Mörgum ofbýður hversu mikill vélakostur er keyptur til heyskapar. Á liðnu sumri blasti víða við augum nýmæli, sem hefur hlotið hraða útbreiðslu, en það eru rúllubaggar vafðir plasti, oftast hvítu. Heyið þarf ekki nema dagsþurrk til að vera tækt í slíka geymslu. Undir plastvafningnum verður loftlaust eftir stuttan tíma, þegar gerlar í heyinu hafa eytt því litla, sem komst fyrir af súrefni í bagganum. Þannig geymist heyið vel.
Ég kynnti mér framkvæmdina lauslega í einni sveit. Bæjarsveit í Borgarfirði. Þar keypti búnaðarfélag hreppsins vafningstæki og réð ungan mann til að vinna fyrir bændur, en heyið var bundið ýmist með vélum bútæknideildar Rannsóknastofnunar landbúnaðarins á Hvanneyri í Andakíl eða vél bónda eins í Lundarreykjadal, sem batt einnig mikið fyrir sveitunga sína.
Aðeins reynslan getur sannað notagildi þessarar nýju tækni. Þar munar mestu, hvort menn fá betra fóður en með þeim tækjum, sem hingað til hafa verið notuð. Bændur hafa dregið talsvert úr kaupum á fóðri (á grip) síðan um miðjan síðasta áratug. Bætt fóðurverkun er háð því, að menn slái á kjörtíma. Til mikils er að vinna í því efni til að spara fóðurkaup.
Því rek ég þetta hér, að Ólafur Ásgeirsson sagnfræðingur (ÓA) leggur út af útbreiðslu þessarar tækni í grein í blaðinu 21. þ.m. (Landbúnaður á villigötum). Virðist hann telja bændum gangi það helst til að njóta betri og náðugri daga með því að taka þessa nýju tækni í þjónustu sína. Býsnast hann yfir því, að heyvinnslutæki standi ónotuð 50 vikur á ári, en þannig er, þegar menn vinna með náttúrunni, að þar hefur allt sitt kjörstig og stundum mjög stutt.
Síðan heldur ÓÁ því fram, að bændur borgi „alls ekki rúllubaggavélarnar og allar hinar græjurnar, sem vel má komast af án við heyskapinn úr eigin vasa. Réttara væri að segja, að þeir lánuðu neytendum andvirði tækjanna um nokkurra mánaða skeið, þar til sú hækkun, sem verður á búvörum vegna tækjanna nýju, hefur skilað sér. Málin eru þannig vaxin, að verðlagsráð landbúnaðarins tekur mið af búreikningum vísitölubúsins, þ.e. þeim kostnaði, sem fylgir því að framleiða búvörur á hinum dæmigerða búi. Kerfið virkar þannig, að bændum eru ætíð tryggð laun í samræmi við aðrar stéttir, hver svo sem tilkostnaður þeirra er.
Vélvæðing landbúnaðarins er mikið tilfinningarmál. Þar eru mörg álitaefni vegna breytilegra ástæðna á búum og breytilegs tíðarfars. Hitt stenst vitaskuld ekki, að nokkur bóndi ákveði útgjöld sín með það í huga, að þau fáist endurgreidd í hærra verði. Hlutur hans er sjaldan meir en brot úr prómilli í kostnaðarhlið vísitölubúsins. Ef svo væri, að þeir framvísuðu útgjöldum svo til eftir hendinni til greiðslu á tekjuhlið vísitölubúsins, hvernig má þá skýra það, að bændur hafa dregið úr fóðurkaupum? Þar er þó um að ræða stærri kostnaðarlið en vélarnar. Sá er einnig munurinn, að fjármagnskostnaður vélanna dreifist á árin með fyrningum, en fóðurkaupin vitaskuld ekki.
ÓA hefur lent á villigötum varðandi starfsemi og stjórnkerfi, sem honum er framandi, og hefur ekki beitt vinnubrögðum sagnfræðings til að kynna sér, svo sem að kanna málavexti á vettvangi, þar sem þess er kostur og varast hæpnar heimildir. Framhald greinarinnar ber þess merki sem vonlegt er.
Þjóðviljanum 3. október 1989