Jón V. Jónmundsson reifar stöðu mjólkurframleiðslunnar í 14. hefti Freys í ár (Er unnt að lækka verð á mjólkurvörum?). Í inngangi minnir hann á umræðu í vor og í sumar um að leysa hömlur á innflutningi. Hann telur að  viðbrögð bænda við þessu hljóti fyrst og fremst að vera að gera aðgerðir til að auka hagkvæmni framleiðslunnar til að lækka verðið.

Ég veit ég þarf ekki að segja Jóni það, en ókunnugur kynni að álykta sem, svo að þarna sé fundið ráðið til að knýja bændur til slíkra aðgerða, að leyfa innflutning. Ég vil minna á, að öll saga landbúnaðarins þessa öld hefur verið saga aðgerða til að auka hagvæmni framleiðslunnar. Fyrst var mjólkurframleiðslan í samkeppni á erlendum markaði (smjör), en síðar í samkeppni við innflutta mjólkurvöru. Þó að tekið væri fyrir slíka samkeppni, hefur viðleitni til hagkvæmari framleiðslu einkennt viðbrögð bænda og ekki síst samtaka þeirra alla tíð. Vitaskuld hefur margt vakið þá viðleitni og haldið henni við. Menn hafa vitað, að fólk horfði í mjólkurkaup, ef varan væri dýr, og keypti þá ýmislegt annað, sem kom beint (smjörlíki) eða óbeint (svaladrykkir) í staðinn. Þó held ég, að mest hafi knúið menn til dáða þegnskapur og metnaður að standa sig. Sem sagt: Það hefur ekki þurft að brýna bændur og samtök þeirra til aðgerða til hagkvæmari framleiðslu með ógnum um innflutningssamkeppni.

Ég vil setja fram nokkrar athugasemdir í þeirri umræðu, sem Jón býður til. Í kafla um stjórn framleiðslunnar minnir hann á miklar umræður meðal bænda um reglur varðandi viðskipti bænda um fullvirðisrétt,  „held ég að það hafi verið augljóslegasta sönnun þess að mögulegt er að lækka mjólkurverð bænda.” Ég vildi orða þessa athugun öðru vísi. Hömlur þær, sem settar voru á mjólkurframleiðsluna, stöfuðu vitaskuld af því, að framleiðslugetan var meiri en svaraði til eftirspurnar. Gripið var til ráða, sem komu í veg fyrir, að ýmsir nýti framleiðslugetu sína að fullu, svo sem gripahús og vinnuafl. Þeir sjá sér meira að segja hag í því að auka við sig, þótt lægra verð fáist fyrir aukninguna eða sem nemur því, sem þeir bjóða fyrir fullvirðisrétt, þar sem hann er falur. Þar með er ekki sagt, að þessir mjólkurframleiðendur stæðust það verð, sem þeir fá fyrir aukninguna að frádregnu verði á fullvirðisréttinum, ef það ætti að greiðast fyrir alla framleiðslu þeirra.

Það má vera ljóst af skrifum okkar Jóns, að við teljum það mál málanna að tryggja farsæla endurnýjun í röðum framleiðenda. Fyrir heildina er þar um að ræða vandasama jafnvægisgöngu, sem felst í því að nýta þann kostnað, sem þegar hefur verið lagður í mjólkurframleiðsluna – það kostar lítið til viðbótar við það, sem þegar hefur verið lagt út, en afköstin eru iðulega lítil – að því marki, sem það er ódýrara en fullkomnari búskaparhættir, sem krefjast nýs kostnaðar. Ég stend enn við það álit, sem ég setti fram í áðurnefndri grein minni, að þar sé bent á aðferð, sem leitar slíks jafnvægis.

Þótt ég telji brýnt, að skipting fullvirðisréttar á framleiðendur verði sveigjanlegri, hef ég ekki mælt með frjálsum viðskiptum á fullvirðisrétti. Engu að síður vil ég heyra öll rök málsins. Því vildi ég fá rökstudd síðustu orðin í eftirfarandi athugasemd Jóns sem stóð í framhaldi af fyrir tilvitnunum: „Talsmenn frjálsra viðskipta munu að vísu halda því fram að á þann flyttist réttur til þeirra sem hagkvæmasta hefðu framleiðslu. Ég tel verulega ástæðu til að draga sannleikskjarna slíkra fullyrðinga í efa. Reynslan bæði hérlendis og erlendis tel ég að sýna að mörgu leyti allt annað.”

Frey 85 (1989) 846