Mál hafa skipast svo í landbúnaðinum, að líkja má horfum til sveita við áhrif sauðfjárpesta og bretavinnu upp úr 1940 og Vesturheimsferða fyrir aldamót. Þá gat enginn séð fyrir, hvernig úr rættist.

 

Eins er með þann vanda, sem nú er við að eiga, að enginn veit hvert hann færir sveitirnar, en margur er með þungan hug. Þótt ekki sjáist ráð, sem hald þyki í, er viðfangsefnið ekki nýtt. Lengi hefur verið vitað, að framleiðslugeta hvers einstaklings í landbúnaði yxi hraðar en neysla þjóðarinnar. Því hefði mátt búa sig undir vandann með þaulhugsuðum ráðum. Það hefur ekki verið gert, heldur gripið til örþrifaráða, þegar í óefni er komið.

Stjórnvöld leitast oft við að miðla málum, en því aðeins er um málamiðlum að ræða, að málsaðiljar hafi skilið málstað sinn og skýrt hann.

Búmarkshugmyndin hefur verið notuð, án þess að sýnilegt sé, að menn hafi skilið kjarna hennar. Hún hefur því ekki verið útfærð að gangi. Kjarni hugmyndarinnar er sá að heildarframleiðslu í landinu öllu eða í einstökum héruðum má laga að óskum neytenda og stjórnvalda án þess að skerða hag framleiðenda. Til þess að búmarksstjórn skilaði árangri, þurfti ýmsu að breyta í verðlagsmálum, en mér vitanlega hefur það ekki verið athugað.

Aðgerðir í framleiðslustjórn hafa byggst á tímabundnum forsendum og raunar verið úrræði til skjótrar lausnar á tímabundnum vanda án tillits til varanlegra áhrifa. Eru jafnvel dæmi um sveitir, þar sem bú á best uppbyggðu jörðunum hafa lagst niður vegna aðgerða framleiðslustjórnar. Hætt er við, að svo fari, þegar grundvallarskilninginn vantar. Oft hefur verið fundið að því, að verulegu viðbótarbúmarki hafi verið úthlutað. Það er þó ekki mergurinn málsins, heldur annað og miklu meira. Ætla verður, að finna hefði mátt frjálslegri ráð og hagkvæmari en beitt hefur verið til að má markmiðum framleiðslustjórnar. Hér er ekki tækifæri til að skýra hvað átt er við, enda ekki um lítið að tala. Vandað álit sérfræðings verður ekki hrist fram úr erminni sem efni í tímaritsgrein.

Stjórnarfar verður ekki gott nema almenningur viti nokkurn veginn hvers vænta megi af stjórnvöldum. Því hefur ekki verið að heilsa um stjórn landbúnaðarmála, að þar væri um viðmiðun að ræða, sem studd væri fræðilegum rökum og nýti almennrar viðurkenningar. Bændur hafa vissulega valið greinda og gegna menn úr röðum sínum til að fjalla um mál landbúnaðarins og sveitanna, en það er ekki nóg. Menn sjá ekki samhengi varðandi stjórn þeirra mála án aðstoðar kenninga hagfræði og þjóðfélagsfræði almennt. Vissulega er almenn og alþýðleg umræða í slíku máli mikilvæg, en stjórnsýslustéttir landsins ætlast til, að sérhver meiri háttar málstaður sé rökstuddur fræðilega. Þótt háskólamenntaðir menn hafi verið ráðnir í stöður til aðstoðar bændaforystunni, dugar það ekki. Önn dagsins við úrlausn brýnna vandamála hefur ekki leyft þeim að brjóta mál til mergjar, og stöðurnar raunar ekki ætlaðar vísindalega þjálfuðum mönnum.

