Tveir bréfritarar eiga orðastað við mig í Morgunblaðinu 12. maí, Jóhannes Gunnarsson (JG) („Eru Neytendasamtökin fjöldasamtök neytenda?”) og Svend-Aage Malmberg (SM) („Þorskur — konungur fiska”).
Ég átti það helst erindi við Neytendasamtökin í bréfi 1. maí, að þau sinntu fæðuöryggi almennings í víðum skilningi, en það hafa þau vanrækt. Í bréfi JG kemur ekki fram vilji til þess. Bréf hans staðfestir ýmislegt, sem ég benti á um gerð samtakanna og starf. Síðan andmælir hann þeirri afstöðu, sem hann ímyndar sér, að ég hafi til núverandi uppkasts að GATT- samkomulagi, en ég hef reyndar ekki tekið afstöðu til þess.
SM er haffræðingur (á Hafrannsóknastofnun), eins og segir undir bréfinu, eða, eins og segir nánar í bréfinu „hafeðlisfræðingur og enginn sérfræðingur á sviði fæðuvistfræði fiska”. Hann býður mig velkominn til skrafs og ráðagerða á Hafrannsóknastofnun.
Undanfarna tvo áratugi hef ég annað veifið komið á stofnunina, ekki til skrafs og ráðagerða, heldur til að fræðast, og alltaf þóst velkominn. Nú bregður að vísu svo við, að Hafrannsóknastofnun vantar sérfræðing á nýju áhugasviði mínu, sem er hagnýting stofnvistfræði til fiskveiðistjórnar. Það er sem sagt enginn stofnvistfræðingur á stofnuninni. Þess verður ekki heldur vart, að á Hafrannsóknastofnun hafi menn tileinkað sér viðhorf og vinnubrögð stofnvistfræði. Það sýna m.a. skrif SM í Morgunblaðinu í vetur.
Stofnvistfræði hafsins fjallar um gagnkvæm áhrif fæðuskilyrða, fæðu og dýrastofna. Sá stofnvistfræðingur mun vandfundinn, sem ekki telur ráð Hafrannsóknastofnunar um hæfilegt aflamagn sem reist á sandi. Sem dæmi um það, hvað viðhorfin eru langt frá stofnvistfræði er það, að í bréfi SM er ekkert minnst á athuganir Hafrannsóknastofnunar á þrifum þorsks, enda eru slíkar athuganir ekki til þar. Þrif nytjafiska eru betur en annað hagnýt vísbending um það, hvort hafið sé svo sett af yngra fiski eða ónytjufiski, að nytjafiskar vaxi ekki eðlilega. Þau sýna, hvort fiskur á hverju aldursstigi vex eins og eðlilegt er. Það yrði ekki aftur leitað til búfjárfræðings um rannsókn, ef hann rannsakaði nýtingu beitilands án þess að athuga, hvort þrif búfjárins, sem á því gengur, eru eðlileg.
Morgunblaðinu 26. maí 1992 (Bréf til blaðsins)