Landbúnaður er margbreytilegur. Því er von, að þeir sem hann stunda, vilji styðjast við margbreytilegan félagsskap. Þrátt fyrir sameiningu Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda verður svo enn, enda eiga 11 búgreinafélög aðild að þingi hins nýja félagsskapar, hvert með sinn fulltrúa. Búgreinafélög þessi eru til vitnis um, að ýmsum hefur þótt líklegra til árangurs, að þeir stæðu saman sem skyldasta eiga hagsmuni og áhugamál. Skiptar skoðanir eru meðal bænda um það, hversu miklum árangri menn ná með þessu skipulagi. Sumum þykir gæta sundrungar sem veiki heildina. Hér skal ekki fleira sagt um þann ágreining.

Meðan ég hlýddi á umræður á aðalfundi Stéttarsambands bænda og á Búnaðarþingi í ágúst síðastliðnum fannst mér sem brotalamir gætu orðið í skipulagi hinna nýju samtaka. Ég fékk þá hugmynd um annað skipulag, sem sýnist geta breytt forsendum fyrir starfi félaga bænda, bæði þeirra sem helga sig einni búgrein og samtaka sem ná til alls landbúnaðar, og nú skal lýst.

Búnaðarfélögin, hvert í sinni sveit, gefi félagsmönnum kost á að marka sig í búgreinaskorir, eina eða fleiri. Hver skor búnaðarfélags getur valið búgreinarráð, sem starfar á vegum félagsins. Sömuleiðis getur hver skor búnaðarsambands valið menn í búgreinarráð, sem starfar á vegum sambandsins. Skorin í heild, fyrir landið allt, skal velja menn í búgreinarráð.

Með skoraraðild kemst maður á kjörskrá við kosningu búgreinarráðs, þótt bóndi sé einn í búgrein í búnaðarfélagi sínu eða búnaðarsambandi og því ekki ástæða til að koma á búgreinarráði í sveitinni eða héraðinu, má haga kosningu í búgreinarráð landsins svo, að hann geti neytt atkvæðisréttar við hana.

Búgreinarráðin móta vitaskuld verkefni sín eftir ástæðum hvers og eins. Heppilegt sýnist að flétta saman búgreinarráð og stjórn búnaðarfélags, búnaðarsambands og hinna nýju landssamtaka. Það getur gerst með því að í búgreinarráði sitji stjórnarmaður.

Þá er spurning, hvot slík búgreinarráð, sem standa á sama grunni og búnaðarfélögin og búnaðarsamböndin. fullnægi þeim þörfum, sem starfsemi búgreinafélaga hefur verið ætlað að sinna.

Skipulagsmál félagsskapar geta verið lengi í deiglunni. Á aðalfundi Stéttarsambands bænda á Laugarvatni haustið 1985 kom upp sú hugmynd á tveggja manna tali, að ég yrði fenginn til að meta kosti sameiningar Stéttarsambands bænda og Búnaðarfélags Íslands. Stjórn Búnaðarfélagsins fór þess á leit við mig þá um veturinn. Mér þótti vænt um að fá slíkt verkefni, ekki síst fyrir það, að ekki var spurt áður, hver skoðun mín væri fyrirfram á málinu. Hún var reyndar sú, að tvískiptingin, sem þá hafði staðið í fjörutíu ár, væri eðlileg. Við nánari athugun komst ég að annarri niðurstöðu, eins og ég gerði grein fyrir á „litla Búnaðarþingi" þá um veturinn og síðan í skýrslu til búnaðarþings og í Búnaðarriti. Mér þótti það takast lakast í greinargerð minni að afmarka vettvang félagsskapar, sem helgaði sig landbúnaði almennt, eins og búnaðarfélög sveitanna og búnaðarsamböndin, annars vegar og búgreinafélaganna hins vegar. Framangreind hugmynd þykir mér miklu betri. Hún er því lögð hér fram til athugunar.

Frey 90 (1994) 708