Allar ástæður í sveitum landsins og í landbúnaðinum eru svo sérstakar, að þar fæst ekki grundvallarskilningur með aðstoð erlendra kennslubóka einna, heldur þarf að aðlaga kenningar forsendum landsins. Ég einsetti mér, þegar ég var að ljúka námi í búnaðarhagfræði í Noregi fyrir tveimur áratugum að leggja þann grundvallarskilning með starfi mínu. Ég fékk tækifæri til að hefja rannsóknir á ástæðum á landsbyggðinni og benti í riti á, að fóðurmálin gegndu lykilhlutverki og að aðhalds væri þörf í fjárfestingu og framkvæmdum. Þessu var ekki sinnt, fyrr en í óefni var komið, og þá án þess að brjóta mál til mergjar og leita varanlegra rökstuddra ráða.

Meðal háskólamenntaðra manna, sem eru til ráðuneytis um stjórn landsins, eru hleypidómar áberandi um landbúnaðarmál og málefni sveitanna, og er vitaskuld ekkert sérkenni á höfuðborg Íslands. Menn skyldu ætla, að háskólamenntun ynni gegn slíkum hleypidómum, en svo reynist ekki vera. Í Háskóla Íslands hefur enginn einbeitt sér að málum landbúnaðar og sveita, hvorki í viðskiptadeild né félagsvísindadeild. Engin stofnun landbúnaðarins hefur tekið að sér að fjalla fræðilega um mál sveita og landbúnaðar á sviði hagfræði, stjórnmálafræði og félagsfræði. Landbúnaðurinn og sveitirnar hafa því að vonum orðið berskjaldaðar, þegar spurt er um nútímaleg þjóðfélagsleg rök atvinnugreinarinnar og sveitabyggðar og stjórn mála, sem byggð er á þeim rökum. Nýlega rann upp fyrir mér, að hér er ekki búist við því, að vísindamaður á þessu sviði geti séð neitt nýtt, og ekki heldur skilningur á því, að það gerðist því aðeins, að hann hafi frjálsar hendur til starfa.

Oft vísa menn til þess, að almennur stuðningur sé við þá skoðun, að þjóðinni sé búið mikilsvert öryggi í innlendum matvælum. Hins vegar hefur enginn gert grein fyrir því, í hverju öryggið sé fólgið, hvað spilli því, hvernig megi úr bæta og hvað það kunni að kosta. Áhugi landbúnaðarmanna hefur ekki reynst ná lengra en til að fá greitt úr þeim flækjum, sem dægurmálabaráttan dregur þá í.

Svo gæti virst sem íslendingar kunni vel að meta menn með sjálfstæðar skoðanir. Ég hygg þó, að sjálfstæðir menn þyki heldur varasamir, ef þeir hafa rökstuddar skoðanir. Maður, sem ekki gengur goðaveldinu (flokksveldinu) á hönd, finnur það, er að þingi kemur, að hann á sér formælendur fáa. Þetta mat ég skakkt á sínum tíma. Ég þekkti vel þá hleypidóma, sem tengdust flokksaðild. Þá var ekki spurt, hvað maðurinn hefði fram að færa, heldur í hvaða flokki hann væri (eða ætti eiginlega að vera). Ég gerði ráð fyrir því að hafa ýmislegt fram að færa, sem menn í fleiri flokkum vildu læra af. Ég taldi því vist, að starf mitt kæmi að meira gagni, ef ég héldi mig utan flokka og forðaðist þannig þá hleypidóma sem flokksaðild fylgja. Ég bjóst við, að þeim, sem létu sig heill sveitanna varða og unnu að þeim málum innan stjórnmálaflokkanna, þætti heppilegt, að sá, sem ynni að þeim fræðilega, væri óháður maður. Rök hans yrðu meira metin og betri grundvöllur til skoðanaskipta en rök manns, sem væri merktur flokki. Svo hefur ekki reynst. Flokkslaus maður, sem vill fjalla um stjórn landbúnaðarmála með fræðilegum rökum, er nánast sem útlagi.

Ég var því líka mátaður.

Frey 83 (1987) 198-9