Deilurnar um hvalveiðar snúast um það, hvort rétt sé að deyða dýr sér til framfæris og viðurværis. Friðunarfólkið telur það siðlaust. Þorri íslendinga sættir sig við það. Afkoma þjóðarinnar hefur alla tíð byggst á því, að dýr séu deydd og því, að aðrar þjóðir sjái ekkert athugavert við það að neyta slíkra matvæla, heldur kaupi þau sem hæstu verði. Ef það siðferði, sem friðunarfólkið aðhyllist—að ekki megi deyða dýr til að nærast—yrði ríkjandi í heiminum, mundi íslenskt þjóðfélag hrynja í rúst.
Íslendingar hafa beitt sér fyrir nýjum alþjóðarétti um nýtingu hafsins, ekki til að friða dýrin í hafinu, heldur til að vernda þau og hagnýta. Þeir hafa orðið fyrir ýmsum hótunum og jafnvel sætt viðskiptabanni vegna baráttu sinnar fyrir rétti sínum til að nýta auðlindir hafsins. Í hvalveiðimálinu óttuðust þeir svo hótanirnar, að þeir fórnuðu arðsömustu útflutningsgrein sinni vegna annarra hagsmuna, sem þeir töldu í húfi og vega meira.
Þótt hvalveiðar séu ekki fyrirferðarmikil tekjulind, er áfall að missa hana nú, þegar leitað er logandi ljósi að nýjum útflutningsgreinum til að svara óskum þjóðarinnar um góð efni og atvinnu handa öllum. Úr því sem komið er skiptir ekki mestu máli að gera út um það, hvort ráðlegt hafi verið að taka tillit til hótananna, heldur horfa fram á við og leita ráða til að verjast slíkum hótunum og slá vopnin úr höndum þeirra, sem hafa í hótunum. Hér eru ekki aðeins hvalveiðarnar í húfi, ef friðunarfólkið fær að ráða, heldur einnig réttur íslendinga til selveiða í samræmi við hagsmuni sjávarútvegsins og þjóðarinnar. Stofnsamþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins veitir íslendingum mikinn formlegan rétt, þar sem þeir höfðu neitunarvald gegn hvalveiðibanni—þar vantar ekkert á, heldur vantar siðferðilega vörn fyrir málstað veiðiskapar í atvinnuskyni.
Sú alþjóðastofnun, sem mest hald ætti að vera í til að verjast viðhorfum friðunarfólksins er Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO). Fulltrúi stofnunarinnar lagði fram rökstutt álit í Alþjóðahvalveiðiráðinu gegn algildri friðun hvala og kvað stofnunina sjá fram til þess, jafnvel í náinni framtíð, að leyfa mætti auknar hvalveiðar frá því sem verið hefði undanfarin ár. Rökum hans var ekki sinnt, eins og kunnugt er.
Ekki bært
Í hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna eru ákvæði um málefni spendýra í hafinu (65. grein). Þar segir, að þar til bær samtök þjóðanna skuli fara með þau. Alþjóðahvalveiðiráðið hefur með órökstuddu banni við öllum hvalveiðum (þó ekki veiðum höfrunga í Bandaríkjunum) sannað, að ráðið er ekki bært að fjalla um hvalveiðimál. Ráðið er ekki lengur samtök ríkja, sem vilja vernda hvalastofna til hagnýtingar. Þau ríki eru þar nú í minnihluta. Ráðið er nú að meirihluta samtök ríkja, sem vilja friða hvali. Er raunar furðulegt, hvernig ráðið hefur tekið við ríkjum, sem ekki hafa hagnýtingu hvala að markmiði, eins og stofnsamþykktir ráðsins miðast þó við. Ráðið tekur ekki tillit til þarfa mannkynsins fyrir matvæli, eins og fulltrúa Matvælastofnunnar Sameinuðu þjóðanna ber að gera.
Í þessu ljósi sýnist hyggilegast, að íslendingar beiti sér fyrir því, að Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna fjalli um hvalveiði- og selveiðimál heimsins og stjórni þeim. Íslendingar, norðmenn og grænlendingar geta best varist áróðri friðunarfólksins með því að vísa til markmiðs stofnunarinnar um mat handa öllu mannkyni. Meirihluti Alþjóðahvalveiðiráðsins hirðir ekki um rök vísindamanna, ekki einu sinni eigin vísindanefndar, en gæti farið að sjá sitt óvænna varðandi afstöðu sína til hvalveiða, ef farið yrði að vinna að því að setja hvalveiðimálin undir aðra stofnun, sem hefði víðari sjónarmið, eins og Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna.
Vísi 5. apríl 1983