Íslendingar eru ein af auðugustu þjóðum heims. Við búum við gott efnahagslegt öryggi og höfum nóg til að bíta og brenna. Skortur á matföngum er því flestum fjarlæg hugsun. En erum við vel búin til þess að mæta meiri háttar vá? Hér á eftir verður rætt nokkuð um hugsanlegar þrengingar sem að okkur geta steðjað og um viðbúnað í því efni.
Skyndivá og hægfara vá
Eldgos og jarðskjálftar
Við búum í eldfjallalandi og þar af leiðandi geta að okkur steðjað eldgos og jarðskjálftar sem jafnvel eyddu stórum hluta lands líkt og t.d. í móðuharðindunum. Landbúnaðarframleiðsla gæti því lagst af í bestu héruðum landsins. Verulegur skortur yrði þá á helstu prótíngjöfum (kjöti), kalkgjöfum (mjólk), kolvetnum (kartöflur, grænmeti).
Olíuskortur, mengun, kjarnorkuslys og stríðsátök í hafi
Olíuskortur, stríðsátök í hafi og jafnvel slys, s.s. kjarnorkuleki úr kafbát, gætu orðið til þess að ekki væri hægt að neyta sjávarfanga auk þess sem aðflutningar gætu teppst. Þessi vá gæti orðið mun alvarlegri við að eiga en eyðing lands, þ.e. aðflutningar á olíu, fóðri og áburði til lands gætu stöðvast og þannig stórskert alla matvælaframleiðslu.
Breytingar á veðurfari
Meðal vísindamanna er nú mikið rætt um hættur af víðtækri gróðureyðingu vegna hægfara breytinga á veðráttu, þ.e. gróðurhúsaáhrif, rýrnum á ózonlagi.
Hvaða matvæli eru brýnust á þrengingatímum?
Orkuríkustu fæðutegundir hérlendar sem nýtanlegar eru til manneldis eru: Kjöt, mjólk, egg, fiskur, kartöflur og annað grænmeti.
Framboð matvæla háð árstíðum
Annasamasti fæðuöflunartíminn er haustið og fyrri hluti vetrar en þá fer fram slátrun fjár og hrossa en síldar- og loðnuveiðar hefjast. Á vorin lýkur aðalvertíðinni og sauðburður hefst. Á sumrin er uppvaxtartími lamba, en togaraflotinn og smábátar sjá að mestu um fæðuöflun og þá er tími hvalveiða. Seint á sumrin er helsti uppskerutími jarðargróðurs. Framboð á alifuglum og afurðum þeirra ásamt svínakjöti getur verið nokkuð jafnt allt árið.
Neyðin kennir
Þess skal getið að skortur og neyð kallar gjarnan fram sjálfsbjargarviðleitni fólks. Sem dæmi skal nefnt að íslenskur ullar- og fataiðnaður efldist gífurlega í fyrri og síðari heimsstyrjöld.
Birgðir matvæla eða traust innlend fæðuöflun
Spurningin er hversu traustum fótum innlend fæðuöflun stendur. Nokkurt viðnám er fólgið í bústofni og eftir því meira sem hann fullnægir betur þörfum þjóðarinnar á velmegunartímum. Starfsreynsla á þessu sviði er mikils virði, enda gera Norðmenn ráð fyrir að undanþiggja þá sem vinna mikilvæg búskaparstörf herkvaðningu á ófriðartímum. Sömuleiðis eru nágrannar búnir undir að ganga hver í annars verk. Fóðurbirgðir veita öryggi um skeið, hvort sem fóðrið er úr sjávarafurðum eða af ræktuðu landi. Öryggi felst í ræktuðu landi og gróðurhúsum.
