Þó að Ísland sé mikil matarkista eru Íslendingar öðrum þjóðum fremur háðir aðdráttum. Lifnaðarhættir og atvinnurekstur nútímans krefjast hvers konar aðfanga um langa vegu. Sigling milli einstakra landshluta hefur teppst annað veifið. Sú reynsla hefur vakið skilning á því að tryggja þurfi aðdrætti með birgðum og bættum samgöngum. Langt er hins vegar síðan sigling til landsins hefur teppst. Í fyrri heimstyrjöldinni var siglt til Íslands öll árin. Þá þrengdi helst að landsmönnum hvað aðkeypt nauðsynjavara hækkaði mikið í verði. Í síðari heimsstyrjöldinni hélst sigling til landsins, en kostaði líf margra. Sigling hefur ekki teppst til vandræða síðan á tímum Napóleons í ófriðnum milli breta og frakka og þar með dana.

Af reynslunni verða menn ríkari. Sléttuvegur er nú hækkaður til að tryggja landflutninga ef hafís lokaði leiðum. Það knýr á um þá vegabót að hún þjónar hagsmunum án tillits til hafískomu. Hins vegar hreyfir engan sú hugsun að slíkur ófriður gæti orðið í heiminum að aðdrættir til landsins tepptust um lengri tíma. Íslendingum hefur verið hlíft við slíku hingað til og kæra sig ekki um að beita dómgreind sinni á það efni. Ólík viðhorf til varna landsins sundra þjóðinni, en menn sameinast í fullkomnu andvaraleysi, um þær hættur sem kynnu að bíða þjóðarinnar af heimsófriði, þó að ekki yrði gert ráð fyrir hernaðarátökum eða spjöllum hér á landi.

Um sumt þetta eru Reykvíkingar verr settir en aðrir landsmenn. Sá sem á kú mundi þrauka lengst. Allt líf manna í sveitum yrði þó mjög viðkvæmt ef sigling tepptist. Heimilum sem hafa kýr hefur fækkað stórlega og má telja þá þróun tákn um það hvað menn búa nú yfirleitt lítið að sínu. Það viðfangsefni sem hér er á höndum er vissulega mál allrar þjóðarinnar. Því er þó ekki sinnt á neinn hátt, enda ekki vitað að slíkar almannavarnir þjónuðu neinum hagsmunum nema því aðeins að sigling tepptist - ólíkt því sem er með vegabætur vegna hafískomu. Það mundi knýja á að málið yrði tekið skynsamlegum tökum ef Búnaðarfélag Íslands beitti sér fyrir því að sérstakar þarfir landbúnaðarins og sveitafólks yrðu kannaðar í þessu efni og ráðstafanir gerðar til að tryggja í senn innlend og innflutt matvæli handa öllum landsmönnum og skipuleggja búskap í landinu með það í huga. Þetta er meðal annars spurning um það hvaða búgreinar eru stundaðar í landinu og hversu fyrirferðamiklar þær eru í heild og í einstökum byggðarlögum t. a. m. hvort búreksturinn kallar á mikil erlend aðföng og hvaða birgðir eru til af aðföngum. Það er margt sem tillit þarf að taka til. Hér er ekki ætlunin að draga neinar frekari ályktanir um hvað gera skuli, heldur vekja menn af dvala til umhugsunar og aðgerða á þessu sviði almannavarna.

Frey 76 (1980) 774