Nokkur dæmi um laxanytjar, sem eru hvert fyrir sig ekki stórvægileg, en dreg síðan nokkuð djarfa ályktun af.
a) Ég, reykvískur unglingur, var sumarið 1952 í Norðtungu í Þverárhlíð í Borgarfirði, kom þangað að loknu landsprófi í júníbyrjun. Þar var allmargt í heimili. Einu sinni í júní var soðinn lax í matinn. Hann hafði verið veiddur sumarið áður og settur í jarðhús, þar sem var ís. Ísinn hefur verið frá því veturinn áður, tekinn úr Þverá og settur í jarðhúsið og laxinn síðan settur þar í um sumarið. Feitur fiskurinn hafði þránað, en var vitaskuld næringarríkur. Þannig hafa menn getað geymt lax í þessari veiðisælu sveit frá upphafi byggðar fyrir þúsund árum, lax, sem var svo mikill, að fæða mátti her manns.
b) Í Staðará á Snæfellsnesi veiddist á 19. öld lax í margþúsundatali. Staður, sem áin er kennd við, er Staður á Ölduhrygg, nú nefndur Staðarstaður. Þar og á Hólum sat Ari fróði, prestur frá 1122 ((f. 1067—d. 1148), frumkvöðull sagnaritunar á norrænu, höfundur Íslendingabókar og Landnámu. Framúrskarandi menntamaður á bakka laxár.
c) Þýskir kaupmenn stunduðu verslun hér á 15. og 16. öld. Þeir lögðu kapp á að hafa höfn í Hrútafirði. Það var vegna lax. Það var dýrt að gera út verslunarskip til Íslands á þessum öldum. Slíkt skip hafði áhöfn með allnokkrum tugum manna og þurfti því verðmætan farm til að standa undir kostnaði. Lax að ráði nærri Hrútafirði er í Miðfirði. Þar var mestur staður á Mel (síðar Melstaður). Þar sat Arngímur lærði (1568-1648), ritaði Íslandssögu fyrstur manna (á latínu) og margt annað. Lærdómsmaður á bakka mikillar laxár. Dóttursonur hans var Páll Vídalín lögmaður, einn mestur lærdómsmaður 18. aldar, sat í Víðidalstungu, á bakka Víðidalsár, mikillar laxveiðiár.
d) Fyrsti landnámsmaðurinn valdi sér þann stað, sem best var að búa á. Hitasumma sumars, mælikvarði á kornþroskaskilyrði, var, þegar mælt var á fyrri hluta tuttugustu aldar, hæst á landinu í Elliðaárstöð. Jörðin, sem átti árnar, Vík, nú Reykjavík. Í landi hennar er Akurey, áður landföst, og þar hjá, á Seltjarnarnesi, eru Bygggarðar. Hyggnir bændur velja sér bústað, en hafa lax í Elliðaám til halds og trausts. Þegar Reykjavík var orðin dálítill bær á 19. öld, höfðu bæjarbúar, almenningur, leyfi til að veiða lax einn dag á sumri (eins og borgarstjóri nú). Afli þennan dag gat vel orðið 6000 laxar. Sumaraflinn hlýtur að hafa verið margfalt það; nú er sumaraflinn um 600 laxar. Þarna sátu þeir, sem mótuðu sið landsins, þjóðveldið, sem stóð í þrjár aldir, og höfðu slíka laxgengd og laxveiði til halds og trausts. Fredrik Barth, norskur mannfræðingur, sagði mér, þegar ég fór með honum á Þingvöll einn vordag um 1990, að það væri ekki ómerkilegur siður, sem varði svo lengi. Barth hefur sem mannfræðingur séð í fleiri heima en nokkur í þeirri grein.
e) Í nýlegu riti um viðskipti íslendinga um aldir er lax nefndur sem útflutningsvara. Því var ekki svarað, þegar spurt var við kynningu á ritinu í Lögbergi Háskólans, hvernig hann hefði verið verkaður til útflutnings. Félagi minn, þaulkunnugur laxveiðum og hefur átt heima á bakka mikillla laxáa langa ævi og á undan honum faðir, afi og langafi, segir mér, að lax, hafi verið bestur í meðförum sem riklingur, eins og annar feitur fiskur.
Laxinn færði ekki aðeins búsæld sem búbót, heldur er ástæða til að ætla, að laxveiðin hafi jafnað árferðið. Ég geri þá ráð fyrir, að laxgengdin hafi ekki haft sams konar sveiflu og árferði að öðru leyti, sem sagt, að vetrarharðindi með snjóþyngslum og grasleysi og óþurrkar hafi ekki fallið saman við lélega laxgengd. Þannig varð afkoman trautari.
Það þurfti efni til að halda uppi ritmennt, bæði mannahald og skinn. Þau héruð, sem héldu uppi ritmennt á Íslandi, eru helst laxveiðihéruð. Ég fer hringinn í kringum landið og byrja í Borgarfirði, með heimsfræga ritmennt í Borgarfirði og miklar laxveiðar. Þegar er nefndur Staður Ara Þorgilssonar á Ölduhrygg, Dalamenn eiga Laxdælu, húnvetningar sagnafjöld með Miðfjarðará, Víðidalsá og Vatnsdalsá og Hóp, þingeyingar með heimsfræga Laxá í Aðaldal efndu í Reykdælasögu, og vopnfirðingar með laxveiðiár konungborinna eiga skráða sögu. Árnesingar eiga Haukadal, þar sem eru miklar laxár í héraði. Ekki skal ég í þessu tilliti segja neitt um Rangárþing með menntasetrið Odda nema að land hefur breyst þar mikið frá því afl þess var mest. Þá er að nefna Reykjavík. Þar var reyndar ekki menntasetur, svo kunnugt sé, en þar höfðu menn afl og vit til að standa fyrir þeim sið, þjóðveldi, sem hélt velli í þrjár aldir.
Laxveiði hefur að fornu og fram á 19. öld skilað miklu meiri afla en hefur verið síðustu áratugi. Þessa fullyrðingu þarf að rannsaka rækilega.
Morgunblaðinu 26. september 2022