Í hugtakinu lýðræði felst vitaskuld, að við slíka stjórn verða þegnarnir eða félagsmenn að geta tjáð afstöðu sína í málum, sem eru til umfjöllunar eða ákvörðunar, og, þegar ekki eru allir á sama máli, verður aðferð að vera til til að álykta um forgangsröðun hópsins eða niðurstöðu á grundvelli forgangsröðunar einstakra þátttakenda.
Þá reynir á manninn í fræðunum—heimspekinga, hagfræðinga, félagsfræðinga, stjórnfræðinga og aðra–að gera ljóst, hvaða eiginleika slík aðferð getur haft–og meta hvaða eiginleika hún ætti að hafa. Síðan bók Kenneth J. Arrows Social choice and individual values kom út árið 1951, hefur mikið verið skrifað um það. Björn ræðir það líka í bók sinni; það er eitt af því, sem er henni til ágætis. Hann leggur áherslu á, að atkvæðagreiðsluaðferð megi ekki fæla menn frá því að leggja fram ýmis afbrigði máls, heldur frekar auðvelda það. Atkvæðagreiðsluaðferð verður ennfremur að vera sveigjanleg einnig á þann veg, að hún gefi mönnum kost á að lýsa forgangsröðun sinni, hvort heldur þeir vilja rækilega eða aðeins takmarkað. Aðferðin verður einnig að nýta, eins og frekast er kostur, það, sem menn hafa tjáð, og ályktunin um niðurstöðuna verður að vera nákvæm og án tæknilegra vandkvæða. Einnig er æskilegt, að komist verði hjá því að sóa tíma og fé, vegna þess að kjósa þurfi oftar í sama máli. Að lokum má aðferðin ekki beinlínis stuðla að því, að menn kjósi óheiðarlega.
Björn segir fleira um æskilega eiginleika atkvæðagreiðsluaðferðar, en ég læt hér staðar numið. Málið er, að Björn gefur tækifæri til að vega og meta þær aðferðir, sem bókin fjallar um: raðval og sjóðval. Þetta gerist að miklu leyti með samanburði við–og að nokkru með gagnrýni á—aðrar aðferðir.
Hvað sem þessu líður felst fræðilegt gildi bókarinnar einkum í því að búa til atkvæðagreiðsluaðferðirnar tvær, raðval og sjóðval, og með því að tengja samanumræðu um eiginleika aðferðanna og fá þær reyndar og hagnýttar. Ég skal skýra þetta.
Raðval byggist á aðferð, þar sem ætlast er til, að hver maður raði kostunum, sem lagðir eru fram. Í röð hvers þátttakanda fær ákveðinn kostur jafnmörg stig og tala þeirra kosta, sem neðar eru í röðinni, er; og svo eru öll stig hvers kosts lögð saman. Aðferðin er venjulega nefnd aðferð Borda eftir franska stærðfræðingnum Jean-Charles de Borda, sem uppi var á 18. öld og var í Vísindafélagi frakka, en þegar á 15. öld hafði raunar Nikulás Cusanus, mikils háttar guðfræðingur og heimspekingur, mælt með slíkri aðferð. Verk Björns eru sem sagt í víðtæku samhengi, og sjálfur hefur hann bent á, hvað læra megi af þeim, sem búa við röðunaraðferðir, eins og skákmönnum. Við framlag hans er það mikils virði, í fyrsta lagi, að raðval, sem er frekari útfærsla á aðferð Borda, gerir ekki kröfu um tæmandi og stranga forgangsröðun; Björn hefur fundið rökvísa aðferð til þess að taka með öll afbrigði forgangsröðunar–tæmandi eða ekki tæmandi forgangsröðun, með meiri eða minni áherslu á, hvers óskað er–eða ekki er óskað. Í öðru lagi er mikils um vert, að Björn hefur bent á ýmiss konar nýtingu aðferðarinnar, svo sem könnun á forgangsröðun fólks, skoðanakannanir og hagnýtingu aðferðarinnar við raunverulegarákvarðanir. Og ekki síst: Hann hefur sýnt verulegt innsæi, hugmyndaflug og dug við að móta–og koma á—hagnýtingu aðferðarinnar á býsna ólíkum sviðum.
