Þjóðlendumálið komst á nýtt stig eftir úrskurði óbyggðanefndar, sem voru kynntir fyrir páska, en fengu gildi með útgáfu Lögbirtingablaðs 26. apríl. Þeir, sem úrskurðirnir varða, en sætta sig ekki við þá, geta höfðað mál í héraði. Eftir kynningu úrskurðanna hafa fræðimenn fjallað um þá almennt og forsendur þeirra á þremur fundum: málstofu lagastofnunar Háskólans 12. apríl, fundi Sambands sveitarfélaga 15. maí og Söguþingi 1. júní.

Áður en þjóðlendumálið kom til, þótti mér erfitt að fá botn í eðli jarðeignarréttar, og þá sérstaklega afréttareignar. Ég hélt, að það stafaði af því, að málið væri flókið. Mér þykir málið ekki hafa skýrst á þessum þremur fundum, sem ég hef sótt. Á Söguþingi flutti Einar G. Pétursson erindi um eignir inn til landsins.i Það gefur nýjan skilning á sögu byggðar inn til landsins og á eignarhaldi lands ofan byggðar og annan en menn hafa byggt dóma og úrskurði um afrétti á.

Það tíðkast nú í lögum að skilgreina hugtök, heldur en treysta því, að orð skiljist af samhenginu. Þetta var líka til í Jónsbók. Þar er afréttur skilgreindur (á tveimur stöðum) svo: það er afréttur, sem tveir eða fleiri eiga saman. Það er ekki að sjá í greinargerð óbyggðanefndar með úrskurðunum, að hún geri neitt með þessa skilgreiningu. Þrátt fyrir skilgreiningu Jónsbókar hefur orðið líka verið notað um það, sem aðeins einn (til að mynda jörð eða kirkjustaður) á, og einnig um afmarkaðan rétt kirkjustaða í annarri jörð. Notkun orðsins í skjölum hefur reyndar ekki verið könnuð til hlítar.

Ágreiningsefnið er nú sem fyrr, að sveitamenn telja, að í forræði afréttar felist nytjar hvers kyns verðmæta, og þar með að leyfa eða meina öðrum nytjar, en það er líkt og forræði eigna yfirleitt. Dómar hafa gengið gegn þessum skilningi. Úrskurðir óbyggðanefndar eru sams konar og gera afrétti að ríkiseign. Eftir sem áður segja sveitamenn skilning dómara hugarfóstur þeirra.

Það er sem tveir menningarheimar mætist í þessum ágreiningi, heimur sveitamanna og heimur dómara, og haggist ekki þrátt fyrir endurtekinn málflutning. Til úrlausnar tala menn um mannréttindasáttmála Evrópuráðsins, sem nær til eignarréttar. Sérstakur dómstóll er vegna sáttmálans. Ágreiningsefni verður ekki borið undir hann fyrr en eftir æðsta dóm hér á landi.

Jarðeignarréttur þótti mér flókið mál við lestur greina fræðimanna, eins og ég gat. Þar er nýlegt grein Karls Axelssonar, sem fjallar um ýmsa dóma,ii og greinargerð Þorgeirs Örlygssonar í áfangaskýrslu auðlindanefndar.iii Tveir menn hafa nýlega fjallað um eðli málsins af skarpskyggni, en ekki tæmandi, Páll Skúlason í Jarðalögum (Viðauki II),iv en Eyvindur Erlendsson í blaðagreinum.v Ef menn lesa þá fyrst, reynist málið ekki eins flókið og það hefur verið, en um leið verður ljóst, að dómarar og fræðimenn hafa flækt málið fyrir sér að óþörfu.

Vandinn er sá, þegar kanna á flókið mál, að mynda sér fyrst hugmynd um kjarna þess og láta svo reyna á hana. Þegar það tekst, verður allt ljósara og framsetning auðveldari. Ég vænti þess, að fræðimenn láti verða af því að kanna afréttarmál til hlítar, óháð verkefni óbyggðanefndar. Þá hlýtur að blasa við að hefja málið á því upphafi, sem lengi gilti, Jónsbók. Það liggur beint við að gera ráð fyrir því, sem var einfaldast í framkvæmd í landinu, að ýmist hafi land verið bein eign eða afréttur. Reyndar voru að auki almenningar, en þeir eru ekki vandamál í þessu efni, enda glögg leiðbeining í Jónsbók um mun á afrétti og almenningi. Mér þykir líklegt, ef menn taka skilgreiningu Jónsbókar á afrétti blátt áfram og kynna sér fjölþætta nýtingu afrétta samkvæmt skjölum (afsölum og dómum) um aldir fram á þennan dag, að málið reynist ekki flókið, en fyrirhafnarsamt hlýtur það að verða. Síðan þyrfti að leggja málið fram erlendis á vettvangi sagnfræði og lögfræði og áfrýja þannig ágreiningi áðurnefndra tveggja menningarheima.

Morgunblaðinu 8. júní 2002 39

 

 

i Einar G. Pétursson. Um eignir kirkna og kirkjustaða á heiðum og afdölum, Söguþingi 2002.

ii Karl Axelsson. Um eignarhald á Biskupstungnaafrétti, Gizur Bergsteinsson níræður. Afmælisrit 77-102, Reykjavík 1992.

iii Þorgeir Örlygsson. Um auðlindir samkvæmt íslenskum rétti, í áfangaskýrslu auðlindanefndar 15-104, forsætisráðuneytið 1999.

iv Páll Skúlason. Jarðalög með skýringum, Reykjavík 1996.

v Eyvindur Erlendsson. Með kjafti og klóm, Lesbók Morgunblaðsins 5. júní 1999 3; Óbyggðirnar kalla!, Morgunblaðinu 10. júlí 1999; Guðs lög og manna, Morgunblaðinu 17. júlí 1999; „Afréttur af afrétt,“ Morgunblaðinu 31. júlí 1999; „Ef vér seljum land,“ Morgunbl