I.

Almennur stuðningur við þá innflutningsvernd, sem garðyrkjan nýtur, sýnir, að þjóðin metur mikils það öryggi, sem hlýst af framleiðslu matvæla til eigin þarfa. Sá stuðningur verður ekki skýrður með ýmsu því, sem menn hafa fært fram til stuðnings landbúnaðinum yfirleitt. Þannig tengist garðyrkjan í huga fólks ekki sögu þjóðarinnar og menningararfi á sama hátt og búfjárrækt og almennur stuðningur við hana er ekki með tilliti til byggðar í landinu. Ekki tengist hann heldur sterkri aðstöðu garðyrkjufólks gagnvart stjórnvöldum, til þess er það alltof fátt.

Tvímælalaust stendur þetta öryggissjónarmið einnig sterkt varðandi framleiðslu annarra matvæla til eigin neyslu. Þetta sjónarmið hefur þó verið vanrækt þegar ráðstafanir í landbúnaðarmálum hafa verið ákveðnar og rökstuddar.

Ráðstafanir í málum landbúnaðarins undanfarin ár hafa að mestu verið fólgnar í því að setja bændum þolanlega skilmála á undanhaldi. Með núverandi skipan vísitölumála hafa stjórnvöld ekki sömu ástæður og áður til að greiða niður verð innlendra matvæla né heldur skírskotar það eins og áður til almennra hagsmuna að halda matvælaverði þannig niðri. Búgreinar sem alfarið nota innflutt fóður eru í örum vexti, en ráðstafanir sem treysta hlut innlendrar fóðuröflunar eru umdeildar og ótraustar, eins og þær hafa verið rökstuddar.

Ráðstafanir stjórnvalda varðandi neyslu matvæla og starfsskilyrði einstakra búgreina ber að móta með tilliti til þjóðaröryggis. Þar sem öryggissjónarmið nýtur almenns stuðnings, mundi slík málsmeðferð breyta allri viðmiðun almennings í landbúnaðarmálum.

Meginforsenda þess öryggis, sem búfjárræktin veitir þjóðinni, er innlent fóður handa bústofni, sem skilar afurðum umfram brýnar þarfir þjóðarinnar. Þannig er það öryggismál, að landsmenn neyti í ríkum mæli afurða, sem framleiddar eru á innlendu fóðri.

Öryggissjónarmiðið kann að kalla á aðrar ráðstafanir í landbúnaðarmálum en taldar hafa verið heppilegastar, þótt ekki sé það víst. Hér verður aðeins bent á tvennt, sem kemur til álita. Flutningur á mjólk um langan veg er ótryggari en ef stutt er að flytja. Það mælir með því, að þungamiðja mjólkurframleiðslunnar sé ekki fjarri mesta þéttbýlinu. Hins vegar er öryggi mjólkurframleiðslunnar um fóður háð því, að talsvert fóður sé til í landinu umfram brýnar þarfir mjólkurframleiðslunnar, en það fæst með öflugri sauðfjárrækt, sem mætti dragast saman, ef að kreppti með aðdrætti og fóður. Öryggi í fóðuröflun verður mest, ef sauðfjárrækt og nautgriparækt fléttast saman í héruðunum, og það eykst með öflugum búskap í öllum landshlutum.

Endurmeta þarf ýmsar ráðstafanir stjórnvalda í landbúnaðarmálum með tilliti til þjóðaröryggis. Þar má nefna niðurgreiðslur á matvæli, framlög til rekstrar og fjárfestingar, verðlag á fóðri og verðlag á afurðum. Ýmis nýmæli kunna að koma til greina í öryggisskyni í stað þekktra ráðstafana eða samhliða þeim.II.

Ofangreindur skilningur minn á stöðu og hlutverki landbúnaðarins skerpist við þá úttekt sem ég gerði á garðyrkjunni og lesa má um í 2. hefti Freys í ár. Raunar hafði ég þegar árið 1980 bent á, að rétt væri að athuga landbúnaðinn með tilliti til þjóðaröryggis, með grein um almannavarnir landbúnaðarins í Frey (23. hefti), en því var ekki sinnt. Eftir aðalfund bændasambandsins á Ísafirði í haust varð mér staða landbúnaðarins ljósari en áður og að brýnt væri að taka mál hans nýjum tökum.

Ég þóttist sjá, að meinið lægi í því að landbúnaðarmálin hefðu verið lögð fram á þann hátt, að það meginmarkmið, sem þjóðin sameinaðist um, næði ekki fram, þegar tekist væri á um dægurmál varðandi verðlag. Ég endaði því greinasyrpu um byggðastefnu í Degi og Morgunblaðinu með tveimur greinum um landbúnaðinn með tilliti til öryggis (bæði blöðin 12. desember og Dagur 17. s.m).