Ég skal fara nokkrum orðum um sjóðvalsaðferðina, en hún á við, þegar kjósa skal um nokkur mál, jafnvel langa röð mála. Þessi aðferð er sannarlega frumlegt framlag, raunverulegt brautryðjendastarf. Ég veit aðeins um einn mann, sem hefur fjallað um svipað, bandaríska félagsfræðinginn James Coleman. Eins og Björn getur um í bók sinni, fékk Coleman hugmynd sína um stjórnpeninga um svipað leyti og hugmyndin um sjóðval mótaðist á Íslandi. En Coleman þróaði ekki aðferðina til að hagnýta hana, eins og Björn gerði. Eins og ég minnist frá málþingi í Noregi, þar sem Coleman var, fékk Coleman hugmyndina frá Bandaríkjaþingi: hvernig þingmenn semja um gagnkvæman stuðning við mikilsverðar atkvæðagreiðslur, þannig að A veitir B stuðning í máli, sem varðar B miklu, en B veitir á saman hátt A stuðning í máli, sem varðar A miklu, o. s. frv. Björn hefur mótað aðferð, þar sem slíkt tekst, en án þess að þurfi beinlínis um að semja. Maður hefur í upphafi yfir að ráða sjóði atkvæða, og svo getur maður beitt sér af þunga—og breytilega—í málum, sem varða hann miklu, með þeim afleiðingum, ef honum tekst, að hann hefur minni atkvæðastyrk til að beita í málum, sem varða hann minna.
Einnig í þessu sker Björn sig úr, hvernig hann er fær um að koma auga á áhugaverða og þarfa hagnýtingu aðferðarinnar. Nánar tiltekið hefur hann sýnt, að beita má svo vel sjóðvali sem raðvali til árangursríkra þreifinga og skoðanakannana. Mér þykir til um, hversu víðtæk hagnýting Björns er, og mér þykir til um hæfileika Björns til að gefa sig með dirfsku og festu að mikilsverðum–og um leið flóknum—málaflokkum.
Björn á engan sinn líka á sviði hópákvarðana og atkvæðagreiðslukenninga. Hann er fær í kenningum og hefur til skilningsauka rætt ómöguleikakenningu Arrows við hann sjálfan. En það eru ekki allir, þótt þeir séu færir í kenningunum, sem hafa hæfileika til nýsköpunar og hagnýta sýn. Það hefur Björn. Hann finnur upp og hann framkvæmir, og hann hefur sýn á þjóðfélagið og stjórnmálin, sem hefur það í för með sér, að hann kemur auga á ólík og mjög áhugaverð tækifæri til hagnýtingar.
Hvað varðar skilning Björns á þjóðfélaginu og stjórnmálum hefur hann einnig glöggan skilning á þeim gildum, sem lýðræðið getur og á að standa vörð um og þróa. Hann hugsar mikið um það, hvernig megi vinna gegn harðstjórn meirihlutans, og hann hugsar mikið um það, hvernig megi andæfa einangrun og andstæðum og í staðinn stuðla að ferli, sem einkennist af gagnkvæmri virðingu, og að opnum hug, sem eflirskapandi hugsun og styður að vel hugsuðum ákvörðunum.
Ég hef velt því fyrir mér, hvort slíkur frumleiki þróist frekar í fámennu landi með eigin hefðir og sérstaka náttúru en í þunglamalegum fræðasetrum, þar sem samkeppni ríkir. Ég freistast til að nefna það, sem hinn mikli, norski stærðfræðingur Arne Selberg viðPrinceton Institute of Advanced Study sagði eitt sinn um uppruna fremstu og frumlegustu norsku stærðfræðinganna: “Þeir voru einkum og sér í lagi úr fjörðunum vestanfjalls.”
Nóg um það! Nú er að vita, hvar fá má hugmyndir Björns reyndar á viðunandi hátt. Ætli séu ekki víða tækifæri til þess og við margs konar kringumstæður–sums staðar vegna þess að menn greinir illilega á og búa við lélegar aðferðir til þess að greiða atkvæði og leysa deilur og ef til vill annars staðar, af því að þar er góður samstarfsandi.
Ýmsir hafa tekið eftir því, að mikillar íhaldsemi gætir víða í afstöðu til atkvæðagreiðslu-aðferða – og almennt sagt: aðferða við að leggja saman afstöðu. Við höfum sterka tilhneigingu til þess að halda, að þær aðferðir, sem við höfum fengið í arf í eigin landi, séu þær sem verði að nota –óháð því, hvaða aðferðir er sérstaklega um að ræða. Ég held, að það yrði grundvöllur til að velja betur rökstuddar aðferðir—og þar með einnig betra ferli við að taka ákvarðanir—ef menn gæfu sig meira að tilraunum með öðru vísi aðferðir við atkvæðagreiðslu og við að leggja saman afstöðu manna. Nánar tiltekið vona ég, að tækifæri gefist til frekari reynslu og hagnýtingar á raðvali og sjóðvali. Fræðileg greining og vangaveltur verður að haldast í hendur við hagnýta raun, eins og gerst hefur á Íslandi – að frumkvæði og undir stjórn Björns.
Prófessor Knut Midgaard, stjórnmálafræðingur, Osló