Það var grunnhyggin athugasemd, sem Bændablaðið 2. september hafði eftir Birni Sigurbjörnssyni ráðuneytisstjóra, að gera ráð fyrir, að afrakstur kúabúa hér á landi ykist verulega við umskipti til annars mjólkurkúakyns. Embættismaður ætti heldur að hvetja til þess, að menn athugi ráð sitt í þessum efnum með því, að stofnanir þær, sem falla undir landbúnaðarráðuneytið og stunda rannsóknir, komi til skjalanna og leggi dóm á það, hvort ástæða sé til að gera ráð fyrir auknum afrakstri við slík umskipti.

Það er fleira, sem landbúnaðarráðuneytið gæti skýrt, svo að menn geti tekið rökstudda afstöðu. Klifað er á því, að leikreglur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, sem Ísland hefur gengist undir, þrengi svigrúm íslensks landbúnaðar. Ég hef leitað logandi ljósi í blöðum og tímaritum að þeim mörkum, sem leikreglurnar setji Íslandi, en ekki fundið neitt. Ég sé í tímariti viðskipta- og hagfræðinema í Háskólanum í Reykjavík í grein um Alþjóðaviðskiptastofnunina, að Ísland þurfi ekki að skera innanlandsstuðning sinn við landbúnað niður vegna hennar. Landbúnaðarráðuneytið mætti skýra, hvort Ísland mætti samkvæmt reglum stofnunarinnar auka innanlandsstuðning sinn og hversu mikið.

Um útflutningsstuðning tekur höfundur fram, að samkvæmt reglum stofnunarinnar skuli dregið úr fjárframlögum til útflutningsbóta um 36 af hundraði á samningstímanum, en það kalli ekki á neinar aðgerðir af hálfu íslenskra stjórnvalda, þar sem útflutningsbætur séu engar. Landbúnaðarráðuneytið mætti skýra, hvort Íslandi sé leyfilegt að greiða útflutningsbætur og þá hversu miklar.

Hér er ekki verið að óska álits ráðuneytisins á því, sem er ráðlegt, heldur vitneskju um, hvað sé heimilt. Hins vegar gæti ráðuneytið skýrt mál til að auðvelda mönnum að mynda sér skoðun á því, hvað er ráðlegt, eins og nú skal bent á.

Morgunblaðið birti árið 1989 greinargerð okkar Ólafs Ólafssonar landlæknis um fæðuöflun á þrengingatímum. Ólafur má vera öðrum embættismönnum til fyrirmyndar, hvernig hann setur opinberlega fram ráð studd rökum, stutt og laggóð. Landlæknir er að vísu sjálfstæðari gagnvart ráðherra en flestir embættismenn. Greinargerð okkar var um þann grundvöll, sem varðar þá, sem vilja mynda rökstudda skoðun á því, hversu langt eigi að ganga í því að hagnýta sér þær heimildir, sem leikreglur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar veita Íslandi, til stuðnings landbúnaðinum. Við bentum á álitaefni í þessu sambandi með það í huga, að til þess bær stjórnvöld sinntu þeim, en það hafa þau ekki gert. Landbúnaðarráðuneytið gæti skýrt málið.

Bændablaðinu 14. október 1997