Þórarinn Þórarinsson lýsir því í blaðinu 16. maí síðastliðinn, hvernig lögbundnar voru reglur um útflutningsbætur á landbúnaðarafurðir 1959 („Ingólfur á Hellu og útflutningsbæturnar“). Ég kann söguna öðru vísi. Fyrst þarf ég að rifja upp það, sem á undan var gengið.

Í ágúst 1934 voru sett lög um sláturfjárafurðir og verðlag á þeim. Verð innanlands var ákveðið nokkru hærra en svaraði útflutningsverðmæti. Var tekið verðjöfnunartillag af öllu slátruðu sauðfé og með því bætt verð á útfluttu dilkakjöti. Þetta tillag féll niður í stríðsbyrjun. Árið 1941 greiddu bretar íslendingum bætur fyrir tjón, sem þeir höfðu orðið fyrir í utanríkisviðskiptum vegna hafnbanns breta á meginland Evrópu árið 1940. Mikill hluti þeirra bóta féll á sauðfjárafurðir ársins 1940. Síðari ár stríðsins greiddi ríkissjóður bætur á útfluttar sauðfjárafurðir upp í innanlandsverð. Árin 1945 og 6 ákvað Búnaðarráð verðlag og bætti útflutningsverð með fé, sem fékkst með gjaldi á dilkakjöt, sem selt var innanlands.

Árið 1947 tók Framleiðsluráð landbúnaðarins við málum Búnaðarráðs og verðlagði á grundvelli verðlagsnefndar sex fulltrúa neytenda og bænda. Útflutningur var lítill fyrstu ár ráðsins, en jókst og var nokkur árin 1955 til 1958. Útflutningsverð var nokkru lægra en skráð heildsöluverð innanlands og var bætt af ríkissjóði með eftirgangsmunum, og tengdist það útflutningsbótum á sjávarafurðir. Árið 1958 lagði Framleiðsluráð innvigtunargjald á allt dilkakjöt til að bæta verð á kjöti, sem flutt var út. Kærðu fulltrúar neytenda í áðurnefndri sexmannanefnd það, en töpuðu málinu í héraði og í hæstarétti (sumarið 1959). - Af framansögðu kemur fram, að gerð Framleiðsluráðs var einnig í samræmi við framkvæmdina, áður en Framleiðsluráðslög voru sett, að undanskildum stríðsárunum.

Að dómi hæstaréttar gengnum neituðu fulltrúar neytenda að starfa áfram í verðlagsnefnd. Minnihlutastjórn Alþýðuflokks setti bráðabirgðalög, sem kom í veg fyrir alla hækkun afurðaverðs. Hinir stjórnmálaflokkarnir þrír lýstu andstöðu við lögin. Þau voru lögð fyrir Alþingi, þegar það kom saman haustið 1959. Þá var mynduð ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, en málið ekki tekið fyrir á Alþingi.

Tveir –ráðherrar, Gylfi Þ. Gíslason úr Alþýðuflokki og Ólafur Thors úr Sjálfstæðisflokki, tóku að sér að ná samkomulagi um málið við fulltrúa bænda, Einar Ólafsson og Jón Sigurðsson, flokksbræður Ólafs. Tókst það. Þar var þetta ákvæði: Óheimilt er að bæta upp söluverð landbúnaðarvara á erlendum markaði með því að hækka söluverð þeirra innan lands. Tryggja skal greiðslu á þeim halla, sem bændur kunna að verða fyrir af útflutningi landbúnaðarvara, en þó skal greiðslan vegna þessarar tryggingar ekki vera hærri en svarar 10% af heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar viðkomandi verðlagsár, miðað við það verð, sem framleiðendur fá greitt fyrir afurðir sínar.

Ráðherrarnir töldu sig hafa samið um, að ríkissjóður bætti ofan á útflutningsverðið 10% af skráðu verði, þannig að framleiðendur fengju 95% af skráðu verði, ef útflutningsverð var 85% af því. Þegar Ólafur áttaði sig á því, að efni samkomulagsins var annað, varð af nokkur hvellur, og skammaði hann Einar, en hann þóttist ekki þurfa að afsaka það að hafa samið vel fyrir bændur. Ingólfur Jónsson landbúnaðarráðherra kvaðst geta farið (úr ríkisstjórninni), ef bregða ætti gerðu samkomulagi, og var þá málið fellt niður. Þegar þetta gerðist, vantaði ekki mikið á, að innanlandsverð fengist fyrir útfluttar afurðir. Það breytti því ekki miklu um útgjöld ríkissjóðs, eins og á stóð, hvor aðferðin var notuð til að reikna verðbætur.

Þórarinn kveður Ingólf Jónsson hafa sýnt mikinn dugnað í þessu máli. Mér sýnist hins vegar málið hafa lagst upp í hendurnar á honum. Þau liðlega 11 ár, sem þeir Ingólfur og Gylfi sátu saman í ríkisstjórn, áttu þeir í nokkru orðaskaki um þessi mál, án þess að nokkuð haggaðist, en höfðu samt báðir gagn af. Með því skapaði Gylfi flokki sínum sérstöðu í ríkisstjórninni, og hún hélst, meðan ekkert breyttist, en gagnrýni Gylfa varð Ingólfi til álitsauka, þar sem honum kom best, á Suðurlandi, og víðar. Oft hló Ingólfur á skrifstofu sinni að upptökum málsins. Þarna átti hann sögu, sem hann gat notað, ef Gylfi vildi fylgja ræðum sínum eftir með aðgerðum. Best nýttist sagan Ingólfi geymd, en ekki gleymd, enda lét Ingólfur hlátur sinn ekki ná eyrum margra.

Tímanum 21. júní 1991