Guðmundur G. Þórarinsson, verkfræðingur, skoðaði Gamla sáttmála sem verktakasamning (Mbl. 6. ágúst). Með honum hefði Noregskonungur tekið að sér að tryggja hagsmuni íslendinga gegn því að fá að ráða á Íslandi. Í þessu sambandi má minna á nýlegar skoðanir tveggja sagnfræðinga á 13. öld. Sverrrir Jakobsson, prófessor í Háskóla Íslands, lítur svo á, að Noregskonungur hafi náð ráðum á Íslandi í áföngum á um 60 ára tímabili, með lokaaðgerð 1281, þegar Jónsbók var leidd í lög. Þetta kom nýlega fram í erlendu tímariti í sögu.

Innflutningur á ófriði

Hinn sagnfræðingurinn, Jón Viðar Sigurðsson, prófessor við háskólann í Osló, kynnti fyrir þremur árum í miðaldastofu Háskóla Íslands rannsókn, sem náði til ýmissa landa þar sem hafði staðið langdregin borgarastyrjöld. Niðurstaðan var sú, að þátttaka erlendra aðila sé ein meginástaða þess, að margar af borgarastyrjöldum líðandi stundar virðast engan enda hafa. Það eigi einnig við um Ísland á 13. öld. Borgarastyrjöldina þá megi að miklu leyti rekja til hlutdeildar norska konungsvaldsins. Hún kom af stað deilum, og þegar eina andstæðingnum hafði verið rutt úr vegi, ásbirningum,  datt næstum allt í dúnalogn og íslendingar gengu konungsvaldinu á hönd. Það var því norska konungsvaldið, sem olli þessum átökum og batt jafnframt enda á þau. Norsk afskiptasemi af íslenskum stjórnmálum varð þess valdandi, að það kerfi, sem notað var til að leysa deilur höfðingja, að setja þær í gerð, og gert hafði Ísland að friðsælasta samfélagi miðalda, sem var þjóðveldið, en ekki konungsveldi, brotnaði niður.

Morgunblaðinu 2. september 2022