Snjólfur Ólafsson kennari í aðgerðafræði í Háskóla Íslands leggur nokkrar spurningar fyrir Ingunni St. Svavarsdóttur og aðra í blaðinu 31. f.m. í lok stuttrar greinargerðar um forsendur byggðastefnu («Grínið er fúlasta alvara.»).  Sams konar forsendur með líkum spurningum, þar sem gert er ráð fyrir að vinna skipulega að því að mismuna byggðarlögum með það að markmiði að afnema jaðarbyggðir, hafa komið fram í umræðu um byggðastefnu hér á landi um langt skeið, en slík viðhorf hafa aldrei orðið ofan á.

Slíkt var einkum ofarlega á baugi á stríðsárunum, þegar þeir, sem sótt hafa fyrirmyndir um aðgerðir til hagvaxtar austur fyrir Noreg, voru hvað áhrifamestir, en því fer víðs fjarri, að einungis þar hafi verið að finna þá, sem töldu heppilegast að mismuna byggðarlögum og hlynna aðeins að þeim, sem hefðu lífsskilyrði og atvinnurekstrarskilyrði hinna stærri byggða, en afnema önnur með ýmsum ráðum.  Lengst hafa aðgerðir í þessa átt trúlega náð með tilraun til nýskipanar í sveitum í nafni landnáms ríkisins, en þar var framkvæmdastjóri Framsóknar- og Bændaflokksmaður.  Tilraunin til nýskipanar með landnámi ríkisins rann eins og kunnugt er út í sandinn, og það varð ofan á að gera hvorki upp á milli sveita né héraða og aðeins milli jarða í undantekningu.

Hvernig stendur á því, að sjónarmið slíkrar mismununar hafa ekki leitt til árangursríkra aðgerða, þótt þeirra hafi iðulega orðið vart í spjalli og riti?  Ég hef reynt að gera mér grein fyrir því, hvernig hefði þurft að rökstyðja slíkan málstað, þegar kæmi að því að framkvæma hann með atbeina löggjafar- og fjárveitingavalds.  Ég þykist hafa greint viðbrögð þeirra, sem þarna er verið að véla um.  Fyrst benda þeir á, að örðugt sé að setja hlutlæg mörk fyrir þá staði, sem eru lífvænlegir með rökum Snjólfs.  Í öðru lagi er bent á, að svo er margt sinnið sem skinnið um mat á lífsgæðum, án þess að því þurfi að vera mótmælt, að tilhneigingin sé eins og Snjólfur bendir á.  Í þriðja lagi þykjast ýmsir sjá úrræði hjá sér, og þeim verður ekki alltaf hafnað með rökum, og þá nægir ekki í stöðu þeirra að benda á, að í heild séu t. d. of margir fiskverkendur í landinu, ef um slíkt er að ræða.  Í fjórða lagi er fólkið í þeirri stöðu, að skilyrði nágranna þess, sem kynnu að lenda utan útskúfunarmarkanna, versna, svo sem við það eitt, að fólki fækkar í héraðinu, og þá verður enn lakari grundvöllur til að halda uppi því, sem eftirsóknarvert þykir nú og háð er nokkrum mannfjölda.  Þannig sé ýmis kostnaður, sem menn ætla að setja á reikning jaðarbyggða, fastur kostnaður, vegna þess að nágrannabyggðir jaðarbyggðanna eru háðar honum.  Það eru sem sagt ýmsir lausir endar, sem aðgerðafræðingi tekst ekki að hnýta, þegar ákveða skal hvaða aðgerðir í byggðamálum eru þjóðfélagslega fastur kostnaður og hvaða aðgerðir breytilegur kostnaður, eins og Snjólfur vill greina.

Hins vegar mundi fylgja slíkri stefnumörkun almenn tortryggni milli byggðarlaga, þar sem hver grunaði annan um að vinna að því með ráðum og rökum að grafa undan nágrannabyggðinni, svona líkt og í velskipulögðu leyniþjónusturíki, þar sem enginn veit hvar óvini er að finna á fleti fyrir.  Mér þykir trúlegt, að þeir, sem þarna koma að með löggjöf og fjárveitingum, komist að því með sjálfum sér, að þegar allt komi til alls, verði ávinningur af því, sem kunni að ná fram að ganga, ef þannig yrði staðið að, svo lítill, að það yrði ekki ómaksins vert miðað við það andrúmsloft, sem því fylgdi í stjórnmálastarfi.

Það kann eftir sem áður að vera erfitt að rökstyðja stuðning við einstakar aðgerðir, en það er varla erfiðara en það var fyrir bóndann á Brekku í Mjóafirði eystra, sem sat í stól menntamálaráðherra og var þar traustur stuðningsmaður ríkisstuðnings við Sinfóníuhljómsveitina, að rökstyðja slíkt fyrir kjósendum sínum í fjörðum og dölum Austurlands.

Aðgerðafræðingur í starfi við Háskóla Íslands gæti líka tekið málið upp af sjónarhóli þeirra, sem hafa kosið sér hlutskipti í byggðum, sem eiga í vök að verjast, með því að beita kunnáttu sinni til að leita úrræða aðgerðafræðinnar til að gera þeim kleift í hlutskipti sínu að sjá sér farborða og njóta þess, sem þó býðst auðveldast á stærri stöðum.  Rannsóknir af þeim sjónarhóli kynnu að vekja athygli í háskólum erlendis, þar sem sinnt er málum dreifbýlis.

Morgunblaðinu 15. nóvember 1990