Afli við Ísland hefur dregist mikið saman, síðan íslendingar fengu lögsögu yfir allri fiskislóð við landið. Ef íslendingar drægju nú jafnmikinn fisk úr sjó og samanlagður afli íslendinga og útlendinga var fyrir 1976, væru engar þrengingar í þjóðarbúi. Samdráttar fór að gæta, þegar tilsagnar Hafrannsóknastofnunar hafði notið í nokkur ár. Loks tók steininn úr, þegar í fyrsta sinn var farið nákvæmlega að ráðum Hafrannsóknastofnunar á nýliðnu fiskveiðiári.
Hafrannsóknastofnun hefur rökstutt tillögur sínar um hæfilega þorskveiði með því, að nauðsyn væri að byggja þorskstofninn upp til þess að tryggja viðkomu hans og varanlegan afrakstur. Hún hefur alltaf lagt til heldur minni veiði en reyndin hefur orðið. Stofninn hefur ekki byggst upp, eins og stofnunin hefur stefnt að. Hún hefur að nokkru kennt því um, að ekki hefur verið farið til hlítar að ráðum hennar um veiðitakmarkanir. Hún hefur aldrei rökstutt tillögur sínar um aflamagn með því, að æti kunni að vanta, enda vantar skipulegar athuganir á því, hvernig þorskurinn og aðrir nytjafiskar þrífast, til vísbendingar um það, hvort nóg sé að éta.
Stofnunin hefur ennfremur lagt kapp á að vernda seiði og smáfisk. Að ráðum hennar voru möskvar stækkaðir stórlega á 8. áratugnum. Það leiðir ekki aðeins til þess, að smærri fiskar af nytjategundum sleppi í gegn, heldur einnig fiskar sem engar nytjar eru af, svo sem spærlingur, kolmunni, sandsíli, langhali og gulllax.
Ekki hefur verið kunnugt um neinn ágreining innan Hafrannsóknastofnunar um rök fyrir þeirri viðleitni að byggja þorskstofninn upp þar til nú, að Svend Aage Malmberg (SM), haffræðingur stofnunarinnar, bendir á það í Morgunblaðinu 22. nóvember (í greininni „Hvers vegna ekki 400 þúsund tonn?”), „að stærð hrygningarstofnsins [...] virðist ekki hafa áhrif á nýliðun, hún virðist fremur oftast vera háð árferðinu í sjónum.” Ennfremur „að lokum, engan skal undra að fiskstofnar minnki og stækki eftir því sem lendur þeirra breytast að víðáttu og ástandi.”
Þarna er viðurkennt, að æti í sjónum sé takmarkað og það komi fram í stærð fiskstofna. Þá er næst fyrir að gera grein fyrir því, hvernig fiskurinn bregst við minna æti. Þar sem stóðhross eru á beit og hana þrýtur, kemur kyrkingur í þau. Hyggnir hrossaeigendur fækka þá í högum með því að leiða fleiri folöld til slátrunar en áður. Hygginn búfjáreigandi, sem á fjölda hrossa og sauðfjár á beit og sér á þrifum gripanna, að landið ber það ekki allt, fækkar af þeirri búfjártegund, sem er til minni nytja.
Hafrannsóknastofnun bregst þveröfugt við. Hún fylgist ekki með þrifum nytjafiska til að meta ástandið á lendum fiskstofnanna, en verndar ungviðið með skyndibanni við veiðum og stærri lágmarksmöskva. Þannig stefnir hún að því að fjölga fiski á öllum aldri án tillits til árferðis. Ónytjufiskar eru verndaðir með möskvastækkun og sleppa í gegn og keppa um ætið við nytjafiskinn. Ef þeir veiddust, yrði þeim kastað fyrir borð og gætu nýst þorskinum.
Fiskveiðistjórn hefur því verið ákveðin með rökum, sem eru ímyndanir. Annars vegar ræður sú ímyndun, að æti sé nægilegt, og hins vegar, að eitthvert náttúruleysi hafi gripið um sig í sjónum, svo að því sé vart að treysta, að tegundirnar tímgist nema einhver fjöldi sé að. (Ekkert einkennir náttúruna eins og það, að frjósemin er margfalt meiri en lífsskilyrði eru fyrir). Í því sambandi berast árlega tilkynningar um, að hrygning þorsksins hafi brugðist. Nú fæst að vísu engin vitneskja um, hvernig hrygningin tekst. Hafrannsóknastofnun notar nefnilega seiðafjölda að hausti sem mælikvarða á hrygningu að vori. Þar mælast þau seiði, sem aðrir fiskar, sem stórir möskvar hafa þyrmt, hafa ekki náð að éta né heldur eldri þorskur í ætisskorti. Seiðunum fækkar sem sagt, ef þröngt er á eldri fiski.
Ef afli hér við land væri eins og hann var, áður en ráða Hafrannsóknastofnunar gat verið farið að gæta í aflabrögðum (fyrir 1980), væri hér enginn sá vandi, sem nú hleypir málum þjóðarbúsins í hnút, enginn óþyrmilegur niðurskurður opinberrar þjónustu, ekki almenn greiðsluvandræði í sjávarútvegi og fiskvinnslu og engin togstreita um veiðiheimildir, en fræðimenn fengju næði til að útkljá deilur sínar um réttmæti framsals veiðiheimilda og auðlindaskatts í fræðiritum. Eftir sem áður hefðu menn ýmsar ástæður til að breyta rekstrarháttum í útgerð og fiskvinnslu, m.a. með sameiningu fyrirtækja, en sú ástæða, sem nú er mest rædd í því sambandi, almennur og varanlegur aflasamdráttur, væri ekki lengur til.
Hvað er til ráða? Hafrannsóknastofnun ætti að hafa það hlutverk eitt að rannsaka. Í ljósi ábendingar SM er brýnast að rannsaka samspil ætis í hafinu og þrifa nytjafiska og ónytjufiska. Þeir, sem bera ábyrgð á stjórn fiskveiða, gætu sótt þangað vitneskju til að styðjast við til að geta brugðist við breyttu árferði á hverjum tíma.
Tímanum 8. janúar 1992