Fyrir rúmum 8 árum tók ég að mér fyrir stjórn Búnaðarfélags Íslands að gera grein fyrir því, hvernig skipa mætti félagsmálum bænda. Niðurstaða mín var sú, að ráðlegt væri að sameina Búnaðarfélagið og Stéttarsamband bænda. Var það raunar annað en ég hafði álitið fyrirfram. Um þetta má lesa í greinargerð í Búnaðarriti 1987. Síðan hef ég ekki fylgst með málinu fyrr en nú, að ljóst varð á nýliðnu Búnaðarþingi, að skriður var kominn á það. Ég vænti þess, að fleirum en mér þyki forvitnilegt að bera málið, eins og það er nú lagt fyrir, saman við nokkrar hugmyndir, sem komu fram í greinargerðinni.
Búnaðarþing ályktaði um daginn um að efna til skoðanakönnunar meðal bænda um það, hvort Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda skuli „sameinast undir eina yfirstjórn.“ Slík tilhögun, að félögin tvö starfi undir einni yfirstjórn, hugkvæmdist mér ekki, en vissulega sýnist það geta auðveldað framkvæmdina, meðan verið er að laga sig að nýjum aðstæðum, að sama stjórn, kosin af sömu aðalfundarfulltrúum, sé fyrir báðum félögunum.
Í drögum að samþykktum vegna sameiningarinnar, sem Búnaðarþing fékk í hendur og fjallaði um, er gert ráð fyrir 36 fulltrúum á aðalfundi, 25 kosnum af búnaðarsamböndum héraðanna og 11 af búgreinafélögum. Í greinargerð minni taldi ég mikilvægt, að skipa málum bændasamtakanna á grundvelli alþingiskjördæma og flétta þar saman fulltrúastarf á vegum búgreina og almennra búnaðarfélaga. Í tengslum við það er spurningin um fyrirkomulag á kosningu aðalfundarfulltrúa og stjórnar. Um það mætti margt segja.
Landsráðunautar bænda starfa hjá Búnaðarfélagi Íslands. Í áðurnefndum drögum að samþykktum er lögð áhersla á, að starfsemi þeirra sé fjárhagslega aðskilin annarri starfsemi sameinaðra bændasamtaka. Ætla má, að því markmiði verði auðveldar náð með tveimur félögum, þótt stjórnin sé ein. Mér þótti álitlegast, og tengdi ég það spurningunni um félagsskipulag bænda, að starfsemi landsráðunauta yrði í nánum tengslum við búvísindadeild á Hvanneyri og garðyrkjuskólann á Reykjum, en starfsemi annarra ráðunauta á hendi búnaðarsambandanna, eins og verið hefur.
Tímanum 23. og Degi 29. mars 1994