Í „óspilltri” náttúru eru miklar sveiflur í dýrastofnum. Líkar ástæður réðu sveiflum á fjárstofni á Fljótsdalshéraði á síðari hluta nítjándu aldar og Magnús Bl. Jónsson, prestur í Vallanesi, lýsir af glöggskyggni í ævisögu sinni. Í hörðu ári féll fé bænda iðulega, og fjárstofninn varð ekki nema brot af því, sem hann var áður. Bændur hleyptu þá upp fé, enda rúmt í högum. Bændur „byggðu upp stofninn” til að eiga hann sem varasjóð. Þegar hann var kominn í fyrri stærð, féll hann, ef gerði harðan vetur.

Líkt er þessu farið með villidýr og fiska. Uppsveifla hefst með mikilli viðkomu fyrst eftir fækkun, en fellir („hrun”) stafar af því að aðeins fæðuskortur (hungur) heldur til lengdar aftur af fjölguninni. Hafrannsóknastofnun leggur kapp á að vernda seiði og ungfisk með lokun veiðisvæða og með stækkun möskva. Með slíkum ráðum magnar hún sveiflurnar; raunar er sveiflan öll niður á við. Með því móti er komið á því ástandi sem var á miðöldum. Þá voru engin slík veiðitæki, sem fækkuðu ungviðinu, með þeirri afleiðingu, að fiskileysi var flest ár, en góð aflaár undantekning.

Hafrannsóknastofnun fylgist ekki með þrifum nytjafiska, eins og fylgst er með þrifum nytjadýra á landi. Hún birtir að vísu töflur um þyngd fisks eftir aldri, en fiskurinn hefur ekki verið veginn, heldur lengd hans mæld og umreiknuð í þyngd. Samt er vitað að þyngd jafnlangs þorsks er mjög breytileg eftir næringarástandi.

Við næringarskort dreifir fiskurinn sér um hafið, en þegar næring er nægileg, þéttir hann sig. Hungraður fiskur leitar inn á firði í ætisleit, en þar eru einmitt seiðin, sem verða honum þá að bráð.

Þegar ungfiskur finnur til næringarskorts, hrygnir hann smærri en ef hann býr við næga næringu. Hafrannsóknastofnun segir hrygningaraldur þorsks nú hafa lækkað og telur það réttilega til marks um slæmt ástand, en skilur ekki að það er næringarskortur sem veldur. Eina ráðið til að draga úr næringarskorti er að fækka þeim sem leita næringar.

Sjávarbúskapur Hafrannsóknastofnunar er horbúskapur, eins og tíðkaðist í sóknum sr. Magnúsar Blöndals fyrir hundrað árum, og stefnir í felli („hrun”).

 

Rányrkja og vannýting

Athugum muninn á rányrkju og vannýtingu. Rányrkja birtist í því að spillt er auðlind, sem á að endurnýja sig. Á Fljótsdalshéraði birtist hún á 19. öld sem eyðing skóga vegna harðrar vetrarbeitar. Gripirnir, sem gengu á landinu, voru ekki auðlindin, heldur nýttu þeir hana. Það var raunar gert óhyggilega, þeir voru vannýttir með því að hafa þá of marga og láta þá lifa of lengi. Takmörkuð næring í heyjum og beit hefði skilað meiri afurðum með því að hafa betra hóf á ásetningi („nýliðun”) og farga gripum, þegar dró úr vexti vegna aldurs.

Auðlindin í hafinu er gróður þess. Tillífun hans er undirstaða fæðu fiskanna. Fiskarnir eru ekki auðlind, heldur afrakstur hennar. Þeir nýtast best með sömu rökum og beitardýr á landi. Annars getur það leitt til hungursneyðar meðal fiskanna, sem gætu þá jafnvel gripið inn í lífkeðjuna og étið upp krabbadýr og aðra hlekki milli gróðurs og fiska. Það er sambærilegt við að eyða gróðurþekjunni. Mestur afrakstur fæst af gróðri hafsins með því að stilla svo til, að sem minnst af næringu fiskanna eyðist sem viðhaldsfóður og sem mest skili sér í vexti. Þess vegna aukast veiðilíkur með aukinni veiði, eins og frumherji fiskifræðinnar, Bjarni Sæmundsson, benti á.

 

Bábiljan um síldina

Lífið í djúpum hafsins kallar á ímyndunaraflið. Þannig verða til bábiljur. Í fjórar aldir hafa bábiljur mótað reglur stjórnvalda um sjávarhætti. Fyrir 70 árum fræddi Bjarni Sæmundsson almenning til að eyða bábiljum. Nú þegja flestir náttúrufræðingar, þótt þeir heyri klifað á bábiljum. Frægust er nú bábiljan um, að síldin fyrir Norðurlandi hafi verið veidd upp á 7. áratugnum. Nú er vitað, að hún hraktist frá Íslandi vegna kaldra sjávarstrauma. Enginn mannlegur máttur gat breytt því. Það er einnig viðurkennt af forstjóra Hafrannsóknastofnunar, sem lengi hélt öðru fram.

Degi 6. ágúst 1992