Þorskurinn étur rækju. Samkvæmt mælingum Hafrannsóknastofnunar er rækjuát þorsks á Íslandsmiðum margfaldur rækjuafli íslendinga. Tvö dæmi eru um meira rækjuát þorsks á mánuði en nemur ársrækjuafla. Þann mánuð sem mest mældist var át hans tvöfaldur ársafli. Fleiri gæða sér á rækju samkvæmt ritum Hafrannsóknastofnunar, nefnilega ýsa, karfi, grálúða, steinbítur og skrápflúra, en átmagn þeirra hefur ekki verið áætlað.
Nú orðið veiðist mestöll rækja á djúpslóð. Fjarðarækja er ekki nema um fimmti hluti aflans. Hafrannsóknastofnun áætlar hæfilega rækjuveiði og stjórnvöld ákveða heildaraflaheimild í samræmi við áætlun hennar og ráð. Ráð hennar breytast dálítið frá ári til árs. Breytingar á árlegu aflamagni samkvæmt ráðum stofnunarinnar svara til í mesta lagi 1-2% af rækjuáti fiskanna, eins og það má lauslega áætla. Menn eru þannig að vanda sig við að veiða hæfilega mikið með tilliti til ásigkomulags rækjustofnsins, vitandi það, að þeir, sem engu tauti verður við komið, fiskar hafsins, éta tugfalt meira en aflinn er látinn breytast frá ári til árs. Þetta er eins og að vanda sig við að reikna tugabrot í prósentutölu, sem er í kringum 50, þótt maður ráði ekkert við að hafa tölurnar fyrir framan kommu réttar.
Sú rækja, sem maðurinn veiðir ekki, bíður dauða síns í maga áðurnefndra fiska eða tortímist á annan hátt. Mest af þeirri orku, sem fiskar fá í rækjubráð, eyðist þeim til viðhalds (90% er venjuleg gróf áætlun), en minnstur hluti hennar nýtist þeim til vaxtar. Það er því dýrt fóður að láta rækju liggja á matborði fiska hafsins í stað þess að veiða hana, ef hún næst með sæmilegu móti.
Frá því hefur verið sagt í útvarpsfréttum, að vinnslugeta rækjuverksmiðja landsins sé talsvert meiri en veiðiheimildir. Sem vonlegt er, ber reksturinn sig illa með hálfnýtt tæki og byggingar. Það er ekki efni í blaðagrein að segja stjórnendum rækjuvinnslufyrirtækja til um það, hvort þeir geti haft hag af endurskipulagningu, það er hlutverk þeirra að ráða fram úr því. Spurningin er hins vegar hvort forsendurnarn sem stjórnvöld setja rekstri verksmiðjannan séu réttar.
Af framansögðu leiðir, að það eru engin rök, sem varða framtíðarheill rækjustofnsins, til að heimila ekki þá veiði, sem þarf til þess að fullnýta verksmiðjurnar. Það verður raunar ekki séð, að það séu yfirleitt nokkur rök til að stjórnvöld takmarki rækjuveiðar. Þær takmarka sig á þann hátt, að menn gera ekki út á rækju, ef afli er lítill, heldur á annað sjávarfang, á sama hátt og aðalneytendur rækju, þorskurinn, ýsan, karfinn, steinbíturinn og grálúðan, hætta að elta rækjuna uppi, þegar annað býðst auðveldlegar, og rækjan eykur kyn sitt innan um alla þessa afræningja, eins og hún hefur gert alla tíð. Það væri því út í hött að fara að verja opinberu fé til að úrelda rækjuverksmiðjur, á meðan markaður er fyrir rækjuna og útgerðin sér hag í því að sækja hana.
Morgunblaðinu 1. apríl 1992 (Úr verinu)