Eins og kunnugt er eru íslenskar garðyrkjuafurðir allajafna dýrari en innfluttar afurðir gætu orðið ódýrastar. Garðyrkjubændur halda því oft fram, að það sé ekki að marka, þar sem garðyrkja í öðrum löndum njóti margsháttaðs stuðnings hins opinbera. Ég nefni í því sambandi fróðlega grein Axels Magnússonar ráðunautar í Frey 17, 1985 um garðyrkju sem framleiðslugrein.

 

Holland er það land, sem mest er flutt inn frá og liggur því næst til samanburðar. Þetta er til athugunar í greinargerð minni um stöðu garðyrkjunnar við lækkun tolla, frá í desember 1984, og ég segi frá í Frey 1 og 2, 1985. Í greinargerðinni sagði um það: „Verð á innfluttu grænmeti og blómum borið saman við verð á innlendum afurðum vekur spurningar um kostnað útflutningslandanna. Menn hafa talið, að stjórnvöld í Hollandi greiddu niður kostnað garðyrkjunnar og hollenskir garðyrkjubændur styrktu þannig stöðu sína við útflutning. Hollensk stjórnvöld greiddu niður kostnað við olíu til gróðurhúsa á sínum tíma og einnig kostnað við gas, þegar gas kom í stað olíu. Samningur samtaka garðyrkjubænda og stjórnvalda um verð á gasi á þessu ári (þ.e. 1984) snerist um fjármuni, sem nema aðeins 1,3% af gasútgjöldum garðyrkjunnar í heild. Á tómata er verðuppbót svarandi til kr. 1,30 á kg. Ekkert hefur komið fram um, að garðyrkja njóti betri lánskjara en aðrar atvinnugreinar þar í landi. Hér sýnist því ekki vera um slíka fyrirgreiðslu að ræða, sem skýri að marki þann mun, sem er á verði innlendra afurða og verði í Hollandi.“

Öðru máli gegnir um garðyrkju í Noregi, sem nýtur mikilsverðrar inn­flutningsverndar, þó ekki eins öflugrar og íslensk garðyrkja, og veigamikilla niðurgreiðslna á framleiðslukostnaði, sem íslensk garðyrkja nýtur hins vegar ekki. Um það fjallaði ég allrækilega í greinargerðinni.

Garðyrkjubændur halda gjarna fram almennum rökum sjálfsbjargar til stuðnings þeirri innflutningsvernd, sem garðyrkja hér nýtur. Þannig segir Axel Magnússon í áðurnefndri grein sinni:

„Sú var tíðin að það var talið til dyggða að búa að sínu og að hvert heimili eyddi ekki meiru en aflað var.

Innlend framleiðsla hlýtur að stuðla að efnalegu sjálfstæði, og sá hugsunarháttur að allt útlent sé betra hlýtur að lenda í ógöngum. Þeir postular sem boða óheft frelsi á öllum sviðum án þess að hafa nokkuð jarðsamband um hvað er hægt og hagkvæmt virðast ekki hafa hugsað ýkja langt. Það er sama hvert litið er, ef nánar er að gáð, að allar þær þjóðir, sem geta, reyna að byggja upp og styrkja atvinnugreinar sínar sem þeir frekast mega, og það jafnt þótt þar ríki frelsi í orði kveðnu.“

Hér er skýr afstaða í stuttu máli Ef menn vildu haga sér í samræmi við hana, eru lítil takmörk fyrir því, hvaða framleiðsla ætti að njóta innflutningsverndar. Þá væri horfið aftur til ríkjandi stefnu fyrir hálfri öld. Enginn ráðamaður vill nú láta kenna sig við slíkt, enda hefur Ísland skuldbundið sig til að vernda ekki iðnað sinn með innflutningsgjöldum né höftum, en krefst á móti hins sama fyrir sjávarafurðir sínar erlendis. Sá, sem ætlar að rökstyðja aðgerðir í þágu garðyrkjunnar, eins og hér er rakið, má vita það víst, að þannig nær hann ekki eyrum neins ráðamanns og beinlínis spillir fyrir því, að ráðamenn treysti sér til að styðja ráðstafanir til stuðnings garðyrkjunni, þar sem það gæti kostað þá að verða ásakaðir fyrir almenna haftastefnu til tjóns fyrir útflutningsatvinnuvegina. Það breytir þessu ekki, þótt ýmsum brögðum sé beitt til að sniðganga samninga um óheft viðskipti til að vernda eigin framleiðslu, eins og Axel minnir á.

Öðru máli gegnir um þann, sem heldur því fram, að þjóðinni sé hollast og öruggast að halda uppi framleiðslu matvæla til eigin þarfa. Það er málstaður, sem er viðurkenndur bæði í þeim samningum, sem Ísland hefur gert um viðskipti, og af  neytendasamtökunum, sem styðja það skýlaust, að ekki skuli flutt inn matvæli, meðan til eru innlendar afurðir sömu tegundar.

Þótt neytendur kunni hver fyrir sig að gera lítið úr innlendri matvælaframleiðslu og mikla fyrir sér verðmun á innfluttum matvælum, er það ekki málstaður þeirra, þegar þeir koma fram sem ábyrg samtök. Á þessu ættu menn að standa, en það er óheppilegt að flytja fram rök, sem nú teljast öfgar, þótt þau hafi eitt sinn verið gild.

Ég hef hvað eftir annað vísað til skýrslu minnar um stöðu garðyrkjunnar við lækkun tolla. Þegar ég samdi hana, taldi ég víst, að hún yrði birt fljótlega, enda átti Samband garðyrkjubænda frumkvæði að henni. Enn er hún samt óbirt. Þó veit ég ekki til þess, að neitt hafi verið fundið að efni hennar. Hugmyndin með greinargerðinni var auðvitað, að hún yrði garðyrkjubændum og stjórnvöldum til leiðbeiningar í málum garðyrkjunnar. Ég tel til að mynda alveg víst, að Axel Magnússon hefði ekki túlkað stöðu garðyrkjunnar, eins og hann gerði í áðurnefndri grein, ef hann hefði haft tækifæri til að kynna sér greinargerð mína – við Axel höfum alltaf viljað læra hvor af öðrum. Auk þess samdi ég greinargerðina með það í huga, að þar kæmi ýmislegt fram, sem mætti verða til leiðbeiningar um landbúnaðarmál almennt. Þær leiðbeiningar halda enn gildi sínu, þótt ár sé liðið.

Frey 81 (1985) 950-51