Kristján Þórarinsson, stofnvistfræðingur Landssambands útvegsmanna (LÍÚ), fór til Lowestoft í Englandi í júlíbyrjun til að fylgjast með úttekt breta á aðferðum og ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Frá því segir hann í fréttabréfi LÍÚ með þessum inngangsorðum: „Eins og alþjóð er kunnugt, varð niðurstaða bretanna sú, að Hafrannsóknastofnun gæfi stjórnvöldum góð ráð.”
Hins vegar verður ekki séð af eftirfarandi þremur ábendingum hans um aðferðir breta og Hafrannsóknastofnunar, að ráðin séu studd rökum líffræðinnar:
1) „Lítið var rætt um áhrif almennra umhverfisskilyrða og fæðuframboðs á nýliðun og náttúrulega dánartölu.” — Þar með eru sniðgengin þau grundvallarskilyrði lífríkisins, að æxlun þorsks gerist í slíku óhófi, að aðeins litlu broti af þeim seiðum, sem klekjast út, er lífs auðið, og að fæðuskortur vill verða hlutskipti villtra dýra á sjó og landi.
2) „Nokkurrar bjartsýni þótti gæta í túlkun Hafrannsóknastofnunar á gögnum um hlutfall kynþroska ungfisks á hrygningartíma. Þetta hlutfall hefur farið hækkandi á undanförnum árum og er nú hærra en nokkru sinni fyrr.” — Hér vantar að geta þess, að Hafrannsóknastofnun mælir kynþroska miðað við lengd þorsks og gefur sér aldur hans út frá því. Þess vegna lýsir hækkandi hlutfall kynþroska ungfisks á hrygningartíma því, að þorskurinn hrygnir smærri en áður. Það eru viðbrögð villtra dýra í fæðuskorti. Þarna er því vísbending um fæðuskort. Eina ráðið við fæðuskorti í villtri náttúru er að fækka þeim, sem keppa um fæðu, með aukinni veiði.
3) „Það, sem mér þykir e.t.v. lakast, er hversu lítið er gert úr áhrifum umhverfisskilyrða. Þannig er gert ráð fyrir, að nýliðun sé ráðin þegar fiskurinn er 1-2 ára.” Þar er því engin hugsun um, að fæða kunni að vera takmörkuð. Samkvæmt þessu spyr Hafrannsóknastofnun ekki einföldustu spurninga um grundvallarskilyrði lífsins, svo sem hvort þorskur vex, eins og hann á eðli til við nægilegt æti. Bretarnir, sem upphaflega kenndu Hafrannsóknastofnun aðferðir, finna vitaskuld ekki að vinnubrögðum sem reynast eins og þeir kenndu.
Slík vinnubrögð eru ekki líffræðileg á nútímavísu (vistfræðileg), en þá er leitast við að meta áhrif lífsskilyrða, svo sem fæðu og annarra dýrastofna, eftir viðgangi og þrifum dýranna. Snjallir stærðfræðingar með fullkomin reiknilíkön geta ekki bætt þar úr, því að þeim eru ekki fengnar til úrvinnslu athuganir um það, sem máli skiptir, þær eru ekki til.
Markmið Hafrannsóknastofnunar
Markmið Hafrannsóknastofnunar með stjórn fiskveiða hefur verið að hlífa ungfiskinum með það í huga, að hann skili miklu meiri afla, ef hann fær að ná fullum vexti. Sú hugsun, að fæðu kunni að skorta, hefur verið svo fjarri, að alls ekki er rannsakað, hvort fæða er nægileg, en það verður ótvíræðast kannað með því að athuga vaxtarhraða á hverju aldursstigi. Þetta er auðskilið, jafnvel þeim sem hafa ekki haft nasasjón af búfjárhaldi.
Í athugasemdum Hafrannsóknastofnunar í blaðinu 8. þ.m. („Markmið ráðgjafar Hafró um ýsuveiðar hafa náðst að fullu”) kemur fram viðleitni til að taka tillit til fæðuskilyrða. Athugum, hvernig til tekst. Þar segir: „Ekki er heldur rétt, að ekki sé tekið tillit til annarra tegunda eða ástands sjávar. Stærð loðnustofnsins er notuð til að spá fyrir um meðalþyngd þorska eftir aldri, en loðnan er mikilvægasta fæða þorsksins.” — Ekki hefur matið á stærð loðnustofnsins verið nákvæmt undanfarin ár. Almenningur hefur getað fylgst með því, að Hafrannsóknastofnun sér lítið lengra í þeim efnum en þorskurinn. Hann sér aðeins 10 metra frá sér og fer ekki þangað norður, sem nú er verið að veiða loðnu. Hér við land étur hann loðnu á fyrsta og öðru ári, en Hafrannsóknastofnun hefur enga vitneskju um loðnustofninn á þeim aldri, hún reynir aðeins að áætla fullorðnu loðnuna. Loðna er talin vera um 15% af fæðu þorsksins árið um kring. Það er eins og að spá í spil að áætla þannig meðalþyngd þorsks, en taka ekki eftir þrengingum þorsks, sem menn hafa í höndunum.
