Kostnaðurinn við að skipta um mjólkurkúakyn í landinu hefur ekki verið áætlaður. Í tilraun í Færeyjum hallaði ekki á íslenskar kýr í arðsemi í samanburði við rauðar norskar kýr. Þær búfræðistofnanir, sem ráða yfir mestri kunnáttu, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, háskóladeild bændaskólans á Hvanneyri og Hagþjónusta landbúnaðarins, hafa ekki verið kvaddar til málsins. Sérfræðingar þessara stofnana hafa ekki mælt með innflutningi. Sennilega er meirihluti kúabænda andvígur innflutningi. Ætla má, að hann sé almenningi lítt að skapi.
1
Búnaðarþing 1996 fól stjórn Bændasamtakanna að undirbúa innflutning gripa til mjólkurframleiðslu í tilraunaskyni. Stjórnin lagði fyrir búnaðarþing 1997 álit nautgriparæktarnefndar samtakanna um það, hvernig standa mætti að innflutningnum. Nefndin hafði ekki kvatt nefndar sérfræðistofnanir til aðstoðar.
Andstæðingur innflutnings á þinginu lagði til, að málið yrði borið undir atkvæði kúabænda. Formaður Landssambands kúabænda, sem situr búnaðarþing og hefur lengi verið kappsfullur um innflutning, beitti sér hart gegn því, taldi samþykkt tillögunnar yfirgang við Landssamband kúabænda, hét á fulltrúa annarra búgreinafélaga að standa vörð um réttindi þeirra innan Bændasamtakanna með því að greiða atkvæði gegn henni og hafði í hótunum við Bændasamtökin, ef hún yrði samþykkt. Tillagan var felld með 13 atkvæðum gegn 11, en þingið sitja 39. Á flutningsmanni var að heyra, að tillagan ætti stuðning þingsins vísan. Ég spurði hann eftir þingið, hvers vegna úrslitin hefðu orðið önnur. Hann kvað svo marga fulltrúa búgreinafélaga hafa snúist, þegar formaður Landssambands kúabænda hét á þá til stuðnings. Þingið samþykkti svo með 15 atkvæðum að beina því til stjórnar Bændasamtakanna og Landssambands kúabænda að vinna að innflutningi með hliðsjón af greinargerð nautgriparæktarnefndar.
Ágreiningur er um skipulag Bændasamtakanna. Þing þeirra skipa 28 fulltrúar héraðssambanda og 11 fulltrúar búgreinafélaga. Forystumenn sumra búgreinafélaga vilja, að samtökin verði byggð upp af þeim einum, en ekki héraðssamböndunum, og meðal þeirra er Landssamband kúabænda. Til þessa valdastríðs vísaði formaður þess í baráttu sinni gegn því, að Bændasamtökin stæðu að atkvæðagreiðslu kúabænda um innflutning.
2
Nautgriparæktarnefnd rökstyður, að ekki séu skilyrði til að halda uppi ræktun á tveimur kúastofnum í landinu, til þess séu of fáir gripir í heild. Þótt nefndin kalli ráð sín tilraun, eru með þeim í raun hafin full skipti á kúastofni og þar með útrýming íslenska kúastofnsins, eins og sýna má fram á.
Nefndin telur rauðu norsku kýrnar álitlegasta kynið og mælir með því að standa þannig að innflutningi að flytja fósturvísa til Hríseyjar í einangrunarstöðina þar, láta íslenskar kýr bera þá og nota sæði úr nautum, sem þannig verða til, á 80-120 kúabúum, þar sem gefist samanburður við íslenskar kýr. Að fenginni reynslu árið 2004 skuli ákveða, hvort útrýma eigi kynblendingunum. Formaður Landssambands kúabænda hélt því fram á þinginu, að það sé hin eiginlega ákvörðun um innflutning, en ekki ákvörðun um að sæða kýr á 80-120 kúabúum með norskum nautum. Að lögum er innflutningi lokið, þegar gripir, sæði eða fósturvísar eru fluttir úr einangrun í Hrísey til lands.
