Það gerðist hér á árunum þegar sauðfé var flest, að æ fleiri upprekstrarfélög bönnuðu allan upprekstur hrossa. Sanngjarnara hefði verið gagnvart hrossaeigendum að meta beitarálag merar á móti sauðkind og stilla heildarálagi í hóf án tillits til búfjártegundar. Það kann að hafa ráðið, að það var einfaldara í framkvæmd að banna alveg upprekstur hrossa. Að öðrum kosti hefði orðið að ákveða upprekstrargjald á grip í hlutfalli við áætlað beitarálag og hafa það svo hátt, að upprekstur í heild hefði orðið hæfilegur fyrir afréttinn, eða beita ítölu á jarðirnar eða enn öðrum aðgerðum.

Gróður nýtist betur með fjölbreyttri beit. Hætt er við, að valllendisgrundir við ár og læki verði sinubornar, ef aðeins er beitt þar sauðfé. Ég skal ekki leggja á ráðin, hvernig best megi samhæfa beit hrossa og sauðfjár á afrétti. Léttar rafgirðingar auðvelda nú stjórn beitar. Það er beitarfræðinga að svara því, hvort það kunni að fara betur með gróður að beita hrossum annað hvert ár í stað árlega, og upprekstrarfélögin verða vitaskuld sjálf að ráða fram úr því, hvernig standa skuli að blandaðri beit, svo sem með upprekstrar- og gangnatíma, upprekstrargjaldi og ítölu á jarðir.

Frey 87 (1991) 477