Ekki þarf mikið út af að bera til að fóðurflutningar til landsins teppist. Í verkfalli hafnsögumanna haustið 1984 fengust skip með fóður frá útlöndum ekki færð að hafnarbakka til uppskipunar. Nokkrar birgðir voru þá í landinu af innlendu fóðri, en ekki af þeim fóðurtegundum sem svín og hænsn landsins höfðu vanist. Talin var hætta á að fóðurbreytingum fylgdu skaðlegar meltingartruflanir. Verkfallsstjórn BSRB synjaði innflytjendum um undanþágu frá hafnsöguverkfallinu. Þá gekk forysta bændasamtakanna í málið og fékk undanþágu. Þarna munaði ekki miklu að svína- og hænsnastofn landsins biði afhroð.
Skortur á sáðvöru – grasfræi, matjurtafræi og útsæðiskartöflum – getur spillt því öryggi sem innlend matjurtarækt býr þjóðinni. Dráttarvélar til fóð uröflunar eru háðar innfluttri olíu. Í Noregi og Svíþjóð eru gerðar ráðstafanir til að tryggja birgðir á býlum til notkunar ef aðdrættir stöðvast. Ef í harðbakkann slær má beita því ráði að draga úr notkun brennsluefna til annars en framleiðslu þeirra matvæla sem síst má án vera. Ekki er vitað hversu mikill varasjóður til þeirra þarfa er fólginn í olíubirgðum landsins. Lítil forsjá er um varahluti ef út af bregður, að kanna hvaða varahlutir eru brýnastir og tryggja birgðir þeirra. Rafmagn getur brugðist. Sumir bændur geta knúið mjaltavélar með dráttarvélum, ef rafmagn bregst, en dísilvélar geta gengið fyrir lýsi til fiskveiða og við búskap og hús má hita upp með lýsi í stað olíu.
Gróin herveldi leita frekar trausts í innlendri fæðuöflun en í birgðum matvæla. Í hvervarnaáætlun þeirri sem þing Svía semur til fimm ára í senn eru fyrimæli til landbúnaðarráðs um til hvers landbúnaðurinn skuli duga ef að þrengir. Þar er fyrst gert ráð fyrir því að landið einangrist og að dragi úr uppskeru vegna áburðarskorts. Þótt svo fari, á landbúnaðurinn án skömmtunar að sjá þjóðinni árlangt fyrir nægri mjólk, matkorni og kartöflum, en kjöts er þar ekki getið. Markinu skal náð með þvi að skera skipulega niður mestallan svínastofn landsins og fiðurfé og láta aðeins lifa það sem ala má á matarleifum. Með slíkum niðurskurði sparast fóður, og nota má það land, sem nú þarf til að rækta svína- og fuglafóður, til ræktunar á kúafóðri og matkorni. Síðan er gert ráð fyrir undanhaldi í fæðuöflun ár frá ári og skömmtun. Með innle ?ndri fóðuröflun handa svínum og fiðurfé fæst því fóðurvarasjóður sem ganga má á í þrengingum. Herstjórn Svía leggur sem sagt áherslu á lífræna starfsemi í stað birgða matvæla sem yrðu gömul og yrði að fleygja, ef neytendur ættu kost á sem nýjustum matvælum á friðartímum.
Norðmenn standa Svíum að baki í þessu efni. Kornrækt þeirra er að mestu til fóðurs, en lítið til manneldis. Íslendingar eru enn verr staddir. Þeir rækta ekki matkorn og flytja inn mikið af fóðri. Varasjóður landsmanna til að tryggja það sem síst má vanta, mjólkina, er fólginn í kúastofni og túnum kúabænda, en einnig í fóðri og túnum sem heyjuð eru nú handa sauðfé og hrossum. Ef að þrengir um fóðuröflun má fá nokkurt fóður handa kúastofninum með því að skera niður sauðfé og hross. Að sjálfsögðu yrði þá einnig að skera niður svín og fiðurfé, en ólíkt því sem er í Svíþjóð mundi það ekki styrkja mjókurframleiðsluna á neinn hátt. Hugsanlega gæti kartöfluræktin veitt öruggasta matbjörg, en ekki munu menn hafa gert sér grein fyrir með hvaða hætti hún yrði stunduð í langvarandi þrengingum. Hversu mikil stoð gæti orðið í kartöfluræktinni er háð því hversu öflug hún er fyrir, en það er að nokkru undir því komið að landsmenn neyti kartaflna dagsdaglega.