Ljóst er, að allt ræktunarstarf íslenska stofnsins lamast, meðan á þessari stórfelldu tilraun stendur, og verðmæti fjósa, sem ekki henta kúm af norskri stærð, er teflt í tvísýnu. Viðbúið er, ef nú verður hafinn innflutningur á þennan hátt að bændum, sérfræðistofnunum og almenningi forspurðum, að menn láti ekki árið 2004 sitja við þá reynslu, sem þá hefur fengist, heldur haldi áfram, hver sem árangurinn hefur orðið, og hugmyndir um verðmæti fjósa og endurnýjun þeirra verða áfram í uppnámi.
3
Norrænir búfjárræktarmenn hafa lengi átt samstarf. Meðalkýrnyt hér á landi er lítil hjá því sem er í nágrannalöndum. Því má vera, að samstarfið hafi ekki verið íslendingum kinnroðalaust. Framleiðslukostnaður mjólkur er allmikill hér á landi miðað við sömu lönd. Því er ekki nema von, að menn hafi hugsað til þess að lækka hann með því að bæta íslenska kúakynið með rauðum nautum frá Noregi, enda ályktaði aðalfundur Landssambands kúabænda árið 1991 um að stofna til innflutnings til samanburðar.
Árið 1994 fengu færeyingar kvígur frá Íslandi til samanburðar við norskar rauðar kvígur, sem nú er kúastofn þeirra. Samanburðurinn staðfesti það, sem vitað var, að nyt íslensku kvígnanna var talsvert minni en norsku kvígnanna. Hins vegar sýndu útreikningar á arðsemi hverfandi lítinn mun á stofnunum. Þegar ég heyrði þetta, taldi ég auðvitað, að þeir, sem meta búhætti til arðsemi, tækju ráðin af þeim, sem meta búhætti eftir afurðamagni á grip, og menn leituðu annarra ráða til að lækka framleiðslukostnað en að skipta út kúakyninu með kyni, sem kallar á milljarðakostnað við fjós.
Hugsum okkur, að reynslan árið 2004 sýndi hverfandi lítinn mun á arðsemi kúastofnanna, eins og tilraunin í Færeyjum. Þá er ekki líklegt, að menn tækju af skarið frekar en nú að halda sig við íslensku kýrnar, heldur vildu halda „tilrauninni“ áfram. Þá hefðu byggingar og búrekstur mótast af þeirri hugmynd, að dagar íslenskra kúa væru taldir og menn eignast hagsmuni að verja um að halda áfram að rækta innflutta kynið. Munurinn á búrekstri sýnist verða sá, að með norsku kúnum þyrfti meira fjármagn og meira innflutt fóður, en færri sveitaheimili gætu haft afkomu af mjólkurframleiðslu. Þetta eru ábendingar, sem greinargerð kunnáttumanna á stofnunum landbúnaðarins ætti að meta, áður en lengra er haldið.
4
Formaður stjórnar Framleiðnisjóðs landbúnaðarins 1982-1996 flutti erindi um íslenskan landbúnað í tengslum við heimsmarkað á ársfundi Rannsóknarráðs ríkisins vorið 1996 og mælti m.a. mjög gegn innflutningi kúakyns af ýmsum ástæðum. Hann kveðst aldrei hafa fengið eins góðar undirtektir á þeim vettvangi. Fleiri dæmi mætti nefna um, að afstaða almennings og ráðamanna til innflutnings mjólkurkúakyns er önnur en afstaða til innflutnings kynbótagripa annarra búfjártegunda, sem samstaða hefur verið um undanfarið meðal bænda og almenningur ekki fundið að. Bændur mega varast að óvirða almenningsálitið með vanreifuðu stórmáli.
Við gerð samnings bænda og ríkisins um mjólkurframleiðslu ríður á, að rekstrarskilyrði mjólkurframleiðslunnar verði traust með því meðal annars að binda það, að ekki verði flutt inn mjólkurkúakyn, sem virðist geta raskað milljarðaverðmætum meðal kúabænda, nema búfræðistofnanir hafi gert grein fyrir því, hvort og hvernig innflutningurinn yrði til hagsbóta.
Morgunblaðinu 12. apríl 1997, Bændablaðinu 11. nóvember 1997