Skoðanir stjórna búnaðarsambandanna voru kannaðar með sjóðvali. Bændur landsins skipuðust í 15 búnaðarsambönd héraða. Þá voru margir þeirra líka í búgreinafélagi, einu eða fleirum. Helsta verkefni búnaðarsambandanna er leiðbeiningaþjónusta, en þau koma einnig fram fyrir hönd bænda gagnvart Bændasamtökum Íslands og stjórnvöldum. Í stærsta sambandinu var tala félagsmanna meira en tíföld tala fjögurra fámennustu sambandanna. Stjórn eins hinna fámennustu vildi ekki vera með, svo að með urðu 14 af 15 búnaðarsamböndum landsins. Stjórnir búnaðarsambandanna höfðu ekki verið sameiginlegur vettvangur til að taka mál upp og álykta um; það var Búnaðarþing með fulltrúum, sem að meirihluta voru kosnir af búnaðarsamböndunum. Skoðanakönnunin fór fram á árunum 1994–1997, óháð stjórn Bændasamtakanna. Þrír forystubændur réðu því, hvaða mál voru borin undir sjóðsatkvæði, voru með í ráðum um málsmótun og ákváðu frest til að skila atkvæðum. Búnaðarsamböndin fengu í reikning sinn (sjóð) vegna hvers máls, sem tekið var fyrir, þrjú atkvæði fyrir hvert hundrað félagsmanna. Búnaðarsamband með 100 félagsmenn fékk þannig 3 atkvæði, en búnaðarsamband með 101 félagsmann 3,03 atkvæði. Sem stofnframlag fengu þau fjórfalda þessa atkvæðatölu til þess að vera vel við búin, ef fyrsta mál, sem kæmi til afgreiðslu, væri mikið kappsmál. Til þess að þátttakendur gætu vegið málið, sem var til afgreiðslu, voru tvö næstu mál kynnt.

Í stjórnum búnaðarsambandanna sátu þrír eða fimm bændur, en í einu þeirra sjö, dreifðir um land allt og allmargir þeirra þannig settir, að snjór gat komið í veg fyrir það mánuðum saman, að þeir fyndust, en þeir gátu haldið símafundi.

 

5. mál er dæmi til skýringar. Það sýnir, hvernig leggja má fram þaulhugsuð afbrigði. Um var að ræða uppbyggingu tilraunastöðva fyrir nautgripi. Starfsemin var að miklu leyti kostuð af ríkinu. Bændur máttu vita, að framlög, sem komu í þeirra hlut, voru takmörkuð. Sennilegt var, að mikið framlag til framkvæmda á tilraunastöðvum í nautgriparækt, mundi skerða það, sem þeir gátu fengið af opinberu fé til annarra mála. Undanfarið höfðu verið tilraunir með nautgripi á þremur stöðum, Hvanneyri í Borgarfirði, Möðruvöllum í Hörgárdal og Stóra–Ármóti í Flóa. Sumir vildu einbeita sér að einum stað, Hvanneyri, í tengslum við háskóladeild og bútæknirannsóknir þar. Kostirnir í málinu koma fram á atkvæðaseðlinum á næstu síðu.

Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar varð þessi: E 248,4, B 197, A 181,12, D 144,8, C 53,8 og F 20 atkvæði.

Stærsta búnaðarsambandið hafði í sjóði 220,49 atkvæði og lagði svo til allt undir með 220 atkvæðum á E, en veðjaði líka 180 á B, 50 á A, 30 á D og 20 á F. Hin samböndin áttu í sjóði 580,37 atkvæði, en buðu ekki mikið.

 

Skoðanakönnun með sjóðsatkvæðum

Búnaðarsamband Austurlands              Atkvæði í sjóði: 82,03

 

Aðsetur tilrauna í nautgriparækt

 

A         Boðin atkvæði:_______________

Reist verði fjós á Hvanneyri til fjölþættra nota, breytilegt til að leita fyrirmynda um fjósagerð og með aðstöðu til nautgripatilrauna, til náms Hvanneyrarnemenda og bænda og til að sýna gestum (bak við gler) skipulag og vinnubrögð. Tilraunaaðstaðan þar komi í stað þeirrar aðstöðu sem nýtt er á Möðruvöllum og á Stóra–Ármóti.

B         Boðin atkvæði:_______________

Reist verði fjós á Hvanneyri til fjölþættra nota, breytilegt til að leita fyrirmynda um fjósagerð og með aðstöðu til nautgripatilrauna, til náms Hvanneyrarnemenda og bænda og til að sýna gestum (bak við gler) skipulag og vinnubrögð. Tilraunaaðstaðan þar komi í stað þeirrar aðstöðu sem nýtt er á Möðruvöllum.

