Hvað gerir maður, sem veit sig hafa komist að merkri niðurstöðu í máli, án þess að þeir, sem málið helst varðar, taki undir við hann? Hann getur hamrað á málinu, og hann getur lagt sig fram um að útskýra það á nýjan hátt.

Gylfi þ. Gíslason hefur um nokkurt skeið sýnt fram á það með rökum, sem viðurkennd eru meðal fræðimanna, að fiskistofnar við Ísland yrðu nýttir hagkvæmar en nú er gert, ef fiskveiðileyfi yrðu seld í stað þess að vera úthlutað. Hann hefur útskýrt þetta á ýmsan hátt, eins og laginn kennari, nú síðast hér í blaðinu 9. þ.m. („Auðlindaskattur er rangnefni“).

Annað ráð er, og ætti ekki að vera framandi stjórnmálamanni og fræðimanni, en það er að leita annarrar lausnar á málinu, lausnar, sem megi eyða þeirri tortryggni og andstöðu, sem fyrri lausn mætti, en skilar samt þeim árangri, sem var eiginlegur tilgangur málsins. Ég setti fram slíka lausn í greininni „Í stað auðlindaskatts á fiskveiðar“ hér í blaðinu 28. júní síðastliðinn. Með þeirri lausn er ekkert fé dregið úr sjávarútvegi, en fiskveiðiréttindi skiptast eftir reglum, sem kalla fram mat þeirra, sem sjó stunda og fisk verka, á því, sem hagkvæmast er.

Danskur maður, Jens Warming, sýndi manna fyrstur fram á það í ritgerð árið 1911, að frjáls heimild til fiskveiða leiddi til óhagkvæmrar nýtingar. Samt var það fyrst 43 árum síðar, að umræða hófst um málið meðal fræðimanna. Þá er það ekki langur tími, þótt Gylfi birti síðustu grein sína um málið 42 dögum frá því, að lausn mín birtist, án þess að minnast á hana, án samanburðar við Warming að öðru leyti.

Morgunblaðinu 16. ágúst 1988