta Ingólfs.

Páll Líndal er öðrum betur að sér um sveitarstjórnarmál þessa tímabils, en um þau er þó ekki fjallað. Sakna ég þess, þar sem merkileg breyting varð á þeim málum undir forystu Gunnars Thoroddsens fjármálaráðherra, þegar réttur sveitarfélaga til að meta efni manna og ástæður við niðurjöfnun útsvara var af þeim tekinn. Merkileg var einnig misheppnuð tilraun stjórnvalda til að koma á nýrri skiptingu landsins í sveitarfélög og hlýtur að hafa verið fjallað um í ríkisstjórninni, en víst er að ýmsir málsmetandi stuðningsmenn Ingólfs á Suðurlandi létu sig þessi mál miklu varða. – Hins vegar fá landhelgismálin frá upphafi sérstakan kafla, þótt Ingólfur hafi ekki haft þar forgöngu né sérstök afskipti.

Um landbúnaðarmál er það merkast að fá það fram, að það skipulag afurðasölunnar, sem komst á með lögum 1934, var kappsmál framleiðenda almennt. Af ýmsum ástæðum hafa menn fengið ranga hugmynd um afstöðu flokkanna í málinu. Þó að frásögn Ingólfs sé tvímælalaus, hefur það ekki náð öllum lesendum bókarinnar, ef marka má einn ritdóminn (frá 1984), þar sem segir um það mál, að „mikill hluti Sjálfstæðisflokksins var algjörlega á móti þessari löggjöf“. Mér þykir því nauðsyn að minna á það, að mjólkurlögin voru samþykkt í efri deild alþingis við nafnakall með 14 atkvæðum gegn tveimur, en í neðri deild tók Ólafur Thors, þá nýorðinn formaður Sjálfstæðisflokksins, það fram, að þar væri um að ræða „eitt af þeim málum, sem svo að segja allt þingið er sammála um, að ná skuli fram að ganga“. Við aðra umræðu lýsti hann beinlínis eftir óskum manna og tillögum, „svo að einungis lítil umræða þurfi fram að fara við 3. umræðu, og aðeins að forminu til“. Ólafur gerði þá grein fyrir stuðningi sínum við málið, að hann flytti skoðanir umbjóðenda sinna í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Í neðri deild voru lögin samþykkt með 25 atkvæðum gegn þremur án nafnakalls. Þetta voru lög um samsölu o.fl.

Átök um verðlagsmál koma allmikið við sögu. Í fyrra bindi segir frá því, er Ingólfur beitti sér sem formaður kjötverðlagsnefndar fyrir stórfelldri hækkun kjötverðs 1942. Kaupmáttur almennings í bæjum hafði aukist stórlega með hærra kaupgjaldi og mikilli vinnu. Kringumstæður voru því hagstæðar til slíkrar hækkunar, en þó hefur þurft dirfsku til að knýja fram eins mikla hækkun og varð. Var Ingólfur lengi lofaður fyrir af flokksbræðrum í sveitum.

Í síðara bindi segir frá átökum um sexmannanefnd framleiðenda og neytenda, sem samdi um verðlag og stofnuð var með lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins árið 1947. Alþýðusambandið átti fulltrúa í nefndinni, en hætti að tilnefna mann í hana árið 1965. Forseti Alþýðusambandsins, Hannibal Valdimarsson, vildi, að framleiðendur semdu um verðlag við ríkisvaldið í stað þess að semja við fulltrúa hagsmunasamtaka neytenda og flutti um það lagafrumvarp á alþingi. Sú tillaga fékk þó ekki undirtektir.

