„Þú verður að tala við þau hjóni á . . .felli í . . . .dal. Þau hafa gert meira gagn illa stöddum börnum, sem þau hafa tekið á heimili sitt á langri ævi, en nokkur opinber stofnun getur gert.” Þetta ráð fékk ég hjá hámenntuðum bæjarstarfsmanni með mikla reynslu af opinberri forsjá illra staddra barna. Ég var að kynna mér þau mál fyrir nokkrum árum, eins og ég hef greint lesendum Freys frá (1982).
Ég for að . . .felli. Bóndi sagði mér þá frá undramikilli framför, sem hann hefði fylgst með á heimili í næstu sveit. Þangað hafði verið komið tveimur vangefnum stúlkum nokkrum árum áður. Fyrir því stóðu yfirvöld í Reykjavík, sem sáu ekki annað henta þeim. Hann vildi endilega, að ég færi þangað, þar sem sjón væri sögu ríkari. Á leiðinni átti ég tal við skólamann þar í héraði. Hann komst svo að orði, að stúlkurnar væru notaðar eins og vinnudýr.
Í tveimur heimsóknum kynntist ég því, hvernig stúlkunum leið. Í stuttu máli sagt voru þær alsælar. Vitaskuld nutu þær umönnunar, en það er ekki nóg. Mest munaði um það, að þær fengu að vera að liði á heimilinu, bæði í útiverkum og húsverkum. Gripahirðing var nokkuð fyrirhafnarsöm, þar sem húsin voru erfið, og á heimilinu var fólk, ungt og gamalt, sem þurfti nokkra umönnun. Þær nutu þess sýnilega að fá að vera hlutgengar í önnum heimilisins. Mér sárnaði, að fólk felldi svo ósanngjarna dóma, eins og ég heyrði þá og hef heyrt aftur síðar.
Fólk, sem tekur að sér slíkt fólk á vegum hins opinbera (sveitarstjórna), fær greiðslu fyrir. Sumum ofbýður hvað sú greiðsla er há. Hún er þó miklu minni en kostar að halda fólkið á stofnunum. Ekki verð ég samt var við, að fólk öfundist yfir launum starfsfólks stofnana. Auðvitað tekst misjafnlega til með umönnun á sveitaheimilum, en það tekst líka misjafnlega til með vist á stofnunum.
Víst er mikils um vert, að almenningur fylgist með því, að vel sé búið að niðursetningum, en látum það ekki bitna á því fólki, sem vissulega leggur mikið á sig þeirra vegna og öfundumst ekki yfir því, að það fái laun fyrir. Heppilegast væri, að þau laun væru rífleg. Það er aðhald að forráðamönnum niðursetninganna, sem oft mun vera Reykjavíkurborg, að fylgjast með þeim og láta þá ekki vera lengur í vistinni en heppilegt er þroska þeirra og heill. Þakkarvert er einnig, að til er fólk, sem þolir í húsum sínum ófullkomnar mannverur, sem kunna að geta skemmt húsgögn og óhreinkað gólf.
Frey 80 (1984) 422