Önnur athugasemd Hafrannsóknastofnunar um þetta efni var þessi: „Einnig er tekið tillit til stærðar þorskstofnsins við mat á veiðiþoli úthafsrækjunnar.” — Þetta eru ekki lítil tíðindi. Þá er
svo að skilja, þegar þorskstofninn er talinn stór, að dregið er úr rækjuveiði. Rækja (ópilluð) fer ekki vel í munni manns eða þorsks. Þorskurinn étur hana því ekki sem góðgæti, heldur þegar þröngt er orðið í búi hans og annað ekki að fá. Það ætti að sjást á þrifum hans, ef Hafrannsóknastofnun fylgdist með þeim. Rétta ráðið, þegar þorskurinn er kominn í þröng með fæði, er að veiða meira af honum.
Önnur ástæða Hafrannsóknastofnunar til að byggja upp þorskstofninn er, að vænn hrygningarstofn tryggi viðkomuna. Um þetta segir Kristján í fréttabréfinu: „Samband hrygningarstofns og nýliðunar var kannað og rætt í þaula. Menn töldu sig þegar sjá vísbendingar um, að e.t.v. væri lítill hrygningarstofn farinn að leiða til lélegrar nýliðunar. Sjálfur átti ég erfitt með að sannfærast um þetta samband og mér kom á óvart, hversu bretarnir virtust líta á þetta sem sjálfsagðan hlut. En ég átti erfitt með að andmæla þeirri röksemd, að best væri að fá aldrei að vita, hvað mundi gerast, ef hrygningarstofn minnkaði enn frekar en orðið er.
Kristjáni segist svo frá verkstjórn á fundinum í Lowestoft, að Pope (sem hingað kom) hafi stjórnað umræðum eins og herforingi, og þar áttu líffræðileg rök ekki heima. Því er ekki að undra, að maður, sem er vanari akademískri umræðu líffræðinga en herstjórnarfundum, glúpni. Kristján hefði verið betur settur með eftirfarandi orð Russells, sem stjórnaði Lowestoft-stofnuninni á millistríðsárunum: „Örlög árganganna eru því ekki komin undir fjölda eggjanna, sem er gífurlega mikill, heldur því, hvernig hinum tiltölulega fáu seiðum vegnar, sem klekjast úr eggi, …”
Stofnsveiflurnar eru greinilegastar hjá síld og ýsu, en eru þekktar hjá öllum þeim tegundum, sem rannsakaðar hafa verið nákvæmlega, t.d. þorski, lýsing og skarkola.”
Þetta má lesa í fyrirlestraröð Russells, sem Árni Friðriksson íslenskaði og birti 1944 (Arðrán fiskimiðanna). Kynslóðin, sem fékk stórvirk tæki fyrir reiknilíkön, hefur ekki kynnt sér líffræði fyrirrennaranna og lokar augunum fyrir líffræði nútímans (stofnvistfræði).
Þótt ungþorskur fyrir hrygningu búi við fæðuskort, sem kemur fram í því, að hann hrygnir í fyrsta sinn smærri en ella, og þurfi því að fækka, til að hrygningarstofninn verði stofn vænna þorska og hrygna, er ekki þar með sagt, að eldri þorskur á sama tíma sé illa staddur og of margir um ætið. Árgangarnir geta átt ólík búsvæði og misjafnt æti eftir ástæðum.
Athyglin beinist mjög að stærð hrygningarstofnsins. Svo virðist sem menn vantreysti kynhvöt og frjósemi þorsksins til að geta af sér nægilega marga einstaklinga. Eins og æxlun þorsks háttar, er það vitaskuld út í hött, sbr. orð Russells að framan. Það er eftir að einstaklingarnir eru orðnir til, að stofnstærðin ræðst og þá ekki síst af því, hvort til er fæða handa þeim.
Grundvallarhugsun stofnvistfræðinnar um þær ástæður, sem ráða örlögum dýrastofna, er einföld og þarf ekki líffræðing til að skilja hana. Öðru máli gegnir um stofnvistfræðilegar
rannsóknir. Til þeirra þarf sérmenntun. Það hefur dregist alltof lengi, að stjórn
Hafrannsóknastofnunar léti starfsmenn sína rannsaka lífsskilyrði nytjastofna á vísu nútíma líffræði (stofnvistfræði).
Tímanum 26. ágúst 1992