Í lok kaflans um átök um sexmannanefnd (bls. 88) segir Ingólfur: „Ekki hef ég orðið þess var, að neinar ákveðnar hugmyndir hafi komið upp um það að hverfa frá þessu kerfi.“ Hér þarf að leiðrétta. Árið 1968 óskaði Stéttarsamband bænda eftir því, að fyrirkomulagi verðlagssamninga yrði breytt, sexmannanefnd lögð niður og teknir upp beinir samningar um verðlags- og kjaramál milli ríkisins og bænda. Árið 1972 skipaði landbúnaðarráðherra nefnd til að endurskoða Framleiðsluráðslögin. Nefndin varð sammála og skilaði tillögum að frumvarpi til breytinga á lögunum, m.a. um það, að teknir yrðu upp beinir samningar milli ríkis og bænda um verðlags- og kjaramál. Frumvarpið var lagt fram á alþingi, en hlaut ekki afgreiðslu. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar 1978 segir: „Lögunum um Framleiðsluráð landbúnaðarins verði breytt, m.a. á þann hátt, að teknir verði upp beinir samningar fulltrúa bænda og ríkisvaldsins um verðlags-, framleiðslu- og önnur hagsmunamál landbúnaðarins.“ Í október 1979 lagði landbúnaðarráðherra fram frumvarp til laga þess efnis. Frumvarpið hlaut ekki afgreiðslu. Aðalfundur Stéttarsambands bænda óskaði síðast eftir slíkri breytingu árið 1980. Ekki verður því annað sagt en að ákveðnar hugmyndir hafi komið fram um að breyta verðlagskerfi landbúnaðarins. Hvað því réð, að látið var sitja við yfirlýsingar og engu breytt, skal hins vegar ósagt.

Búvöruframleiðslan stórjókst á þeim tíma, sem Ingólfur lét að sér kveða í landbúnaðarmálum, og framan af í samræmi við aukna neyslu. Tvenns konar úrræði hafa aðallega komið til greina til að kalla á aukna framleiðslu, annars vegar að hækka verðlag á afurðum og hins vegar að hvetja til jarðabóta og greiða niður kostnað við þær með beinum framlögum úr ríkissjóði og með ódýrum lánum. Hækkun á afurðaverði skilar sér tiltölulega best til þeirra, sem hafa hlutfallslega mikinn tilkostnað. Hitt, að bjóða styrki til framkvæmda og hagstæð lán, var frekar til jöfnunar milli bújarða. Löngum hafði almenningur trú á þeirri leið til að lækka framleiðslukostnað frekar en treysta því, að hagstætt afurðaverð hvetti menn til jarðabóta fyrir eigið fé.

Ekki kemur fram, hvernig Ingólfur hugsaði þau mál, en þau mæddu, sem von er, oft á honum. Hann finnur þó að því, að afurðaverði hafi verið haldið niðri á árunum áður en hann tók við Kaupfélaginu Þór. Merkasta nýmælið í þessum efnum, sem varðar aðgerðir til jarðabóta í stjórnartíð hans og hann minnist á, er ákvæði um Stofnlánadeild landbúnaðarins í lögum frá 1962. Stofnlán fengust þá með góðum kjörum, með því að ríkisstjórnin útvegaði deildinni fé úr ríkissjóði án endurgjalds og með því að leggja gjald á útsöluverð og draga af afurðaverði til bænda. Verðbólga bætti svo lánskjörin enn frekar. Með slíkum lánskjörum urðu bændur kappsfullir í framkvæmdum. Gat hver bóndi, sem naut þannig stofnlánakjara, hrósað happi (og þakkað Ingólfi), þegar hann leit á málið af heimahlaði. Öðru máli gegndi þegar málið var skoðað frá sjónarmiði heildarinnar og markaður fyrir afurðir landbúnaðarins var takmarkaður. Um það birti höfundur (BSt) rökstutt álit þegar árið 1968 (í Samvinnunni). Þau varnaðarorð hafa sannast allt of vel.

Ingólfur réð því, að bændur fengu lögbundinn rétt til útflutningsuppbóta árið 1959. Lengi vel dugði sá réttur bændum til að mæta halla við útflutning, en undanfarin ár hefur útflutningshallinn orðið meiri en svo. Ingólfur kennir verðbólgunni um. Það stenst ekki athugun. Vandræðin stafa ekki einungis af auknu útflutningsmagni, heldur hefur útflutningsverð landbúnaðarafurða lækkað stórlega miðað við annað útflutningsverð.