Ég taldi, að stjórnvöld yrðu að móta málefnalegan grundvöll landbúnaðarins með tilliti til þjóðaröryggis. Ég hef í vetur ýtt hugmyndinni að þeim sem ættu að geta komið málinu áfram. Það gerði ekki nema hálft gagn, að bændasamtökin stæðu ein að slíkum málefnagrundvelli. Hvað sem líður mótun slíks málefnagrundvallar, er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir öryggi einstakra búgreina, eins og ég benti á í greininni í Frey 1980. Búnaðarfélag Íslands ætti að standa fyrir því og hafa málið stöðugt til endurskoðunar, svo að stjórnvöld og félög bænda og fyrirtæki gætu gert ráðstafanir til að tryggja búrekstur í áföllum af völdum náttúru eða manna.

Menn hafa brugðist heldur seint við, þótt þeir hafi þóst skilja málið. Mér dettur í hug það sem sagt var um húsfellinga: Þeir hugsa seint, en þeir hugsa rétt. Tvær greinar um meira og betra fóður voru í 4. hefti Freys í ár (forystugrein og „Það er alveg að koma“). Þar eru fagrar fyrirætlanir vel fram settar, en þær verða fánýtar ef forsenda fóðuröflunar, notkun innlends fóðurs, dregst saman með auknum innflutningi fóðurs og aukinni fyrirferð þeirra búgreina sem byggja á innfluttu fóðri. - Rétt er að kynna lesendum Freys nokkuð af röksemdum mínum í áðurnefndum blaðagreinum.III.

Innflutningsverndin sem tómataræktin nýtur með lögum er því aðeins nokkurs virði, að fólk leggi sér tómata til munns, en láti ekki appelsínur eða aðra suðræna ávexti koma í þeirra stað. Eins er um kartöfluræktina, að innflutningsverndin væri einskis virði, ef þjóðin tæki upp venjur kínverja og neytti hrísgrjóna í stað jarðepla, og búfjárræktina, ef fólk færi að neyta sojabauna í stað kjöts. Slíkt væri álíka mikið áfall fyrir sveitahéruðin og það væri fyrir alla afkomu Íslendinga, ef mannkynið tæki það í sig að neyta ekki fisks (vildi ekki „éta dýr“).

Með ódýrum innfluttum matvælum, sem ekki eru framleidd hér, gætu neyzluvenjur breyst þannig, að innlendur landbúnaður rýrnaði stórlega og þjóðin byggi ekki við tryggara viðurværi en grænlendingar, sem flytja inn allar mjólkurafurðir og grænmeti. Með innflutningi á ódýru fóðri handa svínum og fuglum mætti framleiða kjöt, sem þrengdi mjög hlut búfjárræktar sem byggir á innlendu fóðri og gróðri. Þannig gæti neysla kindakjöts dregist saman um helming á næstu árum.

Þjóðfélagslegt gildi landbúnaðar tengist nýtingu auðlinda sem þjóðin ræður yfir: Beit og heyöflun til búfjárræktar og jarðhita og gróðurmold til garðyrkju. Ennfremur veltur á miklu, að þjóðin kunni til búverka og eigi varasjóð í bústofni og tækjum umfram brýnustu þarfir.

Framleiðsla kjöts á innfluttu fóðri (svínakjöts og fuglakjöts) er þjóðinni ekki mikils virði. Ekki þarf nema nokkurra vikna skærur meðal landsmanna eins og verkfall opinberra landsmanna, þ. á. m. hafnsögumanna, til að setja allan svína- og fuglastofninn í voða. Innflutt fóðrið er í samkeppni við innlent fóður, sem notað er til framleiðslu á kjöti af grasbítum. Ef menn sjá ekkert athugavert við það að rýra þannig hlut búskapar sem styðst við innlendar auðlindir, sýnist liggja beinast við að leyfa innflutning á svínakjöti og fuglakjöti. Innflutta fóðrið sem þarf til að framleiða slíkt kjöt kostar nefnilega lítið minna í Reykjavík en innflutta kjötið mundi kosta. Kostnaðurinn við að flytja fóðrið austur fyrir fjall og afurðirnar aftur til Reykjavíkur jafnar mismuninn að mestu.

Það er höfuðatriði frá öryggissjónarmiði, að verð innlendra matvæla sé lágt miðað við efnahag almennings og miðað við verð innfluttra matvæla eða matvæla sem framleidd eru svo til eingöngu á innfluttu fóðri. Með því móti verður framleiðslan og neyslan svo mikil, að innlend framleiðsla mætti dragast verulega saman án þess að þjóðin líði skort, ef út af ber með aðdrætti og fóður.

Hátt verð á innfluttu fóðri örvar innlenda fóðuröflun. Þetta er augljóst mál í Noregi, þar sem sams konar fóður er framleitt innanlands með kornrækt. Öðru máli gegnir hér á landi, þar sem innlent fóður hentar jórturdýrum, en ekki einmaga dýrum. Hátt verð á innfluttu fóðri rennir ekki aðeins stoðum undir þá byggrækt, sem nú er að breiðast út, og framleiðslu á grasmjöli og graskögglum, sem eru að nokkru ígildi kjarnfóðurs, heldur er líka öflug hvatning til bænda að vanda heyverkun. Trúlega eru önnur ráð að treysta hlut innlends fóðurs og afurða, sem framleiddar eru á því, en að hækka verð á innfluttu fóðri, en hver þau ráð mættu vera verður ekki sagt án nánari athugunar.

Frey 81 (1985) 298-9. Leiðrétting, 350