Nokkrir íslenskir hagfræðingar og aðgerðarannsóknamenn hafa mælt eindregið með sölu veiðileyfa. Er því haldið fram, að of mikið fé og vinnuafl verði lagt í fiskveiðar, sem eru öllum heimilar, að hagkvæmast sé að takmarka heimildir til veiða með sölu veiðileyfa og að tekjur af sölunni skuli verða sem skattur á fiskveiðar og leggjast í ríkissjóð eða þeim ráðstafað á annan hátt í almanna þágu. Forystumenn sjávarútvegsins hafa ekki fallist á þetta.

sÞótt ekki hafi verið fallist á framangreind ráð fræðimanna, líta ýmsir svo á, að núverandi skipting aflaheimilda, sem rís á afla skipa árin 1981-3, sé óréttlát og leiði til óhagkvæmrar útgerðar. Hér verður athugað, hvort ekki megi sníða ágallana af án þess að draga fé úr sjávarútvegi og án þess að raska því öryggi, sem núverandi handhafar aflaheimilda hafa öðlast.

Losa þarf hægt um núverandi skiptingu aflaheimilda. Má gera það með því að skerða núverandi aflamark reglulega um ákveðið hlutfall. Mætti hugsa sér það 1% 10 sinnum á ári. Því, sem þannig losnaði, yrði endurúthlutað. Til þess sýnast tvær nokkuð líkar aðferðir ráðlegar. Önnur er að selja það jafnóðum á útboði. Þannig væri aflamark selt til 10 ára. Með því að hafa sölu tíða ættu menn kost á því að laga kaup sín að þörfum sínum. Sá, sem missti af hlut á einu útboði, gæti reynt að bæta þar úr næst. Tekjurnar, sem fengjust á útboðinu, rynnu til handhafa aflamarks í hlutfalli við skiptingu þeirra 99%, sem eftir yrðu. Aflamark, sem þannig væri fengið, væri seljanlegt og ekki tengt skipi.

sEkki er víst, að menn vildu treysta því, að fé, sem fengist á slíku opinberu útboði, yrði skilað beint til sjávarútvegsins, heldur vildu eins búast við því, að stjórnvöld ráðstöfuðu fénu á annan hátt, er tímar liðu. Þá er til annað ráð. Það er útboð með skiptanlegum atkvæðum í stað peninga, en eins að öðru leyti. Menn eiga því ekki að venjast að ráða skiptanlegum atkvæðum, heldur verði að greiða atkvæði í því máli, sem er til umfjöllunar, ella verði það ónýtt. Hér er hins vegar um að ræða atkvæði, sem menn fá reglulega eins og laun, t.d. mánaðarlega, og geta beitt í málum eftir mikilvægi þeirra með því að greiða mörg atkvæði með aflamarki til fyrirtækis, sem stendur þeim nærri, en sitja hjá, ef engin tillaga er, sem kemur þeim við, heldur geyma atkvæðin, þar til brýnni mál koma fram. Þess vegna bjóða menn atkvæði í máli vitandi það, að þeir verða skertir um þau, ef þeir ná fram vilja sínum, og hafa þá færri atkvæði til að beita sér í síðari atkvæðagreiðslum.

Ákveða þarf, hverjum skuli úthlutað atkvæðum. Þar kemur margt til greina. Ein aðferð væri, að hver maður fengi mánaðarlega atkvæði í hlutfalli við vinnuvikur sínar í sjávarútvegi og fiskvinnslu 3, 4 eða 5 undanfarin ár. Önnur aðferð væri, að atkvæði skiptust á sveitarfélög í hlutfalli við vægi sjávarútvegs og fiskvinnslu mælt í vinnuvikum (t. d. eitt atkvæði mánaðarlega á hverja vinnuviku undanfarin ár) og yrði atkvæðum sveitarfélagsins síðan skipt á sveitarstjórnarfulltrúana. Meðan menn eru óvissir um, hvernig útboð gegn atkvæðum muni gefast, mætti nota það sem skoðanakönnun, sem stjórnvöld gætu stuðst við.

Sjávarútvegurinn ætti að verða hagkvæmari samkvæmt kenningum fiskihagfræðinnar, hvor aðferðin, sem notuð yrði til úthlutunar á aflamarki. Ekki er tekið neitt fé frá honum með þessum aðferðum, svo að afkoma þeirra, sem hann stunda, ætti að batna.

Morgunblaðinu 28. júní 1988