Fjárbúskapur á Fljótsdalshéraði á 19. öld var hörmung, eins og hann var stundaður. Það var af sömu ástæðum og vandræði sjávarbúskapar nú, eins og hann er stundaður að ráðum Hafrannsóknastofnunar.

Magnús Bl. Jónsson varð prestur í Vallanesi árið 1892 og kom upp stóru fjárbúi, enda hefur varla getið betri jarðir til grasnytja. Samt leið ekki á löngu, að hann felldi úr hor, eins og hann greinir í ævisögu sinni. Fjárfellir var raunar alvanalegur á Héraði á þessum árum. Hann lýsir ástæðunum af glöggskyggni. Féð féll í hörðu ári. Fjárstofninn varð þá ekki nema brot af því sem hann hafði verið og rúmt varð í högum. Bændur hleyptu þá upp fé. Það var til að eiga varasjóð, að bændur `byggðu upp stofninn'; þeir höfðu ekki önnur tækifæri til að leggja til hliðar. Ef gerði harðan vetur, þegar stofninn var kominn í fyrri stærð, varð fellir (`hrun').

Líkt er þessu farið með villidýr og fiska. Uppsveifla hefst með mikilli viðkomu fyrst eftir fækkun, en fellir (`hrun') stafar af því að aðeins fæðuskortur (hungur) heldur til lengdar aftur af fjölguninni.

Hafrannsóknastofnun leggur kapp á að vernda seiði og ungfisk með lokun veiðisvæða og ákvæðum um stóra möskva. Það magnar sveiflurnar; raunar er þorsksveiflan niður á við nú orðin löng. Ástandið í sjónum verður eins og á miðöldum. Þá voru engin veiðitæki, sem fækkuðu ungviðinu, með þeirri afleiðingu, að fiskileysi var flest ár, en góð aflaár undantekning.

Hafrannsóknastofnun fylgist ekki með þrifum nytjafiska, eins og fylgst er með þrifum nytjadýra á landi. Hún birtir að vísu töflur um þyngd fisks eftir aldri, en fiskurinn hefur ekki verið veginn né aldursgreindur, heldur lengd hans mæld og umreiknuð í þyngd og aldur, eins og þar sé enginn breytileiki. Samt er vitað, að þyngd og aldur jafnlangs þorsks er mjög breytilegur eftir næringarástandi. Það er sá breytileiki, sem er mergurinn málsins, þegar meta á lífsskilyrði og hvort vanveitt sé.

Við næringarskort dreifir fiskurinn sér um hafið, en þegar næring er nægileg, þéttir hann sig. Hungraður fiskur leitar inn á firði í ætisleit, en þar eru einmitt seiðin, sem þá verða honum að bráð.

Þegar ungfisk skortir næringu, hrygnir hann smærri en við næga næringu. Hafrannsóknastofnun segir hrygningaraldur þorsks nú hafa lækkað og telur það réttilega til marks um slæmt ástand, en skilur ekki, að það er næringarskortur, sem veldur. Eina ráðið til að draga úr næringarskorti í hafinu er að fækka þeim, sem leita næringar.

Sjávarbúskapur Hafrannsóknastofnunar er horbúskapur, eins og tíðkaðist í sóknum sr. Magnúsar Blöndals fyrir hundrað árum, og stefnir í felli (`hrun').

 

Rányrkja og vannýting

Athugum muninn á rányrkju og vannýtingu. Rányrkja birtist í því, að spillt er auðlind, sem á að endurnýja sig. Á Fljótsdalshéraði birtist hún á 19. öld sem eyðing skóga við harða vetrarbeit. Gripirnir, sem gengu á landinu, voru ekki auðlindin, heldur nýttu þeir hana. Þeir voru reyndar vannýttir með því að hafa þá of marga og láta þá lifa of lengi. Takmörkuð næring í heyjum og beit hefði skilað meiri afurðum með því að hafa hóf á ásetningi (`nýliðun') og farga gripum, áður en dró að ráði úr vexti vegna aldurs.

Auðlindin í hafinu er gróður þess. Tillífun hans er undirstaða fæðu fiskanna. Fiskarnir eru ekki auðlind, heldur afrakstur hennar. Þeir nýtast best með sömu rökum og beitardýr á landi. Annars vofir yfir hungursneyð meðal fiskanna sem gætu þá jafnvel gripið inn í lífkeðjuna og étið upp krabbadýr og aðra hlekki milli gróðurs og fiska. Það er sambærilegt því að eyða gróðurþekjunni. Mestur afrakstur fæst af gróðri hafsins með því að stilla svo til, að sem minnst af næringu fiskanna eyðist sem viðhaldsfóður og sem mest skili sér í vexti. Þess vegna jukust veiðilíkur með aukinni veiði, eins og frumherji fiskifræðinnar, Bjarni Sæmundsson, tók eftir.

 

Útreikningar án tengsla við lífríkið

Það, sem Hafrannsóknastofnun hefur fram yfir bændurna á Héraði á 19. öld, er mælitæki og reiknilíkön, og hlýtur fyrir viðurkenningu annarra kunnáttumanna á því sviði. Þótt reikningsaðferðirnar séu fullkomnar, eru tölurnar, sem reiknað er með, gagnslausari en tölurnar, sem bændur á 19. öld höfðu á reiðum höndum. Hafrannsóknastofnun veit ekki stærð árganga þorsks, heldur áætlar lengdarflokka, en bændur vissu, hvað þeir áttu marga gripi eftir aldri. Hafrannsóknastofnun athugar ekki þrif fiskanna, en ætlar sér að fá hugmynd um lífsskilyrðin með því að áætla magn einnar af mörgum fæðutegundum þorsksins (loðnu). Það væri líkt því, að bændur hefðu ekki athugað vöxt fjárins og holdafar, heldur ætlað að fá hugmynd um það með því að athuga, hversu mikið væri af fjalldrapa í högunum.

Það er hart, að sjómenn og útvegsmenn skuli nú, árið 1992, vera látnir bera samviskubit fyrir kapp við veiðar. Nútímalegur skilningur líffræðinnar (stofnvistfræðilegur) er þveröfugur, nefnilega, að það er varasamt að vanveiða. Æxlun fiska er þess eðlis, að klakið skilar margfalt fleiri einstaklingum en er lífs auðið vegna fæðuþarfar. Því er sérstaklega varasamt að hlífast við veiðar vegna seiða og ungfisks af sömu ástæðum og það fór illa að fjölga ungviði umfram fæðuskilyrði á Fljótsdalshéraði fyrir einni öld.

Austra 27. ágúst 1992