Eins og kunnugt er hafa Íslendingar undanfarna hálfa öld gert ráðstafanir til að tryggja, að sem mest af þeim landbúnaðarafurðum, sem framleiða má með sæmilegum árangri hér á landi, sé framleitt hér. Langt er nú síðan kjöt, smjör, egg og ostur var flutt til landsins. Þó hefur þróunin verið þveröfug varðandi eina mikilvægustu framleiðslugrein landbúnaðarins, en það er fóður. Innflutningur á fóðri hefur stóraukist undanfarin ár, og dregur það stórlega úr því öryggi, sem landsmönnum á að vera í innlendri landbúnaðarframleiðslu. Vissulega eiga harðindi undanfarinna ára ríkan þátt í því, að svona hefur farið, en hinu má ekki gleyma, að fóðurframleiðslan er eina framleiðslan, sem ekki nýtur innflutningsverndar yfirvalda í neinu formi. Stjórnendur landbúnaðarmála hafa ekki sýnt nóga hugkvæmni til að taka upp slíka umhverfisvernd án þess að skerða núverandi hagsmuni þeirra, sem nota INNFLUTT FÓÐUR. Ég tel víst, að það sé framkvæmanlegt. Ég minni aðeins á þetta hér, en erindið var að koma á framfæri alþjóðlegu viðhorfi til þessara innflutningsmála.

Í norska blaðinu „Dag og Tid“ var birt viðtal við þáverandi landbúnaðarráðherra Norðmanna, Bjarna Lyngstad (í mars 1970). Blaðamaðurinn spyr ráðherrann: Hvers vegna leyfið þér, að Norðmenn taki frá þróunarlöndunum kynstur af mat til þess að fóðra norskar kýr á? Ráðherrann svaraði: Ég lít svo á, að við verðum að draga úr þessum kjarnfóðurinnflutningi eins fljótt og kostur er. Nú flytjum við inn kjarnfóður sem svarar til uppskeru af 300.000 hekturum - það er að segja meira en þriðja hluta af öllu ræktuðu landi í Noregi. Þessi gífurlega kjarnfóðurnotkun er ekki einungis siðferðilega forkastanleg, af því að við tökum matinn frá þeim, sem þurfa meira á honum að halda, heldur leiðir hún til þess, að við notum eigin gæði ekki almennilega - landið, sem gras vex á.

Frey 67 (1971) 442.