Það er sá grundvallarmunur á forsendum fiskveiða og garðyrkju á Íslandi og í Evrópu yfirleitt, að sjávarafli verður ekki aukinn með auknum tilkostnaði, en uppskeru í garðyrkju má auka með því að leggja meira land undir og með auknum áburði og öðrum ráðum.  Í upphafi samninga um evrópskt efnahagssvæði var því lýst yfir, að þeir ættu ekki að ná til landbúnaðar.  Íslendingar settu þá á oddinn, að tollar yrðu felldir niður á sjávarafurðum.  Síðar fréttist, að í þágu Miðjarðarhafsríkja Evrópusamfélagsins væri verið að ræða um greiðari innflutning á grænmeti frá þeim til Norðurlanda.

Kunnugur sagði mér, að þetta þyrfti ekki að bitna á íslenskri garðyrkju, þar sem hugmyndin væri að miða við, að norðlægu Efta-löndin héldu hvert fyrir sig ákveðinni hlutdeild á heimamarkaði fyrir hverja tegund afurða, og vegna stutts vaxtartíma væri íslensk framleiðsla undir þeirri hlutdeild.  Hvort svo verður veit varla nokkur.  Þar veldur hver á samningum heldur.

Nú vill svo til, að í Evrópusamfélaginu eru landbúnaður og sjávarútvegur undir sama hatti.  Því má spyrja, hvort íslendingar hafi gert landbúnaðarmál að samningamáli í skilningi Evrópusamfélagsins með því að taka sjávarútvegsmál fyrir í samningum.  Því skal ég ekki svara.  Hins vegar er brýnt, að íslendingar geri sér og öðrum grein fyrir því, að afnám tolla á sjávarafurðum hefur önnur áhrif á framleiðslumagn í hverju landi en greiðari verslun með landbúnaðarafurðir.

Það yrði ekki fiskað meira við Ísland, þótt Evrópusamfélagið felldi niður tolla á íslenskum sjávarafurðum.  Það leiddi ekki heldur til þess, að minna yrði fiskað í ríkjum Evrópusamfélagsins.  Hins vegar yrði það til þess, að ýmis frekari vinnsla sjávarafurða hér stæði undir hærra verði og útgerðin hefði hag af því að selja meira af aflanum til vinnslu hér á landi í stað þess að flytja hann lítt unninn út.  Fiskvinnsla er iðnaður.  Tollamál íslensks sjávarútvegs eru samkvæmt því sama eðlis og tollamál iðnaðar á fyrirhuguðu evrópsku efnahagssvæði og hafa áhrif á hvar fiskvinnslan fer fram, en ekki hverjir veiða fiskinn.

Öðru máli gegnir um garðyrkju og annan landbúnað og raunar einnig fiskeldi.  Í þeim greinum má auka framleiðslu með ýmsum ráðum.  Þar er það háð afurðaverði og öðrum starfsskilyrðum í hverju landi, hversu mikið er framleitt þar.  Þau viðskiptakjör garðyrkju, sem verið er að semja um þrátt fyrir upphafleg fyrirheit samningsaðila, hafa áhrif á það hversu mikið er ræktað í hverju landi.

Morgunblaðinu 19. júní 1991