Mér þótti Þorvaldi Gylfasyni prófessor mælast vel í Hagmálum 30 (1989), tímariti Mágusar, félags viðskiptafræðinema, í greininni „Hvert er hlutverk Viðskipta- og hagfræðideildar Háskólans?". Hann getur þess fyrst, að þess hafi orðið vart í vaxandi mæli undanfarin ár, að margir áhugamenn um stjórnmál og þjóðmál yfirleitt söknuðu þess, að deildin skyldi ekki láta í sér heyra í opinberum umræðum um efnahagsmál. Óskirnar væru eðlilegar og bornar fram af góðum hug, en samrýmdust ekki hefðbundnum skilningi háskólamanna á hlutverki Háskóla Íslands, deilda hans og stofnana, eins og hann lýsti í greininni.
Óskir þessar kvað hann helgast að miklu leyti af því að miklu leyti af því, að málflutningur nokkurra áhrifamikilla stjórnmálamanna um ýmis efnahagsmál hefðu verið mjög óskynsamlegar undanfarin misseri. „Sumir þessara manna hafa orðið uppvísir að tilfinnanlegri fáfræði um einfaldar staðreyndir efnahagslífsins og einnig að furðulegum fordómum um lögmál markaðsviðskipta í hagskipulagi vestrænna ríkja. Það er ekki auðvelt fyrir hagfræðinga að þurfa að hlýða á þvílíkan málflutning í fjölmiðlum daginn út og inn." Þetta rökstyður hann með tveimur vel völdum dæmum um slíkan málflutning.
Í lok greinarinnar lýsti hann hlutverki hagfræðistofnunar Háskólans, sem þá var nýlega tekin til starfa, en það væri í fyrsta lagi rannsóknir „unnar í kyrrþey eðli málsins samkvæmt, en ekki í beinni útsendingu, og niðurstöður þeirra eru yfirleitt birtar í fræðiritum og á erlendum vettvangi fyrst og fremst, svo sem tíðkast um grundvallarrannsóknir í háskólum smáþjóða." Í öðru lagi væri henni „ætlað að efla tengsl hagfræðirannsókna, ráðgjafar og kennslu á ýmsa vegu, til dæmis með því að taka að sér rannsóknar- og ráðgjafarverkefni af ýmsu tagi fyrir félög, fyrirtæki og stofnanir og fyrir stjórnvöld í því skyni meðal annars að greiða fyrir hagkvæmum rekstri og skynsamlegri hagstjórn."
Nú brá svo við eftir að grein Þorvalds birtist, að rannsóknir Hagfræðistofnunar tóku að birtast „í beinni útsendingu". Hafa þeir birt þær þrír, Þorvaldur á síðum Morgunblaðsins og Guðmundur Ólafsson í sjónvarpi ásamt Þórólfi Matthíassyni, forstöðumanni stofnunarinnar, en þeir hafa einnig leyft lesendum blaða og tímarita að fylgjast með. Í sem stystu máli hefur ekki verið auðvelt fyrir mig sem búnaðarhagfræðing og þjóðfélagsfræðing „að þurfa að hlýða á þvílíkan málflutning í fjölmiðlum daginn út og inn". Ég hef samt setið undir þessu, en tók þó til gagnrýni á skrif forstöðumannsins í 50. hefti Vísbendingar, vikurits um efnahagsmál, 1990, þar sem hann setti fram ályktun sem var hreint öfugmæli (sjá grein mína „Samsæri gegn sjálfum sér" í 3. hefti Vísbendingar í ár).
Fyrst af öllu þurfa starfsmenn háskólastofnunar að þekkja efnisatriði máls, sem þeir fjalla um opinberlega, en þau eru orðin nokkur dæmin, þar sem annað hefur sannast á þá félaga. Í öðru lagi þurfa þeir að kunna að beita rökum fræðigreinarinnar og sýna það. Hér er vitaskuld ekki vettvangur til að rökræða málflutning þeirra þremenninganna, en ég vil þó vekja athygli á því, sem er sniðgengið.