Ingólfur komst til áhrifa í þjóðmálum á óskastund, þegar hann varð formaður kjötverðlagsnefndar árið 1942, og hann kunni að nota óskastundina. Eftir það treystu bændur honum, þótt þeim þætti á stundum á sig hallað í verðlagsmálum í stjórnartíð hans. Andóf Alþýðuflokksmanna í landbúnaðarmálum, meðan þeir sátu í ríkisstjórn með Ingólfi 1959-71, sannfærði stuðningsmenn hans enn betur um það, hvern hauk bændur ættu í horni, þar sem Ingólfur var. Í stjórnartíð hans buðust bændum gullin tækifæri til stofnframkvæmda fyrir ódýrt fé – bændum þóttu þau gullin, þegar þeir horfðu hver af sínu hlaði, en samanlagt reyndust þessi tækifæri leiða til vandræða og ófarnaðar, en þá var Ingólfur genginn frá borði og ábyrgðin kom á herðar eftirmanna hans í landbúnaðarráðuneytinu.

Stjórn landbúnaðarmála var allan stjórnmálaferil Ingólfs háð vandfenginni málamiðlun og auðvelt að hleypa henni upp, ef menn sáu sér hag í því, bæði innan flokks og milli flokka. Ingólfur virðist hafa haft traust helstu forystumanna flokks síns, Ólafs Thors og Bjarna Benediktssonar, og ekki kemur það fram, að hann hafi goldið þess að hafa verið í andstöðu við ríkisstjórn Ólafs Thors 1944-46. Það orð fór af Ingólfi sem ráðherra, að hann gætti þess vandlega við stöðuráðningar, hvar umsækjendur voru í flokki. Rit Páls er þó ekki til vitnis um slíkt. Ingólfur minnist þess hins vegar, að það vakti athygli, þegar hann réð til að standa fyrir einu útibúi kaupfélagsins mann, sem taldist til Framsóknarflokksins.

Suðurland hefur ætíð haft sérstöðu um skipan samvinnufélaga. Í öðrum helstu landbúnaðarhéruðum er eitt og sama samvinnufélag kaupfélag, mjólkursamlag og sláturfélag. Á Suðurlandsundirlendinu eru þessar þrjár greinar aðskildar, mjólkursamlagið er eitt, kaupfélagssvæðin eru þrjú, en sláturfélagssvæðið er víðara. Þar við bætist, að í Rangárþingi hafa verið tvö kaupfélög síðan 1949, annað í Sambandi íslenskra samvinnufélaga, en hitt, Kaupfélagið Þór, hefur staðið utan þess og verið í samtökum um innkaup með ýmsum verslunum utan Reykjavíkur. Þegar Kaupfélagið Þór var stofnað, voru fyrir tvö Sambandskaupfélög í Rangárþingi. Kaupfélagið Þór náði yfir svæði þeirra beggja. Ingólfur leitaði í upphafi hófanna um inngöngu í Sambandið, en forstjóri Sambandsins vildi það ekki.

Ingólfur segir nokkuð frá átökum um flutninga Kaupfélags Árnesinga fyrir Mjólkurbú Flóamanna, m.a. á mjólk frá framleiðendum í Kaupfélaginu Þór. Lauk þeim málum þannig, að mjólkurbúið tók flutningana í eigin hendur. Ég hefði kosið að frétta meira af viðgangi Kaupfélagsins Þórs í samanburði við hitt kaupfélagið í Rangárþingi og um það, hvernig iðnaður efldist á Hellu, ég vil ætla í skjóli kaupfélagsins.