C         Boðin atkvæði:_______________

Reist verði fjós á Hvanneyri til fjölþættra nota, breytilegt til að leita fyrirmynda um fjósagerð og með aðstöðu til nautgripatilrauna, til náms Hvanneyrarnemenda og bænda og til að sýna gestum (bak við gler) skipulag og vinnubrögð. Tilraunaaðstaðan þar komi í stað þeirrar aðstöðu sem nýtt er á Stóra–Ármóti.

D         Boðin atkvæði:_______________

Reist verði fjós á Hvanneyri til fjölþættra nota, breytilegt til að leita fyrirmynda um fjósagerð og með aðstöðu til nautgripatilrauna, til náms Hvanneyrarnemenda og bænda og til að sýna gestum (bak við gler) skipulag og vinnubrögð. Fjósið verði sniðið að því að nautgripatilraunir verði áfram á Möðruvöllum og Stóra–Ármóti.

E         Boðin atkvæði:_______________

Reist verði fjós á Hvanneyri til fjölþættra nota, breytilegt til að leita fyrirmynda um fjósagerð og með aðstöðu til náms Hvanneyrarnemenda og bænda og til að sýna gestum (bak við gler) skipulag og vinnubrögð, en án aðstöðu til nautgripatilrauna.

F          Boðin atkvæði:_______________

Ekki verði lagt fé í ný mannvirki vegna nautgriparæktartilrauna né annarra rannsókna vegna nautgriparæktar.

 

Atkvæðagreiðslan sameiginleg eða á hendi hvers stjórnarmanns

Oftast komu stjórnirnar sér saman um atkvæðaboðin. Á stjórnarfundum tveggja sambandanna fengu fundarmenn hins vegar í hendur hver sinn atkvæðaseðil og létu sem þeir ráðstöfuðu öllum atkvæðum sambandsins. Síðan voru tölurnar lagðar saman og deilt með tölu fundarmanna (5, ef allir sóttu fund). Í öðru dæmi (þar voru líka fimm í stjórn) var fyrst deilt með 5 í atkvæðatölu sambandsins, og hver stjórnarmaður fékk sinn atkvæðaseðil með sínum hluta. Tölurnar, sem þeir buðu, voru lagðar saman og fundin atkvæðaboð sambandsins. Með þessu móti, þegar hver greiðir atkvæði fyrir sig, var ekki hafður sérreikningur fyrir hvern stjórnarmanna frá máli til máls. Er eitthvað að því?

 

Við lok kjörtímabils

Sá, sem býður atkvæði, verður að vita það fyrir víst, að atkvæði, sem ekki eru nýtt í því máli, sem er til afgreiðslu, má nýta í síðari atkvæðagreiðslum Það er nefnilega forsenda aðferðarinnar. Þar sem sjóðval hefur verið viðhaft, hafa þátttakendur verið kosnir eða boðnir fram um ákveðið tímabil. Ef þeir vita í lok kjörtímabils, að þeir geti ekki síðar nýtt atkvæði, sem kynnu að verða afgangs, kunna þeir að meta atkvæðaboðin öðru vísi en er forsenda aðferðarinnar. Þegar atkvæðagreiðslan er ekki bindandi, gæti það verið ráð í samræmi við forsendu aðferðarinnar, að menn haldi atkvæðum, sem þeir eiga ónotuð, fram í nýtt kjörtímabil. Atkvæðasjóður þeirra, sem ekki halda áfram eins og áður (verða ekki kosnir í stjórn eða verða ekki á framboðslista), tæmist þá smám saman.

Það er óvenjulegt, að menn séu hafðir með í ráðum eftir lok þess tímabils, sem þeir ætluðu sér með kosningu eða þeim var ætlað. Í þessu tilviki er um að ræða menn, sem eiga atkvæði afgangs, annaðhvort af því að þeir buðu atkvæði sparlega eða urðu undir í málum, svo að þau kostuðu þá ekki atkvæði; þeir nutu sem sagt ekki áhrifa í samræmi við atkvæðastyrk sinn á tímabilinu. Athuga ber í þessu sambandi, að ráð, sem menn leggja á ákveðnu kjörtímabili, komast oft ekki til framkvæmda fyrr en á næsta kjörtímabili.

Lýðræði með raðvali og sjóðvali, III.B.4