Í markaðsfræði er gerð grein fyrir því, við hvaða aðstæður markaðsöflin af sjálfum sér leiðbeina framleiðendum óljóst um rekstrarforsendur og jafnvel villa um fyrir þeim. Þess gætir ekki síst í landbúnaði, en það kemur hvergi fram, að ÞG sé kunnugt um það og geri grein fyrir því, hvernig við megi bregðast. Þarna er um það að ræða, að sveiflur í náttúrufari valda sveiflum í framboði afurða. Í öðru lagi eru viðbrögð framleiðenda bundin árstíðum, en eftirspurnin miklu síður, og sömuleiðis meðgöngutíma búfjárins, og í þriðja lagi er þess að gæta, að langur tími líður frá því að viðbrögð neytenda eru kunn þar til framboðið getur orðið í samræmi við þau. Yfirleitt er eftirspurnin eftir lífsnauðsynjum, eins og mikill hluti matvæla landbúnaðarins er, ósveigjanleg. Því verða verðsveiflur miklar, ef ekki er gripið í taumana á viðeigandi hátt. Verðsveiflur hafa því takmarkað gildi til leiðbeiningar framleiðendum um væntanlegt verðlag.
Þessir annmarkar koma sterkt fram á markaðssvæði, sem er afmarkað vegna fjarlægðar, eins og Ísland er og einstök byggðarlög landsins. Á slíkum markaði yrðu verulegar verðsveiflur milli þess, að heimaframleiðsla fullnægði ekki heimaeftirspurn, og þyrfti því aðdrætti til viðbótar, og að framboð væri umfram heimaeftirspurn, án sérstakra ráðstafana, sem ekki eru á færi einstaklinga. Allt þetta dregur úr gildi verðsveiflna til leiðsagnar framleiðendum um hagkvæmt framboð miðað við það sem er gagnvart jafnstórum hópi framleiðenda á markaðssvæðum meginlanda. (Menn athugi, að hér er um að ræða verðsveiflur, en ekki verðþróun). Markaðsskipulag íslensks landbúnaðar er sniðið að þessum forsendum, þótt fleira komi til. Sá sem vill leggja þar til málanna til „að greiða fyrir hagkvæmum rekstri og skynsamlegri hagstjórn", eins og ÞG telur annað ætlunarverk Hagfræðistofnunar, án þess að athuga þessar forsendur, er ekki viðræðuhæfur.
Kennivald hagfræðinnar er mikið. Á frumstigi beitir hún einföldum forsendum og sniðgengur annað en það, sem hver maður má skilja. Þar reynir ekki síst á þá hagfræðinga, sem starfa að rannsóknum, að viðurkenna takmörk hagfræðinnar og taka tillit til þeirra. Í ákafa sínum mega þeir gá að sér að láta þær systur vil og dul ekki taka af sér ráðin. Án gagnrýni getur svo farið, að hagfræðingar í fílabeinsturni háskóla njóti kennivalds hagfræðinnar til þess að sniðganga markmið, sem þeim eru ekki þóknanleg af persónulegum eða pólitískum ástæðum. Þetta gerir ÞG, þegar hann heldur því fram, að það sé í þágu bænda einna, að landbúnaðurinn er verndaður fyrir innflutningi og það sé fyrir óeðlilegan þingstyrk þeirra, að svo sé gert. Þessu heldur hann fram, þótt Alþingi hafi samhljóða sett verndarákvæði grundvallarlaga þeirra sem hér ráða, búvörulaganna frá 1985. Þar var því til að mynda ekki um að ræða málamiðlun stjórnarmeirihlutans á þingi, heldur studdi stjórnarandstaðan málið einnig. Verndarákvæðin voru reyndar hert, ef nokkuð var, frá því sem var í fyrri lögum, lögum um framleiðsluráð landbúnaðarins, sem að stofni til voru frá 1947.
Nýjasta opinbera álitsgerðin um þetta er frá Evrópunefnd Alþingis, sem skipuð er níu fulltrúum sex þingflokka. Þar er samhljóða haldið fram sams konar verndarsjónarmiði, um leið og bent er á, að takmarkanir á innflutningi landbúnaðarafurða til Íslands séu ekki eins víðtækar og annars staðar meðal Evrópuþjóða, þar sem hér á landi séu framleiddar færri tegundir landbúnaðarafurða.
Það kveður þá gjarna við það hjá ÞG, en án rökstuðnings, að verndarsjónarmiðið sé úrelt. Með slíkum orðum má skilja, að það hafi einhvern tíma átt við. Nú vill svo til, að formaður áðurnefndrar alþingisnefndar hafði í 17 ár kennarastöðu við viðskiptadeild (hann fékk lausn 1. ágúst síðastliðinn). Það hlýtur að vera lágmarkskrafa til háskólamanna, áður en þeir fara að fræða almenning, að sýna starfsnaut í sömu deild þá virðingu að afgreiða hann ekki með því einu, að álit, sem hann setur fram í ábyrgðarstöðu, sé úrelt. Þess verður þá enn að geta um þá skýringu ÞG á innflutningsverndinni, að hún sé vegna ofríkis bænda á Alþingi, að nefndur deildarkennari, sem var líka alþingismaður, þegar búvörulögin voru sett 1985, hefur auðvitað aldrei verið háður fylgi bænda. Hvernig á Hagfræðistofnun að verða trúverðugur ráðgjafi stjórnvalda, ef hún ansar því ekki einu sinni að ræða grundvallarmarkmið þeirra?
