Með því að lögbjóða stóra möskva við veiðar er hlíft fiskstofnum, sem engar nytjar eru af. Ég spurði um það á síðum Velvakanda (6. desember), hvaða áhrif það hefði, þar eð æti í hafinu væri takmarkað. Svend-Aage Malmberg, haffræðingur á Hafrannsóknastofnun, svarar spurningu minni í Morgunblaðinu 7. febrúar („Hvers vegna ekki 400 þúsund tonn?”) þannig: „Því er til að svara, að þorskur keppir vart við fiska eins og langhala og gulllax um æti, öllu fremur étur hann þá, ránfiskur sem hann er. Óveiddur getur a.m.k. gulllax nýst þorski sem æti.”
Ekki er þetta í samræmi við Íslenska fiskabók Gunnars Jónssonar fiskifræðings á Hafrannsóknastofnun. Þar kemur fram að fiskar langhalaættar og gulllax éta ljósátu og krabbadýr, sem þorskurinn nærist á. Þótt þorskur éti gulllax, er það léleg næringarnýting að láta ljósátuna og krabbadýrin fara fyrst um maga gulllaxins. Með því móti fer mest af næringunni til viðhalds gulllaxinum.
Það kann að skiljast betur, hvað um er að ræða, ef við færum okkur í huganum upp á land, upp á graslendi, sem má nýta til beitar fyrir sauðfé og hross. Hugsum okkur, að svo standi á, að féð gefi verðmætar afurðir, en hrossin séu stóð og kjöt þeirra verðlaust, þar sem siðlaust þyki að leggja sér það til munns. Hrossakjötið má samt nýta sem mjöl og fóðra sauðféð á því. Ljóst er, að beitargróðurinn, sem hrossin taka til sín, skilar ekki nema broti af því sem hann gerði, ef þau væru fjarlægð og sauðféð hefði enga samkeppni við hrossin og nýtti grasið milliliðalaust. Þorskurinn er í stöðu sauðfjárins í dæminu og gulllaxinn, sem ekki er til nytja, í stöðu stóðhrossanna, og því til óþurftar.
Þorskar og sauðir
Tilefni þess, að ég spurði Velvakanda svona, var, að SM lýsti því í Morgunblaðinu 22. nóvember (í grein með sama nafni og síðari greinin), að æti í hafinu væri takmarkað. Því hafði aldrei áður verið haldið fram á vegum Hafrannsóknastofnunar, og hún hefur aldrei vísað til þess, þegar hún hefur lagt á ráðin um hæfilegar fiskveiðar. Samt telur SM í síðari grein sinni enga ástæðu til að rýma til í sjónum í slæmu árferði. Um það segir hann: „Rýr fiskur í vondu árferði vex áfram fyrir hvert ár sem líður [...] og getur svo allt í einu komist í feitt aftur.”
Svona var farið með sauði á öldum áður. Þá gat það verið hagkvæmt, því að verðmæti sauða til frálags var mest í mörnum, sem gat vaxið með aldrinum. (Auk þess gáfu sauðirnir árlega af sér ull, sem var mikilvæg afurð). Þannig nýtist næring hins vegar illa til vaxtar, hvort sem hún fæst með beit eða öfluðu fóðri. Búfjárfóður nýtist best til vaxtar með því að fóðra svo, að gripirnir vaxi eins og þeim er eðlilegt, svo að ekki verði lát á, en þeim fargað, þegar fer að draga úr vexti aldurs vegna. Ef svar SM lýsir næringarfræði Hafrannsóknastofnunar, er hún á frumstigi.
SM kynnir niðurstöður rannsókna á ætisskilyrðum í sjónum. Enn leita ég samlíkingar við nýtingu gróðurs með beit. Til að fylgjast með því, hvort beit sé hæfileg, má athuga breytingar á gróðurskilyrðum, og er það sambærilegt við rannsóknir SM á ætisskilyrðum í hafinu. Það vill hins vegar svo til, að þess gætir fyrr á þrifum gripanna en á gróðurfari, ef beitt er meira en hóflega. Það er hagkvæmt að fækka beitargripum, þegar þess gætir á þrifum þeirra, að ofsett er. Í hagnýtum tilgangi er því miklu markvissara að rannsaka þrif beitargripa en beitarskilyrði. Sú skoðun að hagkvæmt sé að auka veiði (fækka fiskum, „grisja stofninn”), þegar þrif nytjafiska reynast ekki í samræmi við eðlilegan vöxt hvers árgangs, er sama eðlis. Hafrannsóknastofnun aflar ekki vitneskju um þrif þorsks eða annarra nytjafiska til marks um næringarskilyrði.
SM ítrekar, að athuganir bendi ekki til þess, að stærð hrygningarstofns þorsksins hafi áhrif á hrygningu og nýliðun, en ráð Hafrannsóknastofnunar hafa haft það markmið, sem kallað hefur verið að byggja upp hrygningarstofninn til að tryggja hrygningu og nýliðun. Umræður okkar SM leiða því í ljós, að Hafrannsóknastofnun hefur ekki haft rök til að ráðleggja eitt né neitt um hæfilega þorskveiði.
Morgunblaðinu 2. apríl 1992 (Bréf til blaðsins)