Nokkrum sinnum á þessari öld hafa borist hingað til lands hugsjónastefnur, með helstu upptök sín í Þýskalandi, og boðuðu óspillt þjóðskipulag bræðralags og einingar. Þær hafa komið sem vakning og hrifningarhreyfing, ekki síst meðal háskólastúdenta. Fyrst kom sameignarstefnan. Sameignarsinnar hösluðu sér völl hér á landi eftir fyrri heimsstyrjöld, sóttu skilning sinn að miklu leyti í rit Karls Marx, en skiptust fljótt í byltingarsinna og lýðræðissinna. Það tók þá áratugi að átta sig á því, að ráð þeirra dygðu ekki. Næst barst hingað einingarhugsjón þýskra þjóðernisjafnaðarmanna. Þeir, sem hrifust af henni, sáu sig flestir fljótt um hönd. Erfitt er að gera sér grein fyrir, hvernig þriðja hrifningarhreyfingin, sem kennd er við árið 1968, hafi ætlað að ná markmiðum sínum, enda rann fólkinu fljótt móðurinn.

Nú eru ýmsar forsendur fyrir nýrri vakningu og hrifningarhreyfingu, þótt ekki sé víst, að þær séu nægilega sterkar og útbreiddar, til að um geti munað. Stöðug vonbrigði opna hugina, svo að sumir vænta lausnar, sem breytir öllu, og þá vitaskuld ekki í því, sem er gamalkunnugt, svo sem þjóðkirkjunni og stjórnmálaflokkunum. Talað er um, að brögð séu að því, að fólk leiti lausnar í ýmsum sértrúarboðskap. Stjórnmálin hafa undanfarið ekki heillað til þátttöku þá, sem vænta lausnar, sem gerir allt sem nýtt. Þau hafa undanfarið helst verið sem þrátefli um hagsmunavísitölur, um óbreytt endurúthlutunarkerfi mennta og heilsugæslu og óbreytt skilyrði byggðar. Borið hefur nokkuð á blæ og orðbragði, sem einkennir þá, sem vænta þess með óþreyju, að allt verði sem nýtt, með lítt rökstuddum einkunnarorðum eins og uppstokkun, uppskurður, sukk og jafnvel bylting. Hugsjónin, sem nú er líklegust til að grípa hugi þeirra, sem þrá altæka lausn, er Evrópuhugsjónin.

Þorsteinn Gylfason háskólakennari í hugsunarfræði (heimspeki) brýnir menn á því hér í blaðinu 15. september í greininni „Hagsmunir eða hugsjónir?" að beita sér fyrir hugsjónum í stað einberrar hagsmunagæslu. Hann spyr: „Skiptu menn sér ekki einhvern tíma í flokka út af hugsjónum en ekki út af hagsmunum?" og bætir við: „Satt að segja er ég alinn upp við það alveg eins og Vilmundur heitinn bróðir minn var. „Gömlu flokkana megi leggja niður, og hann fullyrðir um nokkra nafngreinda stjórnmálamenn, að þeir hafi engar hugsjónir, en sjálfur telur hann það hugsjónamál að vera Evrópumaður, eins og hann hafi „ofurlitla tilhneigingu til að vera". Þarna fer honum líkt og vill fara fyrir þeim sem hafa orðið fyrir vakningu, að hann leggur nýja merkingu í hugtak. Ég hef talið mig Evrópumann, eins og aðra íslendinga, án þess að skynja það sem hugsjón, og svo vil ég ætla, að flestir líti á.

 

I

Hrifningarbylgjur millistríðsáranna voru bornar uppi af menntaskólapiltum, háskólastúdentum og þeim, sem komu heim frá háskólanámi eftir náin kynni af heimi mennta og vísinda erlendis. Þá var starfsemi Háskóla Íslands fábreytt og ekki neinar stöður þar til að fjalla um þjóðfélagsmál. Alkunna er, hvernig mistókst með sameignarskipulagi, hvort sem það var undir stjórn lýðræðissinna eða byltingarsinna, að sjá til þess, að ábyrgð og völd skiptust svo í smáu sem stóru, að athafnir manna yrðu heildinni til heilla. Nú er starfsemi Háskóla Íslands orðin miklu fjölbreyttari. Athugum, hvernig þar tekst nú að gera grein fyrir, hvernig skipað yrði ábyrgð á högum íslendinga í Evrópubandalaginu.

Þorvaldur Gylfason prófessor og boðberi Evrópuhugsjónarinnar fjallar í fleiri greinum um fiskveiðiréttindi við Ísland, sbr. greinasafnið. „Hagsæld í húfi" í útgáfu sjávarútvegsstofnunar

Háskólans. Hann telur það helst ráð, til að hóf verði á sjósókn og afla, að ríkið selji veiðileyfi. Þorsteinn bendir á það hér í blaðinu, að sameign ríkisins sé forsenda þess veiðileyfamarkaðar („Helgaspjall" 28. júní), sem þeir Þorvaldur bróðir hans og Gylfi Þ. Gíslason faðir þeirra hafa mælt mjög með. Þá kemur til skjalanna Martin Bangemann, sem sæti á í framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins, og segir í viðtali hér í blaðinu 21. ágúst síðastliðinn: „Innan bandalagsins er 200 mílna lögsagan sameiginleg." Hugsum okkur, að Noregur gerðist fyrst aðili að bandalaginu og síðan Ísland og íslenska ríkið ætlaði þá að taka gjald af norskum sjómönnum fyrir veiðar á fiskislóð við Ísland, sem þá væri komin í sameiginlega lögsögu. Hvernig halda menn, að norsk stjórnvöld tækju því eða stjórn bandalagsins?

