Hin róttæku umskipti, sem orðið hafa með samdrætti í mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt, hafa víða skilið eftir sig spor. Auðir básar og tómar krær blasa við, þegar litið er inn í gripahús. Þau verða óvíða nýtt til annars en þau voru hugsuð til og eru því fastur kostnaður.
Aðkeypt fóður er sá kostnaður, sem bændur hafa átt auðveldast með að breyta, enda hefur dregið verulega úr kjarnfóðurgjöf og talsvert meira en nemur fækkun gripa. Engu að síður hafa afurðir á grip ekki dregist saman. Menn hafa skorið lakari gripi og valið betur til ásetnings, og hey hafa verið vel verkuð víðast hvar undanfarin ár. Ýmsir bjuggu meira af kappi en forsjá, höfðu sem sagt stærri áhöfn en var þeim í hag, og hafa nú nauðugir viljugir fækkað og ráða þá betur við að hirða bústofninn til afurða.
Samdrætti í framleiðslu var jafnað á alla. Eins og ég tók fram í grein minni ,,Sveigjanleiki ásamt öryggi undir framleiðslustjórn’’ í 20. tbl. Freys verður að losa þar um, svo að framleiðslan geti færst til með breyttum aðstæðum á jörðunum. Ég benti þar á aðferð til þess, en hún er í því fólgin að fullvirðisréttur skerðist 10% á ári, en það sem losnar fari til þeirra, sem best bjóða. (Og það gerðist vel að merkja án þess að skattleggja búgreinina eða landbúnaðinn).
Ég treysti mér ekki til að spá um væntanlegt verðlag á slíkum rétti. En hverjir munu bjóða mest til að viðhalda rétti sínum eða auka hann? Menn yrðu hver fyrir sig að athuga, hvort þeir hefðu hag af því að halda í horfinu eða auka við sig, m.ö.o. meta hvað tapist á því að gera það ekki og bjóða í samræmi við það. Einhverjir kunna að vera komnir í þrot, svo að þeir geta ekki greitt það sem kostar að viðhalda rétti sínum eða auka við hann, líkt og sumir geta ekki greitt þann áburð sem þarf til að halda túnum í rækt.
En hverjir hafa helst hag af því að halda í horfinu eða auka við sig? Það eru þeir, sem hafa mestan fastan kostnað, byggingar í fullu gildi og tún í góðri rækt. Þeir mundu leggja minnst í að viðhalda fullvirðisrétti sínum, sem þyrftu að byggja upp eða eiga annarra kosta völ.
Eftirfarandi dæmi eru búin til að skýra til hvers konar búa og jarða ætla má að fullvirðisrétturinn færist og hverjir mundu draga saman seglin, ef einhver hluti fullvirðisréttar skertist árlega og gengi til þeirra sem best byðu:
- Á tveimur búum er búskapur, vinnuafl og heimilisstærð eins, en annað búið er miklu skuldugra. Þar er hver króna fjölskyldunni meira virði og ástæða að bjóða betur í fullvirðisrétt sem losnar.
- Tvö bú eru eins og skuldir jafnar, en annað ber þyngra heimili. Þar er hver króna meira virði og bóndi mun bjóða meira í lausan fullvirðisrétt.
- Tvö bú bera jafnstór heimili, en annað búið er svo stórt, að fólkið ræður illa við það, svo að afurðir verða minni en á hinu búinu. Aukinn fullvirðisréttur er því lítils virði á stærra búinu, svo að bóndinn hefur ekki hag af því að bjóða eins mikið í lausan fullvirðisrétt og bóndinn sem ræður vel við búskapinn.
- Tvö fjárbú eru jafnstór. Á öðru búinu ber jörðin vel þann fjárstofn sem þar er og afurðir eru góðar, en á hinu búinu er land ofsett og afurðir rýrar. Það ýtir undir bóndann þar að fækka fé, að það getur kostað hann að halda óbreyttum fullvirðisrétti.
Þegar gripahúsakostur yfirleitt hefur aðlagast gripafjölda og fullvirðisrétti verður meiri ástæða en hefur verið undanfarin samdráttarár til að fóðra til góðra afurða, meðal annars með fóðurkaupum. Það fyrirkomulag, að það kosti að viðhalda fullvirðisrétti myndi samt sem áður verða bændum áminning um að knýja ekki afurðir á grip fram úr hófi, þar sem því mundi fylgja sérstakur kostnaður að tryggja sér rétt til að selja afurðirnar fullu verði.
Frey 84 (1988) 918, 914