Íslenskar kartöflur eru dýrar miðað við innfluttar kartöflur. Samt mælti enginn með því í löngum umræðum um kartöfluverslun á Alþingi í fyrra, að innflutningur yrði gefinn frjáls, á meðan íslenskar matarkartöflur væru til. Það gerðu neytendasamtökin ekki heldur. Deilurnar á Alþingi voru um það, hvaða fyrirkomulag á innflutningi væri heppilegast, þegar innlendar kartöflur væru þrotnar. Þó að íslenskar kartöflur séu dýrar, þykja þær samkvæmt þessu dýrmætar.
Ekkert land í Evrópu er eins illa sett og Ísland með ræktun matjurta til eigin þarfa og með aðdrætti á þeim. Kartöflur eins og rófur eru einu jurtirnar, sem ræktaðar eru hér og ná að endast allt árið, ef vel árar. Neysla á kartöflum hefur dregist saman hér á landi sem víðar með bættum efnahag. Þá hefur fólk tekið að matreiða kartöflur í annarri mynd en áður og kaupir þær þá steiktar eða hálfsoðnar. Kartöflubændur komu sér upp aðstöðu á Svalbarðseyri og í Þykkvabæ til að vinna þannig eigin kartöflur eða innfluttar. Í slíkri mynd teljast þær iðnaðarvara og gilda þá um innflutning þeirra ákvæði samninga um fríverslun með iðnvarning.
Í vetur reyndust kartöfluverksmiðjurnar ekki standast samkeppni við innflutning. Þegar þannig stóð, mæltu sumir með því, að innflutningur á unnum kartöflum yrði stöðvaður með því að synja um gjaldeyrisleyfi. Aðrir litu svo á, að slík innflutningsstöðvun væri óheimil, þar sem hún bryti í bág við fríverslunarkvæði um iðnvarning og spillti málstað Íslendinga erlendis. Ríkisstjórnin ákvað heldur að styrkja stöðu innlendu verkmiðjanna með því að greiða niður verð innlends hráefnis. Með því er kostnaður lagður á almenning sem skattgreiðendur, með innflutningsbanni hefði kostnaðurinn lagst á neytendur með hærra verði.
Innflutningur á unnum kartöflum, þegar innlendar kartöflur eru nógar, þrengir hlut garðyrkjunnar og rýrir enn það öryggi, sem þjóðin nýtur með ræktun eigin matjurta. Ráðstöfun ríkisstjórnarinnar er því í samræmi við það öryggisjónarmið sem nýtur almenns stuðnings, að innlend framleiðsla skuli ráða markaðnum, eins og hún endist. Hins vegar vantar, að ákvörðun ríkisstjórnarinnar sé sett fram í samhengi við slík öryggisjónarmið. Án slíks samhengis lítur út eins og einungis sé hlaupið til og bjargað til bráðabirgða sérhagsmunum tveggja verksmiðja og eigenda þeirra, sem leggja þeim til hráefni. Um þetta efni ætti að hafa fastmótaðar reglur um, hvernig bregðast skuli við mikilli uppskeru og til þess meðal annars að koma í veg fyrir, að íslensk stjórnvöld megi verða vænd um að bregðast þeim málstað, sem þau hafa gengist undir með fríverslunarsamningu.
NT-Tímanum 12. mars 1985