Hvernig standa má að almannaviðbúnaði
Það mætti misjöfnum skilning, þegar komið var skipulagi á almannavarnir landsins fyrir tæpum þrjátíu árum, og var jafnvel tortrygggt. Reynslan af eldgosinu í Heimaey árið 1973 sannfærði menn um gildi almannavarna, og hafa þær verið efldar svo, að nú mun varla betur gert með öðrum þjóðum.
Þeim sem kynnir sér mat sænskra stjórnvalda á almannaviðbúnaði getur fundist sem viðbúnaðurinn sé miðaður við þær þrengingar sem Svíar urðu fyrir í síðustu heimsstyrjöld, að þeir líti til baka til að átta sig á því hvaða hættur séu líklegastar. Líkt getur sýnst um aðgerðaleysi Íslendinga í þessum efnum, að það kunni að stafa af því að þjóðin komst vel af í styrjöldinni.
Þó verður ekki sagt að Alþingi hafi verið andvaralaust. Vorið 1985 voru lagaákvæði um almannavibúnað felld inn í tvo lagakafla. Í 1. grein búvörulaga segir að tilgangur þeirra sé m.a. að “framleiðsla búvara til neyslu og iðnaðar verði í sem nánustu samræmi við þarfir þjóðarinnar og tryggi ávallt nægjanlegt vöruframboð við breytilegar aðstæður í landinu.” Í lög um almannavarnir var felldur kafli um hagvarnaráð, en því er ætlað „að gera ráðstafanir til þess að í ráðuneytum og stofnunum ríkisins og sveitarfélaga sé, eftir því sem við á, gerð áætlun um verkefni og viðbrögð á hættutímum”. Hagvarnaráð er skipað öllum ráðuneytisstjórunum.
Í alþingisskjölum skýrist lítið hvað fyrir mönnum vakti með framangreindum lagaákvæðum. Umræður urðu litlar um þau, enginn andmælti þeim og greinargerð viðkomandi frumvarpa skýrir þau lítið. Ekkert hefur hins vegar orðið úr framkvæmdum. Framleiðsluráð landbúnaðarins, sem m.a. hefur það verkefni samkvæmt búvörulögum að stuðla að því að framleiðsla búvara verði í samræmi við framangreindan tilgang laganna, stóð fyrir fundi um málið í júlí 1986, þar sem voru m.a. framkvæmdastjóri hagvarnaráðs og fulltrúar almannavarnaráðs. Eftir fundinn óskaði Framleiðsluráð landbúnaðarins eftir fulltingi hagvarnaráðs varðandi greinargerð um þann viðbúnað sem snýr að landbúnaðinum og því er falið að treysta, en því hefur ekki verið sinnt.
Hér að framan hefur verið reifað hvað kemur til athugunar í þessum efnum, en það eru þær þrengingar sem kunna að bíða þjóðarinnar, í hvað hún sækir styrk og hvar hún er
viðkvæmust. Reynsla okkar er sú að hugsandi menn taka undir málið þegar það hefur verið kynnt þeim. Spyrja má hvort framkvæmdaleysið stafi af því að ábyrgðin sé dreifð með fjölskipuðu hagvarnaráði (skipað öllum ráðuneytisstjórunum). Í Noregi og Svíþjóð er almannaviðbúnaður hins vegar á ábyrgð eins ráðuneytis. Í lögum um hagvarnaráð er gert ráð fyrir því að starfsmaður almannavarnaráðs vinni fyrir hagvarnaráð, en almannavarnaráð heyrir undir dómsmálaráðuneytið. Væri ekki ráð að fela almannavarnaráði almannaviðbúnað?
Morgunblaðinu 20. júlí 1989