Það var með tilliti til þess sem kunnugt var af opinberum heimildum um stuðning stjórnvalda við innflutningsvernd, að við Ólafur Ólafsson landlæknir sömdum greinargerð um viðbúnað til að treysta öryggi þjóðarinnar og birtum í Morgunblaðinu 20. júlí 1989 („Fæðuöflun á þrengingatímum"). Ég leyfi mér að drepa á efni hennar til að benda á takmörk hagfræðinnar, sem háskólastofnun, sem ætlar að standa undir nafni, verður að kunna að taka tillit til.
Í þessu efni er fyrst að gæta einhæfni innlendra matvæla, þótt ríkuleg séu. Því væri mest um vert, töldum við, að tryggja framboð á afurðum sem breikka fæðuval þeirra, sem þarfnast mest fjölbreyttrar næringar úr garðmat og mjólk. Til að tryggja framboð á mjólk þyrfti að tryggja kúm fóður, en það gerist best með ríkulegum grasnytjum, og munar þá einnig um það fóður, sem aflað er handa öðrum gripum en kúm á venjulegum tímum. Lykilefni að öruggri fóðurframleiðslu er vitaskuld ræktað land og eigin áburður. Við Ólafur reifuðum málið, eins og gera þarf á frumstigi aðgerðarannsóknar, sem var svið áðurnefnds deildarkennara og alþingisnefndarformanns, Kjartans Jóhannssonar dósents. ÞG lætur eins og verðmæti innlendrar vöru sé jafnmikið og verðmæti innfluttrar vöru af sömu gerð. Í öryggisviðhorfinu felst hins vegar það, að innlend vara er metin meira en innflutt. Það þarf þó ekki að koma fram í afstöðu neytanda sem einstaklings við búðarborðið. Íslenskur ferðamaður á leið til landsins, sem kemur að búðarborði í flughöfn, getur vitaskuld sniðgengið annað en stundarhagsmuni sína og keypt sér þar ost til að hafa með sér heim, í trausti þess að engu að síður sé vel séð fyrir hag heildarinnar og þar með hans með góðum skilyrðum fyrir mjólkurframleiðslu, svo að nægileg mjólk verði handa þeim sem mest þurfa, börnum, unglingum og konum í barneign, þótt aðdrættir fóðurs, áburðar og ýmissa matvæla frá útlöndum bregðist um skeið.
Það verður ekki fest í tölur í verði einstakra vörutegunda, hversu mikils menn meta þá lífshagsmuni sem um er að ræða. Hagfræðin á ekkert verð á líf og heilsu einstaklinga eða þjóðar að setja í dæmið.
Ekki eru heldur til neinar tölur um líkurnar á því að heilsu og lífi kunni að verða hætt.
Hagfræðin á því hér sín takmörk. Þar reynir á hagfræðinga að ætla fræðigreininni ekki meira en ástæður eru til. Hagfræðingur í virðingarstöðu, sem sniðgengur þessar hliðar í opinberri umræðu, misnotar stöðu sína. Hagfræðin ræður ekki við kostnaðar- og nytjagreiningu á íslenskum landbúnaði, þegar aðeins eru til tölur um kostnaðinn, en ekki um nytjarnar, sem meðal annars felast í fæðuöryggi. Hagfræðingar geta samt lagt ýmislegt til málanna, svo sem mat á styrk og veikleika þjóðarbúskaparins í þessum efnum, og ráð um það, hvernig megi beina framleiðsluháttum að því, sem styrkir fæðuöryggið á sem hagkvæmastan hátt, með aðferðum aðgerðafræði.