Þorsteinn segir stjórnmálamennina standa klumsa og ráðþrota hjá eins og nátttröll í dagrenningu („Flokkafjas" Mbl. 12. júlí). Öðru máli gegni um Háskólann: „Þó er líka bara í Háskólanum, að stjórn fiskveiða er skynsamlega og skipulega rökrædd, og rökræðan birt almenningi í blöðum og bók." Í Háskólanum virðist aðeins ein hlið málsins rædd, sú, sem þeir feðgar beita sér fyrir. Þannig undirbjó sjávarútvegsstofnun Háskólans málþing um fiskveiðistjórn í nóvember í fyrra án vitundar líffræðinga Háskólans. Það er í sjómannablaðinu Víkingi, en ekki í Háskólanum, sem staðið hefur skynsamleg og skipuleg rökræða um vistrænan grundvöll fiskveiðistjórnar, þann grundvöll, sem hagkvæm nýting verður að byggjast á. Áður hafði ég rökrætt það í Ægi, hvernig á því gæti staðið, að stjórnvöld hafa ekki tekið tillit til vistrænna raka við stjórn fiskveiða.

 

II

Fyrir nokkrum árum sagði starfsmaður öryggismálanefndar Alþingis mér, að það fyrsta, sem erlendir öryggismálafræðingar spyrðu um, væri fæðuöryggi þjóðarinnar. Þar er því um að ræða mál, sem er alhagur (með orði Þorsteins Gylfasonar). Í riti annars Háskólastarfsmanns, Gunnars H. Kristinssonar, „Evrópustefnunni," sem gefið er út af öryggismálanefnd, er ekki vikið orði að þessu máli. Þar er þó mælt með aðild Íslands að sameiginlegum markaði Evrópubandalagsins, sem ætla má, að gjörbreytti rekstrarskilyrðum fæðuöflunar á Íslandi og fæðuöryggi. Hér í Morgunblaðinu birtast stundum greinar eftir Þorvald Gylfason, þar sem hann krefst þess fyrir hönd almennings, að leyfður verði innflutningur á þeim landbúnaðarafurðum, sem framleiddar eru í landinu. Samkvæmt skoðanakönnunum hefur það reyndar verið býsna almennt álit hér á landi, að ekki sé rétt að fórna þannig innlendri fæðuöflun. Fæðuöryggi er því alhagur bæði frá sjónarmiði öryggisfræðinga og almennings.

Við Ólafur Ólafsson landlæknir birtum hér í blaðinu í fyrra greinargerð um fæðuöryggi þjóðarinnar sem grundvöll til að fjalla um landbúnaðarmál frá því sjónarmiði alhags. Mér er það stöðugt undrunarefni, að háskólakennarar, sem ráðnir eru til að kenna stúdentum að aga hugsun sína, skuli fjalla um þessi mál svo án stillingar og láta, eins og landbúnaður sé stundaður hér vegna bænda einna án gildis fyrir aðra. Líkt því væri að fjalla um starfsemi Háskóla Íslands, eins og hún væri einungis vegna þeirra, sem þar eru launaðir. Fyrir hvorugu þessara mála, sem hér hefur verið drepið á, verður vel séð með hugsjón um bræðralag Evrópumanna.

Hveitibrauðsdögum Evrópuhugsjónarinnar lýkur fyrr eða síðar, og þá tekur hagsmunaþrefið við.

 

III

Hagfræðin kennir það, að því aðeins njóti samkeppni sín til fulls til hagsældar, að enginn sem stendur að framboði eða eftirspurn hafi afl til að mismuna í viðskiptum. Það er kallað fákeppni, þegar einhverjir beita slíku afli. Fjarlægðir og fámenni valda því, að á ýmsum sviðum eru hér á landi fákeppnisskilyrði. Þetta er nokkuð flókið mál, og verður að meta aðstæður hverju sinni. Margir hafa gert sér grein fyrir þessu og brugðist hyggilega við. Þess vegna skipuðu íslenskir fiskverkendur sér í samtök til að styrkja sig í viðskiptum við kaupendur stórþjóðanna. Ég hef ekki orðið þess var, að um þessi mál hafi verið fjallað skilmerkilega, eins og brýnt er, ekki síst nú vegna aðildar Íslands að samningum Fríverslunarbandalagsins og Evrópubandalagsins um evrópskt efnahagssvæði.

Undirstöðuatriði hagfræðinnar heilla marga vegna skýrra ályktana. Ályktunin verður hins vegar snúin, þegar fjalla skal um mál eins og fákeppnisskilyrði íslendinga hér á landi og erlendis. Fyrr á árum skorti nokkuð skilning í röðum sameignarsinna á mikilvægi samtaka íslenskra framleiðenda í viðskiptum við sterka erlenda aððila, en þeim var m.a. ætlað að koma í veg fyrir, að þeir træðu skóinn hver niður af öðrum. Þótt ýmsir sameignar- og samvinnusinnar hafi nú gerst samkeppnissinnar, virðist þá suma enn skorta skilning á fákeppnisskilyrðum Íslands og hvernig íslendingar megi best gæta hags síns við slík skilyrði. Það getur verið nokkurt áhyggjuefni, þegar þeir eru í forsvari fyrir íslendinga gagnvart öðrum ríkjum.

Morgunblaðinu 16. október 1990