Í réttum okkar reykvíkinga á sunnudaginn var, þar sem fólkið var líklega fleira en féð, heyrði ég á eftirfarandi tal tveggja ungra kvenna: „Kemur þú hingað oft?“ spurði önnur. „Ég hef alltaf komið síðan hann Á[...] fæddist“ svaraði hin stolt af umhyggjusemi sinni við börnin. Kynning ÁHT í blaðinu á laugardag á upphafi búfjárhalds („Blessuð sauðkindin og grænmetið góða“) var í samræmi við þær tilfinningar sem koma fram við slík tækifæri. Hann minnir á, að meirihluti jarðarbúa nærist á jurtafæði, og sé það ekki af siðrænum né trúarlegum toga, „heldur er einfaldlega óhagkvæmara að rækta búfé til slátrunar og kjötneyslu. Gróflega áætlað þarf um 3 kg úr jurtaríkinu til að framleiða 1 kg af kjöti.“
Þessi samanburður á þó ekki við grasnytjakjöt íslendinga. Grasnytjaland á norðlægum slóðum verður ekki nýtt á annan hátt til manneldis. Samanburðurinn á aðeins við það kjöt, sem framleitt er með mjöli. Þess mega þeir minnast, sem vilja sjá málið af sjónarhóli mannkynsins alls, og einnig þess, að grasnytjar íslendinga eru ekki nema brot af því, sem þær gætu orðið.
Rannsóknir sýna, að magi norrænna manna hefur aðlagast grasnytjaafurðum. Þannig nýta þeir mjólk betur en aðrir. Það á raunar við um hvíta kynstofninn yfirleitt ásamt svertingjum í Nígeríu, sem lengi hafa búið við naut, en norrænir menn skera sig nokkuð úr, jafnvel svo, að í Finnlandi reynist vera nokkur munur á sænskumælandi og finnskumælandi fólki í þessu efni.
Í þessu sambandi er ánægjulegt til þess að vita, að búfjárfita hefur nú verið sýknuð af þeirri sök, sem hún var borin, að spilla blóðrennsli manna og þar með heilsu. Hins vegar er ýmis jurtafita nú talin varasöm að þessu leyti, og fer það nokkuð eftir matreiðslu. Þetta er niðurstaða rannsókna, sem tengjast annarri ánægjulegri niðurstöðu í þágu íslendinga, nefnilega um farsæl áhrif fiskifitu á blóðrennsli. Ólafur Sigurðsson matvælafræðingur, sem starfaði um tíma að rannsóknum á lýsi sem næringu undir stjórn Sigmundar Guðbjarnasonar prófessors, hefur helst orðið til þess að fræða alþýðu manna um þetta, og vísa ég til skrifa hans.
Þjóðviljanum 27. september 1990