Í þessu ljósi er það ekki annað en áróður til æsinga, þegar ÞG setur fram tölur, sem hér er ekki staður til að dæma um hvernig eru fengnar, um það hvað almenningur leggur mikið með hverri einstakri bændafjölskyldu mánaðarlega, eins og landbúnaðurinn væri ekki í þágu annarra en bænda. Það væri líkt því að telja, að starfsemi Háskólans væri aðeins í þágu prófessora hans og deila með tölu þeirra í fjárveitingu til hans á fjárlögum. Þá kæmi út, að almenningur leggur að meðaltali 1.100.000 kr. á mánuði með hverjum prófessor árið 1991
Með þessu er ekki lagður dómur á fræðistörf ÞG. Ég lít á málflutning hans í því sem ég hef rætt hér sem stjórnmálaumræðu, sem er að vísu með þeim hætti, sem ég hélt ungur, að góð menntun mundi venja menn af. Þeir sem ekki þekkja Hagfræðistofnun af öðru en beinni útsendingu af rannsóknum á landbúnaðarmálum mega halda, að hún sé pólitísk bækistöð. ÞG getur þess, að óskað hafi verið eftir slíkum skrifum. Fjölmiðlar ýmsir kjósa æsingar og hleypidóma, sumir sem krydd, en aðrir sem aðalinntak þjóðmálaumræðu. Mest þykir þá varið í, að sá, sem semur æsingaskrif eða kemur í hleypidómaviðtal, sé í virðingarstöðu. Mér verður hugsað til hinna ráðsettari kennara Viðskipta- og hagfræðideildar og Háskólans yfirleitt, hvernig þeim þyki að láta þetta ganga yfir sig og að láta beina útsendingu fá þannig að móta álit ókunnugra á deildinni og Háskólanum.
Málflutningur þeirra þremenninganna er svo fjarri öllu sem ég hef kynnst í Noregi og Svíþjóð, þeim löndum þar sem ég þekki best til háskóla. Svo vill til, að einn þeirra nam við stofnun, sem ég hef átt rannsóknavist við og kynnst starfsandanum þar, þjóðhagfræðistofnun Oslóarháskóla. Ég hef lengi dáðst að þeirri heiðríku hugsun sem einkenndi staðinn. Þar störfuðu samtímis þrír í hópi merkustu hagfræðinga heimsins. Tveir þeirra hlutu Nóbelsverðlaun fyrir verk sín, og mér hafa sagt þeir, sem máttu vita, að röðin hefði verið komin að þeim þriðja, þegar hann lést fyrir aldur fram. Kennslubók hans um hagstjórn ríkisins hefur verið notuð við Háskóla Íslands. Engan gat grunað af þeirri bók, að hann væri virkur félagi í utangarðsstjórnmálaflokki, svo örugg var hlutlægni hans.—Annar þeirra þremenninganna starfaði um skeið við Hagfræðistofnun í Stokkhólmi. Sjálfur þekki ég háskólamál í Svíþjóð eftir 10 ára setu í stjórn norrænnar háskólastofnunar í Stokkhólmi, með þjóðskipulag sem viðfangsefni. Stjórnin skiptir sér vitaskuld ekki af því hvernig kennarar kynna skoðanir sínar. Nýlega kom til álita að leggja stofnunina niður, eins og fleiri menntastofnanir Norðurlandaráðs, til að fá til ráðstöfunar fé til annarra verkefna. Ef kennarar þar hefðu kynnt málflutning eins og þeir þremenningarnir, hefði það varla verið álitamál stundinni lengur, heldur hefðu ráðamenn menningarmálafjár Norðurlandaráðs átt auðvelt með að fá fé stofnunarinnar varið í annað háskólastarf á Norðurlöndum. Þriðji þremenningurinn var við nám í Leníngrað. Eg þekki ekki til sovéskra háskóla af eigin raun, en hef fyrir satt, að þeir hafi verið pólitískar bækistöðvar.
Stúdentar Viðskipta- og hagfræðideildar sækja námskeið Heimspekideildar í aðferðum vísindanna og rökvísum vinnubrögðum, þótt fæstir þeirra muni sinna vísindastörfum að loknu kandídatsprófi. Meiri þörf er sýnilega á, að sumir kennaranna sæki slík námskeið. Þó verður varla nokkur fullfær af námskeiðum Heimspekideildar einum saman, heldur þarf þjálfun að fylgja á eftir í samstarfi við reynda menn og ráðsetta. Rannsóknir krefjast næðis og að menn fái næga hvíld til að halda skýrri hugsun. Mér sýnist Háskólaráð taka þar öfuga stefnu, þegar það leyfði kennurum nýlega að auka enn yfirvinnu sína með kennslu. Nær hefði verið að taka fyrir yfirvinnu þeirra við kennslu til að draga úr hættu á vanhugsuðum rannsóknum.
Fréttabréfi Háskóla Íslands 13, 1991 1. tbl. 36-9