Nokkrir menn, sem áttu varanleg skipti við Ingólf sem alþingismann og ráðherra, gera grein fyrir þeim kynnum í síðara bindinu. Athyglisverð er ábending Halldórs Pálssonar búnaðarmálastjórn (bls. 286): „...mér fannst Ingólfur ekki sterkur félagsmálamaður. Hann hafði meiri áhuga á einstaklingum en félögum. Hann hafði takmarkaðan áhuga á að efla búnaðarfélög og búnaðarsambönd.“

Páll Líndal hafði það hlutverk að kanna ýmsar heimildir til að tryggja, að rétt væri farið með. Þrátt fyrir það stendur víða „að ég ætla“, „ef ég man rétt“ og annað í þeim dúr, þótt til séu heimildir til að taka af allan vafa. Truflar það lesanda, sem vill vita vissu sína og spara sér að leita heimilda.

Leiðrétta þarf frásögn af skólabyggingu á Hvanneyri á bls. 121 í II. bindi. Segir þar frá samkeppni um uppdrátt að nýrri skólabyggingu og að síðan hafi gengið nokkuð greiðlega að fá fé til verksins. „Þessari byggingu, sem er mikið hús og vandað, var langt á veg komið, er ég lét af ráðherrastörfum árið 1971“, segir Ingólfur. Staðarmaður segir mér, að þá hafi verið lokið heldur minna en helmingi byggingarinnar samkvæmt þeim uppdrætti, sem hlaut fyrstu verðlaun, hvort sem miðað er við flatarmál eða rúmmál, en nú, 13 árum síðar, sé verkið rétt rúmlega hálfnað!

Páll Líndal er orðhagur maður, eins og kunnugt er. Samt hefði verið til bóta að lesa handritið einu sinni enn yfir með tilliti til málfars. Prentvillur geta ekki talist margar, en mættu vera færri, brengl í broti kemur fyrir og myndatextar hafa víxlast af þingliði Sjálfstæðisflokksins 1967 og 1971 (á eftir bls. 80 í II. bindi). Sundurliðað efnisyfirlit er fremst í báðum bindum og nafnaskrá aftast í síðara bindi. Myndasíður eða myndir hefði átt að tölusetja. Punktur er sums staðar látinn tákna tugabrot í stað kommu.

Mikill fengur er að sjálfsævisögu Ingólfs á Hellu ásamt athugasemdum og dómum um Ingólf sem heimild um stjórnmál tímabilsins 1930-80. Umgjörðin, sem ævi Ingólfs er sett í af þeim Páli, er ekki ný birting á sagnfræðilegri vitneskju heldur til skemmtunar. Lestur fyrra bindisins var mér persónulega ljúfsár upprifjun á æskuhugsjónum mínum, sem ég vil ætla, að hafi verið hugsjónir þeirra manna, sem veittu Ingólfi brautargengi í upphafi. Ýmsir hafa þegar orðið til að birta dóm um ritin. Sumt af því er til fyllri vitneskju um málefni. Hér er getið dóma og athugasemda, sem birst hafa undir fullu nafni. Ritsins hefur vitanlega verið getið víðar, en þá nánast í fréttarformi það, sem mér er kunnugt um.

 

Dómar um rit Páls Líndals um Ingólf á Hellu

 

Andrés Kristjánsson í Dagblaðinu-Vísi: „Ingólfur á Hellu á sitt óðal í íslenskri stjórnmálasögu.“ 21.12. 1982. „Feimulaus og vafningalítil stjórnmálasaga.“ 10.1. 1984.

Erlendur Jónsson í Morgunblaðinu: „Viðburðaríkur stjórnmálaferill.“ 18.12. 1982. „Ingólfur á Hellu.“ 20.12. 1983.

Guðjón Friðriksson: „Goðsögn skrásett.“ Þjóðviljinn 4.1. 1983.

Guðmundur Daníelsson í Suðurlandi: „Ævisaga atgervismanns.“ 11.12. 1982. „Saga Ingólfs á Hellu.“ 15.12. 1983.

Páll Líndal: INGÓLFUR Á HELLU I-II, Sögu 22 (1984) 303-8. [ritdómur]